Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Um daginn ákvað ég að leggja leið mína til anarkista og spyrjast fyrir um þessa umdeildu stefnu. Ég var frekar fáfróður um málið,  í raun smá skelkaður og bjóst við heldur vafasömum viðmælanda. Sú varð ekki raunin og tók Siggi Pönk, þekktur maður innan bransans og mjög virkur anarkisti, vel á móti mér. Við settumst niður og fórum yfir nokkur grundvallaratriði.

 

Hvað er anarkismi?

 

Anarkismi er samsett úr tveimur grískum orðum, “an” og “archy” sem þýðir “án yfirvalds”. Pælingin er sú að samfélaginu farnist mun betur ef skipulagt án yfirvalds. Anarkistar eru sem sagt í andstöðu við að einhver sé að segja öðrum fyrir verkum. Varðandi samfélagið allt er ekki einungis hollt að það sé skipulagt án yfirvalds heldur er rangt að einhver sem er alveg jafn vitlaus og ég, hafi völd umfram mig og bara mjög óhollt. Þegar þessir fáu einstaklingar sem hafa mikil völd gera mistök, þá hefur það mikil áhrif Á allt samfélagið og þá verðum við hin umkomulaus því við erum ekki vön að taka ákvörðun fyrir okkur sjálf. Við höfum hlutverkk kjósenda og neytenda en samt á þetta að heita okkar samfélag. mér hefur alltaf fundist skrítið síðan ég var krakki að einhverjir karlar sem virtust alveg jafnvitlausir og ég eða hver annar hefðu mikil völd yfir hinum og ég fór að sjá það þannig að stríðin í heiminum væru ekki tilkomin vegna þess hve brjálað fólk væri, heldur vegna þess að við höfum of marga leiðtoga. Þannig að anarkismi er þessi andstaða við yfirvald og löngun til að skapa aðra möguleika.

 

Hvernig yrði heilsugæslu, menntamálum og löggæslu háttað í þessu samfélagi?

 

Skipulagið færi þannig fram að þeir sem vinna að heilbrigðismálum skipuleggja það sjálfir. Heilbrigðisráðherrann í dag er t.d. ekki sérstaklega menntaður í skipulagningu eða heilbrigðismálum, hann er bara flokkspólitíkus. Tökum naglaverksmiðju sem dæmi. Allir verkamennirnir kunna á sínar vélar og sitt hlutverk í kerfinu en það er framvæmdastjórinn sem ákveður hvað skuli gera og forstjórinn hirðir ágóðann. Verksmiðjan virkar ekki einungis vegna þess að forstjórinn eða framkvæmdastjórinn vita hvað þeir eru að gera heldur vegna þess að verkafólkið veit hvað það er að gera. En í anarkísku samfélagi hefði þetta fólk í verksmiðjunni vald, með tilliti til annarra, til að framkvæma þetta sjálft þ.e. ákveða hvernig verksmiðjan ætti að virka en tæki þá ábyrgð á henni sjálft. Ég er sjálfur hjúkrunarfræðingur en hef ekkert vit á skipulagi þannig að ég vinn með mínum deildarstjóri sem er betri en ég í skipulagningu, en ég lít samt ekki á hana sem minn yfirmann. Við sem vinnum á botninum á píramídanum vitum alveg hvernig kerfið á að virka þegar við erum saman. Eitt og eitt, þá gerum við kannski tóma vitleysu. En manneskjan er almennt vel fúnkerandi virk í samfélaginu og þess vegna virkar það. Ekki vegna þess að lögreglan er alltaf að skikka okkur til heldur vegna þess við vitum alveg að við ætlum ekki að drepa nágrannann. Þar af leiðandi er fólk almennt fært um það að skipuleggja sig saman þó það verði gífurleg rifrildi, langar umræður og almennt leiðinlegir fundir en það er bara raunverulegt lýðræði. En hvað löggæslu varðar þá er ákveðinn hópur af fólki í dag sem hefur einkarétt á því að beita ofbeldi og það er skilgreiningin á lögreglunni, og einnig ríkinu í rauninni. Það er mjög misjafnt hversu færir einstaklingarnir í lögreglunni eru um að taka réttar ákvarðanir þegar kemur að beitingu ofbeldis. Stundum þarf ofbeldi t.d. þegar einhverjir gæjar taka fimm slög af spítti og ætla að drepa allan bæinn, þá þarf að taka þá niður. En þegar þú hefur gefið ákveðnum hópi af fólki rétt til beitingu ofbeldis þá er ekki víst að það sé persónulega fært um að taka réttar ákvarðanir, ekki frekar en stjórnmálamenn. Viðhorf sumra er að þegar þú ferð yfir á rauðu ljósi þá er það ábyrgð lögreglunnar að stöðva þig en ekki þín samfélagslega ábyrgð. Í anarkísku samfélagi myndi samfélagið sjálft bera ábyrgð á löggæslu með svipuðum hætti og nágrannavörslur þar sem fólkið einfaldlega passar sitt eigið hverfi.

 

Hver er skoðun þín á eignarétti?

 

Nú á ég t.d. þetta hús með konunni minni og allt í góðu með það. En ef ég ætti alla götuna og allir þyrftu að borga mér leigu þá erum við komin með ranglæti. Þá er ég að ganga á rétt fólks til að eiga húsnæði. Það sama á við um verksmiðjuna sem við töluðum um áðan. Það er bara einn maður sem á hana en samt er hún gagnleg fyrir allt samfélagið og allir sem vinna í henni ættu að njóta góðs af henni, ekki bara fá borgað einhvern pening miðað við forstjórann. Þetta er spurning um muninn á eignarétti og stóreignarétti, að eiga það sem maður þarf. Bill Gates þarf ekki að eiga allan heiminn, hann hefur ekkert við hann að gera, hann er bara ein manneskja. Eins með bankana. Ef einn maður á heilan banka, þá er það mjög ranglátt gagnvart öllum sem þú gerir að skuldurum. Ég mun t.d. aldrei geta borgað þessa íbúð, ég hef bara verið dæmdur í þrældóm af einverju kerfi sem nokkrir aðilar eiga. Og sú staðreynd að einhverjir Björgólfar eigi 300 milljarða. Hvernig ætla þeir að nota þá? Hvað ætla þeir að gera við þá? Þetta er bara svo mikil brenglun. Og þetta er ekkert frelsi. Maður hefur oft heyrt frjálshyggjumenn tala um réttin til að græða, þeir leggja mikla áherslu á þetta frelsi. En það er ekkert frelsi ef ríkið selur bankana til einkaaðila. Þá er ég enn jafn ófrjáls. Ég hef oft sagt að ef þú tekur frelsispælingu hægrimanna og félagshyggjupælingu vinstrimanna þá ertu kominn með anarkisma. Þá væru sem sagt allir raunverulega jafn frjálsir og nógu félagslega meðvitaðir til að gera hlutina rétt.

 

Hvernig væri hagkerfið í anarkísku samfélagi?

 

Sumir segja að hægt væri að hafa ýmis hagkerfi saman. Núna er bara eitt dómínerandi hagkerfi og það er kapítalista hagkerfið þar sem allt snýst um markaðssetningu og fólk á bara að versla. Hagkerfið getur verið sósíalísk hreyfing og líka markaður en þá erum við að tala um raunverulega frjálsan markað. Frjáls markaður skilgreinist sem margþætt streymi af vörum og fjármagni fram og til baka í allar áttir, en það sem kallað er frjáls markaður í dag er streymi til þeirra ríku frá hinum verr stöddu, en það er ekkert frelsi. Þannig að ég sé fyrir mér raunverulega frjálsan markað en einnig sósíalískt kerfi.

 

Telur þú að lestir manna muni hamla ríkislausu samfélagi að virka?

 

Ég held að þeir hamli núverandi kerfi frá því að virka. Núna erum við með kerfi sem býður uppá það að ef ég er nógu gráðugur og mikill framapotari, þá kemst ég til valda. Ef ég ætla að verða atvinnupólitíkus þá get ég það, ég get jafnvel komist á toppinn einungis með því að markaðsetja mig rétt eða múta rétta fólkinu. Til þess að koma í veg fyrir að frekir og gráðugir menn komi sér of framarlega í anarkísku samfélagi þarf samfélagið að rífa kjaft á móti þeim, við þurfum þessa félagslegu ábyrgð. Það er ekki til neitt pottþétt samfélag, það er ekki til nein útópía. Samfélag manna er og verður alltaf í stöðugri valdabaráttu. En það sem við erum með núna er í raun ekki barátta, heldur aðeins barátta þeirra frekustu innan kerfisins og við hin höfum lítið að segja um það. Þessir atvinnupólitíkusar eru í stöðum sem voru upphaflega búnar til í því skyni að þjóna samfélaginu en það sem þeir gera er í fyrsta lagi að þjóna eigin frama og síðan að vinna að betra samfélagi, þetta er  forgangsröðun þeirra og skiljanlega, lýðræðiskerfið býður upp á þetta.

 

 Myndirðu segja að fjölmiðlar hafi dregið upp neikvæða ímynd af anarkistum?

 

 Jájá, ég hitti einu sinni finnskan blaðamann sem var verktaki. Hann hafði unnið helling í Afríku og var að selja fréttir sínar til Reuters o.f.l. Hann sagði að þegar hann kom með góðar fréttir svo sem að stríðið Sómalíu væri mest allt bundið við höfuðborgina, landið væri almennt að virka vel, þá fékk hann engin laun því það var ekki frétt. Það er frétt þegar anarkisti brýtur rúðu en ekki þegar hann gefur ókeypis mat til fátækra. Ég var á mótmælafundi um daginn með minn svarta fáni á lofti. Þá kemur til mín eldri maður, mjög reiður, og vildi fá okkur til að byrja vera með læti til að hinir kæmu með. Þá erum við greinilega óþekka fólkið. Svo var það þannig að þegar lætin voru sem mest við alþingishúsið 20. janúar í fyrra var lögreglan búin að setja línur þar sem mótmælendur mættu vera en það voru anarkistar sem rifu þessar línur og þá komu hinir með. Ég hef alveg trú á ofbeldi sem taktík líka eins og þegar ég var að tromma allan daginn í þann 20. janúar í fyrra fyrir utan alþingi, Þessi hávaði var hreint ofbeldi en mig langaði ekki að lemja neinn. Ég var bara staðráðinn í að beita fólkinu þarna inni andlegu ofbeldi.

 

Hvernig myndirðu réttlæta hústökuna alræmdu sem átti sér stað í apríl 2009?

 

Mér finnst ég ekki þurfa að réttlæta hana neitt en þar komum við aftur að eignaréttinum. Þetta var þannig að tveir menn áttu fyrirtæki sem hafði eignað sér heila götu. Og íbúarnir á þessari götu voru ekki sáttir með það því þeir gerðu ekkert við þessi hús. Mörg þessara húsa eru friðuð en eru látin grotna og þá ætla þeir að byggja einhver glerhús í staðinn. Íbúarnir í götunni tóku hústökunni fagnandi enda loksins verið að gera eitthvað við þetta hús. Íbúðin var opnuð, fólk kom, tók til og síðan var húsið málað. Þannig að hústakan sýndi fram á ranglæti þessa kerfis og það var einmitt markmiðið. Þarna var nýtingarrétturinn sterkari en eignarétturinn.

 

Telurðu anarkíska byltingu raunhæfa á næstu áratugum?

 

Ég held að meðvitund um skipulag án yfirvalds sé alveg raunhæfur möguleiki alveg eins og að fyrir 25 árum voru samkynhneigðir réttdræpir á Íslandi en svo hafa þeir bara unnið í því og núna er þeirra lífsstíll bara vel séður, þetta skiptir engan máli. Forsætisráðherrann er meira að segja samkynhneigður. En ég vona að núna uppúr þessu efnahagslega hruni þá vakni fleira fólk og sjá að of fáir hafi haft of mikil völd í of langan tíma og fari þá að skoða aðrar leiðir til að skipuleggja samfélagið og þá kemur það niður á anarkískar hugmyndir. Fólk þarf bara að fara að skipuleggja sig á grasrótargrundvelli og þá ertu farinn að gera það á anarkískan máta, án yfirvalds. Það þarf enginn að kalla sig anarkista til þess og ekki að ganga í einhvern hóp. Þetta snýst um hugsunarhátt og nálgun á sitt daglega líf.

Til baka í greinar