Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Skilgreiningar á Anarkisma: ASÍ   Emma Goldman   Ron Carrier   Affinity Group of Evolutionary Anarchists   Donald Rooum   Alexander Berkman  

Inngangur að Anarkisma

Hvað er anarkismi?

Anarkismi er pólitísk hugmyndafræði sem hefur verið kaffærð í misskilningi. Misskilningurinn kemur mestmegnis til af þeirri staðreynd að anarkismi er afar óvenjuleg leið til nálgunar hvers viðfangsefnis, leið sem ekki er hægt setja inn í einföld slagorð eða grípandi setningar. Ef að tíu anarkistar væru spurðir um sína skilgreiningu á anarkisma fengjust líklega tíu mismunandi útlistanir. Anarkismi er miklu meira en bara pólitísk hugmyndafræði því hér er um að ræða lífsstíl sem inniheldur pólítísk, praktísk og persónuleg viðhorf.

Grundvallarspeki anarkisma er, að yfirvald, hvort sem um er að ræða ríki, kirkju, feðraveldið eða efnahagslegan hagsmunahóp, er ekki bara óþarft heldur og kemur það í veg fyrir að hæfileikar hvers einstaklings fái að njóta sín. Anarkistar almennt trúa því að manneskjur séu færar um að annast eigin mál á grunni sköpunarvilja, samvinnu, og gagnkvæmrar virðingar. Allt vald spillir og vilji yfirvalda beinist alltaf að því að auka eigin völd í stað þess að hugsa fyrst og fremst um þá sem undir þeim sitja. Anarkistum finnst að siðferði sé persónulegt málefni sem skyldi byggja á umhyggju fyrir öðrum og velfarnaði samfélagsins frekar en að siðferði sé bundið í lög sem framfylgt er með lögreglu eða trúarbrögðum.

Flestir hugmyndafræðingar anarkista segja einstaklinga ábyrga fyrir eigin hegðun. Forsjárhyggja yfirvalda elur af sér ómanneskjulegan hugsunarhátt sem lætur leiðtogum eftir ákvarðanatöku hvað varðar þarfir og gerðir almennings frekar en að fólk hugsi fyrir sig sjálft. Þegar eitthvað ákveðið yfirvald tekur sér réttinn til að taka grundvallarákvarðanir sem snerta persónulegt siðferði , t.d. varðandi líf og dauða, er mannlegu frelsi mjög þröngur stakkur skorinn.

Anarkistar sjá tengslin milli milli ýmissa forma kúgunar, til að mynda kynjamisréttis, kynþáttamisréttis eða misréttis á grunni kynhneigðar eða þjóðrembu, og gera sér grein fyrir markleysi þess að berjast gegn einu formi kúgunar meðan annar ófögnuður sama eðlis fær að vaða uppi óáreittur. Flestir Anarkistar trúa því að þegar ráðist er í tilraunir til að umbylta hlutunum verði aðferðirnar sem er beitt að vera í samræmi við þá útkomu sem vonast er til að ná. Þó að anarkistar séu oft ósammála um leiðir til að ná fram breytingum og baráttuaðferðir, eins og hvort mynda eigi opinber samtök eða hvort eigi að hafa í frammi aðgerðir sem fela í sér ofbeldi, þá eru flestir sammála um að áherslan má ekki vera á að bara eyðileggja núverandi skipulag, heldur og að byggja upp nýtt, sem er þá mannvænna og býður upp á rökréttari möguleika í stað þess gamla.

Anarkismi í sögulegu samhengi

Anarkistar hafa átt þátt í byltingarhreyfingum gegnum söguna. Franska byltingin, sem byrjaði 1789, hafði í sér sterk einkenni frumgerðar anarkískrar hugsunar. Anarkistar eins og Pierre-Joseph Proudhon, Peter Kropotkin, Mikhail Bakunin og Errico Malatesta áttu stóran þátt í þróun hugmyndafræði byltingarsinnaðs anarkisma seint á nítjándu öld og snemma á þeirri tuttugustu. Anarkistar áttu stóran hlut í byltingarhreyfingunum í Rússlandi 1905 og 1917 en var bolað burt um leið og Bolsévikar höfðu náð völdum. Í Spænska borgarastríðinu 1936-1939 varð fyrst til viðtæk skipulagning undir merkjum anarkisma. Gegnum anarkó - syndikalista hreyfingarnar FAI og CNT varð til skipulagt efnahagslegt og félagslegt kerfi, án yfirstjórnar, sem gekk alveg upp.

Í Bandaríkjum Norður - Ameríku sem og í Mexikó og Suður-Ameríku gætti áhrifa anarkó-syndikalisma meðal verkalýðsfélaga (t.d. Industrial Workers of the World). Framsæknir anarkistar á borð við Emmu Goldman og Alexander Berkman tóku þátt í ýmsu róttæku starfi snemma á tuttugustu öldinni. Einnig léku sterkir straumar anarkisma um margar þeirra félagslegu breytinga sem áttu sér stað, og þær fjöldahreyfingar sem voru virkar á sjötta áratug síðustu aldar. Þar má nefna Feministahreyfinguna, Samtök homma og lesbía, baráttuhópa gegn stríði og baráttuhópa fyrir málfrelsi. Í mörgum tilfellum skyggðu hugmyndafræðingar Marxist/Leninista á anarkistahugsunina eða reyndu að berja hana niður með valdi.

 

Hvað anarkismi er ekki

Til að skýra hvað anarkismi er getur reynst gagnlegt að útskýra hvað anarkismi er ekki:

Kommúnismi: Þó að margir Anarkistar kunni að meta hugmyndir um sameignir og sambýli þá afneita anarkistar alræði hinna nýlega föllnu Marxist-Leninísku ríkja. Bilið milli Anarkista og Marxista hefur verið til staðar allt frá 1870 þegar anarkistar sáu að Marxistar stefndu að valdayfirtöku undir öðru nafni. Baráttuhópar Marxist-Leninista hafa samkvæmt siðvenju lagt áherslu á stjórnmálaflokk og leiðtogahlutverk verkalýðsins, þær hugmyndir ganga í grundvallaratriðum gegn sýn anarkismans á andstöðu við yfirvald og frelsi einstaklingsins. Þó að bókstafstrúarmarxismi haldi því fram að ríkið muni "fjara út" með tímanum hefur sýnt sig í kommúnistaríkjum að ríkisvaldið hefur í för með sér kúgun og kröfu um að einstaklingurinn lagi sig hugsunarlaust að ríkjandi þjóðfélagsháttum.

Frjálshyggja: Frjálshyggjufólki er oft ruglað saman við Anarkista. Frjálshyggjufólk á einmitt samleið með Anarkistum á ýmsa vegu. Bæði leggja áherslu á frelsi einstaklingsins og vilja ryðja burt ríkinu. Margt frjálshyggjufólk leggur aðaláherslu á einstaklinginn og að ýtt sé undir eigin virkni hvers og eins. Margir Anarkistar horfa meira í samvinnu og sameiginlegt átak til að bæta aðstæður allra í samfélaginu. Frjálshyggjan einkennist oft af hagfræðilegum markmiðum sem leggja ofuráherslu á óhefta markaðshyggju (sumir þessara frjálshyggustrumpa kalla sig "anarkó-kapitalista") og frjálshyggjufólki finnst beiting ofbeldis við verndun persónulegra eigna ásættanleg. Frjálshyggjan stendur einnig gegn öllum afskiftum ríkisstjórnar af einstaklingum sem stefna að persónulegum ágóða og gefur lítið út á gildi sem ekki er hægt að mæla á beinan hagfræðilegan máta. Þó að frjálshyggjufólk sé oft á móti yfirráðum ríkisins stendur það ekki gegn yfirvaldi í allri sinni mynd og sækjast ekk! i eftir að róttækum breytingum á brengluðum tengslum mannvera, eins og þeim sem byggð eru á efnhagslegu misvægi.

Viðhorf Anarkista er mun félagslegra og þau vilja losna við hvert það kerfi sem býður efnaðri einstaklingum upp á frekari lífsgæði meðan þau sem minna mega sín eiga bágt. Þó að Anarkistar hafi í hávegum einstaklingsframtakið, skynsemi og sköpunarþrá er tekið tillit til þess að þau sem hafa þessa hæfileika til að bera í minna mæli skuli njóta virðingar og réttlætis.

Stjórnmálaflokkar sem kenna sig við frjálshyggju vilja oft bæta aðferðir við kosningar, afnema refsilög um fíkniefni og draga úr reglugerðarflæði ríkisstjórnarinnar. Margt frjálshyggjufólk er "minarkistar," þ.e. trúa því að einhverskonar ríkisstjórnarform verði að vera til staðar en það skuli vera eins afskiptalítið og hægt er.

Spurningin um hverslags efnahagskerfi myndi þrífast í samfélagi anarkista er enn opin. Sumir anarkista vilja útrýma kapitalisma og markaðshyggju í hvaða mynd sem er, aðrir renna hýrum augum til hagkerfis sem eignar verkalýðnum tækin og krefst fullkomins lýðræðis innan markaðshagkerfis og enn aðrir trúa því að að ýmsar útgáfur af hagfræðikerfum geti virkað saman svo lengi sem hvert og eitt þeirra reynir ekki að pota sínum markmiðum og reglum upp á hin.

Frjálslyndi: Ríkjandi hugmyndir um stjórnmál hérlendis og víðar líkja anarkistum við vinstrisinna og vinstrisinnum við frjálslynda en um er að ræða mikinn mun, bæði huglægan og verklegan. Hugmyndin um "að vera til vinstri" er frekar óviðeigandi nú á dögum þar sem mikið af pólitík dagsins í dag fellur utan hins klassíska "vinstri" (frjálslyndi)/"hægri" (íhaldssemi) skiptingar. Þó að flestir anarkistar styðji framsækna málstaði á anarkismi ekki heima innan hins dæmigerða pólitíska svigrúms.

Mikið af framsækinni pólitík nútímans byggist á "ímyndarpólitík," þ.e. hugmyndinni um að helstu kappmál hvers og eins tengist kynþætti, kyni og/eða kynhneigð. Þó að margir anarkistar taki virkan þátt í pólitík hinnar persónulegu ímyndar þá er í heilsteyptari hugmyndafræði anarkista horft til þeirrar framtíðar þegar einstaklingar munu ekki þurfa að einblína á skilgreiningar í sambandi við manneskjur.

Í tilraunum sínum til að lagfæra núverandi stjórnmálakerfi beita frjálslyndir aðferðum eins og kosningum, hagsmunagæslu (á þingi) og skipulagningu mótmæla. Anarkistar eru róttækari og vilja skipta út spilltum stofnunum algjörlega og endurgera mannvænna samfélag með beinum inngripum án nokkurra afskipta ríkisins.

Þó að anarkistar viðurkenni möguleikann á að breytingar verði með þróun en ekki bara með byltingu þá sjá Anarkistar, að til að ná fram breytingum verður að rusla út stjórnunarkerfum byggðum á valdboði hvar sem þau er að finna. Gegnum söguna hefur þetta ekki verið ofarlega á stefnuskrá frjálslyndra. Anarkistar sjá innri byggingu valdsins sjálfs, hvort sem það er kapitalískt, kommúnískt, "lýðræðislegt" eða er alræði, sem rót vandamálsins og valdboðið getur þarafleiðandi ekki verið leiðin að lausninni. Þó að einhverjir anarkista taki þátt í kosningum og skipulögðum mótmælum í þeirri trú að jafnvel litlar staðbundnar breytingar séu eitthvað í áttina þá gera Anarkistar sér grein fyrir því að til að ná fram raunverulegum og varanlegum breytingum þarf að ganga lengra.

Nihilismi: Á skjön við þá kreddu nihilismans, að setja sig eilíflega upp á móti öllu, þá mæla anarkistar ekki með tilgangslausu ofbeldi, eyðileggingu eða því að hver maður fyrir sig standi í einkastríði. (Samt eru alltaf einhverjir meðal Nihilista sem kalla sig anarkista). Hin algenga mistúlkun, að anarkismi jafngildi óreiðu er óheppilegur útúrsnúningur sem haldið er á lofti af þeim sem eru við völd og vilja viðhalda þeirri trú að yfirvald sé nauðsynlegt til að viðhalda skipulagi. Anarkistar trúa því að hægt sé að mynda afkastamikið, skipulagt og réttlátt samfélag á grunni flatrar skipulagningar og samvinnu.

Nokkrir umdeildir þættir

Anarkistar hafa ólík viðhorf gagnvart mörgum fyrirbærum. Þar sem hvað mest kveður að því er varðandi spurninguna um einstaklinginn í stað samfélagsins. Anarkistar sem leggja sig eftir einstaklingshyggju leggja aðaláherslu á frelsi einstaklingsins meðan anarkó-kommúnistar (og anarkó-syndikalistar) einbeita sér að lífsgæðum hins félagslega hóps í heild sinni. Þau sem telja hægt að sameina þessa hugmyndafræðilegu þætti eru einhversstaðar þarna á milli. Í fyrirmyndar anarkistasamfélagi er vonast til að þörfum samfélagsins í heild sinni sé hægt að mæta án þess að troðið sé á fjálsum vilja og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins innan samfélagsins.

Annað deiluefni innan anarkistahreyfingarinnar varðar umhverfisvernd og tæknihyggju. Klassískur anarkismi er líkur klassískum Marxisma að því leyti að vísindi og rökhyggja eru í miklum metum og haldið í þá trú að tækniframfarir séu samfélaginu til góðs. Margir anarkistar nútímans telja tækniframfarir hvorki góðar né slæmar en að fara verði með þær á ábyrgan hátt og þannig að þær þjóni sem best hagsmunum þeirra sem nota þær og verða fyrir áhrifum af þeim. Viðhorf sumra annara samtímaanarkista einkennist af tæknihatri og þungri áherslu á umhverfisvernd ásamt þeirri trú að samfélag anarkista komi aðeins til ef snúið yrði tilbaka til frumstæðari, staðbundins lífsstíls í náinni snertingu við náttúruna.

Þjóðernispælingin er einnig mikilvægur þáttur. Almennt eru anarkistar hallir undir hugmyndir um alþjóðleika (eða að tilheyra engri þjóð) og telja þjóðernishyggju og föðurlandsást vera dæmi um hvernig ríkið ýtir undir aðskilnað manna til að styrkja stöðu sína gagnvart almenningi. Þjóðríkið er stofnun sem þjónar ýmsum hærra settum hópum meðan lægra settum er ætlað að vera í sömu stöðu áfram um allan heim. Þrátt fyrir þetta telja sumir anarkistar að rétt sé að styðja baráttu ýmissa þjóða fyrir sínu (eins og baráttu Palestínuaraba í miðausturlöndum og kúguðum hópum innfæddra hvar sem er) þar sem smærri sjálfstæðar þjóðir séu skárri kostur en alræðisveldi sem kúga og arðræna, jafnvel þó að hin smærri ríki séu skipulögð á sama hátt og alræðisríki.

Straumar og stefnur innan Anarkistahreyfingarinnar í dag.

"Anarkistahreyfingu" samtímans er réttara að horfa á sem samansafn mismunandi hreyfingar sem eiga margvísleg pólitísk og hugmyndafræðileg fyrirbæri sameiginleg. Það eru margir hópar sem byggja á klassískum anarkisma eða útfrá honum, og stækka þannig svigrúm samtímaanarkisma og endurskilgreina hinar klassísku hugmyndir anarkisma.

Anarkó-feministar bræða saman hugsjónir feminisma og anarkisma. Þar er einblínt á frelsum kvenna og hlutverk feðraveldisins (patriarchy) enn frekar en gert er í dæmigerðum anarkisma án þess að litið sé framhjá baráttunni gegn öðrum formum kúgunar (eins og sumar aðrar útfærslur feminisma gera). Ekki líta allir kvenkyns anarkistar á sig sem feminista né heldur þarf anarkó-feminsti að vera kvenkyns. Skilgreiningin felst aðallega í því hversu "kvenmiðaðar" skoðanir hvers og eins eru og hvaða hliðar kúgunar eru helstu hjartans mál viðkomandi. Eins og í mörgum öðrum stjórnmálahreyfingum í dag þá er ekki enn búið að vinna úr málum varðandi muninn á konum og körlum. Að einhverju leyti hefur þeim gerfiímyndum kynjanna sem skapaðar eru af samfélagi feðraveldisins verið viðhaldið innan anarkistahreyfingarinnar og þannig verið staðið í vegi fyrir því sanna jafnrétti kynjanna sem anarkistar vilja ná. Einnig hefur hefur mörgum konum fundist nauðsynlegt að hafa sérstaka kvennahópa innan h! reyfingarinnar, þar sem karlar hafa verið ríkjandi innan hennar, þær sömu konur telja að innlima verði kröfur kvenna inn í hugmyndafræði anarkista áður en en samstaða getur náðst.

Anarkó-feministar hafna almennt lausnum ríkisins á vandamálum kvenna (eins og því að bann á klámi dragi úr ofbeldi gagnvart konum) en leggja frekari áherslu á sjálfsstyrkingu og bein inngrip (direct action). Skipulag Anarkó-feminista hefur einkennst af áherslu á dreifða stýringu, ákvarðanatöku þar sem allir taka þátt, og starfsemi á grasrótarstigi. Anarkó-feministar almennt trúa því að hæfileikar hvers og eins sýni sig og geti notið sín þegar horft er framhjá dæmigerðum kynhlutverkum og dregnir eru fram jákvæðir "karllægir" og "kvenlegir" hæfileikar í hverri manneskju auk jafnréttis í öllum samskiptum.

Margir samtíma anarkistar einbeita sér að því að innleiða hugsjónir hins frjálsa vilja og sjálfsákvörðunarréttar inn í sitt persónulega líf. Þar með kemur áhersla á frjálslyndi í kynferðismálum, fjölskyldugerð og í persónulegum samböndum almennt. Sambönd milli einstaklinga ætti að byggja á frjálsu vali og samþykki allra þeirra sem að málinu koma og ekki vera bundin af aðhaldi ríkisstjórnar, kirkju eða félagskerfa. Til eru margir anarkistar sem eru samkynhneigðir; hommar, lesbíur og kannski sérstaklega tvíkynhneigðir. Það hvernig anarkisminn vill brjóta niður fastar skilgreiningareglur virðist eiga mjög vel við það fólk hverra kynhneigð eða kynvísi telst utan hinna stöðluðu norma.

Eins og með feminista þá eru margir hópar homma og lesbía sem uphefja gildi sem standa gegn valdníðslu og vilja beina og virka starfsemi (t.d. eru grasrótarhópar, sem láta sig málefni AIDS skipta, sem dreifa hreinum nálum til sprautufíkla). Sú sýn á siðvenjur eins og hjónaband, kjarnafjölskylda feðraveldisins og fjölskylduprógrömm; að þær séu hannaðar til að þóknast þeim sem eru við völd, hefur leitt til þess að anarkistar leggja áherslu á öðruvísi sambönd úr út einkvænisreglunni. T.d. stórfjölskylduna og sameiginlegt uppeldi, til viðbótar við "venjulegri" möguleika. Almennt vilja anarkistar ekki að stjórnvöld séu með puttana í myndun persónulegra sambanda og þannig komi stjórnvöldum ekki við hjónabönd einstaklinga af sama kyni. Hommar sem eru anarkistar gefa einnig lítið út á baráttu fyrir því að hommar megi ganga í herinn eða megi á annan hátt vera opinberlega viðloðandi kúgunarstofnanir.

Þrátt fyrir trúleysisboðskap hinna klassísku anarkistakenninga (sem kom til aðallega vegna hinna eyðileggjandi áhrifa trúarstofnana) þá leggja margir nútíma anarkistar rækt við andleg mál. Þar er um að ræða bæði ýmsar útgáfur af nútíma heiðni og frjálslyndri guðfræði innan venjulegra trúarbragða. Þetta speglast í þeirri trú að þegar auðga og efla á hæfileika einstaklingsins verður að horfa til andlegra og yfirskilvitlegra hliða persónuleika og menningar sem og hins rökræna. Þegar kemur að siðferðipælingum treysta andlega sinnaðir Anarkistar þó á persónulega ábyrgð og umhyggju fyrir öðrum frekar en tilhlutanir löglegs eða siðferðilegs yfirvalds. Andlega sinnaðir Anarkistar leggja yfirleitt áherslu á tengsl millri allra lifandi vera og þeir eiga oft margt sameiginlegt með þeim Anarkistum sem eru hvað áhugasamastir um verndun náttúrunnar. Samt er alltaf að finna ákveðinn grundvallarþátt trúleysis meðal Anarkista sem sýnir sig þegar hugmyndir um "helgidóm" og "eitthvað æðra" be! r á góma. Hugmyndir þess eðlis viðhalda goggunarröðum og virka hindrandi á algjört frelsi einstaklingsins.

Ungt fólk kemst oft í kynni við hugmyndafræði Anarkista gegnum pönk, jaðarlistafólk eða róttæka hópa stúdenta. Þetta unga fólk flýr óréttlæti og firringu þess að lifa innan neyslusamfélagsins og myndar andspyrnusamfélög sem byggja á beinni virkni og sjálfsbjörg eins og sambýli, hústöku, fræðslumiðstöðvar og uppbyggingu efnahagslegra samvinnuhópa um matvæli og framleiðslu og dreifingu tónlistar óháð tónlistarsamsteypunum. Margt af þessu unga fólki aðhyllist margt af klassískum kenningum Anarkista, þó oft án þess að kalla sig Anarkista, en eru yfirleitt meira gefin fyrir grundvallaratriði eins og að vera óháð og sjálfstæð á praktískan hátt í sínu daglega lífi og vinnu. Sumir samtíma Anarkistar gefa lítið fyrir þessháttar "miðlun anarkisma gegnum lífsstíl" og einbeita sér frekar að uppbyggingu hópa og skipulagningu tengsla þeirra á milli í átt að breiðvirkri félagslegri breytingu.

Anarkistar eru virkir í margskyns útgáfumálum. Allt frá lausgirtum ritum sem gefin eru út einusinni og aldrei meir, til uppbyggilegra fréttablaða og bókaútgáfu. Anarkistar nýta einnig internetið og aðra þætti rafrænna samskipta æ meir. Internetinu hefur oft verið lýst sem dæmi um virkan Anarkisma og óneitanlega hefur það vaxið og þrifist án nokkurrar yfirstjórnar. Rafræn samskipti gefa færi á samskiptum yfir landamæri og geta dregið úr áhrifum menningarlegra hindrana eins og kynþætti og kyni. Hinsvegar er hætt við að aukið mikilvægi rafrænna samskipta ýti undir hindranir manna á milli af efnahagslegum völdum vegna þess að sumir hafa aðgang en aðrir ekki.

Anarkistar hafa nýtt rafræn samskipti til að skipuleggja uppákomur, dreifa mikilvægum fréttaskeytum og skiptast á upplýsingum. Notaðir eru póstlistar og fréttahópar tileinkaðir Anarkisma og baráttu gegn yfirvaldi auk stærri verkefna eins og ritsafni Spunk Press. Ríkisstjórnir hafa berlega sýnt ótta sinn við Internetið og eru að efla tilraunir sínar til að hamla hinu frjálsa flæði upplýsinga undir því yfirskini að berjast verði gegn klámi og hryðjuverkum. Sumir hópar Anarkista eru hinsvegar á móti rafrænum samskiptum, bæði vegna þess að samskipti án augntillits eru þeim ekki að skapi og vegna slæmra áhrifa tæknidýrkunar á náttúruna.

 

Niðurlag

Í stuttu máli þá er Anarkismi fjölbreytileg heimspeki sem skilgreind er á breiðan máta en margir einstaklingar og hópar hafa tekið upp á einn eða annan hátt. Margir þeirra kalla sig ekki endilega "Anarkista." Anarkismi getur átt við alla þætti tilverunnar. Þar sem Anarkismi leggur áherslu á frelsi, sjálfsákvörðunarrétt, persónulega ábyrgð, beina þátttöku og virkni (direct action) og uppbyggingu stílbrota við hinn daglega veruleik, byggð á sjálfboðavinnu og samvinnu. Þannig hefur Anarkismi þá hugsjón og sveigjanleik sem þarf til að umbreyta eigin lífi á lifandi hátt meðan unnið er að róttækri og varanlegri félagslegri breytingu sem mun umbreyta heiminum.

Liz A. Highleyman

Þessi ritgerð var skrifuð 1988 af Liz og Anarkistahópnum Black Rose í Boston MA (sá hópur starfar ekki lengur).
Þýtt og endursagt: Sigurður Harðarson