Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Konur í hlekkjum hugarfarsins: Staða kvennabaráttunnar 35 árum eftir fyrsta kvennafrídaginn

Helga Katrín Tryggvadóttir
Birtist upphaflega í 7. tbl. tímaritsins Róstur sem kom út mánaðarlega árið 2010.

Í Róm til forna voru hreinar meyjar í hávegum hafðar. Skírlífi þeirra álitið svo mikilvægt fyrir viðhald samfélagsins að á fyrstu öld fyrir Krist voru nokkrar hreinar meyjar, sem voru sakaðar um að hafa stundað kynlíf, grafnar lifandi í neðanjarðarbyrgjum þar sem þær sultu til dauða. Drykkja kvenna var einnig refsiverð í Rómarveldi þar sem hún var samsömuð lauslæti. Við teljum það vera okkur fjarlægt, í því sem við álítum vera samfélög byggð á jafnrétti, að konum sé refsað fyrir að stunda kynlíf og drekka áfengi, en svo er ekki. Enn þann dag í dag virðist sem almenningsálitið telji það vera konum að kenna sé þeim nauðgað á meðan þær eru undir áhrifum áfengis. Í Bandaríkjunum hefur ölvun kvenna jafnvel verið notuð sem vörn ákærðra gerenda í dómsmálum vegna ofbeldisfullra hópnauðgana. Þetta viðhorf skín einnig í gegn innan réttarkerfisins hér á landi þar sem drykkja kvenna er talin hafa neikvæð áhrif á trúverðugleika þeirra í nauðgunarákærum, eins og kom fram í nýlegu viðtali DV við ríkissaksóknara.

Í bókinni History of Sexuality er upphaf hugmyndarinnar um yfirráð yfir ríkjum talið mega rekja til yfirráða feðra í Rómarveldi yfir fjölskyldum sínum, þar sem þeim var veitt leyfi af samfélaginu til að myrða eiginkonur sínar og börn ef þeim sýndist svo. Þar sem þeir hefðu veitt þeim líf hefðu þeir einnig leyfi til að taka það. Rétt eins og líflát feðra á konum sínum og líflát ríkja á þegnum sínum snúast um vald, þá snúast nauðganir einnig um valdbeitingu, sem er e.t.v ástæðan fyrir því hversu oft kynferðisbrot eiga sér stað innan valdapíramída, líkt og innan kirkjunnar.

Enn þann dag í dag eru helstu baráttumál femínista að sporna við nauðgunum, heimilisofbeldi og kynferðislegri áreitni. Allir þessir þættir hafa að gera með ofbeldi sem beitt er af þeim sem ofar standa í valdapíramída samfélagsins, gegn þeim sem lægra eru settir. Það þarf ekki að fela í sér að þeir eigi sér allir stað af hálfu karla og sé beint gegn konum. Foreldrar af báðum kynjum beita börn sín ofbeldi og drengir eru fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar rétt eins og stúlkur. Allt bendir þetta til þess að það sé valdapíramídinn sem er vandamálið fremur en kyn viðkomandi eitt og sér.

Hagnaður byggður á ofbeldi og óöryggi

Á þeim áratug sem fylgdi á eftir kynlífsbyltingu sjöunda áratugarins, með auknu frelsi kvenna til að stunda og njóta kynlífs, virðist sem ímyndir kynlífs í poppmenningu og afþreyingariðnaði hafi breyst. Kynlíf sem byggðist á ást og virðingu var álitið leiðinlegt á meðan einnar nætur gamni var gert hátt undir höfði. Ímyndir klámsins sem áður höfðu dvalið í lokuðum náttborðsskúffum fóru að sjást alls staðar, í auglýsingum, kvikmyndum, sjónvarpsefni og dagblöðum.

Undanfarinn áratug virðist sem klám og þessar ímyndir klámsins séu sífellt að verða grófari. Að sögn Robert Jensen, prófessors í blaðamennsku sem hefur rannsakað klámiðnaðinn í fimmtán ár, hefði hann ekki trúað því þegar hann hóf að kynna sér iðnaðinn að það yrði til heil grein innan klámsins þar sem konu væri riðið af þremur karlmönnum á sama tíma. Nina Hartley, sem hefur verið meðmælt klámiðnaðinum, sagði einnig fyrir hartnær áratug að farið væri að sjást meira af klámmyndum þar sem konur væru dregnar um gólf á andlitinu, hrækt á þær eða höfði þeirra haldið niðri í klósetti. Augljóst er af þessum lýsingum að málið snýst um valdbeitingu en ekki um kynlíf eins og flestir upplifa það.

Þeir sem verja klám vilja meina að gagnrýnendur þess geri of mikið úr ofbeldinu, klám sé leikið og ekki raunverulegt. Svipuð rök eru notuð af þeim sem verja kvenfyrirlitningu opinberlega; að þar sé um að ræða „djók“ og því óþarfi að gagnrýna það. Þeir sem halda þessu fram loka algerlega augunum fyrir því hvaða áhrif djókið og leikurinn hefur á samfélagið. Til að gera tengslin milli kláms og valds skýrari má benda á rannsókn gerða af Ms.Magazine og Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna, þar sem kom fram að helsti munurinn milli þeirra hópa sem höfðu framið eða reynt að fremja nauðgun og hinna sem ekki höfðu gert það var að sá fyrrnefndi kvaðst horfa „mjög oft“ á klám.

Klámiðnaðurinn býr til gjá á milli karla og kvenna og ýtir undir kynferðislega óánægju og ófullnægju beggja kynja. Með því viðheldur hann eftirspurn eftir efni sem veitir þá kynferðislegu útrás og fullnægju, þó skammvinn sé, sem kynin fá ekki hjá hvoru öðru. Á þessari viðvarandi ófullnægju hagnast iðnaðurinn ótæpilega en hann veltir 96 milljörðum dollara á ári. Að auki ýtir klámiðnaðurinn undir óraunhæf útlitsviðmið, sem veldur ennfremur auknu óöryggi. Óöryggi með útlit hefur svo aftur á móti bein áhrif á nautn einstaklinga af kynlífi. Til að mynda neitar stór hluti kvenna að stunda kynlíf berar að ofan, af ótta við að rekkjunautinum þyki brjóst þeirra eða magar ekki falleg. Þetta hefur eins og gefur að skilja neikvæð áhrif á upplifun beggja aðila af kynlífinu. Kynlíf er athöfn þar sem allur líkaminn er þátttakandi, ekki einungis neðri helmingurinn.

Markaður, vald, ofbeldi

Það er ekki bara klámiðnaðurinn sem hagnast á því að gjá sé á milli kynjanna sem kemur í veg fyrir raunverulegan skilning og virðingu, heldur hagnast tísku- og snyrtivöruiðnaðurinn líka á því, svo ekki sé minnst á lýtalækna og megrunariðnaðinn. Á vefsíðunni www.antipornmen.org, er bent á það að konur sem neiti að viðurkenna ómannúðlega fegurðarstaðla, sem eiga uppruna sinn í klámi, auglýsingum og afþreyingariðnaði, eru spottaðar og kvaldar af karlmönnum, öðrum konum og fjölmiðlum. Einnig má benda á að margir kvenkyns femínistar hér á landi sem hafa tjáð sig um málefni tengd klámvæðingu og kynbundnu ofbeldi hafa verið ófrægðar á netinu og í fjölmiðlum og jafnvel orðið fyrir beinum og óbeinum hótunum um nauðganir eða kynferðislega misnotkun, bæði á opinberum vettvangi og í einrúmi.

Þegar kemur að vændi er staðan svipuð, vald og möguleikinn á yfirráðum yfir annarri manneskju virðist skipta meira máli en kynferðisleg fullnægja þess sem það stundar. Í bókinni Promiscuities eftir Naomi Wolf á höfundur samtal við fyrrum strippara sem hafði snúið baki við þeirri atvinnugrein. Hún sagði að samkvæmt hennar reynslu kæmu karlmenn fram við konur í klámiðnaðinum með algerri vanvirðingu: „Þeir geta sagt hvað sem þeir vilja, þeir geta gert hvað sem þeir vilja, þeir geta verið eins vanþakklátir, viðbjóðslegir, ofbeldisfullir, grimmir og tillitslausir eins og þeir vilja. Og það er álitið í lagi. Þeir þurfa ekki að sýna konunni minnstu virðingu sem manneskju. Hún er ekki manneskja, hún er hlutur“. Oft er vændi varið með því að það sé réttur karla sem ekki stunda kynlíf á annan hátt. Er það þá líka réttur karlmanna að hafa aðgang að manneskjum til að fá útrás fyrir ofbeldi og árásargirni?

Það er ekkert sjálfsagt við það að karlmenn beiti konur ofbeldi eða hafi löngun til að niðurlægja þær, hvort sem sú ofbeldisfíkn er tekin út á hórum, fatafellum, eða hennar „neytt“ í áhorfi á klám. Þetta er afurð menningar okkar sem er gegnsýrð af ofbeldi og valdafíkn. Þetta er afurð menningar sem byggir á valdapíramída en til þess að komast upp hann er nauðsynlegt hafa einhvern annan undir. Þetta er afurð efnahagskerfis sem byggir á þeirri nauðsyn að vera í stöðugu stríði til þess að geta viðhaldið hagvexti. Í samfélögum sem byggja á stigveldi er það innbyggður hluti þess að reyna að troða á þeim sem eru lægra settir en maður sjálfur, eins og má glögglega sjá innan valdapíramída herja. Hafi menn engan annan til að níðast á er níðst á konum og börnum. Þetta má til að mynda merkja í ýmissi tónlist og menningarsköpun undirmálshópa, þar sem ofbeldið og virðingarleysið sem karlmenn sem tilheyra minnihlutahópum verða fyrir í samfélaginu endurspeglast í virðingarleysi þeirra fyrir konum. Til þess að ná fram jafnrétti kynjanna er því líka nauðsynlegt að takast á við rasisma og stéttskiptingu.

Forréttindafemínismi

Víða erlendis hefur farið fram mikil gagnrýni á það að þær konur sem helst tjái sig um femínisma komi úr forréttindastöðum samfélagsins, að það séu hvítar, vel menntaðar, millistéttarkonur. Í raun sá hluti kvenna sem minnst er kúgaður. Því sé baráttan lituð af þeirra lífssýn fremur en af aðstæðum meirihluta kvenna. Undanfarið virðist sem konur í forréttindastöðum samfélagsins séu jafnvel hættar að tala um það að fá jöfn tækifæri og karlar, því þær telja sig hafa þau nú þegar. Þessvegna geta þær með góðri samvisku lokað augunum fyrir því misrétti sem kynsystur þeirra verða fyrir, því þær telja sér trú um að það misrétti sé einstaklingsbundið en ekki afurð samfélagsins sem þær sjálfar eru hluti af. Femínistinn Bell Hooks heldur því fram að: „Mikill meirihluti kvenna sem hefur hagnast á einhvern hátt af femínisma vill ekki láta líta á sig sem talsmenn femínisma. Annað hvort forðast þær að ræða um hann eða gera lítið úr honum“. Þetta viðhorf má til að mynda sjá í viðtali Fréttatímans við sjónvarpsfréttakonu RÚV, Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur: „Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að konur séu alltaf að velta sér upp úr því að þær séu konur og að þeim sé mismunað af því að þær séu konur“.

Oft er talað um að það sé nauðsynlegt til að ná fram jafnrétti að konur nái meiri völdum innan fyrirtækja. Þrátt fyrir það sjá flest allar stofnanir í samfélaginu, einkum stórfyrirtæki, sér lítinn hag í því að breyta sínu valdaskipuriti. Því hleypa fyrirtækin einungis þeim konum á toppinn sem hugsa nákvæmlega eins og þeir sem voru þar fyrir. Franski femínistinn Antoinette Fouque hélt því fram að borgarasamfélagið, kapítalismi og karllægni hefðu möguleika á að innlima eins marga femínista og þyrfti til að halda óbreyttri samfélagsskipan. „Þar sem þessar konur verða eins og karlmenn mun þetta einungis enda með því að í samfélaginu verði fleiri karlar. Munurinn á milli kynjanna er ekki hvort manneskjan hefur eða hefur ekki typpi, heldur hvort hún er fullkomlega innlimuð í karllægt efnahagskerfi.“ Þess vegna má spyrja sig þeirrar spurningar hvort hin mikla áhersla sem kvenréttindabaráráttan hér á landi hefur lagt á jöfn réttindi innan vinnustaða sé angi af þessum meiði, erum við einungis að veita sumum konum frelsi á kostnað annarra? Hver hugsar um börn kvennanna sem eru forstjórar fyrirtækja? Hver þrífur húsið þeirra? Annað hvort felur þetta í sér meira vinnuálag fyrir konurnar sjálfar eða þessum störfum er sinnt af öðrum konum sem oft eru af annarri stéttarstöðu, með annan húðlit. Á meðan kvennabaráttan snýst einungis um að troða nokkrum útvöldum konum jafnfætis körlum munu valdakerfi arðráns og kúgunar viðhaldast.

En hvað þá?

Við erum sundraðar, bæði sem konur og sem femínistar. Margbreytileiki femínismans veldur því að hann er barátta fyrir öllu og engu. Áhuginn á femínisma sem róttækri pólitískri hreyfingu hefur dalað – róttækri í þeim skilningi að hann leitist virkilega við að breyta samfélaginu í heild sinni. Við virðumst helst tengja femínisma við „leyfið“ til að taka okkur frí hálft eftirmiðdegi einu sinni á fimm ára fresti. Talað er um jafnan aðgang, kynbundið ofbeldi og launamun, en enginn minnist einu orði á orsök þess að þessum þáttum er viðhaldið í samfélaginu; menningu stigveldis og kapítalisma. Það eru bannorðin sem engin málsmetandi kona vill tengja sig við.

Gallinn við kvennabaráttuna hér á landi, femínismann í heild sinni, er ekki sá að einungis öfgaraddirnar heyrist, eins og margir halda fram, heldur að hún hefur ekki verið nógu róttæk, hún gengur ekki nógu langt í kröfum um algjörar breytingar. Helsta áhersla kvennabaráttunnar hér á landi hefur verið á afnám lagalegra hindrana og möguleika kvenna innan vinnumarkaðarins. Eins og sjá má hér að ofan virðist þó sem það hafi síður en svo dugað til að binda enda á misrétti, ofbeldi og drottnunarsýki sem gegnsýrir menningu okkar. Því verður barátta femínismans að beinast gegn valdakerfum í heild sinni, til að binda enda á alla kúgun, hvort sem hún byggir á rasisma, stéttskiptingu eða kyni. Fyrir þá sem vilja berjast gegn kúgun og valdbeitingu í heild sinni er hins vegar gríðarlega mikilvægt að takast á við kynbundna kúgun. Það er venjulega það kerfi yfirráða sem við lærum í frumbernsku og aðlögum okkur að. Áður en við erum búin að ná skólaaldri erum við venjulega búin að gera sjálfsmynd þess undirokaða eða þess sem drottnar, að okkar eigin sjálfsmynd. Þess vegna er mikilvægt að við horfum öll í eigin barm og byrjum á því að losa okkur við þessa kúguðu-kúgara sjálfsmynd.

Margir virðast haldnir þeim misskilningi að femínistar berjist gegn karlmönnum. Sá misskilningur er afar óheppilegur en byggist vafalaust á því að það er oft erfitt að útskýra baráttu sem beinist gegn kerfi, en ekki gegn einstaklingum innan kerfisins. Kerfið sem við búum við er vissulega uppbyggt þannig að karlmenn sem heild hagnast meira á því en konur, en það er þó einföldun á flóknum veruleika. Raunin er sú að bæði konur og karlar græða á kerfinu og bæði konur og karlar eru kúguð af kerfinu. Til þess að breyta kerfinu er þátttaka bæði kvenna og karla nauðsynleg. Hvernig væri að karlmenn færu að fordæmi þeirra sem stofnuðu vefsíðuna www.antipornmen.org og tækju virkari þátt í jafnréttisbaráttunni? Kannski er þeirra tími kominn, og ekki bara fyrir kvenna sakir, heldur fyrir þeirra eigin andlega heilbrigði og jafnvægi í samfélaginu.

Frekari lesning:

www.antipornmen.org

www.guardian.co.uk/culture/2010/oct/25/men-believe-porn-is-wrong

Naomi Wolf. Promiscuities og The Beauty Myth

Bell Hooks. Feminist Theory: From Margin to Center.

Michel Foucault. History of Sexuality.

Til baka í greinar