Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Lögreglumenn bara menn?
Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson
Upphaflega birt 23. október 2013 á vefsíðunni Wheel Of Work

Þar sem menn og náttúra mætast stendur lögreglan þeirra á milli. Ég rímixa hér orð ónefndra höfunda bókarinnar The Coming Insurrection, sem haustið 2008 — með milligöngu breska flugumannsins Mark Kennedy — var brúkuð sem átylla fyrir lögregluárás, gæsluvarðhald og ákærur á hendur níu manns sem síðar urðu einum fleiri: tíumenningunum frá Tarnac sem enn bíða þess að mál þeirra fari fram fyrir dómstólum.

Allri viðleitni manna til að vernda náttúru undan hjólum atvinnulífsins er og verður alltaf mætt af hnefa lögreglunnar, svo lengi sem stöðugur vöxtur efnahagslegrar framleiðslu hefur stöðu þess sjálfgefna. Lífríki Kárahnjúkasvæðisins, regnskógar Latnesku Ameríku, báxítríkar fjallshlíðar Austur Indlands; landfræðileg staðsetning skiptir engu. Á meðan vegur er alltaf skref í átt að framtíð en mosi ávallt aftur- eða íhald, á meðan vinnan göfgar manninn en iðjuleysið spillir, á meðan hola er regla en undantekningin hóll — stendur löggan vörð um framfaragoðsögnina, atvinnufrelsið og rétt skóflunnar.

Það ætti því engum að koma á óvart að lögreglan handtaki fólk sem reynir að standa í vegi fyrir gröfunni í Gálgahrauni, jafnvel þótt meðal þeirra sem hent er í steininn séu virtir músíkantar og feikivinsæll fréttamaður hvers afmælisdagur hefur verið gerður að tyllidegi íslenskrar náttúru. Öll tilhneiging til þess að gera meira úr því að Ómar Ragnarsson hafi verið handtekinn, frekar en þegar ónefndur annar — jafnvel erlendur ónefndur annar — er settur í járnin, er til þess eins fallin að viðhalda menningarlegri stéttskiptingu. Ef spurningin snýr ekki að tilverurétti lögreglunnar sem stofnunar — og þar með tilvist ríkisvaldsins sjálfs — heldur því hvern lögreglan megi handtaka og hvern ekki, mun hún á endanum þjóna því eina hlutverki að viðhalda rétti lögreglunnar til að níðast á þeim sem hún helst trampar á: útjöðrunum og olnbogabörnunum.

Almennt forðast fólk að eiga við spurninguna um hið fyrrnefnda, um tilverurétt lögreglunnar, líklega vegna þess hversu erfið og óþægileg hún er: hún felur í sér efasemdir, jafnvel algjöra höfnun, á samfélagsskipan sem fyrir löngu hefur öðlast stöðu hins óumdeilanlega.

Í sumar skrifaði Haukur Hilmarsson til að mynda um ástæðuleysi þess að hneykslast yfir einni og einni birtingarmynd lögregluofbeldis, hvatti til dýpri og breiðari skilnings á þessu normi — veruleika þar sem fyrsta verk nýborins barns er að afsala sér óaðspurt réttinum til að haga lífi sínu líkt og því sýnist — umfram allt til þess að aldrei skyldi treysta löggum, sérstaklega þeim viðkunnanlegu sem brosa til lýðsins í gegnum myndavélar og samskiptamiðla. Í umræðum sem spruttu upp á vefnum veigruðu sér flestir við því að takast á við og um merkingu orða Hauks, blammeruðu hann í staðinn og létu eins og það væri alfarið ábyrgð hans — sem gagnrýnanda aldagamallar og establíseraðrar kúgunarhefðar — að selja hinum efalausu skyndilausnir í þægilegum umbúðum. Ellegar þegja.

„En lögreglumenn eru bara menn,“ segir svo alltaf einhver, „bara menn eins og við hin.“ Og það er rétt enda segir það í starfsheitinu: þeir eru lögreglumenn. En eins og Hannah Arendt benti á sér heimurinn „ekkert heilagt við hina óhlutbundnu nekt þess að vera mannvera.“ Einber mennskan — það að fólk sé „strípað öllu öðru en því að vera ennþá mennskt“ — hefur sjaldnast komið í veg fyrir að menn séu vondir við menn, menn berji menn, menn fangelsi menn, menn myrði menn. Samhengið er það sem öllu máli skiptir.

Hér er það vinnan sem rammar inn samhengið — og jú, fyrirsjáanlegasti pistlahöfundur landsins, Ólafur Þ. Stephensen, er búinn að minna á að gálgalöggurnar voru „bara að vinna vinnuna sína“ — því starfsheitið bendir aukinheldur á eitthvað annað og meira en mennsku. Löggur eru starfsmenn þeirrar stofnunar sem ein hefur rétt til að beita aðra menn ofbeldi — rétt sem hún fær frá móður sinni, ríkisvaldinu. Það þarf engan anarkista til að gangast við þessum sannindum, játningar má til að mynda finna á síðum lagaprófessorsins Sigurðar Líndal:

Nú er það ágreiningslaust að eitt meginhlutverk ríkisins sé að halda uppi lögum og reglu og þvinga menn til hlýðni. Til þess að rækja þá skyldu hefur því verið veittur einkaréttur til að beita valdi — beita ofbeldi svo að talað sé umbúðalaust.

Auðvitað er löggan ekki ein um stofnanavæddan tuddaskapinn: grunnskólarnir, dómsstólarnir, vistheimilin og fangelsin, svo eitthvað sé nefnt, eru engu óduglegri við iðkun samþjappaðs valds en hinir einkennisbúningaklæddu. Ofbeldi löggunnar er hinsvegar svo auðsjáanlegt, svo sýnilega líkamlegt, framkvæmt af svo tæpitungulausum móð.

Svo áfram sé talað umbúðalaust eru löggur ekkert annað en hundar: varðhundar sem skipa mega öðrum hvuttum — þeim sem ekki eru skreyttir stjörnu — að setjast. Setjist hinir síðarnefndu ekki mega þeir búast við lögverndaðri frelsissviptingu, kærum, ákærum, dómum og eilífri stimplun. Og löggur mega víst líka banna þér að sitja. Á Íslandi heitir það brot á 19. grein lögreglulaga kjósir þú að hagga ekki afturendanum, brot gegn valdstjórninni látir þú hnefa mæta hnefa.

Fyrir útávið talsmönnum lögreglu, dómstólum, bróðurparti þingheims og flokki manna sem gjarnan kalla sig almenning, er þessum lagaákvæðum óhaggað og lögreglumenn ekki annað en boðberar laganna, rétt eins og prestar boða guðsvaldið. Handhafar ofbeldisins eru einungis framkvæmdavaldið sem er mennskt og lumar því á sammannlegri tengingu við viðfangið. Löggjafinn, hins vegar, er hvorki maður né mús heldur óáþreifanleg æðri vera: sannleikurinn um lög og heilaga reglu.

En ef lögreglumenn eru menn ættu þeir einmitt þess vegna að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir, líka á skjön við þennan himneska sannleik. Ef þeir eru menn — og ef mennskan er eitthvað til að flagga sérstaklega sem sameiginlegum eiginleika ólíkra mannskepna — ættu þeir að geta fylgt brjóstviti frekar en skipunum, taktískri hugsun frekar en lærðum fyrirmælum, gáfum frekar en heimsku.

Þess vegna er það beinlínis vitlaust að fagna því og hampa sem tímamótagjörningi þegar fólk, sem við fæðingu var neytt til að afhenda lögreglunni rétt sinn til valdbeitingar, myndaði varnarvegg utan um lögreglumenn sem sjálfir mynduðu varnarvegg utan um stjórnvaldsbyggingu í janúar 2009. Löggurnar höfðu möguleika á því að gera þrennt: standa þarna áfram og taka á móti gangstéttarhellunum; ganga beint til verks, handtaka syndarana og grýta þá jafnvel til baka eins og grískum starfsbræðrum þeirra er tamt; yfirgefa svæðið og lýsa því þannig yfir að þeir verði ekki brúkaðir sem steypuklumpar í múr utan um yfirvöld sem skapað hafa sér svo mikla reiði að fólk leggur frelsi sitt — eins takmarkað og það fyrir er — að veði við að höggva í varnarvegginn.

Þegar lögreglumaður mætir viðfangi — eldrimenni við umferðargötu, manni sem lemur annan mann, mannöpum sem klífa háhýsi og úða málningu á veggi, mönnum sem setjast í veg fyrir vinnuvélar eða hlekkja sig við þær — stendur alltaf á milli þeirra val. Á valinu velta svo viðbrögðin.

Til baka í greinar