Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Gagnsleysi, sekt og guðleg refsing

Listasýningin Ef til vill sek fór fram í október - Steinunn Gunnlaugsdóttir og Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson ræða sekt, refsingu og vinnu

Viðtalið, sem tekið var af Kristjáni Guðjónssyni, birtist upphaflega í DV, þriðjudaginn 21. október 2014 og má því einnig lesa það hér á DV.is

___________________________________________________

 

Ef þú ert úrskurðuð sek um glæp verður þér refsað, hvort sem það er af yfirnáttúrulegum guði, almáttugu ríki eða þínu eigin samviskubiti. Sektin er ein af grundvallarhugsmíðum vestrænnar menningarsögu. Hún markar upphaf mannlegrar tilveru í hugmyndaheimi kristninnar og er jafnvel kjarninn í réttarríki hins evrópska nútíma.

Þessar hugmyndir eru viðfangsefni Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Snorra Páls Jónssonar Úlfhildarsonar í listasýningu eða öllu heldur samtengdu neti athafna sem framkvæmdar hafa verið í Reykjavík á undanförnum vikum undir samheitinu Ef til vill sek. Frekar en að tengjast í rými eða formi, eins og sýningar gera yfirleitt, eru verkin skyld í tíma og efnistökum. Þetta eru myndbandsverk, gjörningar, uppákoma, skúlptúr og ljóðabók sem spinna saman vef hugmynda: glæpur og refsing, vinna og gagnsemi, líkami og trú.

Sjálf eru Steinunn og Snorri Páll ef til vill sek um ýmislegt: að hafa gert árás Alþingi, að hafa brugðist væntingum þjóðfélagsins og að vera gagnslaust vinnuafl – mögulega og ef til vill.

Ef til vill sek.

Til að byrja með, þá virðist nafn sýningarinnar gefa til kynna að í verkunum sé verið að takast á við einhvern efa um að mörk sektar og sakleysis, jafnvel efasemdir um að mörkin séu jafn skýr og oftast er gefið í skyn.

SP: Já, þetta „ef til vill“ hefur í það minnsta tvær merkingar fyrir mér. Annars vegar út frá sjónarhorni valdins, samfélagsins eða kerfisins, þar sem fyrirfinnst þessi skýra stefna: að líta á alla sem mögulega glæpamenn. Þetta birtist í paranoju-samfélaginu, til að mynda eftirlitsmyndavélunum …

S: … og andfélagslegu hlutverki lögreglunnar gagnvart öðrum í samfélaginu. Allir eru mögulega að gera eitthvað af sér.

SP: Í stað þess að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð – frasi sem reyndar getur gefið til kynna viðvarandi ósannaða sekt – eru allir þarna á milli: ef til vill sekir. Hins vegar má sjá nafnið sem spurningarmerki eða beinlínis andstöðu við það hvernig kerfið og hin félagslegu norm skilgreina sektina. Er glæpamaðurinn í raun sekur? Um hvað? Og hvers er skilgreiningarvaldið?

S: Seinasta árið höfum við verið að vinna að tengdum hugmyndum en þó í sitthvoru lagi. Þegar við ákváðum að sýna verkin okkar saman sáum við að þó þau tengist ekki öll undir einni þematískri regnhlíf fléttast þau saman á fínlegan hátt. Við höfðum bæði verið að pæla mikið í glæpum og refsingu – og einnig vinnu. Þessi þrjú stef voru sérstaklega áberandi og nafnið nær að halda utan um verkin sem heild þó að það feli ekki í sér beina tilvísun í hvert og eitt þeirra.

Líkamleg fangelsi

Getum við sagt að það sé einhver niðurstaða úr þessari vinnu? Eruð þið að reyna að bera á borð einhvern sannleika eða koma boðskap á framfæri?

SP: Markmiðið mitt er ekkert endilega að segja: svona á þetta að vera, ekki hinsegin. Heldur miklu frekar að skoða eða upplifa veruleikann sem mætir mér og tjá með einhverjum hætti þá upplifun eða skoðun – og niðurstöðu þessarar skoðunar.

S: Ég upplifi öll þessi sjö verk sem við erum búin að vera að sýna núna sem persónulega úrvinnslu okkar á samtímanum sem við lifum í. Þau snerta á aðstæðum eða ástandi sem margir þekkja eða geta tengt við.

Þessi persónulega úrvinnsla sem þið nefnið kemur til dæmis skýrt í ljós í myndbandsverkunum Maður bíður og Í skuld við réttlætið – fallnar konur. Í fyrra verkinu einangrar Snorri áhorfandann frá heiminum svo maður upplifir sig nánast eins og fanga í vitfirrandi einangrun, en í því síðara fæst Steinunn við réttlætið með animeituðum myndböndum af gjörningum þar sem andlitslausir kvenlíkamar hafa undirgengist ýmsar gerðir refsinga, allt frá afhöfðunum til fangelsunar í nútímanum.

S: Seinustu tvö ár hef ég verið að skoða fyrirbærið refsingu og sögu stofnanarefsinga. Hún er ekki algjörlega ólík svipuhöggum, aflimunum, hengingum eða öðrum líkamlegum refsingum sem oft eru kallaðar barbarískar. Og hún er alls ekki ólíkamleg. Manneskjur eru teknar úr sínu samhengi, þeim er þröngvað inn í rými sem þær vilja annars ekki vera í, gert að haga allri sinni tilveru eftir stífum reglum. Þær eru undir ströngu eftirliti þeirra sem hafa vald til að herða refsinguna enn frekar – gera þeim lífið enn óbærilegra. Og þar sem líkami og hugur eru algjört samkurl – jafnvel eitt og hið sama – hefur fangelsunin líka það markmið að skilyrða og refsa huga fólks og í mörgum tilfellum brjóta uppreisnarandann niður.

SP: Þessi líkamlega nálgun – að gangast við líkamleika félagslegra fyrirbæra á borð við refsingu – hún sameinar líka verkin. Það er vel hægt að kafa á vitsmunalegan, rökrænan hátt ofan í fyrirbæri sem almennt eru álitin ólíkamleg: kerfi, hugtök og hugmyndir. En í grunninn eru samfélög bara líkamar sem öll mannleg tilvera grundvallast á. Þess vegna er áhugavert að nálgast heiminn oftar út frá þessu kroppslega sjónarhorni, spyrja og svara krefjandi spurningum út frá líkamlegu sjónarhorni frekar en vitsmunalegu. Og ekki bara í tengslum við neikvæða þætti á borð við refsingu, heldur einnig hina jákvæðu. Hvað er þá frelsi fyrir líkama? Eða réttlæti?

Árás á Alþingi

Þið voruð í hópi níu einstaklinga sem voru ákærðir í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar svokölluðu fyrir árás á Alþingi. Allir níumenningarnir voru reyndar sýknaðir af árásarákærunni, en það er nánast óhjákvæmilegt að setja þessi verk í samhengi við þetta mál og spyrja: teljið þið það hafa haft mótandi áhrif á sköpun þessara verka?

SP: Ekkert verkanna fjallar með beinum hætti um dómsmálið. En það er eitt að takast á við eitthvað sem maður hefur einungis séð eða heyrt eða lesið um, annað að eiga við það sem maður hefur upplifað á eigin skinni. Sem í þessu tilfelli er sá strúktúr sem ríkið og samfélagið hafa tileinkað sér í tengslum við glæpi og refsingar. Fyrir mér var dómsmálið ákveðin innsýn og innblástur – nýr útgangspunktur.

SG: Þó að við níu höfum öll verið sýknuð af árásinni og öðrum stærstu ákæruliðunum þá var ég, ásamt þremur öðrum, fundin sek um það sem kallað er brot gegn valdstjórninni. Þetta var annað dómsmálið sem ríkisvaldið dró mig inn í og í bæði skiptin var ég fundin sek um eitthvað, þó að ég hafi í hvorugt skiptið verið dæmd til fangelsisvistar. Hjá mér vakti sú reynsla áhuga á dómskerfinu og refsingum. Og ekki síður þeirri staðreynd að sumir upplifa dómsmálin ein og sér sem refsingu, meðal annars vegna þess að meðan á þeim stendur verður valdið sem kerfið hefur tekið sér yfir okkur svo gríðarlega ljóst. Það getur verið ansi yfirþyrmandi uppgötvun.

SP: Vald dómskerfisins felst nefnilega ekki bara í því að geta úrskurðað um sekt fólks. Sýkna er vissulega hentugri svona praktískt séð: að þurfa ekki að taka út frekari refsingu, hvort sem hún er í formi sekta, fangelsunar eða einfaldlega sakaskrár. En valdið felst ekki síður í því að geta úrskurðað um sakleysi fólks. Að beygja sig tilneyddur undir stofnun sem fer með slíkt alvald yfir lífi manns – tekur þessa veigamiklu ákvörðun um framtíð manns – það er refsing út af fyrir sig.

Vinna sem guðleg refsing

Þið sögðuð áðan að vinnan væri eitt af helstu viðfangsefnum ykkar hér. Vangaveltur um vinnuna koma greinilega fyrir í að minnsta kosti tveimur verkanna. Í Kaffistofunni við Hverfsigötu þrífur maður skó í tilgangslausri átta tíma vinnutörn. Ótal útvarpstæki síbylja sitt eilífa suð á meðan skrifborðslampi lýsir upp altariskross úr hækjum. Kaffi, brauð og vín er svolgrað með reglulegu millibili en úrgangurinn: kaffikorgur, pappír, hland og skítur, fyllir rýmið smám saman yfir daginn. Á Nýlendugötu skagar svo MannauðsMountain upp fyrir trjátoppana: ljósaskilti sem minnir ýmist á fjall eða ör sem bendir upp í loft, en þar er líka lítið rúm og grænar nærbuxur. Ljósaskiltið endurtekur hálftilvitnun í poppdrottninguna Britney Spears: Work, work, work bitch – now get to work bitch. En af hverju þessi áhersla á vinnuna, hvernig tengist hún hugmyndunum um sekt og refsingu?

SP: Það er orsakasamhengið: glæpur er framinn og refsingin er vinnan. Sagan segir að maðurinn hefði aldrei þurft að vinna hefði hann ekki óhlýðnast guði. En burtséð frá Biblíusögunum þá fæðumst við óforspurð í þennan heim en höfum svo ekkert val um annað en að vinna til þess að sinna tilveru okkar án þess að „leiðast út á braut glæpa,“ eins og það er kallað. Vinnan er því refsing við þeim glæp að verða til en á sama tíma leið til að forðast frekari refsingu – flókið ástand milli steins og sleggju.

S: Vinnan er nokkurs konar tilraun til að halda sér á floti og forða sér frá því að verða glæpamaður – eða með öðrum orðum: sá sem hefur ofan af fyrir sér með hætti sem almennt er ekki samþykktur.

SP: Í þessu ástandi verður vinnan svo oft að dyggð eða markmiði í sjálfu sér, frekar en að hún sé mögulegt tæki til notkunar á leiðinni að öðru og stærra markmiði.

Vægi augnabliksins

Þessi hugtök sem þið eruð að fást við; reglur, sekt og refsing geta stundum virst vera ekkert minna en nauðsynlegt innihald mannlegrar hugsunar, grundvallareiningar meðvitundarinnar eða siðferðilegs samfélags. Er hægt að ímynda sér hugsun þar sem reglur og sekt koma ekki við sögu? Getum við ímyndað okkar annars konar tilvist en þá sem er undirorpin slíkum hugmyndum?

SG: Ég held að það sé verðugt að stunda þá hugarleikfimi sem oftast og leyfa henni að hlykkjast um mann allan.

SP: Ég sé í það minnsta ekkert jákvætt við það að sætta sig við þá hugmynd að það valdakerfi sem við búum við hafi alltaf verið til í einni eða annarri mynd og muni alltaf endurskapa sig. Auðvitað er eðlilegt að gangast við því að þetta sé slungið viðfangsefni: þessi yfirbygging taki ítrekað á sig sömu mynd hvort sem hún birtist í trúarbrögðum, hagkerfum eða öðrum samfélagsstrúktúrum. En á sama tíma ætti maður ekki að beygja sig stöðugt undir þann þunga bagga. Leitin að einhverju öðru ástandi er nefnilega lífsþráður, bæði í einstaklingsbundnu og samfélagslegu samhengi. Og ekki bara leitin heldur líka framkvæmdin – eða tilraunirnar við framkvæmdina.

Þannig að jafnvel þótt það sé ólíklegt að maður komist undan heftandi takmörkunum ákveðinnar hugsunar eða samfélagsstofnana til frambúðar, þá eru tilraunirnar til þess ekki fullkomlega marklausar?

SP: Já. Það virðist sem hið alltumlykjandi kerfi, sem síðan verður að kerfislægri hugsun, komi í veg fyrir að fólk gangist við ákveðnum augnablikum eða atburðum sem leiðum til að upplifa vissa frelsun undan yfirvaldi. Ef við lítum til dæmis á búsáhaldauppreisnina – ég nefni hana einungis vegna þess að hún er nærtækt dæmi hér á landi – þá myndaðist innan hennar nýtt ástand sem reyndar átti sér stað í afmörkuðum hluta Reykjavíkur, en hafði um leið áhrif í mun stærra samhengi.

S: Þetta kaos sem einkenndi óeirðirnar var ótrúlega göldrótt og fallegt.

SP: Valdahlutföllin snerust auðvitað ekki algjörlega við. En það kom fram skekkja, sprunga í múrinn, sem varð til þess að fólk veitti sér leyfi til að hegða sér með hætti sem venjulega er fordæmdur og glæpgerður. Það eitt hefur ákveðið gildi í sjálfu sér. Þrátt fyrir þá bölsýni að uppreisnin hafi verið til einskis og ekki leitt til neinna stórtækra breytinga – en það er viðhorf sem ég er sammála upp að vissu marki – þá er ómögulegt að líta framhjá vægi sjálfs augnabliksins: hins tímabundna stjórnleysis sem þarna ríkti. 

Til baka í greinar