Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Sjónvarpið tekið til endurmats!

-Smá hugleiðing um vægi sjónvarpsins í lífi þínu.

Allir vita hversu tilgangslausir og dauðyflislegir flestir sjónvarpsþættir eru. Það er deginum ljósara, fyrir hvern þann sem eyðir tæpri klukkustund fyrir framan kassann, að sjónvarpsþættirnir, -fréttirnar og -auglýsingarnar eru beinlínis hannaðar til að höfða til lægsta samnefnara smekks, gáfna og athyglisþols á meðal tilætlaðra áhorfenda. Það hefur komist uppí klisju undangenginna kynslóða að kalla sjónvarpsgláp "hugsunarlausa skemmtun". Samt sem áður finnst fólki í dag ekkert athugavert við það að horfa á sjónvarp.

Það er vondur draumur upp við að vakna, að maður sé farinn að tengja heiladofa og aðgerðaleysi saman við skemmtun; að maður sé farinn að álykta að til þess að "skemmta sér" þurfi maður að slökkva á allri skapandi og gagnrýnni hugsun. Hversu þreytandi er heldur ekki að vera gagnrýninn og skapandi! Og í þjóðfélagi sem tekur ekkert alvarlega, utan bókstafsheims framleiðslu, kaupum og sölu á vörum og þjónustu, og uppsöfnun auðs (sjá okkar almenna áhugaleysi á öllu frá Kjarval til kvótasvika), sýnist okkur það í versta falli eðlilegt að eyða frítíma okkar á sem allra hlutlausastan máta.

En neikvæð áhrif sjónvarpsgláps eru mun flóknari en þau kunna að virðast við fyrstu sýn.

Þar sem við erum orðin svo háð bæði sjónvarpi og öðrum gerilsneyddum formum margmiðlunar til að halda okkur ánægðum og (það sem við viljum kalla) upplýstum, gerum við okkur ekki grein fyrir þeim hagfræðilega, félagslega, og síðast en ekki síst, persónulega niðurdrepandi áhrifum sem það hefur á okkur öll. Því samband okkar við þennan miðil er samband áhorfanda og áhorfsefnis, og lífið sjálft er litlausara hjá þeim sem á horfa en hjá þeim sem horft er á.

Þetta samband áhorfanda og áhorfsefnis kemur hvað best fram í þjóðfélagsstöðu "stjarnanna", og annars fólks sem nú er talið með almenningseiginum. Fjölmiðlarnir reiða sig sumpart á dýrðarljóma (og jafnvel menningarlega áskipaðan guðleika) einstakra "persónuleika", s.s. Tom Cruise, Ice Cube eða Monicu Lewinsky til að útvega sér sjónvarpsfóður, sem þeir nota síðan í semheldni til að halda okkur við tækið. Vissulega er þetta fólk ekki á nokkurn hátt frábrugðið okkur, né mikilvægara en við hin. Og sú staðreynd hversu margt af þessu fólki getur breytt um hlutverk (úr því að vera módel í að vera rokkstjarna, frá rokkstjörnu til leikara, frá leikara til forseta bandaríkjanna...) án þess að fipast flugið hið minnsta, segir okkur að það er einungis fyrrnefnd þjóðfélagsstaða þeirra sem 'frægt fólk' sem gerir það fréttnæmt, ekki meintir sérstakir hæfileikar þeirra á tilteknu sviði.
Svo endalausu magni af gagnslausum upplýsingum um þetta fólk er skellt framan í okkur uppá hvern einasta dag, að fyrr eða síðar neyðist maður til að taka eftir því... Bráðum veistu meira um nýja kærastann hennar Britneyar en þú veist um þína eigin nágranna eða skyldmenni. Og kannski ferðu ómeðvitað að lifa í gegnum Britney, þarsem að fjölmiðlarnir kynna hana sem persónugervingu kvenlegs þokka og galsalífs. Einstakling sem lifir miklu mun áhugaverðara lífi en þú.

Og það sem verra er, þá vitum við bráðlega jafnvel meira um uppskáldaðar sögupersónur en lifandi fólk. Ef þú hlustar á daglegar samræður fólksins í kringum þig, ferðu brátt að taka eftir hversu miklum tíma það eyðir í að tala um sjónvarpsþætti, gamlar bíómyndir og teiknimyndapersónur. Á meðan við gætum verið að hugsa um að bæta okkar eigið líf, eða að kynnast hvort öðru betur, eyðum við tíma okkar í að skiptast á tilgangslausum upplýsingum sem fjölmiðlarnir hella inn í hausinn á okkur með trekt. Sem segir okkur einnig; því meiri tíma sem við eyðum í að spá í hver verði næsta hljómsveit ársins á íslensku tónlistarverðlaununum, því minni tíma höfum við til að gera eitthvað meira úr okkar lífi.

OG ÞAÐ ER ÁSTÆÐA FYRIR ÞESSU!

Sjónvarpssamsteypurnar, kvikmyndaframleiðendurnir, og fleiri af þeirra sauðahúsi reyna að sannfæra okkur um það að líf, fullt af spennu og skemmtan, finnist ekki allt í kringum okkur (sem er jú raunin), heldur einungis hjá sjónvarpsstjörnum og í kvikmyndum. Því þá fá þeir jú tækifæri á því að selja okkur aftur lífið sjálft.

Það er að segja, þegar þú eyðir frítíma þínum í að glápa á sjónvarpið í stað þess að ferðast, verða ástfangin(n) eða spila fótbolta, ferðu brátt að trúa því að þú getir fengið mesta spennu útúr lífinu með því að horfa á fréttir af pólförum, sápuóperu eða enska boltann. Og því lengur sem þú horfir á þessa þætti í sjónvarpinu, því lengra sekkurðu ofaní gleymsku og heimsku gagnvart þínu eigin lífi. Þ.e., þú ferð að gleyma því að þú gætir verið að gera þessa hluti sjálfur, en ekki bara að horfa á þá úr sófanum heima.
Það kæmi svo að þú myndir varla trúa því hversu mun meira spennandi er að semja tónlist sjálf(ur), en að horfa á MTv. Hversu mun meiri lífsfyllingu það gefur að stunda kynlíf sjálf(ur) en að horfa á fagfólk í klámmyndum. Hversu mun meira endurnærandi það er að berjast við vandamál, eða hindrun, í þínu eigin lífi en að horfa á ævintýramynd. En því oftar sem þú lætur sjónvarpið um alla þessa hluti, því tómlegra verður þitt eigið líf, og því fleiri sjónvarpsþætti þarftu til að bæta upp fyrir vaxandi skort á spennu í lífi þínu.

Þar koma fjölmiðlakóngarnir inní. Því þeir vilja glaðir sjá þér fyrir litríku varalífi í staðinn fyrir það gamla svarthvíta, gegn gjaldi, að sjálfsögðu. Jújú, þeir selja þér annars flokks kynlíf og ofbeldi, tilbúna spennu og ást, en þú þarft aftur að borga afnotagjöld, kaupa sjónvarpstæki og bíómiða og mótöld. Þú þarft að kaupa nýjustu tísku- og tónlistartímaritin. Og það sem mikilvægast er, þá þarft þú að hlusta á auglýsingarnar þeirra í útvarpinu, lesa þær í tímaritunum, og horfa á þær á milli sjónvarpsþátta.
Þessar auglýsingar eru faglega hannaðar til að fá þig til að eyða peningunum þínum í vörurnar sem auglýstar eru... og þegar þú síðan gerir það, þá þarftu að vinna lengur og meira til að fá meiri peninga. Í raun eru miklar líkur á því að vinnan þín sé heldur ekkert alltof gefandi, og það að horfa á sjónvarp beinlínis spennandi í samanburði, þegar hún gæti verið (og ætti að vera) að gefa þér meiri tilfinningu fyrir lífinu. Auk þess gæti af því leitt að þú verðir svo þreyttur eftir vinnudaginn að það eina sem þú áorkar þegar þú kemur heim sé að kveikja á sjónvarpinu. Til að ganga enn lengra gætir þú farið að tengja það að gera hvað sem er við að vinna, og þarmeð við það að vera útkeyrður og óánægður. Þannig gæti sjónvarpsglápið orðið að samnefnara við "frítíma" og "frelsi". Þannig gætir þú farið að leita að sjálfum tilgangi lífsins í að horfa á HM í fótbolta, heldur en að auka þína eigin hæfni með boltann.

Og þetta gæti verið sprenghlægilegt ef þetta væri ekki svona sorglegt: jafn líklega og ekki hefur starfið, sem þú vinnur baki brotnu við, eitthvað að gera með fjölmiðla- eða markaðsheiminn. Kannski vinnur þú á auglýsingastofu, á sjónvarpsstöð, eða fyrir eitthvað fyrirtæki sem framleiðir og markaðssetur vörur sem koma mannkyninu engann veginn til góða. Vífilfell er gott dæmi um slíkt. Þannig að á meðan þú ert að brenna út og missa af lífsins gersemum, spennandi og ósjónvörpuðum upplifunum, einungis til að kaupa þér annars flokks afrit af því, vinnurðu til að viðhalda kerfinu sem eyðir frá þér tímanum þartil þú deyrð.
Og bara til að vera viss um að þú skiljir þetta: Þú munt deyja. Viltu þá, á dánarbeði, líta yfir líf þitt og minnast þess þegar þú horfðir á Survivor, eða viltu minnast lífsfylli af sársauka og sælu, rómantíkur og erfiðleika, ástar og haturs?

Ertu ánægð(ur) með að horfa á annað fólk gera hluti sem þú gætir verið að gera sjálf(ur), ef þú bara eyddir ekki svo miklum tíma í að glápa, eyddir ekki svo miklum tíma í vinnu sem þú þolir ekki til að kaupa drasl sem þú þarft ekki, og til að borga fyrir meira gláp?

Lausnin er einföld, ef þú kærir þig um hana: það er auðvelt að slökkva á sjónvarpinu og stíga útfyrir hússins dyr. Hættu að láta þig varða um það hvað dætur forsetans eru að gera, og farðu að skipta þér af því hvað vinir þínir og óvinir eru að gera. Hvað elskhugi þinn eða stjúpmóðir eru að bardúsa. Röltu útúr skrifstofufangelsinu og út í góða veðrið, og lærðu að lifa af án merkjavörufata og glænýrra hljómflutningstækja, svo þú getir verið frjáls til að lifa lífi fullu af áskorunum og spennu, lífi fullu af nýjum upplifunum. Lífi þar sem þú ert þinnar eigin gæfu smiður, frekar en fórnarlamb vonlausrar vinnu og nokkurra augngrípandi auglýsingaherferða.
Ég er viss um að þú gætir vel notað alla orkuna, sem þú eyðir í að selja skó eða forrita tölvur fyrir vinnuveitanda þinn, í að finna gefandi leið til að vinna þér inn meiri peninga en þú þarft bara til að lifa af... eða, þess þá heldur, í að vinna með öðrum í áttina að því að skapa heim þarsem þú þarft ekki að reiða þig á peninga til að lifa af.

Gríptu til aðgerða núna, eða haltu kjafti að eilífu; ekki tala um hversu mikið þér leiðist, eða hversu mikið þú hatar vinnuna þína, eða hversu ótrúlega þýðingarlaust þetta sé alltsaman (þegar og ef þú lítur einhverntíman upp til að spá í því) ef þú ert ekki tilbúin(n) til að frelsa sjálfa(n) þig.

Stolið af www.crimethinc.com
Þýtt og endursagt af mér.
-Björninn.

Til baka í greinar