Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Ágrip af sögu anarkisma

"...When compared with the suppression of anarchy every other question sinks into insignificance. The anarchist is the enemy of humanity, the enemy of all mankind, and his is a deeper degree of criminality than any other. No immigrant is allowed to come to our shores if he is an anarchist; and no paper published here or abroad should be permitted circulation in this country if it propagates anarchist opinions."
--President Theodore Roosevelt,
Message To the Senate Committee on the Judiciary Regarding

"There is no authority but yourself."
--Crass

 

Inngangur

Ég, í pistli þessum, veiti ágrip af anarkisma með tilliti til sögu hans og innliti til helstu höfunda, sem og greiningu á milli mismunandi stefna og útskýringu á virkni þeirra og gangvirki. Sagan hefst í árdaga mannsins en hér er í fyrsta sinn sýnt fram á það að sterkar líkur séu til þess að anarkismi hafi verið samtvinnaður við þær megin orsakir sem ullu því að sumir Suðurapar urðu að mönnum, anarkisminn er einkenni á samfélögum sem ætla má að séu líkust þeim sem til urðu er Homo tegundin greindi sig frá Australopithecus tegundunum. Einnig til gamans sem og gagns mun rétt litið vera á tilraunir til að standsetja anarkisma á vesturlöndum, sérdeilis mun litið á Spán í tíð spánsku borgarastyrjaldarinnar, en rétt tæpt á öðrum tilraunum enda hafa þær allar mistekist nema Food not Bombs.

Í upphafi var….

Anarkismi er ekkert nýtilkominn inn í mannlegt samfélag. Eitt höfuðeinkenni þeirra veiðimanna og safnara samfélaga sem viðurværi sitt hafa af landnytjum er anarkísk stjórnskipan, fjarvera yfirsátaraðar er algjör en stórflókið sifjakerfi heldur samfélaginu saman. Verkaskipting er jöfn svo sem dreifing gæðanna.

Eitt af lykilatridum þróunar mannsins var upptekning veiðimanna og safnarar lífstílsins. Snemmgengnar hominid tegundir eru ekki taldar hafa verið farnar að stunda veiðar að neinu ráði, né heldur það er meginmáli skiptir, söfnun. Það er ekki fyrr er Homo Erectus kemur fram á sviðið að maðurinn hefur tæknilega getu til að stunda slíkt hátterni í stórum stíl. Söfnun, svo sem síðar hér verður sýnt framá er sá lifnaðarháttur sem hefur mesta tilhneigingu til samfélags sem laust er við yfirsátaröð, varð fyrst að raunhæfum möguleika með einni afdrifaríkustu uppgötvun fyrir þróun mannsins, uppgötvun körfunnar. Samkvæmt kenningum Glynn Isaac þá var karfan sú uppgötvun sem skapaði manninn (Gribbin, Cherfas, bls. 198). Þó ber að hafa það í huga að veiðar og söfnun Homo Erectus og Archaic Homo Sapiens voru ekki nákvæmlega eins og veiðar og söfnun hafa verið stundaðar í nútímanum. Veiðimanna og safnara lífstíllinn hefur gengið í gegnum þróun með mismunandi aðstæðum, dýra og plöntulífi svo og veðurfari. Á ísöld í Evrópu var t.d. meira um stór veiðidýr, sem aftur bauð upp á allt annan kúltúr, stærri hlut veiða í fæðuöflun, heldur en hefðbundinn veiðimanna og safnara kúltúr.

En afhverju að líta svo langt aftur í fortíðina? Það er ljóst að anarkismi er einkenni á fyrrnefndum veiðimanna og safnara samfélögum en slík samfélög fundust allt fram á síðari hluta tuttugustu aldar út um allan heim, samfélög sem tugþúsundir ára skilja að sem og þúsundir mílna. Anarkísk stjórnskipan er samofin upphafi mannsins.

Mannfræðingurinn dr.Gísli Pálsson hefur sýnt fram á að veiðimanna og safnara samfélög þau sem vistland sitt hafa með landnytjum eru án yfirsátaraðar en eftir því sem sjávarnytjar aukast þeim mun líklegri er föst búseta með yfirsátaröð. Samkvæmt útreikningum Gísla úr gagnasafninu: "The Ethnographic Atlas" (r - s, chi squared test) er fylgni söfnunar til yfirsátaraðar: -.23, veiða landdýra: -.14 en fiskveiða: .31 (Hunters and gatherers, bls. 201), semsagt: það er mjög mikil neikvæð fylgni til tilveru yfirsátaraðar við safnara aðstæður og mikil neikvæð fylgni við landveiða aðstæður.

En hvernig virka þá þessi samfélög veiðimanna og safnara? Frumstæður kommúnismi er gamalt mannfræði hugtak til að lýsa þeim en hefur þann galla í því samhengi sem hér er að það er efnahagslegt en ekki stjórnspekilegt og inniheldur því einnig samfélög sem viðurværi sitt hafa af sviðurækt, akuryrkju o.fl. því vil ég því sleppa frekari skilgreiningum enda afmarka ég mig við anarkísku veiðimanna og safnara samfélögin. En skoðum samt frumstæðan kommúnisma einsog mannfræðin lýsir honum.

Jafnræði meðal einstaklinga er algert, enginn sveltur nema allir svelti. Algjört tabú er á sérgóðri söfnun gæða einstaklinga til handa (rétt til nánari útskýringa þá ber þess að geta að tabú þetta er jafnforboðið og sifjaspellstabúið). Lögmál gestrisnirnar skipar einnig mikilvægan sess, svo mjög að orðin "gjörðu svo vel" og "takk fyrir" eru ekki til, það er einfaldlega svo sjálfsagt að deila með sér gæðunum að það væri absúrd að þakka fyrir (Hunters and gatherers, bls. 252-268). Ýmsar leiðir eru farnar til að koma í veg fyrir deilur, en rétt sem og í réttarríkinu gengur það upp og ofan, t.d. er morðtíðni meðal !Kung San fólksins sem allt fram á síðustu ár hefur stundað hreinræktaðan veiðimanna og safnara lífstíl álíka há og í Miami Florida (Ghiglieri, bls. 116-117). Helsta forvörn deilum gegn er sú að koma í veg fyrir að menn verði of góðir með sig. Er veiðimaður fellir bráð þá byrja félagar hans að gera lítið úr veiðinni, segja sem svo að ekki taki því að hirða horgikkinn, því stærri og betri sem bráðin er því meir gera menn lítið úr henni. Húmor gegnir einnig lykilhlutverki í veiðimanna og safnarasamfélögum í því að halda mönnum á jörðinni og að kæla niður deilur sem farið er að hitna í, dónahúmor þeirra er ótrúlega líkur meðal fjarlægra samfélaga. Inúítar stunduðu forðum að kveða hvern annan í kútinn frekar en að draga upp kutann. Þar sem veiðimanna og safnarasamfélögin eru oftast nær á flakki virkar oft mjög vel að ósáttur einstaklingur yfirgefi flokkinn um lengri eða skemmri tíma og sláist í hóp með öðrum hópum.

Línur taka að skýrast.

Fyrstu rit með anarkískri lífssýn birtast í Kína á sjöttu öld fyrir kristsburð er byrjað er að færa Taoisma í letur. Skýrar anarkískar línur eru dregnar í höfuðriti Taoista: Tao te ching, en síðar útfærði Kwang Tse taoismann mun ítarlegar en forverar sínir og tók skýrari anarkíska afstöðu. Taoismi er nokkurskonar náttúruheimspeki, eigi ósvipuð heimspeki Herakleitosar að mörgu leyti(tao-ið svipað og eldur Herakleitosar), en inniheldur einnig siðferðilegar og það sem við höfum hér undir, stjórnspekilegar víddir. Grundvallarhugtak í stjórnspeki taoismans er wu-wei en það má vel þýða sem ekki - yfirvald eða anarchy. Fái maðurinn að lifa í samræmi við náttúrulegt eðli sitt er engin þörf fyrir stjórnvöld og yfirvald gerir aðeins illt, því fleiri lög og reglugerðir því meiri glæpir. Taoistar eru einstaklingsanarkistar fyrst og fremst, þeir vilja frjálst samfélag þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín og þá og einmitt þessvegna sér einstaklingurinn hag sínum best borgið með samvinnu og samhjálp með sambræðrum sínum, því meira sem maður gefur þeim mun meira ber maður úr býtum.

Anarkismi sem stjórnmálastefna verður til um miðja nítjándu öldina er Pierre-Joseph Proudhon fer að boða hana. Helstu sporgöngumenn hans urðu svo þeir Michel Bakunin og Peter Kropotkin, en á hitt ber að líta að þeir héldu því aldrei fram að þeir hefðu uppgötvað eitthvað nýtt heldur sögðu þeir ávallt að anarkisminn hefði verið til staðar meðal verkalýðsins og smábændanna sem eðlileg viðbrögð gegn ofbeldi og kúgun iðnjöfra og landeiganda.

Hann og allir hinir

Anarkisminn deilist niður í margar mismunandi stefnur en sérdeilis má skipta honum niður í tvær deildir, þá vinstri og þá hægri. Þá í þeim skilningi að vinstri aðhyllist jöfnuð yfir frelsi en hægri frelsi yfir jöfnuð en báðir eru samt hrifnir af hvoru tveggja, hinsvegar set ég þann fyrirvara á þessa skiptingu að hún gildi fyrst og fremst um gengnar stefnur en ekki nútíma anarkisma.

Báðar geta rakið uppruna sinn til Proudhon enda voru skrif hans stórum mótsagnakennd (s.s. viðhorf hans til eignaréttar, á einum stað segir hann:"eign er þjófnaður" en er annarstaðar að verja einkaeignarétt með kjafti sem og klóm, hann aðhyllist frjálsa verslun er er á móti gróða með álagningu, leigu og vöxtum, var ákafur trúmaður, o.s.frv.) .

Vinstri nú

Anarkó kommúnismi kemur fram með Michael Bakunin en hann var undir miklum áhrifum frá Marx og tók upp eftir honum hugtökin um firringu og arðrán. Meginmunurinn var sá að Bakunin afneitaði allri yfirstjórn. "Freedom without Socialism is privilege and injustice, ... Socialism without freedom is slavery and brutality" ( http://www.geocities.com/CapitolHill/1931/ ). Bakunin hafnaði þeirri skoðun Marx að sósíalisminn yrði að fylgja ákveðinni sögulegri þróun og á móti taldi Engels anarkisma leiða til óðagots en Bakunin svaraði um hæl að í draumaríki Marx og Engels myndi aðeins nýjir harðstjórar leysa þá gengnu af. Eigi finnst í skrifum Bakunins sérdeilis skýr mynd af framtíðarsamfélagi því sem hann vildi á koma, hann var brattari við þá iðju að benda reiður með löngutöng á meinin og kýlin sem hann taldi sig sjá í kringum sig (t.d. taldi hann Þjóðverja vera hin verstu varmenni). Samkvæmt Bakunin eru Guð og ríkið megin meinsemdir þær er í vegi standa fyrir mannlegu frelsi. Skýr mörk skal draga á millli ríkis og samfélags, ríkið er sögulegt fyrirbæri,

"It [ríkið] was born historically in all countries of the marriage of violence, rapine, theological fantasy of nations. It has been from its origin, and it remains still at present, the divine sanction of brutal force and triumphant inequality."
(http://www.zpub.com/notes/rfree10-a.html#2)

Mannkindin gjörir góð verk sökum þess að hún vill gjöra svo og elskar að gjöra svo, það er hin mannlega reisn, frelsi og siðferði sem eru undirstaða breytninnar en fái menn skipanir frá yfirvaldi verður breytnin spillt og ill þó svo að um góð verk sé um að ræða.

Peter Kropotkin fjallaði mjög um lög og reglur og horfði með aðdáun til frumstæðra þjóða sem enga höfðu yfirstjórn eða skrifuð lög heldur héldust saman með óskrifuðum reglum sem framfylgt var með félagslegum þrýstingi. Þar var hann að líta til frumstæða kommúnismans sem fyrr hefur verið nefndur, þó svo að etnógrafískar rannsóknir hafi verið í frumbernsku sinni þá gat hann notfært þær sér vel og í raun skilgreint frumstæðan kommúnisma áður en mannfræðin sjálf hafði svo gjört. Hinsvegar ber þess að geta að þótt þau samfélög sem hann vísaði til s.s. samfélög indíána í N-Ameríku hafi verið kommúnísk þá voru þau alls ekki alltaf anarkísk þannig að vísun til þeirra til stuðnings anarkisma er oft hjóm eitt. Fráleitt taldi hann að refsa glæpamönnum enda lægju rætur glæpa ávallt í fátækt og skyldi meðhöndla brotamenn sem sjúklinga eða fatlaða heldur en að refsa þeim. Þetta verður að teljast afar hæpin staðhæfing enda studd empirískum gögnum sem hann medhondladi eftir hentugleika, þó svo að ástæður glæpa liggji oft í fátækt þá eru ýmsar aðrar ástæður fyrir hendi t.d. er afbrýðisemi oftast ástæða alvarlegra ofbeldisglæpa. Lífsseig hefur þessi staðhæfing hans verið innan anarkismans og er enn í dag sprellilifandi. Kropotkin staðhæfði ennfremur að væru framleiðsluhættir meir tæknilegir og vísindalegir og betur skipulagðir þá þyrfti eigi neitt óskaplega mikið vinnuframlag til að framleiða nóg til að allir gætu lifað við ásættanleg gæði. Kropotkin var ákaflega framfarasinnaður maður, til að framfarir eigi sér stað mega aðstæður fólks ekki vera slíkar að það þurfi að vinna langtímum saman fyrir brýnustu nauðsynjum, því án ríflegs frítíma verður engin list framin né heldur vísindi og þá fer nú víst lítið fyrir framförum. Launavinnu vill hann leggja niður, enginn á að þurfa að vinna frekar en hann vill, öllum gæðum er samt dreift jafnt. Ekki telur hann að allir leggist í algert iðjuleysi heldur þar sem framleiðslan er vísindalega skipulögð og því einstaklega framleiðin þá yrði vinnan aðeins ánægjulegt dundur nokkrar stundir á dag.

Emma Goldman sker sig frá hinum meginhöfundum anarkismans að því leiti að hún einbeitti sér frekar að aðsteðjandi málum í samtíma sínum frekar en að fabúlera um framtíðar fyrirkomulag. Hún var ötull talsmaður fyrir málfrelsi, kvenfrelsi sem og einstaklingsfresi, gegn hræsni hjónabanda og púrítana. Hún kom svo með kvenhyggju inn í anarkismann og tel ég hana hiklaust vera einna áhrifamesta af gömlu anarkistahöfundunum, en það má mæla af áhrifum þeim sem hún hefur haft á síðustu áratugum. Telja má anarkó-feminisma sem afurð hennar, Crass gerðu heila plötu "Penis Envy" undir miklum áhrifum frá henni og fleira mætti nefna en mun látið ógert þareð þyrfti annan grundvöll til að gera henni, skoðunum og aðgerðum fyllileg skil.

Syndicalismi er ein tegund anarkó kommúnisma, en í hnotskurn snýst hann um að verkamenn taki yfir verksmiðjurnar sem og aðrar framleiðslueiningar og reki þær sjálfir á jafnræðisgrundvelli, grunneiningar þjóðfélagsins eru vinnustaðirnir, þeir mynda svo verkalýðsfélög sem svo aftur mynda verkalýðssamtök. Bertrand Russell vill meina að syndicalisminn hafi sprottið úr verklýðshreyfingunnni sem hreyfingu en ekki sem hugsjón, hreyfingin var til staðar og anarkismi virtist að margra mati besta leiðin til að reka hreyfinguna (Russell).
Syndicalisminn býður því uppá einhverskonar vinnustaðalýðræði sem ætti óhjákvæmilega að leiða til einhverskonar valdapýramída þar sem verkalýðshreyfingar taka við hlutverki hefðbundins ríkis. Eða með orðum Bertrand Russell:

"while Syndicalism, which aims at abolishing the State, would, I believe, find itself forced to reconstruct a central authority in order to put an end to the rivalries of different groups of producers"
(http://www.zpub.com/notes/rfree10-a.html#2)

Anarkistarnir á Spáni CNT sem voru leiðandi í baráttunni gegn Franco með tvær milljónir meðlima eru dæmi um syndicalista, verkamenn í Cataloniu tóku yfir verksmiðjurnar og sveitaþorpin og ráku samkvæmt hugsjóninni.
Georges Sorel taldi syndicalíska byltingu vera óframkvæmanlega en hafa samt mikilvægu hlutverki að gegna sem mýta, sem bindur saman verkamenn og gefur þeim tilfinningu fyrir samstöðu í sameiginlegri baráttu fyrir siðferðilegum málstað. Ofbeldi segir hann gegna svipuðu hlutverki, það sameini einstaklinga í baráttu gegn sameiginlegum óvin. Hafa þarf háleit siðferðileg markmið svo einstaklingarnir helgi sig málstaðnum, slíkir byltingarhópar eru þeir einu sem hafa einhvert gildi, þó svo að þeir séu að berjast vonlausri baráttu. Margt er Sorel um kennt, Benito Mussolini, kunningi hans, sagði hann hafa verið eina að uppsprettum Ítalska fasismans, Collins og Makowsky vilja meina að friðar og réttindahreyfingar sjöunda áratugs tuttugustu aldar falli inn í hugmyndir hans um baráttuhópa (Collins og Makowsky, bls. 115-116), en Björn Sigfússon segir þær ágætu ofbeldissinnuðu hreyfingar I.R.A. og Rauðu herdeildirnar hafi sótt beint í Sorels brunn. (Sigfússon, bls. 66).

Hægri snú

Á hinum kantinum spila hægri anarkistarnir og skipta má þeim í tvo bita, einstaklings anarkisma og anarkó-kapítalisma.

Fljótlega kom upp mótvægi við sósíalisma Bakunins, fjarri því voru allir sannfærðir um tilvist frelsis innan sósíalismans, vildu viðhalda eignaréttinum, sérdeilis einkaeignaréttinum, og voru vantrúaðir á linkind Kropotkins gagnvart glæpum. Þessum mönnum var meira umhugað um frelsi einstaklingsins heldur en algeran jöfnuð og á varðbergi gegn þeirri frelsissviptingu sem gæti gerst er menn yrðu þvingaðir í anarkíska samvinnuhreyfingu. Helsta höfunda hér má nefna Herbert Spencer og Benjamin Tucker og svo mátti náttúrlega sækja ýmislegt gagnlegt í hinn mótsagnakennda Proudhon. Helsta einkenni einstaklingsanarkista er það að þeir vilja fá að lifa sínu lífi svo sem þeim sýnist og öðrum svo sem þeim sýnist.

"This then is Individualist Anarchism. It is libertarian not dictatorial; scientific not dogmatic; constructive not destructive. It enables each to be happy in his own way; it does not seek to establish happiness for all. Communism has faith in a cataclysm; Anarchism knows that social progress will result from the free play of individual effort. Communism wishes to expropriate everybody; Anarchism wishes everybody to be a proprietor. One has confidence in social order; the Other believes only in the works of peace. One wishes to instruct everybody; the other wishes to enable everybody to instruct himself. The Anarchist is ready to be judged on his programme-he seeks to impose it by force on nobody" (Meulen, http://www.hi.is/~hjortus/freebanking.html )

Sjálfræði og frelsi einstaklingins eru frumgæði sem og frumsetningar þær sem gengið er útfrá. Frelsisregla John Stuart Mills er eins og rauður þráður í gegnum hugmyndaheim þeirra. Eigi er hægt að stimpla þá sem sósíalista ellegar kapítalista, einstaklinganarkisminn er einfaldlega handan efnahagskenninga. Vilji einhverjir stofna kommúnu þá þeir um það, vilji aðrir stofna kapítalískt fyrirtæki þá verði þeim það að góðu, það fær hver að gera það sem hann vill svo framarlega að hann sé ekki að bögga aðra. Max Stirner taldi að ekkert algilt siðferði væri til né heldur gildi, allt er afstætt og undir einstaklingnum komið hvurnig hann lítur heiminn sjónum, en það sem Stirner taldi að kæmi í veg fyrir kaos er það sem hann kallar samtök egóista, það er einfaldlega egóistanum frambærilegast til framdráttar að stunda samfélag af miklum þrótti.

Afsprengi einstaklingsanarkismans er svo hinn alræmdi anrakó-kapítalismi, en hann varð til uppúr miðri síðustu öld er hagfræðingar úr röðum libertarian kreðsum í Bandaríkjunum sáu þann kost vænstan fyrir hagsæld að afnema ríkið algerlega, Hayek og Friedman er gott að nefna sem talsmenn anarkó-kapítalisma (en hins vegar til fyrirbyggingar misskilnings gegn að heimspekingarnir Rober Nozsick og Ayn Rand eru ekki anarkistar heldur minarkistar). Flestir höfundar sem aðhyllast anarkó-kapítalisma eru menntaðir hagfræðingar og nálgun þeirra því oftast nær fræðilegri heldur en höfunda vinstri anarkismans. Anarkó-kapítalistar halda í hávegum skosku félagana þá Adam Smith og David Hume enda lögðu þeir grunninn að hugmyndinni um hinn frjálsa markað. En hvernig virkar þetta svo? Allt á að lúta lögum markaðarins, frjálsir samningar milli frjálsra manna tryggja best frið- og hagsæld. Á meðan minarkistarnir telja að eina hlutverk ríkisins eigi að vera það að halda upp lögum og landvörnum þá spyrja anarkó-kapítalistarnir:"af hverju ekki að láta þau hlutverk í hendur markaðarins líka?". Löggæsla er því stunduð af fyrirtækjum í samkeppni, hver og einn kaupir þá löggæslu sem hann þarf. Benda þeir oft á það hvernig aðkeypt öryggisgæsla virkar í dag og afgirt hverfi þau er sífellt verða vinsælli meðal efnameiri Bandaríkjamanna, þar sem fylgir með húseigninni öryggisgæsla rétt eins og vatn og rafmagn. Torveldara er að gera grein fyrir því hvernig réttarkerfi á að geta þrifist í þessu umhverfi. Anarkó-kapítalistarnir vilja meina að skynsamleg lög ættu að geta þróast með hefðum, siðum, fordæmum og samningum og hafa ofurtrú á getu samfélaga til að móta sín lög í mestu firð og spekt og framfylgingu þeirra með félagslegum þrýstingi og eru þeir að þessu leiti algerlega sammála Peter Kropotkin. Anarkó-kapítalistar líta gjarnan til íslenska þjóðveldisins í leit að fyrirmynd fyrir framkvæmd refsinga, brotamaður myndi þurfa að borga bætur til brotaþola og hefði hann ekki handbært fjármagn þá yrði hann að vinna það af sér. Margur myndi nú ætla að þetta væri uppskrift að skelfingarástandi, er eitt firma yrði fúlt út í annað þá mynda það bara senda einkaherinn sinn á það og út brytist stríð. En á móti vilja anarkó-kapítalistarnir meina að löggæslufyrirtækin myndu mynda net sín á mill með samningum um samræmdan lagakóða. En meginröksemdin gegn óðagotsgagnrýninni er sú að stríðsástand væri einfaldlega slæmt fyrir viðskiptin, fyrirtæki vilja oftast nær langtíma viðskiptasambönd og þau þurfa að byggjast á gagnkvæmu trausti sem ekki væri til staðar ef óðagot væði uppi. Margir vilja líkja anarkó-kapítalista samfélagi við mafíu ástand líkt því sem vinsælt var á bannárunum í Bandaríkjunum en á móti segja anarkó-kapítalistarnir að mafíur þrífist aðeins ef svartur markaður er til staðar, leynivínsalar vágur hvern annan úr launsátri á bannárunum en fáum slíkum sögum fer af áfengisbúðaeigendum eftir að sala á áfengi var leyfð aftur. Einnig óttast margur um hag lítilmagnans í slíku samfélagi en benda má á að öll mannleg samfélög sinna sjúkum og öldruðum eftir fremstu getu, vart finnst sá maður sem er á móti aðhlynningu lítilmagnans, því er torséð hví ríkisvald sé sérstaklega vel til þessa hlutverks fallið. Ennfremur myndi afnám skatta auga hagsæld svo mjög að hver og einn myndi auðveldar geta látið fé af hendi rakna til þeirra er minna mega sín.
Margir vilja samt ekki telja anarko-kapitalismann anarkiskan vegna thess ad hann hefur alltaf innbyggda einhverskonar yfirsatarod en thad er einsog med svo margt annad spurning um skilgreiningu og verdur ekki leyst her.

Nú nú

Anarkí í dag er oft á tíðum samtíningur úr gengnum stefnum, einstaklingsfrelsi er þó alltaf frumforsendan, samvinna og and-kapítalismi koma á eftir.

Á miðjum áttunda áratug tuttugustu aldar færðist anarkisminn frá háskólakreðsunum, þeim sem hann hafði í fest eftir að Marx varð aðal tískutröllið á markaðstorgi óhefðbundinna stjórnmálaskoðana, til reiðra unglinga, rokkið tók anarkismann upp á arma sína. Patti Smith var fyrst með því að láta mynda sig við anarkíska veggskrift í París og ári síðar öskraði Johnny Rotten "I am an anarchist..."(Sex pistols, 2.lag á hlið b). Crass hópurinn, sem þá hafði reyndar verið til í nokkur ár, tók að breiða út boðskap sinn á markvissan hátt með tónlistina að vopni og verður að teljast með mikilvægustu höfunda anarkismans á seinni hluta tuttugustu aldar, þótt ekki stæði eiginleg virkni þeirra lengi ('77-'84) en áhrif þeirra voru gífurleg og náðu þau örstuttri heimsfrægð eftir að þau klipptu saman símtal milli Ronald Reagan og Margareth Thatcher þar sem hún viðurkenndi að bera ábyrgð á því að argentíska skipinu Belgano var sökkt og Reagan hótandi að sprengja upp Evrópu og láku þessu til fjölmiðla. Ekki komu þau áróðrinum einungis frá sér í pönklögum heldur gerðu kvikmyndir og skrifuðu rit s.s. Christ the album/movie/book. Pönk anarkisminn er nokkurskonar blanda af einstakling anarkisma og anarkó kommúnisma en liggur heldur nær einstaklings anarkismanum. Kerfið er megin meinsemdin, allsráðandi og kúgandi, eða með orðum Penny Rimbaud sem var í Crass:


"The system has at its command everything that it needs to control the people and to ensure that its conditions remain dominant. It has the family to limit movement and stabilise those conditions. It has schools to restrict the mind and brainwash with those conditions. It has employment, and taxation of it, to finance the authorities that maintain those conditions It has the law, the courts and the police to enforce those conditions It has the army to protect those conditions. It has prisons and mental hospitals to punish anyone who disobeys those conditions. It has the media to promote those conditions. It has royalty to flaunt those conditions It has religion and psychiatry to mystify and thereby threaten, at the deepest level, those who question those conditions. It has history and tradition to prove the 'value' of those conditions. It has the future in which all these things are employed to ensure that those conditions will remain unchallenged - we have nothing but ourselves, and each other."
(http://www.southern.com/southern/label/CRC/text/09438.html)


Yfirsátaröðin viðheldur stöðu sinni með því að stjórna gildum samfélagsins, besta leiðin til að losna við yfirsátana er að afneita gildum þeirra og stöðlum og koma með ný í staðinn, blóðug bylting myndi aðeins borða börnin sín með bestu lyst því ofbeldi er kúgandi og því í andstöðu við anarkískar hugsjónir.

Síðan hefur verið mikil gróska í anarkismanum innan pönksins og með tilkomu netsins hefur orðið auðveldara að mynda tengsl milli fjarlægra hópa.
Fjölbreytnin innan anarkismans í dag er samt mikil enda halda gengnar stefnur margar hverjar sínu enn. Anarkisminn í dag kraumar allsstaðar undir

Anarkí í praxis

Í þessum kafla mun ég líta til þeirra tilrauna sem gerðar hafa verið til að hrinda anarkískri hugmyndafræði í framkvæmd. Aðeins á Spáni stóð tilraunin nógu lengi til að dæma megi um árangur og mun ég því einbeita mér að þeirri tilraun en rétt dreypa á öðrum dæmum.

1871 eftir að frakkar höfðu tapað í stríðsrekstri gegn Prússum sendi ríkisstjórn Frakklands herinn til Parísar til að afvopna þjóðvarðliðið. En þar sem óánægja var almenn með uppgjöfina voru menn ekkert á því að afvopnast, hermenn óhlýðnuðust skipunum um að beyta borgara valdi og tóku þess í stað yfirmenn sína fasta. Frjálsar kosningar voru haldnar í borginni í anda frönsku byltingarinnar, nýtt samfélag var myndað eftir vilja fólksins. Anarkistískar hugmyndir náðu miklum vinsældum, fjölmargir vinnustaðir urðu að samvinnufélögum. Þó svo að Parísar kommúnan yrði aldrei al-anarkísk þá fór þar fram ein mikilvægasta hugmyndavinna anarkismans, menn sáu að þetta virkaði þrátt fyrir allt. En ekki stóð sælan lengi, 21. mars nær almenningur völdum í París en þann 28 maí sendu stjórvöld herinn á Parísarbúa og er talið að rúmlega 25000 borgarar hafi verið drepnir í átökunum.

Í rússnesku byltinunni gengdu anarkistar lykilhlutverki og í Úkraínu voru það þeir sem tóku völdin. Fljótlega lentu þeir nú upp á kant við Lenín stjórnina og sendi þá Lenín morðhunda sína, sem voru að verða verkefnalausir eftir fjöldamorð á hvítliðum, á anarkistana og tortímdu þeir þessari tilraun.

Eftir fyrri heimstyrjöld varð það tíska stór á Ítalíu að stunda syndicalisma og voru samtök þeirra öflug fram að framgangi Mussolíni.

En besta dæmið um anarkí í praxis er á Spáni. Um miðjan fjórða áratugarins voru meðlimir í CNT sem voru samtök anarkó-syndicalista nærri tvær milljónir (mannfjöldi á Spáni var samtals um 24 milljónir), sérdeilis voru anarkistarnir öflugir í hinni iðnvæddu Cataloniu, þar sem segja má að þeir hafi ráðið lögum og lofum í tíð borgarastyrjaldarinnar, sem og í sveitum suðurhéraða Spánar. Torvelt yrði hér að rekja ástæður spænsku borgarastryrjaldarinnar enda flókið mál. En snemma á 20. öldinni urðu verkalýðshreyfingar á Spáni mjög öflugar, þær helstu voru sósíalistarnir í UGT og syndicalistarnir í CNT. Er borgarastyrjöldin braust út þann 18. júlí 1936, með misheppnaðri valdaránstilraun hægri aflanna, uppgötvuðu syndicalistarnir allt í einu að víða þar sem þeir höfðu barið valdaránið niður stóðu þeir eftir sem ráðandi afl. Verksmiðjur voru yfirteknar af verkamönnum, sveitaþorpin af leiguliðum, en hvernig fór? Jú það eru góðar fréttir og slæmar fréttir, sumstaðar gekk anarkisminn vel upp, t.d. hið velþekkta dæmi um sporvagnana í Barcelona, einnig tókst vel til í ýmsum sveitaþorpum, framleiðni jókst sem leiddi til meiri hagsældar sem og frítíma, dæmi eru um þorp sem gátu í fyrsta sinn stofnað skóla og heilsugæslu. En ekki varð sagan allstaðar svo falleg, dæmi voru um að smábændur sem áttu eigin jarðir væru þröngvað inn í samvinnufélögin, meirihlutakúganir og ofbeldi gegn þeim sem ekki hlýddu. Fjölmörg dæmi eru um er syndicalistarnir brutu grundvallarprinsipp sín, fjöldamorð á andstæðingum, þáttaka í ríksstjórn Spánar, rekstur ríkisstjórnar í Cataloniu, ýmsar kröfur á meðlimi sem brutu á einstaklingsrétti þeirra t.d. var neysla áfengis, tóbaks og jafnvel kaffi illa séð af ráðandi aðilium í CNT. Í raun brugðust syndicalistarnir á Spáni anarkista hugsjóninni um afnám ríkisvalds, þeir komu bara með sína útgáfu í staðinn, en sem syndicalistar stóðust þeir öll próf. Sem fyrr hefur komið fram þá hef ég efasemdir um að syndicalismi sé í raun anarkismi þar sem hann ætti að leiða til ríkis og virðist það hafa sýnt sig ágætlega á Spáni. Anarkistarnir voru öflugastir lýðræðisaflanna sem börðust gegn Franco en er Stalín kom til hjálpar þá var ekki hans fyrsta verk að berja á Franco heldur fór hann að dæmi Leníns og réðst fyrst á anarkistana og stríðið var tapað (Stalín lét svo sigla öllu gullinu sem Spánn hafði stolið frá Ameríku til Sovét, síðan hefur ekkert spurst til þess).

Í uppþotunum í París vorið 1968 voru anarkistar í forystu, reyndar má rekja upphaf þessara atburða til þess er anarkistar héldu mótmælafund gegn því að stúdentar höfðu verið reknir frá Nanterre háskóla fyrir að mótmæla Víetnam stríðinu. Lögreglan fjölmennti á fundinn og varð til þess að stúdentar lögðu frá sér bækurnar og fóru að mótmæla. Andstaðan breiddist út sem eldur í sinu, stúdentar og síðar verkamenn þustu út á götu, verkamenn fóru í allsherjarverkfall og yfirtóku verksmiðjur þrátt fyrir mótstöðu kommúnistaflokksins. Þarna tókst byltingin næstum því en vinstri - hóparnir fóru á taugum og gáfust upp, skipulagi hópanna var ábótavant og fólk hafði ekki næga trú á getu sinni til að velta stjórnvöldum úr sessi.


Allan tíunda áratuginn hefur verið starfrækt átakið food not bombs í Kaliforníu og hefur það verið að breiðast út um Bandaríkin og til Kanada. En það er nokkurs konar matarmiðlun til heimilislausra, af einhverjum ástæðum hefur þessi starfsemi farið ógurlega í pirrurnar á yfirvöldum sem ítrekað hafa reynt að banna food not bombs og sent lögregluna til að leysa miðlunina upp. Ekki hefur það þó gengið þar sem engir leiðtogar eru þar til staðar og því virkar hin hefðbundna aðferð kúgaranna ekki en hún er sú að velta leiðtoganum af stalli og þá leysist upp hinn höfuðlausi her.

Smá samantekt að lokum...

Allt frá árdögum mannsins hefur anarkisminn verið stundaður, frá tíð upphafs siðmenningar hafa höfundar verið að koma á framfæri anarkískri hugsun á einn eða annan hátt. Það er ekki undarlegt að anarkisminn skuli rista djúpt í hugsun mannsins þar sem hann er fyrsta samfélagsform tegundarinnar Homo. Samt er anarkisminn sundurleitur, svo mjög að hver og einn anarkisti virðist hafa sína eigin hugmynd um virkni hans og framgang. Nú á dögum allaveganna hengja fæstir sig í einhverja fyrirfram ritaða hugmynd, menn segjast ekki vera Bakúninistar eða Crassistar. Það er kannski helst anarkókapítalistarnir hafi heilsteypta stefnu enda ólíkt öðrum anarkistahöfundum eru höfundar anarkókapítalismans fræðimenn og beyta skipulegri nálgun á meðan að höfundar vinstri anarkismans skrifa oftast í áróðursskyni og því örðugra að negla niður einhverja fasta mynd af ritum þeirra. En hver segir að við þurfum kennivald? Það lýsir einungis blankri hugsun að hengja sig í hugverk annarra. Það er ekkert yfirvald annað en þú sjálfur.

Heimildir:


Björn Sigfússon. Klofinstefja. Reykjavík 1992, Háskólaútgáfan

Bertrand Russell. Proposed roads to freedom. New York 1918, Cornwall Press, Inc, Cornwall NY http://www.zpub.com/notes/rfree10.html

Henry Meulen. Free banking. Glasgow 1949, Stricland press Glasgow.

John Gribbin og Jeremy Cherfas. The first Chimpanzee. London 2001, Penguin.

John Stuart Mill. Frelsið. Rekjavík 1978, Hið íslenska bókmenntafélag.

Michael Ghiglieri. The dark side of man. Reading, Massachusetts, 1999, Perseus.

Paul Preston. The Spanish civil war. London 1990, Weidenfeld and Nicholson ltd.

Penny Rimbaud. Series of Shock Slogans and Mindless Token Tantrums. London 1982, Crass. http://www.southern.com/southern/label/CRC/text/09438.html

Randall Collins og Michael Makowsky. The discovery of society. 1993 Mcgraw-Hill,

Richard B. Lee. The Dobe !Kung. New York 1984, Holt Rinehart Winston.

Ritstj. Tim Ingold, David Riches, James Woodburn. Hunters and gatherers 1. Oxford, 1991, Berg,

Crass. Penis Envy. 1981 Crass records

Patti Smith group. Radio Ethiopia. 1978 Arista records

Sex Pistols. Never mind the bollocks.1977 Virgin Records

http://www.gmu.edu/departments/economics/bcaplan/

http://www.geocities.com/CapitolHill/1931/

http://dwardmac.pitzer.edu/anarchist_archives/kropotkin/britanniaanarchy.html

http://www.tao.ca/wind/taoanarch.html

http://www.southern.com/southern/band/CRASS/index.html

Til baka í greinar