Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Hér er fasisminn!

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Birtist upphaflega í 7. tbl. tímaritsins Róstur sem kom út mánaðarlega árið 2010

Óvæntir atburðir áttu sér stað í byrjun október þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína á Alþingi. Í stuttu máli sagt þá spókuðu nýnasistar sig í fjöldamótmælum á Austurvelli, sýndu sig og sáu aðra, veifuðu nýjum flöggum og gömlum, tóku undir í þjóðsöngnum sem spilaður var úr hátalarakerfi sportbars (sem áður var strippbúlla) í nágrenninu og lentu í slagsmálum við anarkista sem rifu af þeim fánana og brenndu. Af þessu tilefni myndu einhverjir eflaust segja: „Íslendingar, velkomnir í heiminn!“

Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu

„Hvert fór fasisminn?“ spurði Finnur Guðmundsson Olguson í 2. tölublaði Rósta (apríl 2010) og svaraði svo sjálfur: Uppgangur fasisma í Evrópu er staðreynd og nú er hann ekki einungis í formi snoðkolla og brúnstakka, heldur miklu frekar í jakkafötum og vel straujuðum skyrtum. Hann hefur aðlagast lýðræðinu. Einhver jakkafatanna komast vissulega ansi nálægt brúnstökkunum, til dæmis Nicolas Sarkozy þegar hann skipar vopnuðum hersveitum að losa sig við Róma-fólk af götum Frakklands. Aðrir fara ögn snyrtilegri leiðir eins og Angela Merkel sem á dögunum drap fjölmenningarsamfélagið með svipuðum hætti og Nietzsche drap guð. Í Hollandi fá Geert Wilder og félagar síaukið fylgi. Þjóðarflokkur Piu Kjærsgaard hefur verið með stærstu flokkum danska þingsins síðustu árin. Sænskur þjóðernisflokkur, hvers forsprakkar eru aldir upp í félagsskap fasista, fékk meira fylgi en nokkru sinni fyrr í kosningum nú á dögunum. Og reyndar eru Bandaríkin ekki undanskilin: Teboðshreyfingin virðist á hraðri siglingu inn í innsta kjarna þarlendra stjórnmála.

Hér á landi höfðum við eitt sinn Frjálslynda flokkinn. Forsprakkar hans sögðust hafa opnað erfiða en þarfa umræðu um málefni innflytjenda en þvertóku fyrir eigin rasisma. Eins og svo mörg keimlík stjórnmálaöfl í Evrópu hafa gert. Flokkurinn fékk yfirleitt sáralítið fylgi og hvarf af sjónarsviðinu eftir þingkosningarnar vorið 2009. En sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og fóru meðlimirnir sínar leiðir, einhverjir í Sjálfstæðisflokkinn og aðrir í nýnasistasamtökin Blood and Honour (1). Nokkrar hræður urðu eftir og kenna sig enn við flokkinn.

Sumir hafa gert lítið úr nýnasistunum á Austurvelli og fullyrt að enginn taki mark á þeim hvort eð er. Ritstjórar stóru fréttablaðanna eru í þessum hópi en einnig anarkisti nokkur sem nefndi til dæmis að honum þætti óhugnanlegra að hafa staðið við hlið Gunnars í Krossinum og Jónínu Ben. Vissulega er Gunnar ekki álitlegasti félagsskapurinn í mótmælum en þetta er samt sem áður ofureinföldun á staðreyndum málsins. Þegar litið er á samhengi hlutanna er ekki erfitt að svara því hvor sé líklegri til geta nýtt sér það ástand sem nú ríkir í íslensku samfélagi, aukið atvinnuleysi og eflda þjóðerniskennd, til að safna fylgismönnum við boðskap sinn: Gunnar eða Nonni nýnasisti?

Velti fólk því fyrir sér hvort hér á landi sé grundvöllur fyrir hreinræktaðan rasistaflokk á borð við ofantalda er svarið nei. Það sem skiptir máli er að alls staðar innan pólitíska litrófsins hérlendis er rými fyrir rasisma. Og ástæðan er rík þjóðerniskennd á alla kanta. Þegar einblínt er á öfgarnar sem birtast í viðveru nýnasista í mótmælum á það til að gleymast hvers vegna slíkir hópar hafa yfir höfuð tilvistargrundvöll. Þjóðsönginn sungu þeir í kór með venjulegum Íslendingum sem fæstir virtust amast við því að sjá hakakrossinn blakta við hlið íslenska fánakrossins. Kannski það sé ekki svo langt krossanna á milli.

Landlægur rasismi: Kerfið

Einhvers konar landlægur rasismi virðist hafa verið við lýði alla tíð á Íslandi. Fram á áttunda áratug síðustu aldar komu, að beiðni yfirvalda, engir þeldökkir bandarískir hermenn hingað til lands. Í grein sem birt var í Fréttablaðinu í ársbyrjun 2007, kallaði Haukur Már Helgason það „fyrirbyggjandi aðgerðir“ og vísaði til þess að umræða um útlendinga hafi í raun aldrei farið fram hér á landi. Það á til dæmis við um stefnu stjórnvalda hvað varðar málefni flóttamanna, sem stöðugt er haldið innan skrifræðisins í stað þess að hún sé rædd á pólitískum vettvangi. Útlendingastofnun er arfleifð heimsóknar íslensks lögreglumanns til Þýskalands árið 1939 þar sem hann lærði polizei-strategie af ekki minni manni en „blóðhundinum Heinrich Himmler,“ eins og Þjóðviljinn kallaði hann. Um þessa staðreynd virðist aldrei hafa verið rætt (2).

Annars konar rasismi birtist í þeirri einföldu staðreynd að Ísland er partur af hnattrænu hagkerfi. Hann felst í því hversu stór hluti fólks í hreingerningarstörfum er af erlendu bergi brotinn og hversu fáir þeirra verkamanna sem byggðu Kárahnjúkavirkjun voru íslenskir. Flestir smiðir virkjunarinnar voru á mála hjá ítalska mafíufyrirtækinu Impregilo. Í júní á þessu ári birti Vinnueftirlitið skýrslu þar sem kemur fram að af þeim 1.700 vinnuslysum sem urðu á meðan á framkvæmdinni stóð hafi í 86% tilvika verið um erlenda starfsmenn Impregilo að ræða. Um núverandi hagi hinna slösuðu útlendinga veit Vinnueftirlitið ekkert og í því felst rasisminn enn frekar. Hann felst í því að framleiðsla útivistarfatnaðar frá 66° Norður hafi verið flutt til Lettlands vegna „óviðunandi samkeppnisstöðu hérlendis“ sem á íslensku þýðir að í Lettlandi er hægt að greiða starfsfólki lægri laun en hér á landi. Og að stórmarkaðir þessa lands séu troðfullir erlendum vörum – banönum frá Níkarakva, súkkulaði frá Fílabeinsströndinni, brasilísku kaffi og indverskum kryddum – sem framleiddar eru af yfirþjóðlegum stórfyrirtækjum með fjárhagslegan gróða eigenda þeirra einan að markmiði.

Hér á landi spilar upphafning íslenska þjóðernisins – sem sumir myndu eflaust segja „hófsama“ – ekki síður stóra rullu og endurspeglast sérstaklega vel í fréttavali og áherslum fréttaumfjöllunar. Aðalforsíðufréttir eru alltaf um innlend málefni og það þykir ekki til tíðinda að heill kvöldfréttatími sjónvarpsstöðva innihaldi ekki orð um erlend málefni. „Íslenskt skyr slær í gegn í Noregi,“ segir á forsíðu Fréttablaðsins þann 28. október síðastliðinn og þegar flett er áfram tekur við hver fréttin á fætur annarri um sérstæði einhvers íslensks: „Íslenska merkið á áætlun“ (um íslenskt umhverfisvottunarmerki), „Heimsþekkt daðurdrottning á leið til Íslands á nýjan leik“ (um kynlífsfræðing sem kominn er til að „endurnýja kynni sín af landi og þjóð“), „Ísland fær samþykki af Hollywood“ (um að bandarísk tryggingarfélög hafi loks, eftir eldgosið í Eyjafjallajökli, ákveðið að gefa grænt ljós á íslenska kvikmyndagerð) og „Borða þar sem Bill Clinton borðar“ (um nýlega myndbirtingu New York Times af Clinton við pylsustandinn Bæjarins bestu). Daginn áður hafði hálf blaðsíða farið undir sögu af íslenskum leiklistarnema sem að öllum líkindum mun sjást í sekúndu í hópdansatriði Hollywood-myndar.

Katrín Jakobsdóttir fjallar um hlutverk fjölmiðla í viðhaldi á þjóðerniskennd í greininni „Ísland í aðalhlutverki,“ sem birtist í bókinni Þjóðerni í þúsund ár? (Háskólaútgáfan 2003). Þar segir meðal annars frá því hvernig fyrirsagnir íþróttafrétta Morgunblaðsins snúa fyrst og fremst að velgengni íslensks íþróttafólks erlendis. Frétt sem raunverulega fjallar um sigur eins erlends handboltaliðs á öðru verður að frétt um hversu margar mínútur íslenskur leikmaður annars liðsins kom við sögu í leiknum. Katrín tekur ófá dæmi um hvernig hlutur Íslands verður ávallt útgangspunktur frétta Morgunblaðsins (þó vissulega megi segja það um íslenska fjölmiðla almennt). Frétt um opinbera heimsókn Davíðs Oddssonar til Slóveníu árið 2000 snerist til að mynda fyrst og fremst um lofsömun þarlends forsætisráðherra á Íslandi. Fyrirsögnin: „Þakklátir Íslendingum fyrir að viðurkenna Slóveníu fyrstir.“ Þetta segir Katrín þó vera viðsnúning á viðurkenningamynstri Morgunblaðsins sem venjulega snýr að því þegar stórveldi á borð við Bandaríkin klappa Íslendingum á axlirnar.

Landlægur rasismi: „Venjulega“ fólkið

Það væri firra að ætla að hver einn og einasti Ísraelsmaður – hvað þá hver og einn gyðingur – sé herskár og Palestínuhatandi síonisti. Ísraelsher stundar auðvitað fjöldamorðsherferð á íbúunum handan múrsins og vissulega starfar ríkisstjórnin í þökk meirihluta kjósenda. En þegar upp er staðið samanstendur Ísraelsríki af fólki sem fer til vinnu, eignast fjölskyldu, horfir á sjónvarpið og guðlastar jafnvel á góðum degi. Fjöldi þeirra Ísraelsmanna sem býr á landsvæðum Palestínumanna á Vesturbakkanum er hafa verið tekin yfir með valdi, fullyrða að búseta þeirra hafi ekkert með pólitískar skoðanir og andúð á Palestínumönnum að gera. Þau hafi einfaldlega vantað ódýrt húsaskjól og myndu glöð flytja á brott byðist þeim betri kostur hinum megin við múrinn.

Þetta er svona venjulegt fólk. Því sama fólki – bara af íslensku gerðinni – var eignað mótmælin ofangreindu og því hampað fyrir hve „venjulegt“ það var. Helstu fjölmiðlar sögðu stjórnvöld verða að hlusta á kröfur þess og koma til móts við þær. En hvaða kröfur? Og hvaða líkindi eru á milli krafa venjulega fólksins og nýnasistanna? Á (ótrúlega óvandaðri) vefsíðu Blood and Honour á Íslandi má finna orðræðu sem finnst hvar þar sem nýnasistar stíga niður fæti. Það er barnalegt að ætla sér að stroka út eða hunsa það sem þar kemur fram vegna lélegrar stafsetningar og málfars. Það eru hugmyndirnar og pólitíkin sem skipta máli. Og það eru líkindin við hugmyndir og pólitík venjulega fólksins sem skipta máli.

Nýnasistar tala um nauðsyn þess að „verja Ísland og Íslendinga á meðan hinir sofa á verðinum,“ láta í ljós andúð á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fullyrða að landsmenn þurfi enga hjálp, heldur geti sjálfir „passað upp á Ísland, íslenska náttúru og Íslendinga, börnin og sjálft gamla fólkið“. Íslendingar hafi í kreppunni komist að því að „útlendingum er slétt sama um okkur þó svo að við höfum spreðað eigum Íslendinga til útlanda“ og það sé „mikilvægt að peningarnir fari ekki úr landi!“  Tönnlast er á meintu víkingablóði í æðum Íslendinga og fólk hvatt til að styðja „innlent hjálparstarf“ í stað þess að senda peninga úr landi. „Nóg er af fátæku fólki hér á landi.“

Hvernig rímar þetta við venjulega fólkið? Þegar Jón Gnarr hitti forseta Slóvakíu í Höfða og mótmælti mannréttindabrotum á Róma-börnum þar í landi brugðust margir ókvæða við og sögðu Jóni að líta sér nær því nóg væri af illa stöddu fólki hér á landi. Í bréfi til fólks sem starfar með flóttamönnum sagði Svandís Svavarsdóttir úr Vinstri grænum að möguleikinn á því að flytja aðstöðu flóttamanna til Reykjavíkur strandaði á atvinnumálum Suðurnesja. Í búsáhaldauppreisninni veturinn 2008-2009 og í nýliðnum mótmælum hefur íslenska fánanum ítrekað verið haldið á lofti, þjóðsöngurinn sunginn og slagorð á borð við „áfram Ísland!“ hlotið breiðan hljómgrunn. Í baráttunni gegn Kárahnjúkavirkjun beittu náttúruverndarsinnar margir hverjir heilagleika þjóðfánans til að stöðva framkvæmdir. Ekkert af þessu fólki eru nýnasistar.

Fasismi í felulitum

Skýrsla forsætisráðuneytisins um Ímynd Íslands og eftirfylgni hennar eru klassísk dæmi um fasisma í felubúningi. Markmiðið var að skapa nokkur meginhugtök meintrar sjálfsímyndar Íslendinga – sem voru kraftur, friður, frelsi – og byggja svo upp ímyndaðan vegg utan um efnahaginn svo ekkert geti fellt hann. Ímyndin lifir af skellinn. Í fyllstu alvöru var rætt um að nýta skáld og listamenn sem sjálfir hlógu eflaust að hugmyndinni en vissu svo ekki fyrr en þeir stóðu innblásnir af Íslandi á stóru sviði í Hljómskálagarðinum þar sem ímyndaruppbyggingin átti sér stað (3).

Alveg eins og landtökufólkið á Vesturbakkanum eru listamennirnir sem spiluðu á útitónleikum Inspired by Iceland bara venjulegt fólk. Alveg eins og landtökufólkinu er ekkert sérstaklega í nöp við Palestínumenn er listafólkinu ekkert endilega neitt sérstaklega annt um ímynd Íslands. Það segist bara þurfa að eiga fyrir salti í grautinn og tæki glatt við einhverju öðru tækifæri ef það bara byðist.

Í baráttunni gegn þjóðnýtingu IceSave skuldanna – sem að mestu leyti var keyrð áfram af Framsóknarflokksfyrirbærinu InDefence – var einna helst byggt á einhvers konar ytri ímynd Íslands og Íslendinga. Í fylgd með fjallkonunni og Sigur Rós stilltu forsvarsmennirnir sér upp fyrir utan breska þinghúsið og á vefsíðu þeirra – sem tugir þúsunda settu nafn sitt við – voru einna helst ljóshærð og bláeygð börn (sem alla jafna má ekki beita í pólitískum tilgangi) sem báru skilti með slagorðum á borð við Icelanders are not terrorists! og Do I look like a terrorist Mr. Brown? Þannig var fullyrt að hryðjuverkamenn hafi eitt ákveðið útlit og það er ekki erfitt að ímynda sér hvaða útlit það er (4).

Eðlilegast hefði verið að þær skuldir sem almenningur hér á landi þarf að borga undan bönkum og auðmönnum, hefðu verið bornar saman við svipaðar aðstæður um alla veröld, til að mynda í sögufrægu efnahagshruni Argentínu árið 2001. Og auðvitað er útilokað að segja að enginn hafi haft það í huga eða framkvæmt það á einhvern hátt. En stærstur hluti þeirra sem að baráttunni komu veifuðu fánum og sögðu að Íslendingar væru svona en ekki hinsegin og vildu þetta en ekki hitt. Útgangspunkturinn var íslenska þjóðernið og var remban svo mikil að undirritaður var meira að segja laminn í höfuðið með íslenskum fána (ekki stönginni heldur rennvotum og níðþungum fána) af kommúnista sem stóð á Austurvelli, mótmælti IceSave og þoldi ekki hróp og köll gegn þjóðrembu.

Mælikvarði á viðbjóð

Í grein í Morgunblaðinu sumarið 2008 spurði ég hvort tilraun Claus von Stauffenberg til að drepa Hitler árið 1944 hefði skemmt fyrir baráttunni gegn nasismanum. Eins og í dag var á þeim tíma algengt að segja beinar aðgerðir náttúruverndarsinna skemma fyrir „raunverulegum náttúruverndarsinnum“. Í kjölfarið var mér bent á að bera aldrei neitt saman við Þriðja ríkið og helförina. Félagi minn sem er gyðingur og anarkisti – and-síonisti og allt það – tók undir það og sagði engu hægt að líkja við atburðina því þeir væru hinir hræðilegustu í sögu mannkyns.

Slík fullyrðing er vafalaust sett fram í góðri trú. En í henni felst mælikvarði á viðbjóð sem setur Þriðja ríkið og þess blóðugu sögu á toppinn. Þannig er stanslaust komið í veg fyrir að nokkrir atburðir komist í návígi við viðbjóð nasismans – ekki vegna þess að hann sé raunverulega hið versta sem komið hefur fyrir mannkyn (eins og það sé hægt að mæla það hvort eð er) heldur vegna þess að um það ríkir þetta samþykki.

Gott dæmi um hvað þessi hugmynd getur og hefur leitt af sér er anti-Deutsche armur róttæku vinstri- og anarkistahreyfinganna í Þýskalandi og Austurríki. Hugtakið anti-Deutsche inniheldur algjöran stuðning við tilvist Ísraelsríkis og flestar, ef ekki allar aðgerðir þess gegn Palestínumönnum, og byggir fyrst og fremst á einhvers konar sameiginlegu samviskubiti vinstrisinnaðra Þjóðverja vegna helfararinnar – atburða sem þessir sömu, þá ófæddu, vinstrisinnar höfðu ekkert um að segja. Vissulega er það rétt hjá mörgum þeirra sem kenna sig við anti-Deutsche að beint og óbeint gyðingahatur viðgengst innan vinstrihreyfingarinnar, til dæmis í tákn- og myndmáli. En þvílík firra að best sé að berjast gegn því með stuðningi við Ísraelsríki og þvaður-slagorðum á borð við að ísraelska ríkið styðji Anti-Fa, alþjóðlega hreyfingu herskárra andstæðinga fasisma.

Þegar einhver vogar sér að líkja ástandinu hér á landi – eða hvaða öðru ástandi annars staðar í heiminum – við millistríðsárin í Þýskalandi og veltir því svo fyrir sér hvort eitthvað svipað gæti gerst og gerðist fyrir og eftir að Nasistaflokkurinn komst til valda árið 1933, ætti ekki að bregðast við með alhæfingum og upphrópunum, heldur ætti fólk að spyrja sig og aðra heiðarlega: Hvað er hér sameiginlegt og hvað ekki? Og hvernig er hægt að koma í veg fyrir stórslys?

Óverðskulduð athygli eða nauðsynlegt viðnám?

Fjölmiðlun fylgja áhrif og ábyrgð. Vorið 2007 bað Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, fjölmiðlafólk um að taka komandi yfirlýsingum andstæðinga stóriðjuvæðingar Íslands um samskipti við lögregluna, með „gagnrýnum huga“. Stuttu áður hafði maður, sem verið hafði viðloðandi andófsbúðir við Kárahnjúka sumarið áður, komið með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar og verið stöðvaður af lögreglumönnum sem sögðu honum að haga sér því annars tækju þeir til sinna ráða, og nefndu þeir sem dæmi möguleikann á því að koma ólöglegum vímuefnum fyrir í bíl hans. Maðurinn sagði íslenskum fjölmiðlum frá hótunum lögreglunnar oög í kjölfarið birtist beiðni dómsmálaráðherra.

Sumarið 2009 gekk yfir hrina málningarslettna á heimili háttsettra bankamanna, útrásarvíkinga og yfirmanna orku- og álfyrirtækja hér á landi. Lögreglu gekk erfiðlega að hafa uppi á listamönnunum á meðan slettunum fór fjölgandi, svo lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að fjölmiðlafólk þyrfti að fara „vandrataðan meðalveg á milli þess að segja fréttir og að veita fólki, sem grefur undan lýðræðis- og umræðuhefð Íslendinga, óverðskuldaða athygli,“ eins og þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins orðaði það. Lögreglan vildi meina að þeir sem slettu málningunni (nú eða skyrinu) þrifust á athygli fjölmiðla.

Með sama hætti mætti segja að með því að gefa nýnasistum og öðrum þjóðernissinnum vægi með fjölmiðlaumfjöllun sé tilgangi þeirra að einhverju leyti náð. Hugmyndir þeirra og viðvera í mótmælum ná þannig athygli fleira fólks en þær myndu annars gera og öðlast sess í þjóðfélagsumræðunni. Hins vegar er ljóst að sú þjóðernisstefna, sem í orðræðu nýnasista hljómar nokkrum áttundum ofar en gengur og gerist almennt, er sömuleiðis stunduð á helstu fjölmiðlum landsins – einungis með öðru orðalagi. Ólíkt umfjöllunum um málningarsletturnar hafa nýnasistarnir pólitískan tilgang, fjórða valdinu í hag. Daginn eftir mótmælin á Austurvelli, hinn 5. október síðastliðinn, talaði blaðamaður Vísis við einn meðlima Blood and Honour (og fyrrverandi frambjóðanda Frjálslynda flokksins) án þess að spyrja raunverulega gagnrýninna spurninga um hugmyndafræði þeirra og aðgerðir.

Einmitt þess vegna ber öðrum og óháðari fjölmiðlum að gefa nýnasistum það vægi sem nauðsynlegt er. Eins og sést á upptalningunni hér að ofan þarf ekki að sækja langt út fyrir landsteinana til að verða vitni að uppgangi fasisma sem hefur aðlagað sig að lýðræðinu í Evrópu. Og það sama gildir um ofbeldisfyllri birtingarmyndir hans: Í Grikklandi vinna nýnasistar náið með lögreglunni, meðal annars þegar kemur að flóttamönnum og ólöglegum innflytjendum. Í nýlegum deilum um ruðning Khimki-skógarins í útjaðri Moskvu, voru samtök nýnasista ráðin af verktakanum til að verja vinnuvélar og annan aðbúnað gegn mögulegum aðgerðum andstæðinga framkvæmdarinnar.

Þessi dæmi og fleiri slík ýta undir nauðsyn þess að horft sé til svipaðra aðstæðna fyrr í mannkynnsögunni, en veita á sama tíma ástæðu til að einblína ekki um of á fortíðina. Hér er fasisminn, í þessum töluðu orðum, kominn til að vera og eitt er víst: Verði honum ekki veitt nægilegt viðnám í orði og á borði, er voðinn vís.

______________________

(1) Dæmi: Hæstaréttarlögmaðurinn og þingmaðurinn Jón Magnússon gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Frambjóðandinn Sigríður Bryndís Baldvinsdóttir er nú í samtökunum Blood and Honour Íslandi og var meðal ný-nasista á Austurvelli.

(2) Sjá nánar í Uppruni Útlendingastofnunar eftir Hauk Má Helgason, vefritið Nei., www.this.is/nei, 29. mars 2009. Stytt útgáfa birtist í Róstum, apríl 2010.

(3) Skýrslan Ímynd Íslands kom út á vegum forsætisráðuneytisins í ársbyrjun 2008 og var afrakstur nokkurra mánaða vinnu nefndar sem leidd var af Svöfu Grönfeldt, þáverandi rektori Háskólans í Reykjavík. Af arfleifð hennar má nefna fyrirbæri á borð við markaðsherferðina Inspired by Iceland og fyrirbærið Íslandsstofu eða Promote Iceland sem var sett á laggirnar í þeim tilgangi „að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða að erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins“ (www.islandsstofa.is).

(4) Anarkistavefsíðan Aftaka (www.aftaka.rusl.org) gerði herferð InDefence skil með seríu mynda þar sem „terroristaleg“ börn og gamalmenni frá Mið-Austurlöndum báru skilti með áletrunum á borð við „We are the terrorists. You can’t take that away from us!“ Seríuna má finna með því að leita að færslunni „Við erum terroristarnir Mr. Brown, don´t forget that!“ (22.10.2008).

Til baka í greinar