Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Ludditar og kapítalistar

Sigurður Harðarson
Birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 26. maí 2011

Það er háð pólitískri meðvitund hvers þess sem skoðar söguna hvernig samfélagshreyfingar eru túlkaðar í bókum síðar meir. Eftir hverja styrjöld eru það sigurvegar hennar sem skrásetja.

Heitið „Ludditi“ hefur, á seinni tímum, verið gefið hverjum þeim sem ætlað er að vera á móti tækninýjungum almennt og neitar að aðlagast þeim. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri viðskiptaráðs, kemur inn á samfélagshreyfingu Luddita, í Englandi árið 1811, í Morgunblaðsgrein: „Ludditar“ og gamlar hugmyndir“ þann 20.05.

Hann skrifar: „Ludditar voru þeirrar skoðunar að aukin nýting véla og tækni drægi úr atvinnu og leiddi til fátæktar.“

Það er rétt söguskoðun en það er aðeins hálfur sannleikurinn því að þeir textilverkamenn sem mynduðu kjarna hreyfingar Luddita, höfðu ekki einungis þessa skoðun heldur lifðu þeir atvinnumissinn og hungrið. Á þessum tíma, við upphaf iðnvæðingar, voru vefarar sjálfstæðir menn, þeir unnu bómullina heima, hreinsuðu hana, spunnu þráðinn og ófu með aðstoð fjölskyldunnar. Hver þeirra gat unnið eins mikið eða lítið og þörf gerðist og þess á milli ræktað sinn jarðarskika. Þetta var fátækt fólk en stolt og óháð og það hafði stjórn á eigin lífi.

Með iðnvæðingu vefnaðarvinnu voru reistar afar mengandi verksmiðjur með spunavélum hönnuðum þannig að einn fullorðinn og tvö börn gætu höndlað ekki færri en 600 spindla. Tilkoma verksmiðjanna þýddi að verkafólk (börn þar með talin) var þvingað til langra vinnudaga við erfiðar og hættulegar aðstæður, lág laun, líf á hungurmörkum og ekkert frelsi. Handverksfólkið var svipt því að vera tiltölulega sjálfráða. Heilu sýslurnar, þar sem áður voru þúsundir lítilla samfélaga, voru endurskipulagðar eftir því sem hentaði verksmiðjuhöldurum. Margir íbúanna sultu í hel, aðrir, til að forðast hungurdauðann, neyddust til launaþrældóms í verksmiðjum sem voru bókstaflega hannaðar í stíl við fangelsi.

Það voru þessar þvinguðu breytingar sem urðu hvatinn að uppreisnarhreyfingu Ludditanna. Þetta var sjálfsvörn samfélags sem elítan og yfirvaldið setti þá afarkosti að þræla í verksmiðjum eða deyja hungurdauða. Finnur Oddsson segir að þetta fólk hafi ekki áttað sig á almennt bættum lífskjörum byggðum á hagkvæmari framleiðslu og aukinni framleiðni. Örugglega hefur hagvöxtur aukist þegar breski herinn var búinn að framfylgja þeim dauðadómum sem skyndilega voru lögfestir fyrir brot véla í eigu kapítalista. En það var þegar orðið þreytt, árið 1811, að hampa hagvexti sem góðum rökum fyrir átroðningi á manneskjur og samfélög. Það er sú söguskoðun sem sagnfræðingar grasrótarinnar setja fram í sínum bókum. Hún er auðvitað á skjön við söguskoðun sigurvegaranna.

Nú er ekki svo að ríkinu sé treystandi til að misnota síður viðkvæma auðlind eins og fiskistofna en litlum hópi kapítalista. Finnur Oddsson vill meina að einungis kapítalistaelítu þessa lands sé treystandi til þess og gengur útfrá annarri speki sem líka er orðin þreytt; að það sé gott fyrir samfélagið í heild sinni þegar einhverjir fáir græða.

Ég er hinsvegar sannfærður um að það sem hollast sé fyrir öll samfélög sé að taka ábyrgð á sjálfu sér, taka ábyrgð á eigin auðlindum, ábyrgð á eigin heilsu. Samfélag þarf að læra að lifa og dafna án þess að litlir forréttindahópar taki ákvarðanir fyrir það og ráðskist með auðlindir sem eiga að heita í eigu samfélagsins alls.

Til baka í greinar