Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Inngangur

Spænska borgarastyrjöldin er án efa einn merkasti sögulegi atburður 20. aldarinnar. Margir segja að hún hafi verið eins konar forleikur seinni heimsstyrjaldarinnar, uppgjör milli hægri- og vinstristefna Evrópu á þessum viðkvæmu eftirstríðsárum og í kjölfar alheimskreppu sem skerpti mjög á andstæðum þjóðfélagsins. Styrjöldin laðaði að sér ótal sjálfboðaliða alls staðar að úr heiminum sem flykktust lýðveldinu til varnar og báðar hinna stríðandi fylkinga töldu að með aðgerðum sínum væru þær að bjarga heiminum frá alheimsvá hugmyndafræði andstæðingsins. Mig undrar því hvers vegna Spánarstyrjöldin - eins og 1. tölublað íslenska tímaritsins Réttur árið 1937 kallaði styrjöldina1 - fær ekki stærri sess á blöðum sögubóka eða í hugarheimi kvikmyndaframleiðenda. Almenningur veit varla að styrjöldin hafi átt sér stað, hvað þá um hvað hún snerist eða mikilvægi hennar í alþjóðastjórnmálum 4. áratugarins.

 

Það gladdi mig því óhemju mikið að rekast á kvikmyndina Land og frelsi á leigunni einn góðan veðurdag. Þegar sú staða kom upp að gera skyldi ritgerð um sögulega kvikmynd lá það beint við fyrir mig sem áhugamann um sagnfræði og spænsku borgarastyrjöldina að velja þá mynd. Hér verður fyrst og fremst fjallað um þann hluta styrjaldarinnar sem myndin gerist í auk svolítillar forsögu til að auka skilning á atburðunum sem annars er skýrt frá. Fjallað verður um upphaf borgarastyrjaldarinnar, byltingarkennda upphafsmánuði hennar og hvernig byltingin var kæfð í miðri styrjöld. Einnig er fjallað lítið eitt um þá hópa sem hvað mest áberandi voru í röðum lýðveldissinna og þá sér í lagi anarkistana en án þátttöku þeirra hefði framganga þessarar styrjaldar verið allt önnur.

Lítið eitt um kvikmyndina Land og frelsi

Kvikmyndin Land og frelsi kom fyrst út árið 1995 og vakti strax mikla athygli. Leikstjóri hennar er Bretinn Ken Loach og hefur hann gert ótal bíómyndir, sjónvarpsmyndir og heimildamyndir. Hann er ötull vinstrisinni og það skilar sér í myndum hans og hefur hann því ekki starfað mikið innan Hollywood. Myndin fjallar um David (leikinn af Ian Hart) sem er ungur og atvinnulaus kommúnisti frá Liverpool. Hann heldur til Spánar árið 1936 til að berjast með skoðanabræðrum sínum gegn fasismanum og gengur til liðs við herdeild á vegum POUM flokksins sem var byltingarsinnaður kommúnistaflokkur. Þannig fáum við í gegnum reynslu hans og daglegt líf að kynnast gangi mála í styrjöldinni og þá stefnu sem hún tekur allt þar til hann heldur heim seinnipart ársins 1937, vonsvikinn en reynslunni ríkari. Myndin fékk þónokkur verðlaun, þar á meðal á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hún naut töluverðra vinsælda í Evrópu, sérstaklega á Spáni þar sem hún varð til mikilla deilna og umræðna um styrjöldina. 2

Uppreisn fasistanna

Þann 17. júlí árið 1936 hóf hluti spænska hersins í spænska hluta Marokkó uppreisn gegn lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn landsins og innan við sólahring síðar náði uppreisnin til alls Spánar. Nokkrir hershöfðingjar tóku strax á sig ábyrgðina, þar á meðal Francisco Franco sem flaug frá herstöð sinni á Kanaríeyjum til meginlands Spánar í upphafi uppreisnarinnar og varð fljótt leiðtogi hennar. Uppreisnina studdu fulltrúar kirkjunnar, hin efnaða borgarastétt og ýmsir hægri sinnaðir stjórnmálamenn og fræðimenn.

Herforingjarnir höfðu verið óánægðir með ýmsar breytingar sem ríkisstjórnin hafði komið á síðan hún vann kosningar í febrúar 1936 en stjórnin var mild vinstri stjórn, ekki ósvipuð þeirri sem var við stjórnvölinn í Frakklandi á sama tíma undir forystu León Blum.3 Ein af þeim fjölmörgu breytingum sem stjórnin var að vinna í var að reyna að dreifa ræktanlegu landi á fleiri hendur, þ.e. að fá fátækum, sveltandi bændum landskika í hendurnar til að rækta en þetta kom mjög illa bæði við stórbændur - sem lifðu góðu lífi af þáverandi kerfi sem ekki var ósvipað lénsskipulagi miðalda - og aðalsfólk því stór hluti af því landi sem var dreift var áður notað í að rækta naut fyrir nautaat og veiðilönd fyrir hástéttina.4 Á tímabilinu frá því nýja ríkisstjórnin tók við völdum í febrúar 1936 fram að uppreisninni í júlí voru 712.070 hektörum lands dreift til fátækra bænda. 5

Önnur stórfelld breyting sem ríkisstjórnin vann í var að endurskipuleggja allan herinn en spænski herinn innihélt á þessum tíma - þrátt fyrir hlutleysisstefnu Spánar í fyrri heimsstyrjöldinni - einn mesta fjölda yfirmanna og herforingja í Evrópu. Lögin sem stjórnin setti voru þó svo götótt að auðvelt var fyrir hátt setta hermenn á framabraut að þvælast úr einni stöðu í aðra og frá einni herstöð til annarrar og notuðu þeir eflaust tímann og aðstæðurnar í að skipuleggja fyrrgreinda uppreisn.6

Þegar ljóst varð í kjölfar uppreisnarinnar að ríkisstjórnin myndi ekki grípa í taumana sem skyldi fór af stað ótrúleg atburðarrás þar sem almenningur helstu borga Spánar reis upp gegn yfirgangi hersins og hóf varnaraðgerðir.

19. júlí 1936 er oftast talinn upphafsdagur borgarastyrjaldarinnar. Þá brutust fyrst út átök milli uppreisnarhersins og almennings í Barcelona. Það var eldsnemma um morguninn sem herinn hertók lykilstaði í borginni en almenningur var þá þegar undirbúinn undir uppreisn því óbreyttir hermenn hliðhollir lýðveldinu höfðu haft samband við forsvarsmenn hins róttæka verkalýðsfélags anarkista og syndikalista, CNT, og látið vita af áætlunum yfirboðara sinna og hvar vopnabirgðir hersins væri að finna.7 CNT hafði áður varað við uppreisn hersins en þann 14. febrúar þetta sama ár gaf félagið út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Dag hvern eykst sá grunur að hægrisinnuð öfl séu reiðubúin að espa til hernaðarlegs valdaráns. Marokkó virðist vera miðpunktur þessa samsæris. Uppreisnin veltur á útkomu kosninganna. Áætluninni verður hrundið af stað ef vinstri öflin vinna. Við styðjum ekki lýðveldið en við munum leggja alla okkar krafta í allsherjar baráttu gegn fasisma til þess að sigra hinn hefðbundna óvin öreigastéttarinnar." 8

Ekki hafði verið hlustað á þessar viðvaranir og forsvarsmenn ríkisins bönduðu þeim frá sér og sögðu þetta helberar lygar.

Um leið og herinn fór af stað um morguninn fór almenningur, og þá sérstaklega sjálfboðaliðar frá CNT, að veita mótspyrnu sem fljótt varð að skipulögðum skæruhernaði enda verkalýðsstétt Katalóníuhéraðs alvön uppreisnum og uppþotum af ýmsu tagi, en auk þess hófst allsherjarverkfall í öllum iðnaði. Liðsmenn ríkislögreglunnar (spæ: "guardia asalto") og stór hluti þjóðvarðliðsins - sem átti bækistöðvar í borginni - gekk til liðs við almenning og eftir 36 klukkustunda átök stóðu íbúar Barcelona uppi sem sigurvegarar. 9

Herfylkingar (ens: "militias") voru stofnaðar í flýti og sjálfboðaliðum sem voru reiðubúnir að fara til annarra bygðarlaga og berjast var safnað saman. Nokkrum dögum síðar fór fyrsta slíka fylkingin af stað frá Barcelona og innihélt hún um 3000 sjálfboðaliða, flesta úr röðum CNT, og var hún undir forystu hins nafntogaða anarkista Buenaventura Durruti.10 Samtímis tók almenningur Barcelona til höndunum við að endurskipuleggja borgina, varnirnar gegn ágangi uppreisnarhersins og samfélagið sitt í heild því eins og George Orwell komst svo réttilega að orði þá var svona sigur einungis mögulegur vegna þess að fólk "...trúði því að það væri að berjast fyrir einhverju betra en 'óbreyttu ástandi'... það væri erfitt að trúa því að anarkistar og sósíalistar ... væru að þessu ... til þess að viðhalda kapítalísku lýðræði." 11

Stríð eða bylting?

Í kvikmyndinni Land og frelsi kemur mjög vel fram á hvaða hátt borgarastyrjöldin var einnig bylting í þjóðfélags- og stjórnmálaháttum Spánar, og þá sérstaklega Katalóníuhéraðs. Þegar herfylking Davids frelsar þorp nokkuð undan her fasista tekur við uppstokkun ræktunarlands fyrrum stórbænda þorpsins og heitar umræður um hvernig best sé að samnýta landið. Þetta var eitt mikilvægasta atriði borgarastyrjaldarinnar því það má segja að hún hafi staðið og fallið með þessum byltingarkenndu þjóðfélagsbreytingum sem þarna áttu sér stað í fyrri hluta styrjaldarinnar.

Þegar uppreisnarherinn hafði verið hrakinn á brott frá Barcelona og almenningur búinn að yfirtaka borgina að mestu var efnt til fundar. Byltingarsinnar vissu að þeir yrðu að vinna saman með lýðveldissinnum og öðrum andfasistum. Forsvarsmenn CNT og annarra andfasískra samtaka hittu því forseta Katalóníu, Luis Companys, að máli og saman komust allir aðilar að samkomulagi um að setja á fót Miðstjórnarnefnd andfasískra herfylkinga Katalóníu (ens: "Central Committee of Anti-Fascist Militias in Catalonia") en hún myndi hafa yfirumsjón með andstöðunni við Franco og uppreisnarher hans. Stofnaðar voru nefndir til umsjónar alls samfélagsins og þær fyrstu voru hverfisbundnar nefndir sem skipulögðu úthlutun matar til borgarbúa. Þar með voru öll völd tekin úr höndum ríkisstjórnar Katalóníu en hún var á fyrstu mánuðunum eftir 19. júlí nánast eingöngu til skrauts. 12

28. júlí var allsherjarverkfallið afboðað og fólk hvatt til að halda til vinnu sinnar. Þar sem stór hluti verksmiðju- og fyrirtækjaeigenda höfðu flúið borgina með hermönnum Francos og byltingarandinn lá yfir vötnum yfirtóku verkalýðsfélögin stjórn fyrirtækjanna og fór það yfirleitt þannig fram að starfsmenn hverrar verksmiðju tóku yfir alla þætti framleiðslunnar, stjórnunarinnar og skriffinnskunnar. Áhersla var lögð á að koma af stað framleiðslu tækja og tóla sem vantaði nauðsynlega í stríðið gegn fasistum sem og brýnustu nauðsynja almennings. Merkilegt þykir að í þeim tilfellum sem verksmiðju- eða fyrirtækjaeigendur höfðu ekki flúið og starfsmenn ekkert undan þeim að kvarta frá fyrri tíð var þeim boðið að halda áfram að taka þátt í rekstri fyrirtækjanna þó eignarhaldinu væri nú öðruvísi háttað. 13

George Orwell lýsir stemningunni í Barcelona á þessum tíma mjög vel í bók sinni Homage to Catalonia:

Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði nokkurn tíma verið í bæ þar sem verkalýðurinn réði ferðinni. Nánast hver einasta bygging ... hafði verið yfirtekin af verkamönnum og þær voru þaktar rauðum fánum eða rauðum og svörtum fána anarkistanna ... Hver búð og kaffihús höfðu áletranir sem á stóð að það hefði verið samnýtt ... Þjónar og búðaráparar litu framan í mann og komu fram við mann sem jafningja ... Enginn sagði "herra" ... eða jafnvel "þér" allir kölluðu hvorn annan "félagi" eða "þú" ... Það voru engir einkabílar, þeir höfðu allir verið yfirteknir og allir sporvagnarnir og leigubílarnir ... voru málaðir svartir og rauðir ... en það var útlit mannfjöldans sem var undarlegast af öllu ... þetta var bær þar sem efnuðu stéttirnar voru nánast ekki lengur til. 14

Í þorpum í sveitinni voru stórbændur hraktir í burtu með liðsmönnum Franco-hersins, prestum og öðrum stuðningsmönnum uppreisnarinnar. Landinu var skipt upp og í flestum tilfellum samnýtt á einhvern hátt. Stjórn þorpanna var í höndum þorpsbúa sjálfra sem skipuðu nefndir til að sjá um hin ýmsu mál. Oft voru peningar afnumdir; einkaeign og skattar heyrðu sögunni til. Íbúarnir skipulögðu oft á tíðum vöruskiptasamband við nágrannaþorp eða borgir, stofnuðu skóla í herragörðum stórbændanna og kirkjurnar oft notaðar sem vörugeymslur. Þegar upp kom ágreiningur, eins og sá sem sást í myndinni Land og frelsi, milli þeirra sem vildu alfarið samnýta og þeirra smábænda sem vildu vinna í friði á sínum skika voru þau mál yfirleitt leyst þannig að þeim var bannað að ráða fólk í vinnu (í anda þeirra hugsjóna sem stjórnuðu þessum aðgerðum var öll launavinna afnumin) en þeim var frjálst að yrkja sitt land í friði ásamt fjölskyldu sinni. Oft komust á samstarfssamningar milli þessara smábænda og samnýtingarhópsins (ens: "the collective"). 15

Sjálfum herfylkingunum var stjórnað á þennan byltingarsinnaða máta. Kosið var um yfirmenn og allar helstu ákvarðanir. Heragi og formlegar kveðjur voru ekki til staðar á hinn hefðbundna máta. Hermenn í skotgröfum víglínunnar notuðu gjallarhorn jafn mikið og riffil í baráttu sinni við andstæðingana. Hugmyndin var að reyna að snúa óbreyttum hermönnum fasista á sitt band með því að höfða til stéttavitundar og siðferðis þeirra. "Ekki berjast gegn þinni eigin stétt" var óspart kallað yfir til skotgrafa fasistanna. 16

Ekki voru allir sammála um kosti svo róttækra þjóðfélagsbreytinga sem byltingin kom á. "Fyrst er að vinna stríðið, svo getum við rætt um byltingu" sagði Largo Caballero, forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar og sósíal-demókrati á sænska vísu, í viðtali við erlenda blaðamenn í september árið 1936. 17 Hinir mildari flokkar andfasísku hreyfingarinnar voru ekki á eitt sáttir með þessar víðtæku breytingar og jafnvel kommúnistaflokkur Katalóníu, PSUC, krafðist þess að dregið yrði úr áhrifum byltingarsinna og stefnt fyrst og fremst á að verja lýðræðið. Þessir hópar - fyrir utan að innihalda marga meðlimi sem áttu ýmissa hagsmuna að gæta - voru fyrst og fremst að reyna að fegra styrjöldina í augum nágrannalandanna í von um aðstoð en bæði Bretar og Frakkar héldu úti strangri hlutleysisstefnu í garð spænsku borgarastyrjaldarinnar einmitt vegna ótta við byltingarsinnaðar hugsjónir hennar. 18 Meira að segja Sovétríkin fóru fram á mildari hugsjónir enda voru þau að reyna að fegra ímynd sína í augum hinna vestrænu lýðræðisríkja í von um samstarf gegn Hitler. 19 Stalín setti einnig þau skilyrði fyrir hernaðaraðstoð að trotskyistar yrðu hreinsaðir burt úr stjórnarfyrirkomulagi og hersveitum Spánar en á þessum tíma voru hinar miklu "hreinsanir" Stalíns að hefjast fyrir alvöru. 20

Gjáin milli þessara tveggja andstæðu póla innan lýðveldisins breikkaði stöðugt og endaði loks í skelfilegu ofbeldi.

Fimm dagar í maí

Í miðri myndinni Land og frelsi sjáum við hvar David - nýgenginn til liðs við Alþjóðasveitir hins nýstofnaða Lýðveldishers eftir dvöl á sjúkrahúsi - þarf að fara að verja höfuðstöðvar PSUC í Barcelona ekki gegn fasistum heldur gegn róttækari öflum lýðveldissinna. Hvað var eiginlega að gerast?

Klukkan 15:00 mánudaginn 3. maí 1937 réðust sveitir ríkislögreglunnar inn í símstöðina í Barcelona sem hafði verið undir stjórn CNT frá upphafi styrjaldarinnar. 21 Starfsmenn stöðvarinnar - að mestu anarkistar - litu á innrásina sem ógn við stöðu sína innan lýðveldisins og vörðu sig því í skyndi (allir báru vopn í kjölfar uppreisnar hersins) svo úr varð umsátur sem stóð í eina fimm daga.

Fréttin spurðist út eins og eldur í sinu og liðsmenn CNT - sem var ráðandi afl í Barcelona og allri Katalóníu á þessum tíma - vopnuðust í flýti. Fljótt kom í ljós að sveitir lögreglunnar ásamt herskáum kommúnistum og öðrum andstæðingum anarkistanna í CNT höfðu hertekið fyrirfram ákveðna staði í borginni og gerðu liðsmenn CNT því slíkt hið sama ásamt því að boða til allsherjarverkfalls. Ótal skotbardagar brutust út milli þeirra og lögreglunnar. Víggirðingar voru reistar úr múrsteinum teknum upp úr götunni og sandpokum og öll stjórnmála- og verkalýðssamtök víggirtu húsnæði sín og dreifðu vopnum til liðsmanna sinna.

Ekki eru allir sammála um orsakir né mikilvægi þessara átaka fyrir spænsku borgarastyrjöldina. Ljóst er að töluverð pólitísk átök höfðu átt sér stað vikurnar á undan þar sem anarkistar og aðrir róttækir vinstrisinnar töldu að sér vegið. Varðsveitirnar sem stofnaðar voru í kjölfar atburðanna 19. júlí af verkalýðsfélögunum voru afnumdar og lög sett þar sem liðsmönnum lögreglunnar var bannað að tilheyra verkalýðsfélagi eða stjórnmálaflokki þrátt fyrir að yfirmaður lögreglunnar, Rodríguez Salas, væri sjálfur meðlimur spænska kommúnistaflokksins PSUC. 22 Lög höfðu verið sett um að almenningur skyldi afvopnaður og kom það illa við kauninn á anarkistum sem verst urðu fyrir barðinu á þessum lögum þar sem lögreglan réðst inn í bækistöðvar þeirra og gerði öll vopn upptæk. 23 Í apríl 1937 hafði einnig uppgötvast að óprúttnir einstaklingar innan kommúnistaflokksins ráku leynileg fangelsi þar sem bæði fasistar og þeir sem kommúnistar kölluðu trotskyista voru í haldi og jafnvel pyntaðir. 24

Sumir halda því fram að upphaf átakana í Barcelona megi rekja til morðsins á Roldán Cortada, þekktum meðlim PSUC, 25. apríl 1937 en anarkistum var kennt um það án þess að nokkurn tíma hafi verið færðar sönnur fyrir því. Cortada var gerður að píslarvotti fyrir málstað kommúnista og við jarðarför hans gengu hersveitir kommúnista og lögreglunnar um Barcelona og hrópuðu slagorð gegn anarkistum. Örfáum dögum síðar réðust hersveitir Lýðveldishersins á herfylkingu sem var að mestu skipuð anarkistum í landamærabænum Puigcerda og létust þrír. CNT lét undan og dró herfylkingu sína til baka frá bænum og færði Lýðveldishernum hann í hendur. 25

Eftir fimm daga af götubardögum milli þessara fyrrum samstarfshópa var loks samið um vopnahlé enda ekki seinna vænna því stuttu síðar komu hersveitir frá Valencia sem sendar höfðu verið með skipum til Barcelona til að kveða niður óöldina og bjarga Azana, forseta lýðveldisins, sem hafði verið lokaður á skrifstofu sinni og ekki þorað út eftir átökin hófust. 26 Leiðtogar CNT höfðu ótal sinnum biðlað um vopnahlé og reynt að semja við forystumenn kommúnista í von um að halda mætti í and-fasíska einingu lýðveldissinna en með litlum árangri. Ætlunin var að kveða niður byltingarsinnuð öfl, hlýða skipunum frá Sovétríkjunum um að bola burt trotskyistum og öðrum andófsmönnum og koma á hefðbundnu skipulagi. Þegar uppi var staðið lágu 500 manns í valnum og yfir þúsund lágu særðir. 27 Byltingunni á Spáni var lokið.

Stríðandi fylkingar

Það er erfitt að fjalla um spænsku borgarastyrjöldina án þess að reyna að útskýra þessa ótal hópa sem tóku þátt í henni, sögu þeirra og markmið. Ólík sjónarmið og stefnur hópanna áttu stóran þátt í gangi styrjaldarinnar og ástæðum þess að lýðveldissinnar töpuðu fyrir fasistunum. Hér verða gerð skil á helstu hreyfingum og hópum styrjaldarinnar. Það var mikill fjöldi af flokkum, hópum og hugmynda-fræðilegum hugsjónamönnum að berjast með lýðveldissinnum í styrjöldinni sem ekki verða taldir í þessari ritgerð t.d. baskneskir og katalónskir þjóðernissinnar, frjálshyggjumenn og eldheitir lýðræðissinnar en þetta voru sundurleitir hópar sem litlu máli skiptu þannig að ekki verða stefnur þeirra eða sögur tíundaðar hér. Lið fasista var í fastari skorðum þó þar hafi einnig barist fyrir hugsjónum sínum sjálfboðaliðar eins og t.d. nokkur hundruð írskra fasista sem fóru til Spánar undir forystu Eoin O’Duffy hershöfðingja 28 og aðrir sem töldu Franco vera í heilagri krossferð gegn "rauðu hættunni."" 29 Hér verður ekki farið ítarlega í sögu, hugmyndafræði eða skiptingu liðsafla Franco og það sem fram kemur annars staðar í ritgerðinni látið nægja.

a) Anarkistar

Fyrir anarkista er spænska borgarastyrjöldin einn mikilvægasti atburður nútímasögu. Hvorki fyrr né síðar hafa áhrif þeirra verið jafn ítarleg og skipt jafn miklum sköpum fyrir gang mála og þetta vita anarkistar. Ótal rit hafa verið gefin út sem ætluð eru til að draga lærdóm af styrjöldinni og læra af reynslunni ef svo má segja. Það er nánast eingöngu vegna atburða þessarar styrjaldar sem margir anarkistar dagsins í dag þvertaka fyrir alla samvinnu með kommúnistum eða öðrum vinstri sinnum.

Til að skilja afstöðu anarkistana í spænsku borgarastyrjöldinni þarf maður fyrst að vita hvað anarkismi er. Kennslubók Stefáns Karlssonar í stjórnmálafræði skilgreinir anarkisma svona: "...hugsjón um þjóðskipulag, þar sem engin ríkisstjórn er til staðar...þar sem einstaklingarnir stjórna sér sjálfir." 30 Anarkismi er því í stuttu máli það útópíusamfélag þar sem enginn drottnar yfir öðrum, enginn hefur vald umfram annan, friður ríkir og jafnrétti er algjört. 31 Það er því ekki að undra að í Katalóníuhéraði - þar sem anarkistar voru mjög öflugir - hafi mjög róttækar þjóðfélagsbreytingar átt sér stað.

Anarkismi kom fyrst til Spánar með Ítalanum Guiseppe Fanelli árið 1868 þegar Mikael Bakunin, einn upphafsmanna anarkismans, sendi hann þangað til að kynna stefnu fyrsta Alþjóðasambandsins (ens: "The International"). 32 Stefnan varð strax mjög vinsæl meðal fátækra bænda sem og verkalýðsins í borgunum. Samtök og verkalýðsfélög voru fljótt stofnuð og árið 1910 var CNT - Landssamband Verkalýðs - sett á fót en það var einskonar móður-verkalýðsfélag sem samanstóð af fjölmörgum smærri einingum anarkista og annarra róttækra vinstrisinna sem almennt gengu undir nafninu syndikalistar.33 Sambandið stóð fyrir og átti þátt í fjölmörgum verkföllum, uppreisnum og almennu andófi árin þar á eftir og voru því meðlimir þess orðnir talsvert sjóaðir í vopnuðum átökum. Einnig rak sambandið slitrótta blaðaútgáfu.

Árið 1927 stofnuðu anarkistar á Spáni annað félag, sem að mestu starfaði innan og með CNT en var þó ekki háð því. Félagið hlaut nafnið Bandalag Íberískra Anarkista (FAI) og tilgangur þess var tvíþættur: Annars vegar að veita CNT aðhald í stefnumálum og heillindum og hins vegar að sameina alla anarkista Íberíuskaga (þ.m.t. Portúgali) í ein samtök. 34 FAI gaf út dagblöð, tímarit og bæklinga og stundaði ýmis konar áróðursstarfsemi auk þess sem það tók virkan þátt í styrjöldinni. Nafn myndarinnar Land og frelsi (spæ: "Tierra y libertad") er einmitt komið frá heiti eins af dagblöðum FAI. 35

Einn helsti og merkasti baráttumaður anarkisma á Spáni - og heiminum í raun - fyrir tíma borgarastyrjaldarinnar var Francisco Ferrer en árið 1901 stofnaði hann Nýmóðins Skólann (ens: "The Modern School") í Barcelona þar sem hann kenndi ungmennum öreigastéttarinnar hin ýmsu fræði auk þess að gefa út bækur og bæklinga um heimspeki, vísindi, anarkisma o.s.frv. Við skólann kenndu víðfrægir anarkistar á borð við Peter Kropotkin, Emma Goldman, Anselmo Lorenzo auk fjölda annarra sem ekki voru endilega pólitískt þenkjandi. Ferrer var opinskár andófsmaður og hvatti oft á tíðum til verkfalla og uppreisna og svo fór að hann var handtekinn og tekinn af lífi árið 1909. 36

Eins og áður hefur komið fram voru anarkistar með þeim fyrstu til að veita hermönnum Franco mótspyrnu, stofnuðu og leiddu fyrstu herfylkingarnar og áttu einn stærsta þáttinn í þeim byltingarsinnuðu breytingum sem áttu sér stað í kjölfar 19. júlí.

b) Sósíalistar og kommúnistar

Þegar hugmyndafræðilegar deilur milli Mikaels Bakunin og Karls Marx um markmið og stefnuleiðir Alþjóðasambandsins áttu sér stað árið 1872 stofnuðu stuðningsmenn Marx á Spáni sitt eigið verkalýðsfélag: UGT (Almenna Verkalýðsfélagið). Lengi vel var það lítið og hafði sama og engin áhrif en með tilkomu fyrri heimsstyrjaldarinnar og uppgangs sósíalisma stækkaði félagið töluvert. Forsvarsmenn þess voru einnig, ólíkt anarkistunum, tilbúnir til þátttöku í þingræðislegu stjórnarfari og stofnuðu því sinn eigin flokk, Spænska Sósíalistaflokkinn, og tóku þátt í stjórnmálum þeirra svæða þar sem þeir fengu eitthvert fylgi. 37

Árið 1920 fór einn forsvarsmaður flokksins, Fernando de los Ríos, til hinna nýstofnuðu Sovétríkja þar sem flokkurinn var að íhuga að ganga í Komintern. Þegar Fernando spurði Lenín hvar frelsið væri fékk hann svarið: "Frelsi, til hvers?" 38 og þar með slitnaði upp úr samstarfi þeirra en það hafði í för með sér stofnun sér kommúnistaflokks sem lengi vel var þó lítill og áhrifalaus.

Spænski Sósíalistaflokkurinn vann sigur í kosningunum í febrúar 1936 í samsteypuframboði þeirra með ýmsum frjálslyndum lýðveldissinnum sem fram að þessu höfðu ekki verið sameinaðir í neinn sérstakan flokk eða hóp. Í ríkisstjórn fóru fyrir Spænska Sósíalistaflokkinn þeir Largo Caballero sem varð vinnumálaráðherra og Indalecio Prieto sem varð fjármálaráðherra. Báðir urðu þeir áhrifamiklir í styrjöldinni en Caballero varð forsætisráðherra þegar uppreisnin braust út. 39

PSUC varð áhrifamikill flokkur í styrjöldinni en það var samsteypuflokkur fjögurra katalónskra sósíalista- og kommúnistaflokka og var flokkurinn hliðhollur Sovétríkjunum. Opinber stefna PSUC var að ekkert skyldi koma í veg fyrir sigur stríðsins gegn fasisma og þessvegna ætti allt tal um byltingu að bíða þar til eftir stríð. Barist væri gegn einræðistilburðum fasískra uppreisnarseggja og fyrir þingræðislegu lýðræði. Þessari stefnu flokksins var ætlað að gefa jákvæða mynd af styrjöldinni til annarra ríkja í von um að fá þau af strangri hlutleysisstefnu sinni. 40 Stefna flokksins náði yfirhöndinni í styrjöldinni í kjölfar daganna örlagaríku í maí þegar Dr. Juan Negrín tók við af Caballero sem forsætisráðherra en auðveldara var að sannfæra hann um að þrýsta hælnum niður á trotskyista og samvinnu með Sovétríkjunum heldur en fyrirrennara hans sem staðið hafði í hárinu á Stalín. Því miður hafði stefna þeirra ekki tilætluð áhrif og aðstoðin sem vonast var eftir lét aldrei bera á sér.

c) Byltingarsinnaðir kommúnistar

Að síðustu skal nefna POUM flokkinn. Það er sá flokkur sem David berst með í myndinni Land og frelsi og er því mjög áberandi í myndinni. Flokkurinn var - þrátt fyrir tiltölulega smæð flokksins - áberandi í styrjöldinni og er það ekki síst vegna hins slæma hlutskiptis hans þegar nornaveiðar kommúnista hófust.

POUM (Verkalýðsflokkur sameinaðra marxista) var stofnaður upp úr tveimur litlum, sjálfstæðum kommúnistaflokkum: Samtök Bænda og Verkamanna (BOC) og Vinstri Kommúnistar en sá síðarnefndi hafði verið í samvinnu við Trotsky sjálfan en slitið henni árið 1934. 41 Meðal stofnenda POUM og sá sem varð leiðtogi flokksins var Andrés Nín. Hann hafði farið til Sovétríkjanna ásamt öðrum spænskum vinstrisinnum snemma á 3. áratugnum en, ólíkt félögum hans, varð hann eftir og starfaði þar allan 3. áratuginn m.a. sem einkaritari Trotskys. Árið 1931 hélt hann aftur til Spánar, vonsvikinn og svekktur yfir ofsóknum Stalíns á Leon Trotsky. 42

Flokkurinn var byltingarsinnaður kommúnistaflokkur í anda Leníns. Hann var frekar fámennur og náði hámarki sínu með um 40.000 meðlimi árið 193743 (CNT bjó yfir 1.5 miljón meðlimum þegar best lét). Flokkurinn var ekki tengdur neinum verkalýðshreyfingum en liðsmenn hans voru að mestu í CNT. POUM lagði áherslu á að byltingin og stríðið héldust í hendur og átti þar samleið með anarkistum en eignaðist um leið talsvert af óvinum. Stefnu sína og áróður fyrir henni birti flokkurinn í blaði sínu, La batalla, sem gefið var út í Barcelona. Þó flokkurinn hafi verið kallaður trotskyistaflokkur af óvinum sínum var hann það ekki og Trotsky sjálfur gagnrýndi flokkinn harkalega úr útlegð sinni í Noregi.44

Strax í nóvember 1936 voru blöð kommúnista farin að ásaka POUM um að hafa selt sig á vald fasista og vera svikarar. Þessar ofsóknir jukust skipulega þar til flokkurinn var flokkurinn var loks dæmdur ólöglegur í júní 1937. Leiðtogar flokksins voru handteknir og öll starfsemi flokksins leyst upp auk þess sem allir sem barist höfðu í þeim herdeildum sem stjórnað hafði verið af POUM áttu von á að vera handteknir. Einnig voru þessar herdeildir leystar upp. Meðal 400 handtekinna POUM-liða var leiðtogi flokksins, Andrés Nín, og hefur hvorki heyrst né sést til hans síðar og það er talið nánast öruggt að hann hafi verið drepinn af andstæðingum sínum. Reynt var að klína á hann og flokkinn sökum um samsæri með Franco og flokknum m.a. kennt um að hafa átt frumkvæðið að átökunum í byrjun maí í Barcelona til þess að draga athygli lýðveldisins frá aðgerðum Franco, en her hans lagði til atlögu gegn borginni Bilbao á svipuðum tíma. Þegar málið fór hins vegar fyrir dóm kom í ljós að sönnunargögnin voru fölsuð og málinu vísað frá. 45

Ofsóknirnar á hendur POUM voru skelfileg afleiðing örvæntingarfullrar tilraunar spænskra kommúnista til að fá fulla aðstoð Sovétríkjanna í baráttunni við fasisma en dugði ekki til og héðan frá lá leiðin aðeins niður á við fyrir spænska lýðveldið.

Niðurlag

Hér hefur verið fjallað um fyrri hluta spænsku borgarastyrjaldarinnar, byltinguna, og hún skoðuð í tengslum við kvikmyndina Land og frelsi. Ég hef reynt af eins miklu hlutleysi og mér er framarlega fært að sýna fram á þá atburðarrás sem átti sér stað frá 17. júlí 1936 fram á mitt ár 1937 og sögulegan bakgrunn byltingarinnar.

Þegar ég var kominn vel af stað með vinnu ritgerðarinnar sá ég fram á að verða að skera töluvert niður af því sem ég vildi fjalla um. Viðfangsefnið er svo ítarlegt og styrjöldin skipar það stóran sess í sögu 20. aldarinnar að erfitt er að skrifa um hana í fáum orðum. Þess vegna brá ég á það ráð að sleppa því að mestu að fjalla um Alþjóðasveitirnar þó svo þær séu eitt af þeim atriðum sem skapa þessari styrjöld hvað mesta sérstöðu í mannkynssögunni. Einnig neyddist ég til að sleppa því að fjalla um tengsl Íslands og Íslendinga við styrjöldina. Mér þykir leiðinlegt að hafa ekki haft tíma né aðstæður til að fjalla ítarlegar um styrjöldina en sá fram á að þurfa þá að skrifa heila bók!

Það sem kom mér hvað mest á óvart við rannsóknarvinnuna á þessu efni, fyrir utan hversu ótrúlega mikið er til af rituðu efni um styrjöldina, var hversu djúpstæðar deilurnar milli anarkista og kommúnista voru (eru?) og hversu langt stuðningsmenn Stalíns um heim allan voru tilbúnir að ganga í sannfæringu sinni. Einnig kom það mér á óvart hversu mikil harka var í stéttaátökum á Spáni í upphafi 20. aldarinnar. Rannsóknarvinnan fyrir þessa ritgerð var því mjög lærdómsrík fyrir mig.

Í lokin vil ég hér vitna í Herbert Read sem skrifaði svohljóðandi í breska vikuritið Spain and the world 1. maí 1939: "Þau tvö öfl sem standa hvort gegn öðru í dag eru bæði neikvæð öfl - öfl örvæntingar og örvilnunar. Það var einungis á Spáni sem nýr lifnaðarháttur, algjörlega andstæður efnahagslegum forsendum nútímans, virtist framkvæmanlegur. Í augnablikinu er sú von horfin." 46

Reykjavík, 22.4 2004

Vilhelm Vilhelmsson

 
 

1 Yraola, A. 1989:378
2 Brooks, M. 2004
3 Moradiellos, E. 1999:101
4 Peirats, J. 1990:132
5 Ibid bls 134
6 Ibid bls 77-8
7 Spain 1936-1939. 1990:25
8 "Day by day the suspicion grows that right-wing elements are ready to provoke a military coup. Morocco appears to be the focal point of the conspiracy. The insurrection is subject to the outcome of the elections. The plan will be put into effect if the Left wins. We do not support the Republic, but we will contribute all our efforts for an all-out fight against fascism in order to defeat the traditional oppressors of the proletariat." Peirats, J. 1990:101
9 Ibid. Bls. 107
10 Ibid. Bls. 113
11 Orwell, G. 1938:49
12 Peirats, J. 1990:113
13 Ibid bls 118-119
14 "I had never been in a town where the working class was in the saddle. Practically every building … had been seized by the workers and was draped with red flags or with the red and black flag of the Anarchists … Every shop and café had an inscription saying that it had been collectivised … Waiters and shop-walkers looked you in the face and treated you as an equal … Nobody said 'senor' … or even 'usted'; everyone called everyone else 'comrade' and 'thou' … There were no private motor-cars, they had all been commandeered, and all the trams and taxis … were painted red and black … and it was the aspect of the crowds that was the queerest of thing of all … it was a town in which the wealthy classes had practically ceased to exist." Orwell, G. 1938:8-9
15 Peirats, J. 1990:140-141
16 Orwell, G. 1938:43
17 Peirats, J. 1990:161
18 Saz, 1990:91
19 Alpert, M. 1994:146
20 Ibid
21 Bolloten, B. 1987:61
22 Peirats, J. 1990:207
23 Orwell, G. 1938:115
24 Peirats, J. 1990:203
25 Ibid bls 209-11
26 Bolloten, B. 1987:69
27 Thomas, H. 1977:660
28 Alpert, M. 1994:128
29 Ibid
30 Stefán Karlsson 1998:55
31 Berkman, A. 2003:xv
32 Peirats, J. 1990:237
33 Peirats, J. 1990:21
34 Ibid bls 237
35 1936-1939. 1990:135
36 Ibid bls 25
37 Thomas, H. 1977:39
38 Ibid bls 40
39 Ibid bls 41
40 Moradiellos, E. 1999:105
41 Peirats, J. 1990:112-3
42 Thomas, H. 1977:120
43 Orwell, G. 1938:59
44 Thomas, H. 1977:120
45 Peirats, J. 1990:231
46 1936-1939. 1990:269

Heimildaskrá

Alpert, Michael. 1994. A New International History of the Spanish Civil War. The Macmillan Press Ltd., London.

Berkman, Alexander. 2003. What is Anarchism? AK Press, Edinborg.

Bolloten, Burnett. 1987. Barcelona: "The May Events." The May Days: Barcelona 1937. Bls. 61-94. Ritstj. Vernon Richards. Freedom Press, London.

Brooks, Michael. 2004. Biography for Ken Loach. Vefslóð: http://www.imdb.com/name/nm0516360/bio Sótt: 22.4.2004

Moradiellos, Enrique. 1999. "The Allies and the Spanish Civil War." Spain and the Great Powers in the 20th Century. Bls. 96-126. Ritsj. Sebastian Balfour og Paul Preston. Routledge, London.

Orwell, George. 1938. Homage to Catalonia. 2. útg. Penguin Books Ltd., England.

Peirats, José. 1990. Anarchists in the Spanish Revolution. Freedom Press, London.

Saz, Ismael. 1999. "Foreign policy under the dictatorship of Primo de Rivera." Spain and the Great Powers in the 20th Century. Bls. 73-95. Ritsj. Sebastian Balfour og Paul Preston. Routledge, London.

Spain 1936-1939: Social revolution - counterrevolution. 1990. Vernon Richards annaðist útgáfuna. Freedom Press, London.

Stefán Karlsson. 1998. Stjórnmálafræði. 3. útg. Iðnú, Reykjavík.

Thomas, Hugh. 1977. The Spanish Civil War. 3. útg. Penguin Books Ltd., England.

Yraola, Aitor. 1989. Íslensk viðbrögð við spænsku borgarastyrjöldinni. Skírnir 163. árg. Bls. 362-381.

Til baka í greinar