Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Vegna máls Hauks Hilmarssonar 29. aprl 2018 sun.


Þann 6. mars sl. bárust af því óstaðfestar fréttir að félagi okkar — Haukur Hilmarsson, anarkisti og aktívisti — hefði fallið í árás Tyrklandshers á Afrin-hérað í norðanverðu Sýrlandi þann 24. febrúar þessa árs. Í Afrin barðist Haukur með alþjóðlegum byltingarherdeildum við hlið varnarsveita Kúrda — YPG og YPJ — en með þeim hafði hann einnig tekið þátt í orrustunni um sýrlensku borgina Raqqa sem lauk í október sl. með sigri Kúrda og bandamanna þeirra á Íslamska ríkinu sem þá hafði ráðið borginni frá 2014.

Nú, rétt tæpum tveimur mánuðum síðar, eru fréttirnar af Hauki ennþá óstaðfestar. Ekki hefur tekist að hafa uppi á neinum sjónarvottum sem staðfest geta afdrif hans og engin ummerki um hann hafa fundist — lífs eða liðinn — auk þess sem að í yfirlýsingum varnarsveita Kúrda kemur fram að tilraunir til þess að nálgast líkamsleifar hans hafi mistekist. Samkvæmt sjálfstæðri rannsókn aðstandenda Hauks er ýmislegt sem bendir til þess að í kringum fyrstu viku febrúar hafi hann horfið í aðgerð og í kjölfarið hafi hans verið leitað í nærliggjandi þorpum og sjúkrahúsum — en án árangurs. Einungis þess vegna hafi hann verið álitinn látinn.

Í samskiptum við íslensk yfirvöld hafa tyrknesk stjórnvöld sagt að þau hafi Hauk ekki undir höndum — hvorki lifandi né látinn. Það stangast á við upplýsingar, sem birtar voru í fjölda tyrkneskra fjölmiðla þann 6. mars, þar sem kom fram að lík Hauks verði sent til Íslands og ýjað er að því að það sé í höndum Tyrklandshers. Enn er á huldu hvort eitthvað — og þá hvað — er til í fyrrnefndum fréttum tyrkneskra fjölmiðla, enda hefur aðstandendum Hauks ekki tekist að ná sambandi við þá og íslensk stjórnvöld reynst ófær um að sannreyna uppruna og sannleiksgildi fréttanna. Eða kannski eru þau frekar óviljug til þess — enda virðist athugun þeirra á málinu hafa verið gerð með sem minnstri fyrirhöfn og með það fyrir augum að styggja ekki stjórnvöld þessarar „vinaþjóðar“ Íslands.

Í kjölfar fréttanna af meintu andláti Hauks birtist töluverður fjöldi greina um hann í hinum ýmsu fjölmiðlum og á netinu — margar hverjar í minningargreinastíl — auk þess sem framkvæmdar hafa verið mótmælaaðgerðir í nafni hans og hans minnst með ýmsum öðrum hætti. Á meðan enn er allt á huldu um afdrif Hauks mun Andspyrna ekki birta neitt slíkt, en bendir lesendum sínum hér að neðan á ýmislegt efni tengt fréttunum af Hauki og leitinni að honum.

Hér má lesa opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra — birt þann 23. apríl sl. og undirritað af meira en 400 manns — þar sem skorað er á hana að beita sér fyrir því að unnið verði í máli Hauks af fullum þunga.

Af íslenskum fjölmiðlum hafa Stundin og Kvennablaðið fjallað ítarlegast um málið. Hér má lesa allar fréttir Stundarinnar og hér fréttir Kvennablaðsins.

Hér er að finna klippur úr ýmsum umfjöllunum sem birst hafa í íslenskum útvarpsmiðlum síðustu vikurnar.

Hér er að finna umfjöllun breska anarkista-tímaritsins Freedom um leit vina Hauks að honum.

Hér eru loks allar fréttir Vísis um málið og hér allar fréttir Morgunblaðsins.


 

 

Hústakan við Vatnsstíg 4 rifjuð upp 29. aprl 2018 sun.


Í nýjasta tölublaði tímaritsins The Reykjavík Grapevine er að finna áhugaverða umfjöllun um anarkísku hústökuna við Vatnsstíg 4 sem stóð yfir í nokkra daga vorið 2009. Saga hússins er sögð í stuttu máli og sett í samhengi við stöðuna á tómum húsum í Reykjavík, auk þess sem rætt er við einn þeirra sem tóku þátt í hústökunni.

Hann segir meðal annars að hústakan hafi haft víðtæk áhrif á samfélagið, sett af stað umræðu um réttinn til húsnæðis andstætt réttinum til þess að eiga hús og láta þau standa auð, auk þess sem hún hafi ögrað yfirlýstum áherslum minnihlutastjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar — sem þá var við völd — um að verja heimili fólks eftir hrunið.

Lesa má greinina í heild sinni hér.

Lesa má yfirlýsingu hústökunnar frá 2009 hér og grein Tinnu Gunnarsdóttu Gígju um kröfuna um lögmæti hústöku hér. Hér má svo sjá myndbandsumfjöllun Morgunblaðsins, frá 2012, um árás lögreglunnar á hústökufólkið og baráttuna sem átti sér stað í hálfan dag.

 

 

Andrými og Bókasafn anarkista flutt 16. aprl 2018 mn.


Starfsemi róttæka félagsrýmisins Andrýmis — og með því Bókasafn anarkista — fer nú fram í nýju húsnæði að Bergþórugötu 20, 101 Reykjavík. Virka daga er venjulega opið hús frá 15:00 til 19:00 og er þá hægt að koma við og ná sér í bækur.

Sjá dagatal Andrýmis á www.andrymi.org.


 

 

Samstöðumótmæli með La ZAD við franska sendiráðið 16. aprl 2018 mn.


Fréttin birtist upphaflega hér

Hópur sem nefnir sig „Vinir La ZAD og anarkistar á Íslandi“ efndi til mótmæla við franska sendiráðið á sunnudag [15. apríl sl.], til að sýna samstöðu með La ZAD og íbúum þess. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum sama dag.

La ZAD er um 2.000 hektara svæði 20 km norður af Nantes, þar sem frönsk stjórnvöld áformuðu að leggja flugvöll fyrir um áratug síðan. Íbúar svæðisins mótmæltu þá og kölluðu eftir samstöðu gegn áformunum. Úr varð að á annað hundrað manns tóku sér búsetu á svæðinu og byggðu þar upp staðarsamfélag í nafni vistvænna lifnaðarhátta, samvinnu, andkapítalisma og jafnréttis.

Nú í upphafi ársins 2018 féllu stjórnvöld frá fyrri áformum, og verður ekki af flugvallargerð á svæðinu. Engu að síður krefjast stjórnvöld rýmingu svæðisins. Fyrir um viku síðan, þann 9. apríl, stormuðu þangað 2.500 lögreglumenn á brynvörðum bílum og jarðýtum og tóku að rústa allt sem fyrir varð. Lögreglan var þungvopnuð og beitti táragasi, kylfum, gúmmíkúlum og sprengjum. 150 manns særðust í aðgerðunum.

„Frönsk yfirvöld geta þó ekki sætt sig við að annarskonar samfélagsgerð lifi og dafni innan landamæra þjóðríkisins,“ segir í tilkynningu íslenska hópsins.

„Yfirvöld upplifa fátt sem meiri ógn en samfélagsgerð sem lætur sig ekki óréttlát lög þeirra varða og byggir að miklu leyti á anarkískri hugmyndafræði þar sem frelsi einstaklingsins, samvinna og afbygging kúgandi valdakerfa er hið eilífa markmið.

Í dag sunnudaginn 15. Apríl er búið að blása til mótmæla gegn yfirgangi lögreglunnar og gerð verður tilraun til að endurheimta svæðið. Íbúar eru enn fullir eldmóðs og láta ekki brjóta sig á bak aftur. Samstaða er vopn okkar og baráttueldur brennur einnig innra með okkur sem stöndum fyrir framan franska sendiráðið í dag. Við krefjumst þess að frönsk yfirvöld láti La ZAD vera.“

Undir tilkynninguna er ritað:

Lifi baráttan!

Vinir La Zad og anarkistar á Íslandi 15. apríl 2018, Reykjavík

 

 

Undirbúningur IWW fyrir 1. Maí 13. aprl 2018 fs.


IWW (Industrial Workers of the World) á Íslandi undirbúa róttækan Fyrsta Maí með sérstakri blokk róttæklinga í göngunni, eigin ræðum og vöfflukaffi og umræðum eftirá.
Undirbúningsfundur var haldinn í dag en róttæklingar sem vilja taka þátt ættu að hafa samband á : iwwisland@riseup.net


-
IWW Iceland are again planning a radical block for May First with our own speeches and waffles and discussion afterewards.
Preparatory meeting was held today but any radical who whishes to take part should contact through: iwwisland@riseup.net

 

 

Fréttir 1 - 5 af 333
[Eldri fréttir]