Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Reykjavík
5. desember 2017


Yfirlýsing vegna umfjöllunar Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi um mótmælin við heimili Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, árið 2009

Við sem þetta skrifum tókum þátt í fjölda mótmælaaðgerða gegn flóttamannastefnu íslenskra stjórnvalda á árunum 2008 til 2010. Mótmælin sem fram fóru nokkrar kvöldstundir fyrri part ársins 2009 við heimili Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, voru haldin vegna brottvísana flóttamanna frá Íslandi til óöruggra ríkja sem í sumum tilfellum höfðu þá þegar hafnað hælisumsóknum viðkomandi einstaklinga og hugðust senda þá aftur til þeirra landa sem þeir upphaflega flúðu. Rauði krossinn á Íslandi var meðal þeirra sem gagnrýndu þessar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda harðlega, en þær fólu í sér kerfisbundna misnotkun á Dyflinnar-reglugerðinni sem á þeim tíma var kjölfestan í annars óorðaðri flóttamannastefnu íslenska ríkisins, stefnu sem kastljósið beindist í auknum mæli að í kjölfar ríkisstjórnarskiptanna í febrúar 2009.

Brottvísanir voru á þessum tíma nánast undantekningalaust framdar í skjóli nætur. Lögreglumenn birtust þá fyrirvaralaust að dvalarstöðum flóttafólks, handtóku þar þann einstakling sem vísa átti úr landi og færðu á lögreglustöð þar sem hann var látinn dúsa yfir nótt svo færa mætti hann með valdi í flugvél morguninn eftir. Heppni þótti ef viðkomandi flóttamanni tókst að láta einhvern aðstandanda vita af handtökunni og það heyrði til algjörra undartekninga ef honum var gefinn kostur á að kveðja sína nánustu. Þar af leiðandi voru flóttamenn margoft handteknir og sendir úr landi án þess að eiga þess kost að búa sig andlega undir þá þraut, og án þess að geta kvatt maka, vini og samstarfsmenn. Þessar aðgerðir yfirvalda ollu gríðarlegri sálrænni skelfingu í samfélagi flóttamanna, ekki aðeins meðal þeirra sem handteknir voru hverju sinni og aðstandendum þeirra, heldur einnig meðal annarra íbúa á dvalarstöðum flóttamanna sem höfðu þannig ríka ástæðu til að óttast að eins færi um sig.

Í frétt Ríkissjónvarpsins furðaði Ragna Árnadóttir sig á því að ekki hafi einfaldlega verið mótmælt við þær stofnanir sem ábyrgð bera á brottvísunum flóttamanna, þar á meðal ráðuneytið sem hún var á umræddum tíma í forsvari fyrir. Staðreyndin er sú að með því að fremja þessi sálrænu hryðjuverk sín ítrekað í skjóli nætur reyndu yfirvöld augljóslega að hlaupast undan athygli og andófi. Þegar vel tókst til var hægt að handtaka flóttamann á heimili sínu stuttu eftir lokunartíma opinberra stofnana og koma honum út fyrir lofthelgina rétt fyrir opnunartíma sömu stofnanna næsta dag. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður þjónar engum tilgangi að mótmæla við fyrrnefndar stofnanir. Fjöldi mótmæla hafði áður átt sér stað fyrir utan þessar stofnanir, bæði hvað einstaka brottvísanir varðaði sem og í tengslum við flóttamannastefnu íslenskra stjórnvalda almennt, og fólu mómælin við heimili Rögnu enga varanlega breytingu í sér hvað það varðar. Þau voru einfaldlega neyðaraðgerðir, framkvæmdar í aðstæðum þar sem fá önnur úrræði voru fyrir hendi.

Það kemur okkur ekki á óvart að Rögnu hafi þótt mótmælin óþægileg. Það hefur áður komið fram í viðtölum við hana, auk þess sem það var beinlínis markmiðið með þessum neyðaraðgerðum að setja sem þyngsta pressu á ráðherrann, eina opinbera aðilann sem í ofangreindum aðstæðum gat stöðvað fyrirhugaðar brottvísanir. Það gaf alla tíð auga leið að ekki yrði þægilegt að sitja undir slíkri pressu. Hafi óþægindin aftur á móti komið hinum nýja ráðherra á óvart, hún ekki gert ráð fyrir því að þau myndu fylgja starfinu eða ekki þótt hún hafa unnið sér þau inn, er ómögulegt að lýsa ekki yfir undrun. Æðsti yfirmaður þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á framkvæmd þeirrar ofbeldisfullu aðskilnaðarstefnu sem kerfisbundnar brottvísanir flóttafólks fela í sér, með tilheyrandi upplausn fjölskyldna og félagsneta, hlýtur að gera sér grein fyrir alvarleika starfs síns og mögulegum afleiðingum þeirra hversdagslegu illskuverka sem ráðherrann skrifar endurtekið undir.

Óþægindi ráðherrans eru smávægileg miðað við þau óþægindi, svo vægt sé til orða tekið, sem brottvísunarstefnan hefur leitt af sér. Ekkert undirstrikar með skýrari hætti aðstöðumun ráðherra annarsvegar og flóttamanns hinsvegar en sú einfalda og augljósa staðreynd að í tilfelli ráðherrans er það lögbundið hlutverk lögreglunnar að verja hann fyrir óþægindunum, en í tilfelli flóttamannsins er það einmitt sama lögregla sem veldur óþægindunum í umboði fyrrnefnds ráðherra. Ráðherrann, sem eitt andlit ríkisvaldsins, fékk þarna rétt svo að lykta af eigin meðölum.

Í umfjöllun RÚV voru mótmælin sett í samhengi við efnahagshrunið 2008 og þeim vangaveltum gefið undir fótinn að skýra megi mótmælin með vísan til ákveðins tómarúms sem kalla mætti siðrof og gjarnan er sagt hafa myndast á Íslandi á umræddum tíma. „Vorum við með réttu ráði?“ spurði Ragna sjálf í viðtalinu og svaraði: „Ég bara veit það ekki.“ Við höfnum algjörlega þessari eftiráskýringu fyrrum ráðherrans, sem virðist til þess eins gerð að gera lítið úr ástæðunum fyrir umræddum mótmælum. Megi rekja mótmælin til einhverra siðferðisbresta í undirstöðum íslensks samfélags felast þeir brestir einmitt í áðurnefndri brottvísanastefnu. Við sem að mótmælunum stóðum vorum ekki týnd í einhverju tómarúmi, hvað þá „ekki með réttu ráði,“ heldur þvert á móti einbeitt í því markmiði okkar að stöðva umræddar brottvísanir með þungri pressu.

Fréttastofan setti mótmælin einnig í samhengi við hina femínísku #metoo-bylgju. Slík tilraun til samhengismyndunar er misvísandi og felur að okkar mati í sér alvarlega misnotkun á þeirri mikilvægu baráttu gegn kerfisbundnu ofbeldi sem fyrrnefnd bylgja snýst um. Mótmælin höfðu nákvæmlega ekkert með kyn ráðherrans að gera, heldur þá einföldu staðreynd að hún var á umræddum tíma æðsti yfir- og ábyrgðarmaður þeirra mála sem mótmælin beindust gegn. Okkur vitandi var ráðherranum hvorki hótað kynbundnu ofbeldi né var kyn hennar með nokkrum öðrum hætti dregið inn í mótmælin eða opinbera umræðu um þau.

Hafi Ragna Árnadóttir mætt lítilli samúð og máttlausum stuðningi meðal samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem eigi rætur að rekja til þeirrar kvenfjandsamlegu menningar sem augljóslega grasserar ekki síður innan stjórnmála- og valdastéttarinnar en annars staðar í samfélaginu, er auðvitað skiljanlegt að hún og fréttastofa RÚV setji málið í samhengi við #metoo-bylgjuna, en beini þá spjótum sínum að stjórnmálastéttinni frekar en þeim sem mótmæltu. Í því sambandi er reyndar vert að minnast þess að í mótmælum sem um svipað leyti fóru fram við heimili Hauks Guðmundssonar, þá forstjóra Útlendingastofnunar, gekk lögreglan talsvert harðar fram gegn mótmælendum, bannaði þeim meðal annars með líkamlegu valdi að komast í sömu nánd við heimili Hauks og náðst hafði við heimili Rögnu, og handtók á endanum sjö þeirra. Hugsanlegt er að þetta misræmi í viðbrögðum lögreglunnar sé dæmi um ójafna stöðu kynjanna innan valdastéttarinnar.

Brottvísanastefnan í málefni flóttamanna og sá mannfjandsamlegi leikur að lífum sem í henni felst er ein birtingarmynd kerfisbundins ofbeldis sem bitnar á tilteknum hópi fólks umfram aðra. Baráttan fyrir frelsi og réttindum flóttafólks er náskyld annarri baráttu gegn því marglaga og kerfisbundna ofbeldi sem viðgengst í samfélaginu, hvort sem það beinist gegn fólki sökum kyns þess, kynhneigðar, kynvitundar, trúar- og lífsskoðana, stéttastöðu, heilsufars, fötlunar eða annarra þátta. Þegar valdhafi málar upp mynd af sér sem þolanda í aðstæðum þar sem hann sjálfur er meðal gerenda í ofbeldismálum, sem brottvísanir flóttafólks auðvitað eru, er hann fyrst og fremst að reyna að beina athyglinni frá þeirri ábyrgð sem hann ber á umræddu ofbeldi og þagga um leið niður í og smána þá málefnalegu gagnrýni sem að störfum hans beinist. Slíkt á valdhafi aldrei að komast upp með, óháð því kynbundna misrétti sem hann kann að vera beittur innan valdakerfisins sem hann starfar í.

 

 

Til baka í greinar