Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Inngangur

 

 

Anarkistar hafa löngum verið umdeildir og misskildir í samfélagi manna. Enn þann dag í dag er þeim kennt um flest það ofbeldi sem beitt er gegn yfirvöldum og eru oftar en ekki skotspónn athlægis af opinberum aðilum sem og fjölmiðlum. Þrátt fyrir það hafa anarkistar verið hvað duglegastir í baráttumálum alþýðu heimsins sem og í baráttunni fyrir frelsi einstaklingsins. Við upphaf 20. aldarinnar var hafin kerfisbundin árás á anarkista í Bandaríkjunum sem og víðar í heiminum og kannski ekki að undra því þetta hefur löngum verið talið það tímabil sem anarkistar voru hvað fjölmennastir og duglegastir í baráttunni fyrir útópískum málstað sínum auk þess sem aðferðir þeirra voru oft á tíðum vægast sagt grófar. Þeir trúðu því að byltingin, og þar af leiðandi allsnægtarsamfélag jafnréttisins væri einungis rétt handan við hornið og að einungis þyrfti að ýta lítillega við lýðnum til að koma byltingunni af stað.

Í þessari ritgerð verður reynt að varpa ljósi á aðgerðir og líf þeirra í Bandaríkjunum í kringum áðurnefnd aldamót, helstu einstaklingarnir og atburðirnir teknir fyrir í gagnrýnu ljósi og litið á þá kerfisbundnu kúgun sem þessi litli en áberandi hópur varð fyrir. Auk þess og í tengslum við umrætt efni verður einnig litið á helstu baráttumál verkalýðsins í Bandaríkjunum á þessum viðburðarríka tíma og alla þá starfsemi sem þeim málum fylgdi.

Jarðvegur félagshyggjunnar plægður

Á árunum milli hins blóðuga borgarastríðs Bandaríkjanna og aldamótanna 1900 hófst iðnvæðingin í Bandaríkjunum fyrst af fullum krafti. Stálframleiðsla, kolanám, vefnaður og allur annar iðnaður jókst margfalt. Járnbrautin teygði anga sína þvers og kruss um landið. Borgir stækkuðu gríðarlega ört og sem dæmi má nefna að frá 1860 til 1914 jókst íbúafjöldi New York úr 850.000 manns upp í 4 miljónir, Chicago úr 110.000 í 2 miljónir og svo má lengi telja.1

Þessum ofboðslegu breytingum á iðnaði fylgdi þörfin fyrir ódýrt vinnuafl. Lausnin á því fólst í innflytjendum. Á níunda áratug 19. aldar komu hvorki meira né minna en 5.246.613 innflytjendur til Bandaríkjanna í leit að betra lífi.2 Þau komu víða að en fjölmennustu hóparnir voru þó frá löndum þar sem aðstæður heima fyrir voru orðnar óbærilegar vegna miskunnarlausra einræðisstjórna eða álíka pólitískra kúgana og ber þar helst að nefna Rússland, Írland, Ítalíu, Þýskaland og síðast en ekki síst Kína en árið 1880 var um einn tíundi íbúa Kaliforníu kínverskir innflytjendur og urðu þeir hvað verst úti vegna tíðra árása annarra hópa innflytjenda auk andúðar innfæddra.3

 

Allir þessir innflytjendur höfðu komið til Bandaríkjanna í von um betri aðstæður. Heima fyrir höfðu þau heyrt um fyrirheitna landið í vestri þar sem lýðræði ríkti og allir gátu orðið auðugir. Vonbrigðin urðu því ofsaleg þegar innflytjendur urðu fyrir sífelldu aðkasti innfæddra og vinnan jafnvel enn erfiðari en heima fyrir. Lengd meðal vinnudags verkamanna var oftast nær milli 14 og 18 tímar og má sem dæmi nefna bakara í New York borg sem unnu frá 84 til 120 stundir á viku.4 Réttindi verkalýðsins reyndust alveg jafn fótum troðin í fyrirheitna landinu og í heimalandinu og aðstæður síst betri. Jarðvegurinn fyrir hugmyndir félagshyggjunnar var því næringarríkur og ekki leið á löngu fyrr en verkalýðsfélög og samtök í þeim anda tóku að spretta upp.

Anarkisminn kemur til fyrirheitna landsins

Anarkismi sem hugmyndafræði á rætur sínar að rekja til upplýsingarinnar í lok 18. aldar og þá sérstaklega kenninga enska heimspekingsins William Godwin5 en tók fyrst að mótast sem heilsteypt stefna í kjölfar uppreisnarinnar í París 1848 og hugmynda Karls Marx og Friedrich Engels um sósíalisma á svipuðum tíma. Stefnan sameinar jafnréttishugmyndafræði sósíalista og frelsisþrá einstaklingsins í eina, oft torskilda, stefnu sem einkennist fyrst og fremst af óbilandi trú á góðmennsku mannkyns, algjöru réttlæti og hatur á öllu yfirvaldi sem aftur kemur að trú anarkista á góðmennsku manna og möguleika þeirra til framþróunar ef þeir fái frelsi til.6

Menn á borð við Pierre Joseph Proudhon (sem tók þátt í fyrrgreindri uppreisn) og Mikail Bakunin eru taldir feður stefnunnar og þegar síðarnefndur tók að deila við Marx um hugmyndafræði á fyrstu alþjóðaráðstefnu sósíalista (the 1st international) í Haag 1872 fór anarkisminn á flug. Heimspekingar og hugsjónamenn sem tóku stefnuna upp á sína arma tóku að spretta upp í hverju horni og fyrr en varði voru félög anarkista orðin fjölmörg um allan heim.

Bandaríkin voru að sjálfsögðu ekki undanskilin. Árið 1848 heimsótti Bandaríkjamaðurinn Charles Dana Proudhon í fangaklefa hans í París og ári síðar var hann farinn að skrifa um hugmyndir Proudhons um bankakerfi í bandaríska dagblaðið Tribune og sama ár skrifaði William Greene bækling um sama efni og hóf dreifingu á honum.7

Benjamin Tucker var einn af fyrstu þekktu anarkistum Bandaríkjanna en 18 ára gamall fór hann á fund í Boston þar sem hann heyrði menn á borð við William Greene tala um stefnuna og níu árum síðar, árið 1881 stofnaði hann tímaritið Liberty sem varð leiðandi blað einstaklingshyggju-anarkista Bandaríkjanna og skrifaði hann töluvert um rússneska skoðanabræður sína og varð blaðið víðlesið.8

Innflytjendur frá Evrópu áttu þó hvað stærstan þátt í að gera anarkisma að leiðandi afli í Bandaríkjunum og ber þar helst að nefna Þjóðverjann Johann Most sem kom til Bandaríkjanna árið 1882 eftir að hafa verið gerður útlægur í heimalandi sínu fyrir skrif sín gegn keisaranum. Hann stofnaði blaðið Freiheit, sem var skrifað á þýsku, og eignaðist fljótt fjölmarga fylgjendur meðal þýskra innflytjenda.9

Most var lengi vel ötull talsmaður áróðurs í verki (propaganda by the deed) en sú hugmyndafræði átti upphaf sitt á Ítalíu á áttunda. áratug 19. aldar þegar hópur anarkista hafði reynt að hvetja til byltingar en verið handteknir áður en nokkuð slíkt náðist og hófu þá að vinna meira neðanjarðar. Peter Kropotkin og fleiri hugsuðir anarkismans tóku fljótt undir það að bestu leiðirnar til að dreifa boðskap anarkismans væru hinar ólöglegu.10 Það var því í þessum anda sem Most skrifaði sinn áhrifaríkasta bækling: Vísindi byltingarsinnaðra átaka (The science of revolutionary warfare) þar sem hann fjallaði ítarlega um notkun sprengiefna og stendur þar m.a:

"Með því að gefa hinum kúguðu miljónum heimsins dýnamít hafa vísindin unnið sitt besta starf. Hið yndislega efni er hægt að bera í vasanum án hættu á meðan það er ægilegt vopn gegn gegn hvaða stærð herdeilda, lögreglu...sem gætu viljað kæfa réttlætisöskrið sem kemur frá hinum arðrændu þrælum"11

Þessi vafasama hugmyndafræði átti stóran þátt í því að grafa undan hreyfingu anarkista sem félagslegt og stjórnmálalegt afl bæði vegna andúðar stórs hluta almennings en einnig vegna þess hversu auðvelt það reyndist yfirvöldum að vekja andúð á anarkistum með því að ráða einstaklinga til að sprengja upp opinbera staði og kenna svo anarkistum um.12 Hugsuðir hreyfingarinnar áttuðu sig fljótlega á þessu og menn á borð við Kropotkin drógu til baka stuðning sinn við þess háttar aðgerðir en skaðinn var skeður og ímynd anarkistans sem dularfullur, svartklæddur maður með sprengju í hönd og illvirki í huga var föst í huga almennings.13

Árið 1881, ári áður en Most kom til hins mikla föðurlands lýðræðisins, höfðu anarkistar haldið Svörtu alþjóðaráðstefnuna (The black international) í Chicago þar sem fulltrúar frá 14 borgum höfðu lýst yfir andstöðu sinni við fulltrúalýðræði.14

Árið 1883 efndu anarkistar til þings í Pittsburgh og var þar Johann Most í fyrirrúmi ásamt hinum innfædda Albert Parsons. Á þessari ráðstefnu var samin yfirlýsing sem boðaði m.a: "eyðileggingu núverandi valdastéttar, með hvaða aðferð sem er, með kröftugum, vægðarlausum, byltingarsinnuðum og alþjóðlegum aðgerðum" ásamt ítarlegum kröfum um réttlátt og stéttlaust samfélag án yfirvalds.15

Það var þó ekki fyrr en árið 1886 sem anarkismi komst á allra vitorð sem hættuleg og ofbeldisfull stefna sem þyrfti að kæfa í fæðingu.

Haymarket málið

11. nóvember 1887 voru Albert Parsons, August Spies, George Engel og Adolph Fischer hengdir í Chicago fyrir morð á lögregluþjóni. Mál þeirra hafði vakið alþjóðlega athygli og bandarísk yfirvöld verið sökuð af fjölmörgum innlendum sem og erlendum hópum og einstaklingum um gerræðislegt réttarmorð. Hvað hafði eiginlega gerst?

Aðdragandinn að þessu hafði verið langur og blóðugur. Albert Parsons hafði flutt til Chicago ásamt Lucy, eiginkonu sinni, árið 1873 og fór fljótlega að taka þátt í verkalýðsbaráttu borgarinnar og laðaðist ásamt eiginkonu sinni snemma að anarkisma sem þau töldu réttlátustu stefnuna fyrir verkalýðinn. Hann stofnaði Alþjóðasamband verkamanna (International Working Men's Association) árið 1883 ásamt vini sínum August Spies og var árið 1884 orðinn ritstjóri blaðsins Alarm og var orðinn landsþekktur baráttumaður og fyrirlesari. Þau voru ásamt fjölmörgum öðrum mjög ákafar baráttumanneskjur fyrir 8 stunda vinnudegi og tóku virkan þátt í að skipuleggja verkfall og mótmæli 1. maí árið 1886 til að pressa á yfirvöld um það mál.16

Þegar stóri dagurinn rann upp urðu þau ásamt öllum öðrum sem að málinu komu stórhissa þegar 340.000 verkamenn um gervöll Bandaríkin höfðu tekið þátt í mótmælum og 190.000 lagt niður vinnu. Miklu fleiri en allir höfðu þorað að vona. Bara í Chicago höfðu 80.000 verkamenn gengið útaf vinnustöðum sínum og farið í mótmælagönguna sem fór friðsamlega fram að öllu leiti.

Tveim dögum síðar héldu verkföllin áfram og fyrir utan fyrirtæki eitt í Chicago höfðu mótmælendur reynt að koma í veg fyrir að verkfallsbrjótar fengju að komast inn og lögreglan hafði hafið skothríð á mótmælendur með sex dauðsföllum. Parsons og Spies, ásamt fleirum, ákváðu þá að strax daginn eftir yrði haldinn útifundur á Haymarket torginu til að mótmæla ofbeldi lögreglunnar.

4. maí beið lögreglan handan við hornið, grá fyrir járnum, eftir fyrirmælum um að stöðva fundinn. Borgarstjóri Chicago borgar myndi gefa þau fyrirmæli og var hann á torginu að fylgjast með. Þegar fundurinn reyndist friðsamur fór hann til lögreglunnar og tilkynnti þeim að ekki reyndist þörf á að stöðva fundinn.

Þegar leið á daginn versnaði veðrið og eftir að hafa haldið ræðu fór Parsons ásamt fjölskyldu sinni á veitingastað í nágreninu. Fjölmargir höfðu yfirgefið torgið vegna veðursins þegar lögreglan réðist skyndilega inn á torgið og skipaði fólki að stöðva fundinn og yfirgefa svæðið. Skyndilega sprakk sprengja. Í óreiðunni sem fylgdi skaut lögreglan í allar áttir og fjölmargir særðust. Þegar lætin voru liðin hjá hafði einn lögreglumaður látist í sprengingunni og sjö aðrir særst hættulega og létust stuttu síðar. Nokkrir mótmælendur höfðu látist og um 200 særst.17

 

Yfirvöld, fjölmiðlar og almenningur kölluðu öll eftir hefnd. Á hverju götuhorni heyrðust reiðiræður almennings. Ábyrgir skildu hengdir úr næsta tré og það sem fyrst. Það tók yfirvöld ekki langan tíma að finna sökudólga. Leiðtogar verkalýðsins, sem boðað höfðu fundinn á Haymarket torgi, skyldu vera ábyrgir. Nokkrum dögum síðar voru Albert Parsons, August Spies, Sam Fielden, Michael Schwab, George Engel, Adolph Fischer, Lois Lingg og Oscar Neebe ákærðir fyrir samsæri um morð. Allir voru handteknir nema Parsons, sem var ekki í borginni en kom öllum á óvart fyrsta dag réttarhaldanna þegar hann birtist í réttarsalnum og sagði: "Ég hef komið til að vera réttað yfir ásamt hinum saklausu félögum mínum."18

Lykilatriði saksóknarans var að ákærðu hefðu sannfært ónafngreindan mann (sem aldrei fannst) um að henda sprengjunni. Sem sönnunargögn tíndi hann fram greinar sem Parsons og Spies höfðu skrifað í tímarit sín þar sem verkamenn voru hvattir til að vopnast til að berjast gegn yfirstéttunum og yfirvöldum. Sekt þeirra skildi ákvarðast af skrifum á borð við: "Hefnd! Verkamenn, til vopna!" sem Spies hafði skrifað daginn sem verkamennirnir voru skotnir daginn fyrir Haymarket sprenginguna og "Sé það ályktað, að við brýnum fyrir öllum meðal verkalýðsstéttarinnar að vopnast til þess að geta barist gegn arðræningjum sínum með þeim einu rökum sem geta haft áhrif: ofbeldi" sem birtist í yfirlýsingu sem báðir höfðu undirritað við stofnun Central Labor Union árið 1885.19

Þeir voru allir fundnir sekir þrátt fyrir að einungis einn þeirra hafi verið viðstaddur þegar sprengjan sprakk, Sam Fielden en hann hafði verið að tala í ræðustól. Oscar Neebe var dæmdur í 15 ára fangelsi, Fielden og Schwab til lífstíðarfangelsis, allir hinir til dauða. Lingg framdi svo sjálfsmorð í fangelsinu við vafasamar aðstæður en hann á að hafa sprengt dýnamít túpu í munninum á sér og eru uppi fjölmargar samsæriskenningar um að hann hafi verið myrtur.20 Hinir voru, eins og áður sagði, hengdir 11. nóvember 1887 þrátt fyrir mótmæli um allan heim.

 

Málið vakti ótal manns til umhugsunar um málefni verkalýðsins og anarkisma að hugtaki sem allir þekktu en fáir vissu hvað þýddi. Þúsundir einstaklinga og hópa telja málið pólitíska vakningu sína og mennirnir voru umsvifalaust gerðir að píslarvottum baráttu verkalýðsins og um allan heim var dagur aftöku þeirra minnst árlega með stórum útifundum. Með dauða sínum gerðu þessir menn meira fyrir málstað sinn heldur en nokkuð sem þeir höfðu gert í lífi og Spies spáði rétt fyrir þegar hann nýtti síðasta tækifæri sitt til að tjá sig frá gálganum þegar hann sagði að: "sá dagur mun koma þegar þögn okkar verður kraftmeiri en þær raddir sem þið kæfið í dag." 21

Hættulegasta kona Bandaríkjanna

Meðal þeirra fjölmörgu sem vöknuðu til pólitískrar meðvitundar eftir Haymarket málið var ung kona af gyðingaættum að nafni Emma Goldman.

 

Rauða-Emma eins og hún var síðar nefnd hafði komið til Bandaríkjanna frá Rússlandi tæplega 17 ára gömul snemma árs 1886 ásamt systur sinni Helenu og settust þær að í bænum Rochester þar sem eldri systir þeirra hafði sest að nokkrum árum áður. Hún giftist manni að nafni Jacob Kershner en var óhamingjusöm í því hjónabandi. Hún fór reglulega á fundi sósíalistafélags Rochester en fann sig ekki þar. Það var ekki fyrr en hún las fyrir tilviljun rit Johanns Most, Freiheit, sem hún uppgötvaði anarkisma og varð strax hugfangin af þeirri stefnu.22 Hún ákvað að skilja við mann sinn og fór til New York um haustið 1889, auralaus og vinalaus. Hún var þó ekki lengi að finna félaga því eftir sólahring í borginni sem aldrei sefur hafði hún kynnst Alexander Berkman, sem einnig var rússneskur gyðingur, innflytjandi og anarkisti, og saman fóru þau á fyrirlestur Most. Áður en langt um leið var hún búin að kynnast Most sjálfum, sem var hetja í augum hennar sem og fjölda annarra anarkista.

Hún varð ástfangin af Berkman, sem hún kallaði alltaf Sasha sem er rússneskt gælunafn yfir nafnið Alexander, og hófst milli þeirra eldheitt ástarsamband sem þó var oft truflað af áhrifum annarra karlmanna á líf hennar, m.a. Most sjálfs sem játaði snemma ást sína á henni.

Það var Most sem hvatti hana til að gerast ræðumaður eftir að hafa hlustað á hana segja sögu sína yfir kvöldverði og átti það eftir að hafa afdrifarík áhrif á þessa ungu konu.

Það gerðist margt þessa fyrstu mánuði Emmu í New York bæði í hennar persónulega lífi sem og meðal þeirra anarkista sem hún umgekkst . Hún fór stutta túra til annarra borga til að flytja ræður og varð sífellt sterkari ræðumaður, ástarlífið var brösugt og margt gekk á.

Eftir að Most fór í fangelsi fyrir skrif sín fluttu Emma, Sasha og vinur þeirra að nafni Fedya til Worcester í Massachusetts fylki og eftir misheppnaðar tilraunir til að vinna fyrir sér með saumavinnu og öðru slíku opnuðu þau matsal sem gekk glimrandi vel og allt var á uppleið hjá þremenningunum en þá gerðist afdrifaríkur atburður.

 

Í kjaraviðræðum milli verkamanna og eigenda stálfyrirtækis í eigu manns að nafni Andrew Carnegie hafði framkvæmdastjóri fyrirtækisins, maður að nafni Henry Clay Frick, neitað að viðurkenna verkalýðsfélagið sem verkamennirnir tilheyrðu og tók harða afstöðu í kjaramálunum. Í verkfallinu sem fylgdi í bænum Homestead, þar sem stærstu verksmiðjur fyrirtækisins voru, var mikil harka og þremenningarnir í Worcester urðu svo æst yfir gangi mála að þau ákváðu í skyndi að loka fyrirtæki sínu og fara til Homestead þar sem þau ætluðu að aðstoða á hvern þann hátt sem þau gætu. Stuttu síðar, áður en þau komust til Homestead, birtust fréttir af því að verkamenn hefðu verið skotnir í köldu blóði, óvopnaðir, af Pinkerton mönnum (Pinkerton menn voru málaliðar ráðnir af fyrirtækjum í gegnum Pinkerton fyrirtækið til að brjóta á bak aftur verkföll23) sem voru að fylgja verkfallsbrjótum inn í verksmiðjuna, eitt af fórnarlömbunum einungis barn að aldri. Alexander Berkman tók þá ákvörðun að sem anarkisti væri það skylda hans að hefna fyrir þennan glæp með því að drepa þann ábyrga, Henry Frick, og í anda hugmyndafræðinnar um áróður í verki hélt hann að morðið myndi verða áróðurstæki fyrir málstað allra vinnandi manna

23. júlí 1892 framkvæmdi Sasha verkið en tókst einungis að særa Frick. Fyrir vikið var hann dæmdur í 22 ára fangelsi, þrátt fyrir að hámarksrefsing fyrir misheppnaða morðtilraun hafi bara verið 7 ár. Í kjölfarið hófust miklar nornaveiðar í fjölmiðlum og krafist þess að anarkistahreyfingin yrði barin niður af hörku. Emma Goldman var eitt af þeim nöfnum sem birtist hvað oftast í blöðunum ásamt Most og fleirum þrátt fyrir að Most hafi sjálfur fordæmt verkið.24

Fordæming Most særði Emmu gríðarlega mikið. Hann hafði áður verið sá duglegasti við að hvetja til ofbeldis gegn kapítalistum en eftir að hafa sárnað mjög í samskiptum sínum við Emmu og Sasha nokkrum árum áður hafði hann haft horn í síðu þeirra og eftir morðtilraun Berkmans skrifaði hann grein í blað sitt þar sem hann dró til baka allar fyrri staðhæfingar sínar um áróður í verki. Emma sjálf varð svo sár að á fundi einum réðist hún að Most með svipu og barði hann. Deilan varð það hatrömm að hún olli klofningi meðal anarkista í Bandaríkjunum sem skipuðu sér ýmist á sess með Most eða Emmu og stuðningsmönnum hennar. 25

Þrátt fyrir allt mótlætið hélt hún áfram að tala á fundum, skipuleggja mótmæli og aðgerðir og barðist heiftarlega fyrir styttingu fangelsisvistar hennar ástkæra Sasha. Eftir eina af ræðum hennar þegar hún hvatti atvinnulausa til að taka brauð frjálsum höndum, hafi þeir engar aðrar leiðir til að ná sér í mat, var hún handtekin og dæmd í eins árs fangelsi, fyrsta en langt því frá síðasta skipti sem hún fékk að kynnast gestrisni yfirvalda í formi fangelsa. 26

Í fangelsinu var hún gerð að aðstoðarmanneskju læknisins og markaði það upphaf hennar á starfi hjúkkunnar, starf sem hún átti eftir að kynnast betur í framtíðinni. Það var einnig í fangelsinu sem skoðanir hennar styrktust og byggðu hana upp og gerðu að þeirri ötulu baráttumanneskju sem hún átti eftir að verða. Í sjálfsævisögu sinni, Living my life, skrifar hún:

"Hér hafði ég verið færð nær dýpt og margbreytileika mannssálarinnar; hér hafði ég fundið ljótleika og fegurð, grimmd og gjafmildi. Hérna...hafði ég lært að sjá lífið í gegnum mín eigin augu en ekki gegnum Sasha, Most eða Ed. Fangelsið hafði verið sú þolraun sem prófaði trú mína. Það hafði hjálpað mér að finna minn eigin styrk, styrkinn til að standa ein, styrkinn til að lifa lífi mínu og berjast fyrir hugsjónum mínum, gegn öllum heiminum ef svo bæri undir. New York fylki hefði ekki getað gert mér betri greiða en að senda mig í fangelsið á Blackwell eyju."27

Um haustið árið 1895 fór Emma til Evrópu til að læra hjúkrun í Vín. Hún sigldi þó fyrst til Englands þar sem hún hélt fyrirlestra auk þess að hitta fjölmarga af helstu anarkistum Evrópu þess tíma. Menn á borð við Peter Kropotkin, Enrico Malatesta, William Morris og systurnar Olivia og Helen Rossetti sem þá voru einungis 14 og 16 ára gamlar en samt byrjaðar að gefa út tímarit sem þær skrifuðu og prentuðu sjálfar. 28

Eftir að hún sneri heim til Bandaríkjanna hóf hún störf sem ljósmóðir. Þjónusta ljósmæðra var mest notuð af fátæku fólki og hún fékk því að kynnast af eigin raun lífi þeirra sem málstaður hennar barðist svo ötullega fyrir. Helstu áhrifin sem starf hennar hafði á hana var að sjá hversu slæmt það var fyrir þessar bláfátæku fjölskyldur að eignast fleiri börn og til hvaða skelfilegu aðgerða verðandi mæður gripu í von um að eyða fóstri sínu. Emma varð í kjölfar þess ötull talsmaður getnaðarvarna og annarra aðgerða til að takmarka fjölskyldustærðir. Hún hafði ávallt verið mikill barnavinur og að sjá öll þessi börn koma óvelkomin inn í heiminn hafði djúp áhrif á hana, ekki síst vegna þess hversu slæmt samband hennar við foreldra sína hafði verið í æsku. 29

Líf hennar hélt áfram á þessari braut. Fyrirlestrar, mótmæli, ástarævintýri og ferðalög einkenndu líf þessarar merku konu. Þannig bar það til að hún var stödd í St. Louis á einum af sínum fjölmörgu fyrirlestrartúrum þegar þær fréttir bárust að anarkisti að nafni Leon Czolgosz hafi skotið McKinley forseta í Buffalo, NY þann 6. september 1901. Það var ekki liðinn sólahringur frá þessum fréttum þegar fyrirsagnir dagblaðana voru farnar að bendla Emmu við málið og hún varð eftirsótt af lögreglunni. Þar sem hún vissi að hún var alfarið saklaus ákvað hún að gefa sig hiklaust fram en eftir miklar málalengingar þar sem allt var reynt til að gera hana samseka í málinu var ákæran gegn henni felld niður. 30

Fyrsta dag marsmánaðar 1906 hóf Emma útgáfu tímarits. Hún hafði í fjöldamörg ár verið fyrirlesari um allt frá bókmenntum til anarkisma, verkalýðsmálum til feminisma. Hún hafði oft áður skrifað greinar í blöð annarra en þetta var eftir áralangan feril í róttækri pólitík Bandaríkjanna, fyrsta skipti sem hún tók sér blaðaútgáfu fyrir hendur. Ritið fékk nafnið Mother Earth og varð um leið umdeilt; margir sökuðu hana og blaðið um að vera ekki nógu byltingarsinnað vegna þess að hún dirfðist að skrifa um fleira en bara "málstaðinn". 31

Þetta ár var einnig árið sem hennar heittelskaði Sasha var leystur úr fangelsi eftir að hafa afplánað 14 ár af dómi sínum en dómurinn hafði verið styttur eftir áralanga baráttu Emmu og fjölmargra annarra. Endurfundirnir voru tilfinningaríkir en ástin milli þeirra var ekki lengur ást milli karls og konu, þau voru bara vinir núna en sterkari vináttu er erfiðara að finna í allri mannkynssögunni eins og endurspeglast svo vel í ævisögu hennar og þeim skrifum sem þau bæði skrifuðu um hvort annað.

 

Það væri hægt að skrifa endalaust um þessa merku konu og áhrif hennar á bandarískt samfélag í upphafi 20. aldar, um áhrif hennar á hreyfingu anarkista um allan heim, áhrif hennar á feminisma, baráttuna fyrir málfrelsi, lögleiðingu getnaðarvarna, réttindum samkynhneigðra (hún var með þeim fyrstu í heiminum til að fjalla um slíkt innan róttækra hreyfinga), baráttunni fyrir friði í heiminum og svo má lengi telja og ég þori að halda fram að sjaldan hafi ein manneskja haft jafn mikil áhrif á umheiminn - án þess að vera stjórnmálamaður eða annað slíkt - eins og hún hefur haft en einhvers staðar verð ég að setja punktinn.

Líf hennar í Bandaríkjunum lauk með brottrekstri og útlegð ásamt vini hennar, Alexander Berkman en síðustu tvö ár þeirra í Bandaríkjunum eyddu þau í fangelsi fyrir að tala og skrifa gegn herkvaðningu og þáttöku Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni og 21. desember 1919 sigldu þau frá landi frelsisins í hinsta sinn.

Wobblarnir

Það voru fleiri en bara Emma Goldman sem fengu sína pólitísku vakningu með Haymarket málinu. William Haywood, betur þekktur sem Big Bill Haywood, var unglingur þegar Parsons og félagar voru hengdir og hann skrifaði í sjálfsævisögu sinni að síðustu orð Spies frá gálganum hafi verið vendipunktur í lífi hans. 32

 

Big Bill fæddist í Salt Lake borg árið 1869 og var farinn að vinna í námum Utah fylkis níu ára gamall.33 15 ára gamall sá hann svartan mann hengdan án dóms eða laga og hét því að berjast þaðan í frá gegn kynþáttafordómum. Stuttu seinna hóf hann störf í námu einni í Nevada og komst þar í kynni við bókmenntir í gegnum samverkamenn sína og lærði um hinar ýmsu kenningar samtímans.34

Árið 1900 var hann svo kjörinn gjaldkeri Western Federation of Miners og þaðan lá leið hans upp á við meðal verkamanna og varð vinsæll vegna þess hversu náinn hann var verkamönnunum sjálfum, hann hafði jú verið einn þeirra, talaði þeirra mál og náði vel til þeirra. Þessi ár voru róstusöm í verkalýðsbaráttunni og fjöldi manna hafði látist í átökum við yfirvöld, Pinkerton menn og verkfallsbrjóta. Bara í einu verkfalli í Colorado þar sem verkamenn börðust fyrir 8 stunda vinnudegi voru 42 drepnir, 112 særðir, 1345 handteknir og 773 reknir úr fylkinu. 35

Það er því ekki að undra að þegar Haywood stofnaði Iðnverkamenn heimsins (Industrial workers of the world) ásamt sósíalistanum Eugene Debs, Lucy Parsons Mother Mary Jones ásamt tvöhundruð öðrum sósíalistum, anarkistum og róttækum forkólfum ýmissa verkalýðsfélaga í Chicago í júní árið 1905, hafi þau skrifað í formála stjórnarskrár félagsins að:

"Verkalýðsstéttin og stétt atvinnurekenda eiga ekkert sameiginlegt. Það getur enginn friður ríkt svo lengi sem hungur og þörf er að finna meðal miljóna verkamanna og þeir fáu, sem eru stétt atvinnurekenda, fá allt hið góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Milli þessara tveggja stétta verða átök að eiga sér stað þar til allir verkamenn koma saman á hinum pólitíska velli jafnt sem velli iðnaðar og taka og halda í það sem þeir framleiða með vinnu sinni, í gegnum efnahagslega stjórnskipun verkalýðsstéttarinnar án tengsla við nokkurn stjórnmálaflokk." 36

 

I.W.W. var eitthvað algjörlega nýtt fyrir verkalýðsbaráttu í Bandaríkjunum. Fram að þessu höfðu ólærðir verkamenn ekki haft neinn málsvara því American Federation of Labor vildi ekki hleypa þeim að. Meðlimir I.W.W. áttu heldur ekki samleið með flokkum sósíalista því farandverkamenn voru aldrei nógu lengi í einu fylki til að fá kosningarétt. Atvinnulausir höfðu fram að þessu fáa málsvara. I.W.W. breytti þessu öllu. Í fyrsta skipti í sögu Bandaríkjanna var komið fram verkalýðsfélag sem gat ekki liðið neinn aðskilnað kynþátta (Kínverjar fengu nánast undantekningalaust ekki inngöngu í verkalýðsfélög) svo má lengi telja. 37

Önnur rós í hnappagat I.W.W. var staðfesta þeirra í þeirri hugmynd að verkamenn ættu að standa saman og sameinast undir einu félagi en ekki flokka sig niður eftir iðngreinum. "Eitt stórt verkalýðsfélag" var slagorð þeirra og allir fengu þar inngöngu.

 

Frá sjónarhorni Wobblanna (wobblies), eins og þau voru kölluð, var það markmið verkalýðsins að gera útaf við kapítalisma. Þau þverneituðu að gera nokkra samninga við "óvininn" og héldu því staðfastlega fram að aðeins allsherjarverkfall myndi duga. Þau voru hlynnt öllum aðgerðum sem miðuðu að því að styrkja stöðu verkamanna og hvöttu til skemmdarverka á vinnustað, hægingu á vinnu, byltingu, hvað sem er til að vinna á óvini þeirra, kapítalismanum.38

Þjóðernishyggja, kirkjan, og föðurlandsást var í þeirra huga einungis framlenging á valdi efnastéttarinnar yfir verkalýðnum og þar af leiðandi gegn hagsmunum þeirra og því skyldi hinn almenni verkamaður ekki taka þátt í þeirri vitleysu. Það er því ekki að undra að yfirvöld hafi verið fljót að stimpla I.W.W. sem anarkista og þar af leiðandi verulega hættulegt fólk.39

 

Fyrstu ár félagsins mörkuðust af miklum deilum leiðtoga þess um stefnur og markmið og endaði með því að á ráðstefnu þess árið 1908 klofnaði lítill hópur sósíalista úr félaginu vegna afstöðu I.W.W. til kosninga, sem þau vildu að sjálfsögðu ekki eiga neinn þátt í. Sama ár spörkuðu þau meira að segja forseta félagsins, sögðu að ekki væri not fyrir slíkt embætti í byltingarsinnuðum lýðræðissamtökum.40

 

Meðlimir I.W.W. fengu fljótlega gælunafnið Wobblar (wobblies). Lengi hefur verið deilt um upphaf þessa nafns og enn þann dag í dag er upphaf þess óljóst en ég rakst á skemmtilega sögu um hugsanlegan uppruna þessa orðs.

Þannig var það að kínverskur eigandi veitingastaðar sem var vinveittur samtökunum og gaf meðlimum þess ókeypis að borða átti í vandræðum með að bera fram stafinn W en þegar hann var að spyrja menn hvort þeir væru meðlimir hafði hann átt að segja "all you eye wobblie wobblie?" og að meðlimum hafi þótt þetta svo skondið að þeir hafi farið að kalla sig þessu nafni. 41

 

En Wobblarnir, hvaðan sem gælunafn þeirra er nú upprunið, áttu erfiða daga frá upphafi. Frá árinu 1909 stóðu þau í sífelldri baráttu fyrir sjálfsögðum rétti sínum til að tala sínu máli. Hvar sem þau reyndu að tjá sig og halda fundi gerðu yfirvöld allt sitt besta til að þagga niður í þeim. Það reyndist þó erfitt því í hvert skipti sem einn fór í fangelsi fyrir að tjá sig stóð annar upp og hélt ræðunni áfram. Þannig fylltust fangelsin fljótt að Wobblum. 42

Mikið ofbeldi virtist einnig fylgja þeim þó að oftast hafi það verið beitt gegn þeim en ekki af þeim. Þegar Wobblar höfðu efnt til verkfalls var það oftar en ekki barið niður af mikilli hörku og dauðsföll voru tíð meðal Wobbla.43

Margir Wobblar voru og sakfelldir fyrir hina ýmsu glæpi, oft með fáum eða engum sönnunargögnum. Eitt frægasta af þeim málum var mál Joe Hill.

Joe Hill var sænskur innflytjandi og var auk þess að vera virkur í málum I.W.W. mikið skáld og lög hans og textar sungin af Wobblum um Bandaríkin öll. Hann var handtekinn í Utah fylki og sakaður um að hafa drepið verslunareiganda og son hans. Þrátt fyrir að engin sönnunargögn hafi tengt hann við glæpinn var hann fundinn sekur og dæmdur til dauða. Málið varð frægt um allan heim og einstaklingar, hópar og jafnvel ríkisstjórnir (sænska ríkisstjórnin)44 reyndu að tala máli hans við yfirvöld en ekkert gekk og hann var tekinn af lífi. Minning hans lifir enn í lögum hans en einnig í lögum sem samin hafa verið um hann og ég man sérstaklega eftir einu lagi sem ber nafn hans og var samið af þeim Alfred Hayes og Earl Robinson en það var sungið í jarðarför afa míns.

 

En saga I.W.W. er ekki bara sorgarsaga því inn á milli unnu þeir sigra. Ber þar hæst verkfallið í Lawrence, Massachusetts árið 1912.

Þar höfðu pólskar verkakonur gengið út eftir að hafa fengið launalækkun og í kjölfarið fylgdu tíu þúsund aðrir verkamenn. Þau sendu skeyti til leiðtoga I.W.W. í New York, mann að nafni Joseph Ettor, sem kom rakleiðis til þeirra og hóf að skipuleggja ýmsar aðgerðir eins og að útvega ókeypis mat fyrir fólkið í bænum.

Nokkrum vikum eftir að verkfallið hófst varð árás lögreglu á kröfugöngu þeirra til uppþota sem enntust allan daginn og í ólátunum hafði ein kona látist. Ettor og öðrum Wobbla að nafni Arturo Giovanitti var kennt um og þeir teknir höndum.

Í þeirra stað komu Bill Haywood og ung kona að nafni Elizabeth Gurley Flynn og héldu áfram starfinu og í mars sama ár, eftir tveggja mánaða verkfall og mikla starfsemi af þeirra hálfu ákvað fyrirtækið að gefa eftir, hækkaði launin og lofaði að hleypa öllum sem farið höfðu í verkfall að halda störfum sínum. Og í viðbót við það voru Ettor og Giovanitti fundnir saklausir. Þetta var stórsigur fyrir I.W.W. og hróður þeirra jókst gríðarlega meðal verkamanna um Bandaríkin.45

Kúgun róttæklinga

Yfirvöld í Bandaríkjunum sáu með þessum miklu verkföllum, átökum og óeirðum sem voru að eiga sér stað um landið allt mikla hættu. Það er jú í eðli yfirvalda að vilja halda sér við völd og ógnin um byltingu sem þau sáu í þessum átökum vó þungt á þeim. Rauðu hættuna yrði að stöðva en hvernig?

Svarið kom með morðinu á McKinley árið 1901. Með þjóðernisrembunni sem fylgdi gátu yfirvöld notfært sér aðstæðurnar til að herða á lögum um innflytjendur en það var meðal þeirra sem yfirvöld sáu mestu hættuna.

Árið 1903 samþykkti þingið lög sem leyfðu brottflutning og útlegð allra þeirra sem "hafa vantrú á eða standa gegn skipulögðum stjórnvöldum"46 Árið 1906 voru svo þessi lög hert og þurfti þá innflytjandi að geta sannað að hafa eftir fimm ára dvöl í Bandaríkjunum hagað sér í alla staði á siðferðislega réttan hátt, fengið tvo bandaríska ríkisborgara sem hefðu engin tengsl við róttæk samtök á borð við I.W.W. til að votta það auk þess að sverja eið um það að vera ekki anarkisti. Viðkomandi mátti ekki ganga til liðs við samtök sem boðuðu andstöðu við ríkisstjórnina.47 Árin 1912 og 1913 voru yfirvöld búin að setja það í lög að I.W.W. væru samtök sem væru óamerísk og þar af leiðandi voru öll tengsl við þau samtök ávísun á brottrekstur frá Bandaríkjunum fyrir innflytjendur.48

 

Þegar Bandaríkin hófu svo þáttöku í fyrri heimsstyrjöldinni um 6. apríl 1917 hófst kúgunin fyrir alvöru.

Fyrirtæki á borð við J.P. Morgan höfðu stórgrætt á styrjöldinni með lánum til Bretlands og Frakklands sem keyptu vopn, mat, stál og annað slíkt af Bandaríkjunum. Lánin voru upp á tugi miljóna dollara og ef bandalagsríkin myndu tapa stríðinu myndi blasa við kreppa í Bandaríkjunum vegna þessara lána. Það var því fyrst og fremst af efnahagslegum ástæðum sem Wilson forseti, sem hafði unnið kosningarnar árið 1916 á þeim forsendum að hann hefði haldið Bandaríkjunum utan við stríðið, ákvað að hefja þáttöku í stríðinu. 49

Þjóðernishyggja Bandaríkjamanna jókst upp úr öllu valdi í kjölfar þessarar ákvörðunar forsetans og þeir sem dirfðust andmæla voru heppnir að vera handteknir áður en æstur lýðurinn næði í viðkomandi. Sumir - eins og Frank Little, sem var virkur meðlimur I.W.W. og mikill andstæðingur þáttöku Bandaríkjanna í stríðinu - voru ekki svo heppnir og voru teknir af lífi af æstum múgnum.50

Í júní sama ár samþykkti þingið Njósnalögin (espionage act) þar sem gert var ólöglegt að tala opinberlega gegn herkvaðningu. Í kjölfarið fóru um 900 manns í fangelsi, þar á meðal Eugene Debs (sem fór svo reyndar í forsetaframboð fyrir sósíalista árið 1920 á meðan hann sat inni51), Emma Goldman, Alexander Berkman, Bill Haywood og margir fleiri. 52

 

Eftir stríðslok hófust svo miklar nornaveiðar þar sem þúsundir einstaklinga voru handteknir fyrir að vera "rauðir" og mörgum þeirra vísað úr landi. Án þess að gera lítið úr þeim mannréttindabrotum sem þar voru framin ætla ég hér að setja punktinn á þessa ritgerð því nánari útlistun á þessum veiðum tæki fjölmargar blaðsíður og mikinn tíma, sem er því miður ekki fyrir hendi.

Að lokum

Margir halda því fram að eftir þessar ófarir bandarískra anarkista sem og dapurlega útkomu spænsku borgarastyrjaldarinnar á 4. áratugnum hafi stefnan dáið drottni sínum, misheppnuð tilraun hugsjónamanna, en sem betur fer er það ekki alveg rétt. Stefnan fór aftur á flug þegar mótmælaaldan gegn Víetnam stríðinu stóð sem hæðst og hefur verið á uppleið síðan þá bæði meðal virtra fræðimanna á borð við Noam Chomsky en einnig meðal almennings og er hægt að benda á gríðarlega áberandi hlut þeirra í baráttunni gegn alþjóðavæðingu eins og t.d. í Seattle árið 1999 eða Genoa á Ítalíu árið 2001 þar sem ungur anarkisti að nafni Carlo Giuliani var myrtur af lögreglunni. Einnig hefur stefnan náð rótum í umhverfis- og dýraverndunarhreyfingum heimsins.

Hið sama má segja um I.W.W. sem er enn þann dag í dag öflugt verkalýðsfélag með deildir víða um heim. Félagið heldur fast í hefðir sínar og róttæka stefnu og er án efa eina verkalýðsfélag heimsins sem hefur tekið höndum saman með róttækum umhverfisverndarhreyfingum en það átti sér stað árið 1988 þegar fyrsta deild Earth First!-I.W.W. sambandsins var stofnuð í Kaliforníu til að leggja áherslu á umhverfis- og verkamannavæna stefnu í skógarhöggsmálum.53

Í þessari ritgerð hef ég reynt að gera hreyfingu anarkista í Bandaríkjunum um aldamótin 1900 skil. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun að láta aðrar ekki síður mikilvægar hreyfingar á borð við sósíalistana og kvenréttindahreyfinguna mæta afgangi ásamt því að gera það meðvitað að fjalla meira um starfsemi hreyfinganna heldur en þá kúgun og mótlæti sem þær urðu fyrir. Vegna pláss- og tímaleysis sleppti ég einnig veigamiklum atriðum eins og réttarhöldunum yfir þeim Nicola Sacco og Bartolomeo Vanzetti árið 1920 og rauðu nornaveiðunum sem Mitchell Palmer dómsmálaráðherra stóð fyrir á svipuðum tíma og bitnuðu svo sannarlega jafn mikið á anarkistum jafnt sem kommúnistum og öðrum vinstri sinnum. Vonandi hefur það ekki áhrif á fræðslu- og skemmtunargildi ritgerðarinnar.

Anarkistar dreymdu um betra samfélag og sá draumur lifir enn og mun gera það þar til við öll getum notið frelsis, jafnréttis og bræðralags

Reykjavík, 21.11.2004

Vilhelm Vilhelmsson

 


1 Zinn, H. 2003:253-4
2 Boyer, R. 1974:65
3 Zinn, H. 2003:265-6
4 Boyer, R. 1974:79
5 Joll, J. 1964:39
6 Ibid 1964:26-7
7 Avrich,P. 1988:138-9
8 Ibid 1988:27
9 Joll, J. 1964:139-41
10 Ibid 1964:128
11 Harper, C. 1987:77
12 Joll, J. 1964:129
13 Ibid 1964:147
14 Harper, C. 1987:76
15 Ibid 1987:77-8
16 Boyer,R. 1974:89-90
17 Ibid 1974:92-96
18 Ibid 1974:97
19 Zinn, H. 2003:270
20 Ibid 2003:271
21 Boyer, R. 1974:103
22 Goldman, E. 1982:11
23 Boyer, R. 1974:68
24 Goldman,E. 1982:99
25 Ibid 1983:105-6
26 Ibid 1983:130
27 Ibid 1983:148
28 Ibid 1983:165
29 Ibid 1983:185
30 Ibid 1983:296-300
31 Ibid 1983:395
32 Boyer, R. 1974:148
33 www.iww.org
34 Boyer, R. 1974:147
35 Ibid 1974:142
36 Zinn, H. 2003:330
37 Boyer, R.1974:171

Til baka í greinar