Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

ANDSPYRNA nr. 1

Eftirfarandi texta var dreift af hópi anarkista í mótmælagöngu frá Hlemmi að Austurvelli laugardaginn 1. nóvember 2008, stuttu eftir hrun íslenska efnahagskerfisins.

Sá veruleiki sem Íslendingar þekktu er nú hruninn. Fólk hefur verið férúið og yfirvofandi er atvinnuleysi, ofurvextir, einangrun, skuldaþrældómur og skortur.

Sumir hrópa að kapítalisminn, ríkjandi hugmyndafræði síðustu áratuga, sé fallinn. Það er  hins vegar langt í frá. Þvert á móti er hann að þróast og nú eru að skapast bestu mögulegu aðstæður fyrir algjörlega hömlulausan kapítalisma. Og kannski var það alltaf markmið hans að koma á því ástandi sem hér ríkir nú, einfaldlega því þannig færist fjármagnið á enn færri hendur.

Kapítalismi snýst ekki um fólk og hefur aldrei gert það. Hann snýst um peninga númer 1, 2 og 3 – stanslausan gróða. Svo lengi hefur hann blóðmjólkað jörðina og íbúa hennar í uppgangi sínum. Frá upphafi iðnvæðingarinnar hefur sú hugmynd ríkt að auðlindir jarðarinnar verði að gjörnýta, burtséð frá því hvort þær séu ótæmandi eða ekki. Með þessa hugmynd að leiðarljósi hafa heilu landsvæðin og samfélögin verið lögð í rúst, stríð verið háð og óteljandi mannslíf tekin. Nærtækt dæmi er innrásin í Írak.

Fram að þessu höfum við verið hluti heimselítunnar og því aldrei upplifað grimmd kapítalismans á eigin skinni, þó við séum fullmeðvituð um hvaða áhrif okkar velmegun hefur haft á aðra hluta heimsins. En nú er komið að okkur.

Íslensku viðskiptabankarnir skulda og þeir sem bera raunverulegu ábyrgð á því notuðu upp alla sjóði og miklu meira en það. Þeir ætla ekki að borga og skuldirnar sitja því á okkar herðum. Þetta er kapítalismi.

Nú verða tekin lán til að borga upp önnur lán og íbúar landsins seldir í skuldaþrældóm. Við verðum þrælar alþjóðlegs kapítalisma með hinn blóði drifna Alþjóða Gjaldeyrissjóð í fararbroddi. Aðkoma hans að enduruppbyggingu fátækra ríkja hefur fyrst og fremst skilið eftir sig sviðna jörð.

Ísland er paradís fyrir Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn. Hér eru ónýttar náttúruauðlindir og veiklynd og vanmáttug ríkisstjórn með hækjur – leppstjórn annarra ríkisstjórna. Þar að auki hefur íslensk andspyrna yfirleitt verið fámenn og lítil. Á matseðli Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins er taumlaus eyðilegging jökuláa og jarðhitasvæða og einkavæðing samfélagsþjónustu og náttúruauðlinda, þ.m.t. orku og drykkjarvatns.  Við þurfum að koma í veg fyrir þetta og útrýma kapítalismanum.

Umbótahugsjónir og þjóðernishyggja eru ekki lausnin. Við verðum að kollvarpa kerfinu og byggja upp nýtt samfélag frá rótum, þar sem við sameinumst baráttu fólks alls staðar að úr heiminum, gegn kapítalisma. Allt tal um að á krepputímum þurfi hver ‘þjóð’ fyrst og fremst að hugsa um sig, er rangt og kemur í veg fyrir raunverulegan árangur. Sigri verður ekki náð nema með samstöðu og án yfirvalda.

Andspyrna, fyrir frelsi!
Gegn óréttlæti!
Gegn ójafnrétti!
Gegn kapítalisma!

Til baka í greinar