Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Að „kippa út“ anarkistum og falsa söguna í leiðinni

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu, 14. október 2010.

Það lýsir vægast sagt óvenjulegu árferði að Egill Helgason skrifi varnarræðu fyrir anarkista. Það gerði hann í kjölfar umræðna um „venjulega fólkið" sem fjölmiðlamenn kepptust við að eigna olíutunnusönginn er hljómaði undir stefnuræðu forsætisráðherra nú um daginn. Egill vildi reyndar meina að anarkistar væru hálfmeinlausir þegar upp væri staðið en bætti því við að oft hefðu þeir haft á réttu að standa síðustu árin. Sem dæmi tók hann fjöldamótmælin gegn ráðstefnu Alþjóða viðskiptastofnunarinnar í Seattle árið 1999; mótmæli sem marka tímamót í gagnrýni og andófi gegn alþjóðakapítalisma.

Ólafur Þ. Stephensen ritaði leiðara í Fréttablaðið þann 6. október síðastliðinn. Á sama tíma og hann sagði stjórnvöld verða að hlusta á gagnrýni og kröfur almennings sagði hann óhætt að „kippa út úr dæminu [...] sértrúarsöfnuðunum sem eru alltaf óánægðir hvort sem er, burtséð frá því hvort kreppa er í þjóðfélaginu eða ekki". Samkvæmt Ólafi eru anarkistar einn þessara „sértrúarsafnaða".

Oft er betur heima setið en af stað farið. En ákveðnir karakterar hafa ekki næga sjálfsvirðingu til að þegja þegar þannig á við. Þess í stað ræður hrokinn ferðinni og verður til þess að skrif á borð við ofannefndan leiðara birtast hinum almenna lesanda. Fullyrðingar ritstjórans eru ekki smávægilegar og ber ekki að hunsa. Fyrir það fyrsta fela þær í sér gildisfellingu á hugmyndum og greiningum sem kafa dýpra en gengur og gerist í samfélagsumræðunni almennt. Í öðru lagi eru þær sögufölsun á hæsta stigi.

Samfélag án gagnrýni

Orðræðan og hugmyndafræðin sem hér réð öllu síðustu áratugina hefur verið normalíseruð: Plasthúðaður kapítalismi, sem nefndur er góðæri, er hið eðlilega. Skítug hlið hans, sem nefnd er kreppa, er skekkja. Þessi hugmynd endurspeglast best í orðræðunni um „endurreisn" íslensks efnahagskerfis, sem á ensku heitir back to business as usual. Samkvæmt hugmyndinni er óánægja og gagnrýni samþykkt í kreppu vegna þess að þá finna fleiri lyktina af skítnum. Samofin þjóðernishyggju býr kreppan til ástand þar sem fólk má kvarta og má vera óánægt. Markmiðið með endurreisninni er að endurheimta þögnina - endurheimta samfélag án gagnrýni.

Einhver hefði eflaust haldið að slík viðhorf væru fokin út í veður og vind. Að fleiri hefðu tekið popúlíska U-beygju í anda Guðmundar Andra Thorssonar, sem sumarið 2007 gerði lítið úr anarkistunum í Saving Iceland, kallaði þá „al-kaída krútt-kynslóðarinnar" og „biluð sjónvörp", en tveimur árum, bankahruni og hallarbyltingu síðar, sagði þá vera hugrakka einstaklinga sem fært hefðu til landsins hugmyndir Henry David Thoreau um borgaralega óhlýðni og mennsku ofar þegnskap. Raunverulega hefur þó sáralítið breyst hvað þetta varðar.

Samfélag án yfirvalds

Þegar Eva Joly mætti í Silfur Egils og lýsti því hvernig allir hópar samfélagsins - almenningur, fjölmiðlar, viðskiptablokkin, stjórnmálastéttin, lögfræðingar, dómarar og stjórnvöld - ættu erfitt með að skilja og samþykkja að valda- og áhrifamiklu fólki væri stefnt fyrir dóm, færði hún stoðir undir þá grunnkenningu anarkismans að yfirvald er óhollt mannlegu samfélagi.

Saga mannfélagsins er saga stéttabaráttu, eins og segir í vel þekktu ávarpi, og ríkið hefur í gegnum söguna verið toppur píramídans, oft í samfloti við stórfyrirtæki kapítalista. Alræði ríkis og auðmagns tekur auðvitað á sig misjafnlega hrottalegar birtingarmyndir eftir því hvar á hnettinum við erum og á hvaða tímum. Í grunninn er það þó alltaf hið sama og hafa anarkistar - hreyfing sérstaklega fjölbreyttra hugmynda - greint það og gagnrýnt með orðum og verkum. Ólíkt öðrum ismum hafa þau sem aðhyllast anarkisma aldrei haft vald yfir ríkjum, enda væri það í algjöru ósamræmi við hugmyndafræðina. Það gerir anarkismann líklega að þeirri pólitísku stefnu sem minnst blóð hefur skilið eftir sig. Eins og Egill Helgason benti á í varnarræðunni hafa anarkistar þvert á móti yfirleitt mátt þola kúgun og harðræði.

Út með anarkista – út með þá alla!

Nú vilja einhverjir kippa út anarkistum og þeim líkum. En þá þarf að gera það almennilega. Þá ber að kippa út málvísindamanninum og rithöfundinum Noam Chomsky, hvers fyrirlestur um kreppu kapítalismans fyllti stóran sal Háskólabíós hér um daginn. Úr bókmenntasögunni má þá losna við höfunda á borð við Leo Tolstoy, Oscar Wilde, George Orwell og Philip K. Dick. Arfleið verkalýðsbaráttunnar yrði laus við starf Alexander Berkman og Emmu Goldman og einnig þyrfi að stroka út baráttu þeirra gegn ofsóknum stjórnvalda Sovétríkjanna á andófsfólki eftir byltinguna 1917. Sjálfskipulögð samfélög katalónskra smábænda á tímum spænsku borgarastyrjaldarinnar heyðu þá sögunni til og kvenréttindahreyfingin myndi losna við Louise Michel og Voltairine de Cleyre. Tónlistarsagan yrði frjáls undan pönki Crass, krautrokki Can og verkum bandaríska tónskáldsins John Cage. Myndlistin slyppi við Marcel Duchamp og líklega þyrfti að þurrka út súrrealismann og situationismann. Það sama gilti um samtímagagnrýnendur á borð við John Zerzan og Derrick Jensen, sem rekja þá krísu sem gengur yfir jörðina til þess tíma er maðurinn hætti að lifa í samhljómi við náttúruna.

Þessi upptalning er örstutt, hún inniheldur einungis nöfn sem fengið hafa að lifa í gegnum menningu upphafningar á dægurstjörnum og á í þokkabót einungis við um Evrópu og Bandaríkin. Þessi nöfn eru aðeins agnarsmár dropi í hafi anarkismans; hugmyndafræði með ótal anga, sem þróast hefur í meira en tvær aldir og á rætur að rekja mun lengra, eða allt til Taóisma forn-Kína og láréttra samfélagsstrúktúra frá því fyrir tíma siðmenningarinnar.

Sögufölsunarsöfnuðurinn

Það er kómískt að ritstjóri Fréttablaðsins skuli kenna anarkista við sértrúarsöfnuði því sjálfur tilheyrir hann hópi manna sem klæða sig og hugsa eins, og fara fram í blindri trú á samsuðu alþjóðakapítalisma og vestræns fulltrúalýðræðis. Í sjálfsköpuðu sjónleysi líta þeir framhjá þeim ójöfnuði og kúgun sem kokteillinn skilur eftir sig - en eru á sama tíma forsendur þess að hann virki - og þagga niður í þeim sem rísa upp gegn honum.

Sögufölsunin er þó alls ekkert fyndin. Hún er stórhættuleg. En hún er hluti af starfi hinna ríkjandi afla og hefur alltaf verið. Það að fjölmiðlar ákveði að „kippa út" anarkistum er þó ekki einungis sögufölsun og umræðuþöggun, heldur einnig táknmynd þeirrar meðferðar sem anarkistar og aðrir þeir sem „eru hvort sem er alltaf óánægðir" hafa fengið frá yfirvöldum í gegnum mannkynssöguna og fá enn.

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson

Til baka í greinar