Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

.

 

Hvað er anarkismi? e. Snæbjörn Jónsson – Ein af fyrstu tilraunum til að fjalla af alvöru um anarkisma á Íslandi.

 

Fáar tilraunir hafa verið gerðar til að rannsaka sögu anarkisma á Íslandi og almennt hefur verið talið að anarkisminn hafi alls ekki náð hingað til lands fyrr en seint og síðarmeir. Nýlega hafa þó einstaka sagnfræðingar farið að beina ljósi sínu að þessari spurningu og hafa þá rekið sig á að stefnan var ekki með öllu óþekkt hér á landi. Eftirfarandi grein er dæmi um það, en hún birtist í 10. og 11. tbl. blaðsins Verkmannablað í ágúst árið 1913. Verkmannablað þetta var gefið út af verkamannafélaginu Dagsbrún á árunum 1913-1914 og er ein af fyrstu tilraunum hinnar nýuppsprottnu verkalýðshreyfingar til blaðaútgáfu.

Höfundur greinarinnar, Snæbjörn Jónsson (1887-1978), var á þessum árum námsmaður við Central Labour College í London og komst þar í kynni við ýmsa menn og hugmyndir á vinstri vængnum og eins og hann segir sjálfur í greininni þá þekkti hann persónulega einhverja anarkista þar. Hverjir það voru og hversu ítarleg kynni hans af þeim voru hefur eftir því sem ég best veit aldrei verið skoðað. Það er þó ljóst af lestri greinarinnar að hann er enginn anarkisti sjálfur, enda skrifaði hann aðrar greinar í ýmis blöð á þessum árum þar sem hann hvatti til stofnunar stjórnmálaflokks „alþýðu“ auk þess sem hann skrifaði mjög lofsamlega um bolsévika og byltingu þeirra í Rússlandi í grein sem birtist í Eimreiðinni árið 1920. Það sem einkennir grein hans, og ástæða þess að mér finnst tilefni til að hún sé endurprentuð hér, er að með greininni reynir hann að hrekja þá staðalímynd sem anarkistar höfðu á sér hér á landi sem annarsstaðar, þ.e. goðsögnina um hinn vitfirrta og morðóða sprengjukastara sem svo mörg yfirlitsrit um anarkisma byrja á því að hrekja, og útskýra fyrir lesendum blaðsins grunnstefin í stefnu anarkista (ég læt það ónefnt hversu vel honum tekst upp í þeim efnum). Snæbjörn gerðist síðar bóksali í Reykjavík og lenti vegna velvildar sinnar í garð Breta í ýmsum hremmingum á hernámsárunum. Hann flutti um síðir aftur til Bretlands og lést þar árið 1978.

-VV

 

Hvað er anarkismi?

 

Eg hefi ósjaldan verið spurður þess, hvað anarkismi væri i raun og veru. Það er Iíka sízt að undra, þótt margur spyrji svo, þvi um tvo síðustu mannsaldra hefir anarkisminn verið eitt af stórmálunum á dagskrá heimsins, en íslenzk blöð hafa, að þvi er ég bezt veit, sjaldan getið hans öðruvísi en i sambandi við þjóðhöfðingjavíg anarkista og önnur hermdarverk, enda er ég ekki í vafa um það, að anarkistar eru því, sem vonlegt er, í hugum íslenzkrar alþýðu ekki annað en illþýði og glæpamannafélag. Blöðin eru því miður mörg með því marki brend, að þau hirða feginsamlega allar hryðjuverkasögur, sem líklegt er að fávíst og menntunarlítið fólk muni sækjast eftir, en hirða minna um það, að grafast fyrir eða skýra orsakir þær, sem til slíkra verka liggja, enda þótt það sé of alþektur sannleikur til þess að taka þurfi hann fram, að morð og aðrir svonefndir stórglæpir eru oft, frá siðferðislegu og sálfræðilegu sjónarmiði séðir, miklu afsakanlegri heldur en ýmislegt það, sem velmetnir þjóðfélagsborgarar um allan heim hafast daglega að — og auka ef til vill álit sitt með.

              Það erfitt að svara spurningunni. Það er líkast því sem spurt væri: Hvað er kristindómur? Ef til vill er alls ekki hægt að svara henni til hlítar. Það er fyrir þá sök, að »svo margt er sinnið sem maðurinn «, og hversu margir sem kunna að telja sig til einhverrar stefnu eða trúarbragða, þá eiga þó tæplega nokkrir tveir algerlega samleið, en aðalstefnurnar má nokkurn veginn greina sundur. Ég ætla því að leitast við að svara hér þessari spurningu um anarkismann, eftir því sem ég veit réttast, og jafnframt því ofurlítið að minnast á hreyfinguna sögulega.

              Ef til vill ætti ég að byrja með því að afsaka mig fyrir það, að ég nota hér alþjóðaorðið. Sú afsökun er fljótfundin og virðist fyllilega réttmæt. Ég er maður lítt orðhagur, en hefi ekki ennþá séð erlenda orðið þýtt á þá íslenzku, er við megi una. Stjórnleysisstefna eða -kenning nær ekki nokkurri átt, enda þótt fá megi út úr því svipaða merkingu sem þá, er felst i útlenda orðinu (gr. an-, ekki + arche vald). Það væri engu afleitara — þvert á móti ef til vill skárra — að tala um »valdleysingja « heldur en »stjórnleysingja «, þegar átt er við anarkista. Í orðinu stjórnleysi felst sem sé ávalt merkingin »óstjórn «, en óstjórn þarf ekki endilega fremur að vera samfara anarkisma heldur en kristindómi. Hefði orðið verið fyrnt (þ. e. fallið úr notkun), þá hefði mátt taka það upp í þessari nýju merkingu. En svo er nú ekki. Orðið anarkismi hefir líka verið allmjög notað hér og ég sé ekki að það hafi — meðan það er ekki viðunanlega þýtt — minni rétt á sér en orðið spiritismi, sem orðhögustu mentamenn vorir nota óhikað, enda þótt fremur gæti komið til mála að nota þýðingu þá, sem gerð hefir verið á þvi orði.

              Hugsjón anarkista — anarkí (»stjórnarleysi«, »einskisveldi«) — er »sú þjóðfélagsskipun, að engin stéttaskifting eigi sér stað og enginn maður hafi nein bein völd yfir öðrum« (Century Dictionary). Með öðrum orðum: Þar á að ríkja fullkomið jafnrétti, og gert er ráð fyrir svo miklum siðferðisþroska hjá einstaklingnum, að eigi þurfi yfirvöld til þess að gæta lagaréttarins.

              Orðið anarkí kemur fyrst fyrir í riti, sem nefnist »Qu'est ce la propriété (Hvað er eign?) eftir franskan mann Pierre Joseph Proudhon (1809—'65), sem altítt er að telja andlegan föður anarkista, enda þótt anarkismi hafi átt sér stað á öllum öldum, þar eð sífelt hafa verið til menn, sem hvorki viðurkendu rétt nokkurs manns til þess að ráða yfir öðrum né heldur nauðsyn þess, að mannfélagið væri háð nokkru lögskipulagi. Meira að segja höfðu aðrir ritað um þetta efni áður, t. d. enskur maður William Godwin (1756—1836), en rit hans vóru svo óljós og óákveðin, að þau höfðu lítinn beinan árangur. Í þessu riti Proudhons, sem kom út 1840, heldur hann fram — fyrstur manna að þvi er talið er — kenningunni: »auðsafn er þýfi«, sem Karl Marx og aðrir jafnaðarmenn gerðu að undirstöðuatriði kenningar sinnar — þó ekki allir skilyrðislaust. Annars bar Proudhon og jafnaðarmönnum svo mikið á milli, eftir kenningum hans í þessu riti, að hann gat þá alls ekki talist til þeirra. En víða um lönd fekk hann brátt lærisveina, sem unnu mikið að því að útbreiða kenningar hans. Á fyrstu árunum kvað þó einna mest að því á Þýzkalandi, þar sem heimspekingurinn Kaspar Schmidt (1806—'56) birti 1845 bók sína »Der Einzige und sein Eigenium« (Einstaklingurinn og eign hans) og síðan fleiri rit í anda stefnunnar. En við byltinguna og afturkastið sem varð 1848, beið anarkisminn mikinn hnekki, og á seinni árum sínum lýsti Proudhon sjálfur yfir þvi, að hugmyndin væri óframkvæmanleg og að lýðveldishugsjón jafnaðarmanna væri hið eina rétta stjórnarfyrirkomulag.            

   Með verkmannahreyfingunni um 1860 fékk anarkisminn aftur byr í seglin, einkum fyrir framgöngu rússneskra forvígismanna. Michael Bakunin (1814 —76) tók baráttuna upp 1864 i Sviss, að heita mátti á sama grundvelli og Proudhon, nema hvað hann, gagnstætt Poudhon, taldi byltingu að vera réttu leiðina til þess að ná markinu; þó vildi hann alls ekki láta vinna hryðjuverk. Einn af samsinnum Bakunins, Netschajev að nafni, var sendur til Rússlands og hóf þar 1869 hina svonefndu »verklegu útbreiðslu«, sem var i því innifalin, að vinna hryðjuverk og gera uppþot í þeim tilgangi, að hræða mótstöðumennina og valdhafa þjóðfélagsins. Það var sama aðferð og kvenfrelsiskonur á Bretlandi hafa tekið upp, þótt í smærri stíl sé. Eftir Bakunin tók Pétur Krapotkin fursti einkum að sér baráttuna. Hann hefir ritað og starfað ósköpin öll og oft »komist í hann krappan«, og enn í dag vinnur hann af hinu mesta kappi, þótt gamall sé orðinn (f. 1842). Munu allir játa það, hvort sem þeir eru skoðanabræður hans eða ekki, að hann er eitt af hinum mestu núlifandi mikilmennum. Kenningar hans nálgast mjög þá grein jafnaðarstefnunnar, sem kölluð er sameignarkenning (kommúnismi).

              Það er eigi unt að ræða svo anarkismann, að eigi sé getið níhilismans á Rússlandi, sem er beinn afspringur hans og má vel kallast þáttur af honum. Því verður eigi neitað, að hann hefir gerst sök í miklum hryðjuverkum og ógnum, enda skortir það sízt, að hann hafi fengið ómilda dóma. Ég ætla ekki að reyna að lýsa honum hér neitt að ráði, heldur að eins vísa til þess, sem sagt er um hann i Þjóðmenningarsögu sr. Ólafs Ólafssonar (bls. 347—352). Ef íslendingar væru ofurlítið meiri tilfinningamenn en þeir eru, þá mundu þeir dæma fárvirki níhilista vægt og skilja það, að hér er um að ræða örvæntingarvörn þjóðar, sem er þrautkúguð af veraldlegri og »andlegri« harðstjórn. Því á Rússlandi, ekki síður en annarstaðar, hefir kirkjan jafnan reynst eitthvert öruggasta vígi hverskonar kúgunar og harðstjórnar. Hitt þarf naumast að taka fram, hvaða eiginleika kúgun og harðstjórn þroska. Allir vita, að það er grimd, hefnigirni, undirferli og aðrar slíkar einkunnir. Það mun ekki verða um það þráttað, að tilfinningaleysi er einhver sú stærsta náðargáfa, sem »þessa heims börnum« getur hlotnast, og það hefir oss íslendingum verið óstjúpulega úti látið. En fyrir það sama eigum vér erfitt með að skilja og dæmum svo hart þau mál, sem af tilfinningunum stjórnast. Samt er vert að muna það, að þótt níhilistar hafi löngum verið ósparir á lífum mótstöðumanna sinna og valdhafanna, þá hafa þeir verið engu ótrauðari til þess að fórna lífum sjálfra sín fyrir málefni sitt. Stefnuskrá þeirra er mjög óákveðin, og því erfitt að segja hver hún eiginlega er. Fyrir það hafa þeir hlotið nafn sitt (af latn. orðinu »nihil« ekkert), sem fyrst birtist í þeirri merkingu í skáldsögu Turgenjevs »Feður og synir« 1861, og var þar notað sem háðsnafn, þótt níhilistar tæki það þegar upp sjálfir. Hið eina, sem þeir gera sér fullkomlega ljóst, er það, að núverandi ástand þjóðfélagsins er ótækt og þarf gagngerða breytingu. En þeir gæta þess ekki, að í hinum ómentaða, margkynjaða og tvístraða lýð á Rússlandi er enn þá alls enginn jarðvegur fyrir byltingu og getur ekki orðið um ófyrirsjáanlegan tíma. Í seinni tíð hefir mjög lítið borið á hermdarverkum af' hálfu níhilista og starfsemi þeirra virðist meir og meir vera að nálgast jafnaðarstefnuna. Þess vegna virðist með rökum mega búast við því, að þeir áorki um síðir nokkru til góðs, þótt jafnaðarstefnan sé reyndar jafn ófriðhelg sem níhilisminn á Rússlandi og það megi því á hinn bóginn virðast mannlegum þroska ofvaxið, að berjast þar heilbrigðri jafnaðarbaráttu.

              Eg hefi nú gefið hér — að vísu mjög svo ófullkomið — ágrip af sögu nútíðar anarkisma. Eftir er að skýra það, að svo miklu leyti sem hægt er í fám orðum, hvað anarkismi er.

 

              Anarkismi Proudhons krafðist slíks skipulags á þjóðfélaginu, að sérhver einstakur framleiddi eftir því sem honum þóknaðist og eyddi eftir því sem honum þóknaðist, án þess að aðrir skiftu sér nokkuð af þvi eða nokkur lög væru um það sett. Síðan hafa aðrir anarkistar þróað þessar kenningar í ýmsar áttir, svo að í víðtækustu mynd sinni krefst anarkisminn algerðrar undanþágu frá öllum lögum, engu síður siðalögum heldur en þeim, sem lúta að stjórn eða eignarrétti. Einstaklingurinn á að eins að hlýða lögum sinnar eigin samvizku, tilfinninga og óska. Það er því skýrt, að anarkistar þeir, sem hylla þessa hugsjón, vilja sjá »hverri tign að velli velt, sem veröldin á, og höggna burtu hverja stoð, sem himnana ber«. Er það í sjálfu sér ekki svo mjög að lasta, því óneitanlega er »mannfélagshöll vor öll rifin og fúin ramskekt«, en bezt er þó hóf í hverju máli, og ef slíkt gerðist án þess að nokkuð betra kæmi i staðinn, þá mundi það valda slíkum afturkipp í þróun mannfélagsskipunarinnar, að þess biðust seint bætur. Þessa vanhugsuðu kröfu sína byggja anarkistar á — líklega nokkuð vafasamri — skýringu sinni á kenningum þýzka heimspekingsins G. W. Hegels (1770-1831), sem kendi það, að mannkynssagan lyti hinum sömu lögum og saga einstaklingsins, og taldi það vera markmið sögunnar, að allir menn nyti mannréttinda sinna til fulls. (Um Hegel og kenningar hans, sjá Ág. Bjarnason: »19. öldin« bls. 110-128).

              Það má furðu gegna, að nokkur maður skuli geta verið svo bjartsýnn á manneðlið, að hann óski eftir anarkíi í þessari mynd. Eftir þeirri mynd, sem mannkynið daglega gefur, virðist þó ekki þurfa að fara í neinar grafgötur um það, að úr slíku hlyti að verða einbert skrílræði, sem er engu betra en harðstjórn og einveldi, er sagan hefir þó fyrir löngu dæmt óhæft. En fáir munu þeir meðal hinna vitrari anarkista, er svo langt ganga. Ég hygg meira að segja að þeir, sem það gera, muni vera í stórmiklum minnihluta. Í hinum hagkvæmari myndum sínum er anarkisminn ekki annað en afbrigði þeirrar lýðveldishugsjónar, sem kommúnalismi nefnist, og hefir þá að markmiði myndun lítilla sjálfstæðra fylkja (kommúna), þar sem íbúarnir virða hver annars einstaklings- sjálfstæði, en standa sem einn maður gegn utanaðkomandi yfirgangi. I fullkomnustu mynd sinni er anarkíið þjóðfélag, sem stjórnast af svo góðum siðum, að laga og yfirvalda gerist ekki þörf, og hver maður framleiðir eftir því sem hann megnar og fær alt sem hann þarfnast. Svipuðu þjóðfélagi hefir Robert Blatchford lýst mjög fagurlega í hinni einkennilegu sögu sinni »The Sorcerer's Shop« (Búð töframannsins).

              En er þá anarkisminn helber vitleysa? Það er næsta óliklegt að nokkur mundi spyrja svo um hreyfing þá, sem jafn-stórvitrir vísindamenn eins og t. d. Krapótkin og Elisée Reclus (1830—1905) hafa barist fyrir. Það er alkunnugt, að til þeirrar stefnu hafa talist ýmsir hinna göfugustu manna, sem uppi hafa verið á síðustu mannsöldrum og sumir þeirra látið fyrir það lífið. Er skemst á að minnast Ferrer, sem stofnaði skóla á Spáni og var myrtur þar haustið 1909, eins og íslensk blöð gátu um. (Frá Ferrers-málinu mun »Isafold« hafa skýrt bezt allra íslenzkra blaða). Aðalgallinn á hugsjón anarkista virðist vera sá, að þeir treysta um of á hið góða í manneðlinu. Hún getur því ekki komist í framkvæmd meðan mannkynið er á nokkuð svipuðu þroskastigi sem nú er það. A útbreiðslu-aðferð þeirra hefir það verið stórkostlegur brestur, að þeir hafa viljað ryðja hugsjóninni braut þegar í stað og fæst ráð til þess sparað. Það hefir gert þá svo óvinsæla og hindrað það, að menn kyntust boðskap þeirra. Þeir hafa ekki gætt þess sem skyldi, að allar stórbreytingar i heiminum verða að gerast smámsaman og með breytiþróun. Nýir siðir geta tæplega komið nema með nýjum kynslóðum; eldri kynslóðirnar eru að jafnaði ekki móttækilegar fyrir nýjar kenningar. Þetta munu anarkistar nú vera farnir að sjá, því síðan Ferrer stofnaði skóla sinn á Spáni (sem heldur áfram undir stjórn þess manns, er Lorenzo Portet heitir), hafa risið upp deildir af honum víðs vegar um lönd, þar á meðal i Lundúnum (International Modern School). Auk þess hygg ég, að skoðanir þeirra séu nú meira en áður teknar að samrýmast skoðunum jafnaðarmanna, og er það óneitanlegra vænlegra til sigurs. Hvorirtveggja hafa líka frá upphafi barist fyrir jafnrétti og persónufrelsi; hvorirtveggja óska að sjá þann dag, »er hver maður segir að þýið sé þý og þarf ekki' að bannfærast kirkjunum í, né hengjast að hegningarlögum«, eins og eitt af beztu skáldum vorum hefir kveðið. Og það er aldrei nema mannlegt, þótt einhverjum yfirsjáist, hvað þá í bardagahitanum, þegar bardagamaðurinn er sannfærður um, að sitt mál sé ekki einungis gott og nauðsynlegt, heldur hið eina rétta. Það er sú sannfæringarvissa, sem einatt hefir gefið mikilmenninu þróttinn til þess að berjast og starfa at alhug og leggja alt í sölurnar fyrir málefni sitt.

              Ég hefi persónulega kynst nokkrum anarkistum, körlum og konum. Þess vegna hefi ég oftar en einu sinni verið spurður um, »hvernig fólk þeir væru«. Ef ég ætti að dæma eftir þessum fáu mönnum, þá mundi ég svara, að þeir væru frjálslyndir, örlátir og drenglyndir, en auðvitað hlýtur sannleikurinn að vera sá, að þeir séu eins og hvert annað fólk, og þvi hefi ég svarað. Meðal þeirra eins og annara verður náttúrlega ávalt »misjafn sauður í mörgu fé«, en hitt er fjarstæða, sem mörgum fáfróðum, eins og ég áður tók fram, hættir við að halda, að þeir séu ekkert annað en þorparalýður.

Snæbjörn Jónsson.

 

Til baka í greinar