Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Nokkrar skilgreiningar varðandi lífið og tilveruna

 

Undir alræðisstjórn (hvort sem hún er pólitísk, eins og stjórn Stalíns í Sovétríkjunum sálugu, eða hagfélagsleg, eins og fyrirtækja kapítalismi vorra daga), hvar öll mannleg tengsl eru reglum háð, er samhengislaus andspyrna við einhverri einni hlið þeirrar stjórnar (spillingu náttúrunnar, hrottaskap lögreglunnar, barnamisnotkun, rasisma eða kulnunar í starfi) dæmd til að mistakast. Berjast þarf við heildina alla, grunnkennisetningarnar sem og einstakar birtingamyndir þeirra... ekki til að koma á annari alræðisstjórn, heldur til að opna öllum nýja sjóndeildarhringi.

Til þessa þarf andspyrnu sem staðlar ekki meðlimi sína, þar sem einstaklingar geta hjálpað hvor öðrum við að sleppa með því að skapa og kanna sjálfa sig. Þessa skissa andstæðna á ekki að vera fullkomið kort mannlegra samskipta, heldur úrval tóla fyrir manneskjur í eigin greiningu.

-Nadia C.

 

Gnótt

Við getum öll verið rík...

Orðin gnótt og skortur eiga ekki aðeins við auðlindir sem svara þörfum manns (eða ekki), heldur eru þetta mismunandi leiðir til að líta á bæði auðlindirnar og þarfirnar sjálfar... leiðir sem endurspeglast í heiminum.

Ríkar auðlindir fara fram úr þörfinni fyrir þær; sumar margfaldast jafnvel við notkun. Það er kappnóg af flestum þeim hlutum sem aðgreina það að lifa og það að skrimta, svo sem ást, vinátta, traust, ímyndun, þor, ævintýri og upplifanir. Því meir sem þú tekur þátt í þeim, því meira er til af þeim fyrir þig og alla aðra.

Fágætar auðlindir eru hinsvegar til í takmörkuðu upplagi, og e.t.v. er hreinlega ekki nóg af þeim handa öllum. Skorts-hagkerfi er keyrt áfram af hugarfarinu sem skapast við slíkar forsendur: í því komast ,,lögmálin'' um framboð og eftirspurn fyrst og fremst á vegna vöntunar, raunverulegri eða skynjaðri, á nauðsynlegum vörum.

Það gæti virst svo að skortur sé einfaldlega óumflýjanleg staðreynd lífsins, en svo einfalt er málið ekki. Ekki er allur skortur tilkominn vegna aðstæðna. Oft leggjum við hann á okkur sjálf með því hvernig við metum og nýtum eignir okkar. Í okkar tæknilega þróaða síð-iðnvædda þjóðfélagi er nóg til af tækjum og þægindum sem enginn hafði áður fyrr heyrt minnst á, samt finnst okkur flestum vera skortur á þeim hlutum sem við þurfum. Þetta ætti ekki að koma á óvart því félags- og efnahagskerfi okkar byggir á því að ekki sé nóg fyrir alla. Allir geta átt ríkulegt líf, en það geta ekki allir átt ríkmannlegt hús. Samfélag okkar kemur á skorti og vöntun með því að stilla lífinu upp í örvæntingafullt kapphlaup um takmörkuð veraldleg auðæfi og virðingastöður.

Sagt er að einu frjálsu mennirnir séu umrenningurinn og kóngurinn. Þeir eru sannlega þeir einu sem geta sagst vera herrar alls sem þeir sjá, en af mjög ólíkum ástæðum: Sá fyrri á allan heiminn með því að sleppa honum, á meðan sá síðari á aðeins það sem hann getur hertekið. Hér sjáum við kennisetningar gnægðar og skorts í verki sem lífsviðhorf. Á sama hátt sér ,,afætan'' sem þrífst á ofgnótt þjóðfélags síns, tækifæri og ævintýri þar sem forstjórinn sér aðeins hungur og örbirgð; frjálslyndi elskandinn sér ást sem eitthvað sem aðeins eykst í ríkuleika og dýpt sé henni deilt frjálst, á meðan ráðríki eiginmaðurinn lítur á hana sem ótraust verðlaun, unnin með fórnum og erfiðri vinnu, sem hann verður að safna og setja í búr; leik- eða söngkonan sem dreymir um að verða stjarna þarf að fá milljónir andlitslausra aðdáenda til að horfa á gjörðir sínar til að staðfesta þær (þannig er skortur á sjálfinu í samfélagi einstaklinga sem einungis virka sem áhorfendur), á meðan konan sem býr við stuðning í jafnréttissinnuðu samfélagi fær venjulega sjálfstraust og hamingju með því að hjálpa öðrum í kringum sig við að gera það sama.

Eitt sinn bjuggu menn í traustu sambandi við jörðina, og litu á hana sem uppsprettu gnægða: við borðuðum ávexti, sem uxu sjálfir umhverfis okkur, í náttúrulegum umbúðum og með fræ sem gátu orðið fleiri ávaxtatré eftir að ávaxtarins hafði verið neytt. Í dag borðum við sælgæti, sem við fáum í skiptum fyrir vinnu, hverrar framboð er af mjög skornum skammti. Og þegar við fleygjum umbúðunum, úr plasti og ónáttúrulegum efnum, getum við verið viss um að við erum að bæta við hæga en bítandi uppsöfnun rusl sem gerir fjölda ávaxtatrjáa sífellt takmarkaðri. Fornmaðurinn bjó við veislu eða hungursneyð. Hann fagnaði þegar ofgnótt var og barmaði sér þegar hann bjó við skort, en hann þurfti aldrei að draga úr trausti sínu á auðlindunum með því að mæla þær; fyrir okkur er allt viðskipti, stund mælinga og reiknings.

Gnótt og skortur eru fyrst og fremst birtingarmyndir andstæðra lífsviðhorfa: snilldar eða sljóleika, trausts eða ótta. Ef við endurröðum gildum okkar og því sem við gerum ráð fyrir að alheimurinn hafi upp á að bjóða getum við gengið inn í nýjan heim gnægðar.

Skortur

...við getum ekki öll verið efnuð.

Að lifa

Frelsi og leitin að hamingju

Líf er tilveran þegar það virðist vera þess virði að vakna á morgnana. Það er skrifað um líf í epískum ljóðum, ástarlögum, leikritum og sonnetum Shakespeares; það að lifa af er til umræðu í læknabókum, bæjarskipulögum og vinnuvistfræðikynningum. Líf er dásamlegt, nístandi, yfirgengilegt. Það að skrimta, án lífs, er fáránlegt, þungbært, fráleitt.

Að skrimta

Öryggi og leitin að eignum

Það að skrimta bara er að rýra lífið og tengja það aðeins því bráðnauðsynlega. Líffræðilegum nauðsynjum (fá loft til að anda! Fá mat til að borða! Fá drátt!) og menningarlegum (fá betri kyndingu! Fá sjónvarp til að fylgjast með því sem er að gerast! Fá sportbíl til að ná sér í maka!). Oft er veik lína milli þessara nauðsynjaflokka, eins og með kerfisfræðinginn sem getur ekki fengið sér að borða án dósaopnara; en grundvallarþáttur nauðsynjanna er að þær virðast óumdeilanlegar.

Venjulega er litið á auðlindir, þær sem þarf til að lifa af, sem takmarkaðar. Það er takmarkað magn af mat, vatni, húsakosti og lyfjum í heiminum; en frægur flækingur svaraði eitt sinni fyrirsjáanlegri spurningu smáborgara (,,þú þarft að borða, er það ekki?''): ,,jú, en ekki eins og oft og þú.''

Það sem þarf til að lifa af hefur aukist stöðugt á okkar tímum. Lágmark ,,lífsgæðaviðmiða'' til að taka þátt í þjóðfélaginu síhækkar, og það er full vinna að halda í við það: að ná í nýja vídjó-sniðið á tölvuna, að læra að nota nýja tölvuforritið, að kaupa nýja þunglyndislyfið... Þessi stöðuga tæknilega, og þar af leiðandi menningarlega hröðun er afleiðing hagkerfis byggðu á deilum, þar sem stöðug nýbreytni er nauðsynleg bæði til að selja nýjar vörur og til að halda í við alla sem nota þær.

Allt bendir til þess að fólk eyði meiri tíma í vinnunni til að fullnægja ,,grundvallar þörfum'' sínum í dag en nokkru sinni fyrr. Frummaðurinn eyddi stærstum hluta dags síns í skapandi frístundir. Á meðan við með öll tímasparnaðartólin okkar eyðum bróðurparti lífs okkar í að safna fyrir og nota þau, í að slá garðinn og bíða í umferðinni til að kaupa fleiri rafhlöður í þau. Og auðvitað, því meiri tíma sem við eyðum við að vinna fyrir tómum nauðsynjum, því minni tíma höfum við til að lifa.

Leikur

Taktu mið af sjóndeildarhringnum, láttu ekkert annað vera markmið þitt.

Leikur er það sem á sér stað þegar öll vandamálin við það að skrimta hafa verið leyst og einhver orka er eftir í annað. Leikur er ekki bundinn af utanaðkomandi kröfum, leikandinn kemur á sínum eigin gildum og merkingum á meðan á leiknum stendur. Leikur á sér stað í frelsi; eða reyndar; hann er forsenda frelsis. Í leik á einstaklingurinn samskipti við öflin í umhverfi sínu frekar en að sýna bara viðbrögð við þeim, og skapar gjörðum sínum samhengi í leiknum frekar en að mótast aðeins af aðstæðum. Þannig er sjálfs-ákvörðun möguleg. Leikur á sér stað í dag í ærslum á göngum skólans, á herbergisveggjum táninga, í sérviskulegum innréttingum húsa sem heimilislausir hafa tekið yfir, í dansi uppreisnarfólks á milli þess sem það berst við lögregluna, í hreyfingum elskanda sem ást.

Kappnóg er af auðlindum til leiks. Yfirleitt er það svo að því meira sem maður leikur sér, því meira verður öðrum mögulegt að leika sér og þau hvött til þess; sönn leikgleði er smitandi. Maður getur ekki leikið sér á kostnað annara lengi, það að vera ,,frjáls'' á þann hátt endar alltaf á því að heimta mikla vinnu, eins og með ,,farsælan'' forstjóra, og veitir ekki raunverulegan, sjálfkrafa leik, eins og týpísk kulnun hlutabréfakaupmannsins sýnir.

Það er óvíst hvort margt af því sem kallað er ,,leikur'' er það raunverulega: Er það leikur þegar bissnisskarl spilar golf með yfirmanni sínum? Þegar hópur ungra manna spilar körfubolta saman samkvæmt nákvæmum reglum, með baráttuna fyrir yfirráðum sífellt undir niðri? Hvað um það þegar ungur maður snýr heim úr vinnu svo úrvinda að hann hefur ekki orku í annað en ,,leika'' tölvuspil?

Börn, hinsvegar, fæðast í heiminn vitandi vits allt um leik, a.m.k. þangað til þau hafa eytt nokkrum árum lokuð í litlum sjónvarpsherbergjum. Við getum endurfangað týnt sakleysi, okkar og þeirra, með því að líta á allt sem við aðhöfumst sem leik frekar en baráttu eða ábyrgð, með því að skapa umhverfi hvar við getum vaxið villt. Því best geymda leyndarmál kapítalismans er það að leikur getur líka veitt okkur nauðsynjar: Vinna er óþörf nema í algerustu neyð.

Vinna

Vinna veitir okkur nauðsynjar til að skrimta, ekkert meira. Hún birtist ætíð sem svar við þörf, hvort sem það er þörfin fyrir mat, skjól og líftryggingu, fyrir að ná góðri þjóðfélagsstöðu eða fyrir að lúta vinnuskyldu hinnar lúþersku innrætingar. Vinna svarar nauðsynjum; leikur skapa sínar eigin reglur.

Gjafir

Við vitum að allt er ómetanlegt.

Gjörólíkt því að skiptast á hlutum, er athöfnin að gefa verðlaunandi í sjálfu sér. Í gjafa-hagkerfi, sem verður til hvenær sem einhverju er deilt frjálst meðal einhverra og enginn telur hver skuldar hverjum hvað, fá þeir sem taka þátt meira en þeir veita. Hver sem hefur deilt raunverulegum vinskap eða morgni fullum magnaðra ástaratlota veit inni í sér að þegar möguleikinn er fyrir hendi snúa manneskjur aftur til þessara náttúrulegu samskipta.

Það er áskorun að finna og deila því trausti og þeirri ábyrgð sem til þarf til að koma þessu aftur á sem grundvelli mannanna mála, eins og það var áður en illgresi ágirndar skaut rótum.

Frelsun mín og fögnuður og heimurinn minn gjörvallur byrja þar sem þinn byrjar. Enginn getur skipað mér, því ég hef, af eigin vilja, lofað að gefa allt! Endurgjaldslaust, því það er eina leiðin til að gefa.

Skipti

Sagt er að allt kosti sitt.

Frelsi endar þar sem hagfræði byrjar. ,,Fáðu andvirði snúða þinna, stritaðu fyrir kaupi þínu, ekkert er ókeypis''. Hagkerfi byggt á skiptum setur lífið upp sem núllsummu-íþrótt milli viðskiptamanna sem reyna að yfirbjóða og leika á hvern annan til þess að eignast fleiri hluta af heiminum. Frjáls viðskipti og frjáls markaður eru þversagnir þegar kerfisbundinni samkeppni er frjálst að beygja allt mannkynið að sérréttindum sínum, þartil engum frjálst að einbeita sér að nokkru öðru.

Viðskiptaleg hugsun gefur sér einvíða mælieiningu gildis, með hverri hægt er að meta allt: Kosti gúrka 100 kr. og nýr sportbíll 3.000.000 kr, þá hlýtur sportbíll að vera nákvæmlega 30.000 gúrka virði. En slíkar jöfnur eru fáránlegar. Getur þú reiknað út peningalegt verðmæti vinskapar, eða gengi sniðugs brandara miðað við vandlega matreitt lasagna, gildishlutfall fuglasöngs í skóginum og núverandi markaðsverðs viðar? Þeir sem vilja mæla slíka hluti gleyma öllu sem er fallegt og óendurtakanlegt við þá; þegar maður gerir sér grein fyrir þessu, verður ljóst hve sjúklegir slíkir reikningar eru í öllum samhengjum. Eins og maður gæti ,,átt líf skilið'' í öllu sínu flókna veglyndi til að byrja með; hvað þá farsæld eða vesöld, kyrrðarstund við sólarupprás, svalandi gúrkubita, tilfinninguna að keyra yfir löglegum hámarkshraða! Þannig verkar heimurinn einfaldlega ekki. Hver sem hefur lifað með skilningarvitin opin veit að bestu og verstu hlutirnir sem lífið býður upp á eru hlutir sem enginn gæti unnið fyrir. Til að meta peningalegt gildi upplifana og tilfinninga, hvað þá að eiga viðskipti með líf fólksins í kringum þig með eigin hag fyrir augum, er að fletja heim sjálfs þíns og hvers sem þú snertir.

Vélar viðskiptanna éta gæði og æla magni, binda framfarir í þrældóm fyrir fyrirlitlega framleiðslu, kenna að fyrir praktískum nauðsynjum, gleðistundum sem og hugvakningum þurfi að vinna. Það er eitthvað af gömlu kristnu kennisetningunni um sekt og frelsun í því hvernig hlutabréfaeigendur tala um erfiðisvinnu og það að eiga eitthvað skilið. Fyrir þessu fólki er allt sem er ókeypis í besta falli grunsamlegt, ekkert sem fæst án fórna getur verið einhvers virði og athöfnin að borga fyrir hluti (með umbuninni fyrir að hafa afsalað sér lífi sínu) er orðin mikilvægari í sjálfu sér en nokkuð sem þeir geta keypt. Það er eina leiðin til að kaupa sig út úr helvíti ,,gildisleysisins'' sem flækingurinn og ævintýramaðurinn lifa í, ekki án smá öfundar-illgirni. Fyrir þeim eiga manneskjur ekki hamingju, þægindi, jafnvel tilveruna sjálfa ,,skilið'' nema þær borgi með eymd. Það ætti ekki að koma á óvart að margir verkamenn sjá hlutina svona: gerðu þeir það ekki, yrðu þeir að horfast í augu við það að þeir hefðu eytt lífi sínu til einskis. Á sama hátt er sömu ásökun um gildisleysi stungið að þeim sem vilja hafna viðskipta-hagkerfinu af þeirra eigin líkömum, þeir komast að því að þeir geta ekki fengið mat að borða eða fundið mjúkan stað til þess að sofa á nema þeir gefi hluta sjálfs síns í staðinn.

Því þegar sumir þjóðfélagsþegnar byrja að hamstra og versla fyrir eigin hag, verða allir sem eiga samskipti við þá að taka upp sama nirfilskap og sjálfselsku til að lifa af, og þeir miskunnarlausustu enda óumflýanlega með mesta valdið, á meðan gjafmildi og göfuglyndi rýrast. Í dag bíður heimurinn eftir nýju örlæti, færu um að verja sig.

Sambönd byggð á ást

Samvinna…

Ást er örugg, óhrædd, örlát. Ást krefst einskis og dæmir ekki eftir stöðlum. Ást lofsyngur, heldur upp á það einstaka og skapar fegurð. Það að upplifa ást er að vera þakklát(ur) fyrir alla fortíð, nútíð og framtíð, að finnast um stundarkorn tilvera manns hafa tilgang. Að vera ástfanginn er ekki að vera blekktur eða bjargarlaus, heldur að græða nýtt skilningarvit til að upplifa raunverulegan ljóma heimsins. Að upplifa ást er að vera beintengdur við harmleik tilverunnar, sem er ekki sá að ekki sé næg fegurð í lífinu, heldur að ekkert okkar hefur næga breidd eða dýpt sjálfsins, eða tíma á þessari plánetu, til að fyllilega njóta þess dýrðleika sem heimurinn er fullur af.

Ást á í stríði við hvern þann frið sem er í raun stríð kerfisbundið og falið, því ást er vægðarlaus óvinur heimskulegrar baráttu og sóunar. Það er ást, á frelsinu ef ekki á lífverum í kringum okkur, sem gerir það mögulegt fyrir okkur að vera til saman og eltast við okkar eigin langanir frekar en að örmagnast sem þrælar feitu, gömlu Misklíðar. Þau sem eru ástfangin læra að tengja þarfir hvers annars við sínar eigin, svo að lokum sjá þau engan mun og komast yfir tvískiptinguna ég/aðrir sem er rót vestrænnar firringar: þannig finnum við í ást leið til að fara fram úr okkur sjálfum, til að upphefja hvort annað og okkur sjálf í lífinu.

Fegurð verður að skilgreinast sem það sem við erum, annars verður hugtakið sjálft óvinur okkar. Hví að veslast upp í skugga staðals sem við getum ekki persónugert, hugsjónar sem við getum ekki lifað?

Að koma auga á fegurð er einfaldlega að læra það einkatungumál merkingar sem er líf annarar manneskju; að bera kennsl á og hafa yndi af því sem það er.

Sambönd byggð á valdi

…eða þvingun?

Þegar þú lifir í ótta, getur þú aðeins nálgast heiminn með byssu í hönd. Eins og þeir sem sjá skort í hverju horni skapa heim skorts, skapa þeir sem treysta á vald í samskiptum við aðra nauðsyn fyrir það; og þeir sem fæðast inn í þennan heim valdbeitingar fá hringrásina í arf.

Valdbeiting er til í lúmskari útgáfum en nauðgun, sprengjuárás í þágu friðar og viðskiptabann. Hún kemur falinn sem útlitsstaðlar (sem jafnvel þykjast vera ,,heilsu'' staðlar), sálfræðilegar pressur sem láta fólk bæla niður drauma sína, lög sem framfylgt er af almenningsáliti auk einkennisklæddra óþokka. Hún kemur jafnvel dulbúin sem smávægileg , að því er virðist, rifrildi vina (því hver sem leitast við að koma á valdastöðum, jafnvel hvað varðar þekkingu á hversdagslegum hlutum, leitar vogarstanga til að beita félaga sína valdi), eða þögulla sjálfsmeiðsla sem elskendur og ættingjar nota stundum til að ráðskast hver með aðra. Öfugan og eineggja tvíbura yfirgangs karlrembunnar.

Sumir kalla þetta lýðræði. Fékkst þú að kjósa um skilaboð auglýsinganna sem þú ferð framhjá á hverjum morgni, ræðurðu einhverju um hvað þær halda áfram að endurtaka innan huga þíns allan daginn, tréin sem þeir höggva niður við hús þitt til að rýma fyrir nýrri bensínstöð? Hvað um rotvarnarefnin sem þeir setja í matinn sem þú borðar, eða líðan verkamannana í verksmiðjunum sem framleiða þau? Laun þín fyrir vinnuna, eða hve mikla peninga ríkið hefur af þér? Þetta eru ekki bara óumflýjanlegar ,,staðreyndir lífsins'', þetta er barátta sem birtist sem kerfi mannlegra samskipta; hver maður fyrir sig sjálfan og valdið stendur gegn okkur öllum. Haugar kúgandi skriffinsku og ofbeldis gegn konum, hlutdrægar fréttirnar og ómannúð verksmiðjubændanna, keppnin um yfirráð meðal kollega og ríkja. Allt eru þetta samtíma framsetningar átakanna sem eru hjarta siðmenningar okkar og vopnanna sem, í höndum flokkanna sem berjast fyrir tilvist sinni eftir reglum þeirra, halda þeim við.

Að lifa við valdbeitingu sviptir mann trausti, skilur mann eftir tilbúinn til að beita aðra valdi, til að fara með þá eins og heimurinn hefur farið með mann. Það er vel þekkt að grunnskóla hrekkjusvínið hrekkir vegna þess því finnst það vera einskis virði, að ofbeldisseggir á táningsaldri fremja skemmdarverk vegna óöryggis og vanrækslu; hve mikla sjálfsfyrirlitningu og örvæntingu er þá að finna í hjarta mógúlanna og verðbréfamiðlaranna, hverra vélráð halda heimsmarkaðnum í gangi? Hvort sem um er að ræða ræstitækna eða leikstjóra, þá sækjast allir, sem finnast þeir ekki nógu öruggir til að skapa og uppfylla eigin draumum, eftir umbun í formi eigna, stöðu eða jafnvel enn augljósari valda yfir öðrum.

Þannig þróast hugarfar þar sem litið er á öll mannleg samskipti sem baráttu milli innbyrðis óásættanlegra hagsmuna. Það er engin furða að mörgum reynist erfitt að ímynda sér hvernig mannverur gætu lifað án þvingunar (þess sem þeim hefur verið kennt að líta á sem) ,,velviljaðra'' krafta. En samkeppni, bardagar og barátta hverskonar hindra frelsi, því þau þröngva kröfum sínum á alla sem eru móttækilegir fyrir þeim, trufla og einfalda. Skelfingar-miðlararnir staðhæfa að stigskipt valdakerfi sé nauðsynlegt til að vernda okkur fyrir ofbeldinu sem sé eðlislægt tegund okkar, en valdakerfi er einfaldlega birtingarmynd ofbeldisins sem er eiginlegt þjóðfélagskerfis okkar. Sú staðreynd að valdakerfi er ekki alltaf til staðar (meðal vina, í hópavinnu, í öðrum þjóðfélögum) sannar að við getur líka lifað án þvílíks ofbeldis.

Í raun er hver barátta einfaldlega samband byggt á valdi. Jafnvel þær sem hafa verið þekktar, hingað til, sem uppreisnir. Draumur okkar er ekki að vinna annað stríð, heldur að koma á algerri byltingu, stríði gegn ástandi stríðs, vegna þeirra fallegu stunda þegar fólk getur verið þakklátt fyrir tilveru hvers annars.

Traust

Fjárfestu í framtíðinni...

Maður fjárfestir fyrir sjálfan sig annaðhvort í nútíð, eða framtíð. Bregst annaðhvort við núverandi aðstæðum og kröfum þeirra, eða reynir að breyta þeim. Þú getur eytt allri orku þinni í að skrimta samkvæmt skilyrðum markaðshagkerfisins, eftirvæntingum foreldra og vina, í mætti eigin athafnaleysis eða hætt öllu til að úrelda allt ofantalið.

Traust er að trúa á endalausa möguleika alheimsins, og það að leggja af stað og kanna þá. Það er að vita það að stökkvir þú fram af bjargi, er víst þú lendir einhverstaðar. Að treysta því að heimurinn sé stærri og ríkari en þú gætir hugsanlega séð þaðan sem þú stendur og finna því ekki pressu á að skipuleggja afgangs lífs þíns. Betra er að rissa út leið að sjóndeildarhringnum: þaðan sérð þú lengra og getur rissað nýja leið samkvæmt því sem þú sérð. Guð hjálpi þeim sem gera langtímaáætlanir í dag og halda sig við þær. Líf þeirra verða aldrei meiri en þau geta ímyndað sér akkurat núna!

Traust leyfir þér að fylgja innsæi þínu þegar þú þarft þess: Í stað þess að vera fangi þess sem þú veist, gerir þú það sem þú þarft að gera. Traust gefur þér vald yfir ótta þínum. Hvort sem þú stendur á móti óeirðalögreglunni, ert að fæða barn eða bara syngja er traust ómissandi fyrir líf með stóru L-i.

Ótti

...eða verndaðu sjálfan þig fyrir dauða

Þau sem lifa í ótta reyna aðeins að styrkja nútíðina. Þeim er ómögulegt að taka sjálfstæðar ákvarðanir, þau eru of upptekin við að bregðast fyrirfram við atburðum sem hafa ekki einu sinni gerst ennþá. Þau geta aðeins ímyndað sér framtíðina, hvaða framtíð sem er, sem ógnun. Þau treysta engum óþekktum möguleikum og því geta möguleikarnir aldrei gefið þeim neitt meira en þau þegar hafa.

Það er óttinn sem er rót alls ofbeldis og baráttu. Treysti manneskja félögum sínum og heiminum í kringum sig til að útvega, ef ekki það sem hún telur sig þurfa, þá a.m.k. eitthvað jafn skrýtið og yndislegt, getur hún líka verið blíð og örlát. Finni hún fyrir ógnun af þeirra hendi, fer hún í vörn og verður árásargjörn, slær frá sér í blindni, og fyllist biturleika og grimmd. Hefnd verður hennar stærsti áhrifavaldur, sterkari nokkurri annari löngun og hún gerir hvað sem er til að ná fram hefndum á þessum heimi sem hefur gert hana svo óvelkomna og einskis virði. Þannig breiðir hún sótt sína um heiminn. Ótti, eins og traust, viðheldur sjálfum sér þangað til eitthvað stöðvar hringrásina.

Spurðu sjálfan þig, lifir þú af ásettu ráði? Gengur þú mót áhættu með höfuðið hátt, eða neitar þú sjálfum þér vegna ótta? Við hvað ert þú hrædd(ur)? Hvað ertu að spara sjálfan þig fyrir? Átt þú líkama þinn? Átt þú það sem þú ert að upplifa? Ekki spara þig. Ekki hlífa þér. Varðveisla líkamans eða sálarinnar er tilgangslaus, við deyjum öll að lokum.

Það eru tvö hugsanleg svör við ótta. Eitt er að hnipra sig saman. Hitt er að elta óttann, nota hann sem leiðsögumann, til að rata yfir mörk heims þess sem þú þekkir. Suma hluti er ekki hægt að skrifa eða segja. Farðu og leitaðu!


Þýtt af www.crimethinc.com

Sölvi Úlfsson

Til baka í greinar