Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarkismi – hvað er nú það?

[Greinin birtist upphaflega í DV undir lok október 2010. Í fyrstu málsgrein setur höfundur fram gamla og leiðinlega klisju um vitlausa anarkistann – þann sem skilgreinir sig í andstöðu en veit hvorki gegn hverju né fyrir hvað hann stendur – sem vitaskuld dæmir sig sjálf. Að öðru leyti er greinin ágætis allra fyrsti inngangur að margbrotnu, blómskrúðugu og litríku hugmyndatré anarkismans. Ritstj.]


Fyrir viku ræddi ég um lýðræðishugmyndir Vilmundar Gylfasonar heitins en hann var einnig veikur fyrir stjórnmálastefnu anarkista. Í ljósi þess að svartir anarkistafánar hafa verið áberandi í mótmælunum undanfarið er kannski ekki úr vegi að taka stefnuna til umræðu hér. En þrátt fyrir stutt kynni á Austurvelli vita fæstir fyrir hvað anarkistar standa – í sumum tilvikum vita þeir það ekki einu sinni sjálfir. 

Vilmundur benti réttilega á að það væri misskilningur, að almennilegir anarkistar boði allsherjarstjórnleysi og upplausn, þvert á móti sé anarkismi manngildisstefna sem boði tiltekið stjórnunarfyrirkomulag. 

Að vísu er anarkismi ansi víðfem kirkja og undir hatti stefnunnar rúmast margvíslegir ólíkir hópar með mismunandi áhugamál og jafnvel gagnstæða sýn á þjóðfélagsskipanina. En það er einmitt sjálfur kjarninn í anarkísku stjórnskipulagi: mismunandi laustengdir hópar sem vinna að ólíkum áhugamálum undir sömu regnhlíf. Til glöggvunar má nefna að hreyfingar kommúnista byggðu gjarnan á starfsemi fámennra sella eftir forskrift anarkismans. 

Andstaða við ríkisvald

Andstaðan við ríkisvaldið er kannski það eina sem anarkistar eiga sameiginlegt. Orðið anarchos kemur úr grísku og merkir án yfirboðara. Anarkistar trúa því að regla geti orðið til í samfélagi án yfirvalds. Í grófum dráttum má skipta anarkistum í tvo hópa, annars vegar félagshyggju-anarkisma (social anarchism) og hins vegar einstaklingshyggju-anarkisma (individualist anarchism). 

Anarkistar geta því allt eins verið fylgjandi trylltri frjálshyggju a la Adam Smith og villtum kommúnisma a la Karl Marx, jafnvel með afnámi einkaeignarréttarins og samnýtingu framleiðsluþáttanna með tilheyrandi eignaupptöku. Anarkistar voru lykilhópur í rússnesku byltingunni en síðar áttu Bolsivikar eftir að ganga þeim á milli bols og höfuðs í hreinsununum þar eystra. 

Afstaða anarkista til ofbelsis er einnig afar mismunandi, sumir þeirra telja réttlætanlegt að beita ofbeldi í baráttunni gegn ríkisvaldinu (revolutionary anarchism) á meðan aðrir aðhyllast algilda friðarstefnu (anarcho-pacifism). Fjöldi þjóðarleiðtoga hafa verið myrtir í nafni anarkismans. 

Ríki náttúrunnar

Segja má að anarkismi sem heildstæð stjórnmálaheimspeki hafi fyrst komið fram með upplýsingunni á átjándu öldinni, svo sem í skrifum Jean-Jacques Rousseau um hinn frjálsa mann í ríki náttúrunnar. Baráttan fyrir lýðræði var svo einmitt færð fram með vísan í meintan samfélagssáttmála sem frjálsir menn hefðu gert með sér í náttúruríkinu. 

Sumir vilja jafnvel rekja anarkíska heimspeki alla leið aftur til taoistanna til forna. Hugtakið var þó lengst af notað sem neikvæð lýsing á þeim sem töldustu ógna samfélagsfriðnum. Það var svo ekki fyrr en í baráttunni gegn jakobínum í aðdraganda frönsku stjórnarbyltingarinnar að menn fóru að beita því í jákvæðri merkingu gegn valdstjórninni. 

Franski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Pierre-Joseph Proudhon var sá fyrsti til að játast anarkisma. Anarkistar sóttu mjög á í uppreisnarástandinu í Evrópu undir miðja nítjándu öldina en þegar íhaldsmenn náðu undurtökum víða í álfunni eftir að hafa hrundið byltingarbylgjunni árið 1848 áttu anarkistar aftur undir högg að sækja.

Gegn fasisma

Það var svo ekki fyrr en í baráttunni gegn fasismanum á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar sem anarkistar fóru að sækja í sig veðrið á nýjan leik, svo sem í spænsku borgarastríðunum, á Ítalíu og í Þýskalandi þar sem uppgangur fasistanna var hvað mestur. Sumir halda því jafnvel fram að anarkistar hafi með baráttu sinni komið í veg fyrir að fasistar hefðu einnig komist til valda í Frakklandi í febrúar 1934. 

Næsta bylgja anarkískrar hugmyndafræði kom svo upp á yfirborðið samhliða öðrum uppreisnarhreyfingum á sjöunda og áttunda áratugnum, svo sem í aðgerðum hústökumanna og ýmissa hópa sem boðuðu óhefðbundinn lífsstíl, eins og til að mynda með stofnun fríríkisins Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Þá vildu margir anarkistar brjóta upp stofnanir á borð við hjónabandið og fjölskylduna og boðu þess í stað frjálsar ástir og annars konar búsetuform. 

Hugmyndaheimur anarkista blandaðist svo einnig inn í pönkhreyfinguna í Bretlandi í textum hljómsveita á borð við Crass og Sex pistols. Anarkistar höfðu þannig áhrif inn í ýmsa aðra baráttuhópa og menningarafkima. Sumir segja að femínisminn sé eitt af afsprengjum anarkismans. 

Undir aldamótin létu anarkistar svo til skarar skríða gegn alþjóðavaldinu með margvíslegum aðgerðum í tengslum við fundi alþjóðastofnanna. Skipulag lítillra laustengdra hópa, svokallaðra svartra sella (black blocks), án áþreifanlegrar yfirstjórnar, sannaði gildi sitt í þeirri baráttu. 

Anarkíst stjórnskipulag hefur hvergi verið prófað nema þá kannski í ríki náttúrunnar til forna, sem við höfum þó engar heimildir um. En aðeins það eitt er nokkuð víst, að margir munu áfram misskilja stefnuna og hártoga eins og hverjum og einum hentar. Kannski að það sé einmitt fegurðin við anarkismann.


Eiríkur Bergmann

Til baka í greinar