Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Vörn fyrir anarkisma

 

Fyrir fáum mánuðum bjóst ég ekki við því að ég mundi skrifa grein til varnar anarkisma, þar sem ég lít ekki á mig sem anarkista sjálfur. En hér er hún. Eðlilega verður þetta ekki tæmandi á neitt hátt, en sumu hefur verið haldið fram ranglega; anarkisma hafa verið bornir á brýn gallar sem eru ekki sannir. Ég vil, í nafni opinnar, heiðarlegrar rökræðu, leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Ég ætla að taka fyrir fáein atriði, spurningar, staðhæfingar eða ásakanir sem ég hef heyrt og segja hvað mér finnst. Anarkisma má vel gagnrýna eins og annað og hann er ekki heilagur fyrir mér en ef til stendur að rökræða hann vil ég að rökræðan sé sanngjörn og að anarkismi njóti sannmælis. Þegar ég segi "við" hér, meina ég "við marxistar, anarkistar og aðrir sem aðhyllast róttækar vinstrisinnaðar lausnir á vandamálum samfélags og mannkyns."

Um daginn átti ég tal við kommúnista sem fór nálægt því að "saka" mig um að vera anarkisti. Hann sagði: "Ríkisvaldið er valdatæki yfirstéttarinnar - anarkistar vilja bara afnema ríkisvaldið og halda að það sé rót alls ills. Þegar við gerum byltinguna munum við þurfa á ríkisvaldinu að halda til að halda okkar hlut gegn gömlu valdastéttinni."

Hvernig fer byltingin fram? Ég hugsa að hún yrði blóðug víða, en hér á Íslandi kæmi það mér á óvart ef hún yrði það. Ég held að það væri gæfuspor að marxistar tækju yfir ríkisvaldið, í krafti fjöldafylgis og lýðræðislega og friðsamlega. Ég held raunar að það sé eina almennilega leiðin til að taka yfir ríkisvaldið. Bylting í nafni lýðræðis getur varla verið ólýðræðisleg í þeim skilningi að hún sé háð þvert á vilja fjöldans. Tilgangslaust ofbeldi er ekki bara heimskulegt, það er, já, tilgangslaust. Fulltrúalýðræðið sem við búum við, fyrir alla sína galla, býður upp á farveg fyrir óánægju okkar. Við höfum farveg fyrir byltingu án blóðsúthellinga. Fyrst svo er tel ég óhætt að hafna algerlega blóðugri byltingu. Ég sé það þannig fyrir mér að ríkisvaldið gæti sem verkfæri vel nýst hinni nýju valdastétt, öreigastéttinni, þegar hún hefði tekið völdin af borgarastéttinni í krafti fjölda síns og í gegn um hinn sjálfstæða, marxíska pólítíska málsvara sinn. Ríkisvaldinu mætti beita til að koma í kring ýmsum breytingum sem vilji væri fyrir. Það væri kannski ekki nauðsynlegt en gæti verið mun þægilegri og hagkvæmari leið. Nota ríkisvaldið þar til þess er ekki þörf lengur og þá má afnema það. Það er mín persónulega skoðun.

Hins vegar tel ég að anarkisminn hafi nokkuð til síns máls með að afnema það og það strax. Nú, hvað skyldi það vera? Athugum orð sjálfs Leníns, sem eru jafn sönn í dag og þau voru fyrir meira en 80 árum síðan: Ríkisvaldið er valdatæki valdastéttarinnar. Sjálf tilvera ríkisvaldsins er í sjálfu sér sönnun fyrir stéttaskiptingu. Þetta eru orð að sönnu. Ríkisvaldið þjónar þeim tilgangi fyrst og fremst að tryggja öryggi eignastéttarinnar - þ.e. eigna eignastéttarinnar. Landamerki, arfur, viðskiptahættir, skaðabætur, eignarhald, upptökur og svo framvegis: Það sést á lagasafninu sjálfu að ekki minna en 80% allra laga snúast um eignir og peninga og ráðstöfun þeirra. Það er semsagt fyrsta mál á dagskrá hjá ríkisvaldi kapítalismans: Að tryggja að enginn sé rændur, svikinn eða á annan hátt hlunnfarinn eða sviptur eignum sínum að ósekju. Þetta eru góð orð og sönn.

Nú má segja að stéttabaráttan verði til lykta leidd með því að öreigastéttin kenni krafta sinna og taki yfir ríkisvaldið og beiti því svo fyrir sig sem bóndi plógi: Verkfærinu beitt til að auðvelda öreigastéttinni sósíalismann, þ.e. vinnuna við að útbreiða byltinguna, fræða almenning og byggja upp efnahagslega innviði samfélagsins. Þegar sósíalisminn er þroskaður er ríkisvaldsins ekki lengur þörf og þá má afnema það. Gjarnan er talað um að ferlið sem kennt er við sósíalisma geti tekið aldir. Því tek ég með fyrirvara, að þess þurfi. Ef þess þarf, þá það. Ef þess þarf ekki skal það heldur ekki verða.

Skoðum aðeins hina hliðina, hlið anarkismans: Ríkisvaldið er það vopn sem valdastéttin beitir gegn valdlausu stéttinni til að tryggja sig í sessi, til að verjast ásókn hinna eignalausu í eignir og hinna valdalausu í vald. Um það leyti sem fyrsti vísir að stéttaskiptingu kom fram kom einnig fram fyrsti vísir að ríkisvaldi. Ríkisvaldið þurfti til að viðhalda stéttaskiptingunni og án stéttaskiptingarinnar hefði ríkisvaldsins ekki verið þörf. Stéttaskiptingin og ríkisvaldið tengjast því óneitanlega býsna mikið. Ég ætla nú að koma mér beint að efninu: Ríkisvaldið er sönnun á stéttaskiptingu. Stéttaskipting er forsenda ríkisvalds. En athugum: Allsterk rök hníga að því að ríkisvald sé að nokkru leyti einnig forsenda stéttaskiptingar. Ef ríkisvaldið væri afnumið væri vopn slegið úr höndum valdastéttarinnar: Engin lögregla, enginn her, engin landhelgisgæsla, engir landamæraverðir, engin landamæri og svo framvegis. Fjötrarnir mundu falla af ökklum okkar og úlnliðum eins og dögg fellur af feldi ljóns sem hristir sig í morgunsárið.

Ég trúi því, að fólk reddi sér alltaf einhvern veginn. Það er ein grundvallarröksemdin fyrir því að ríkisvaldið sé óþarft, í það minnsta fyrir okkur, að fólk reddar sér án þess. Fólk fer áfram eftir umferðarreglunum þótt lögreglan sjái ekki til og við spennum líka beltin í umferðinni. Þótt enginn lögregluþjónn sé sjáanlegur göngum við samt ekki í skrokk á næsta manni. Fólk er nefnilega ekki svo heimskt, ekki svo tillitslaust og ekki svo hugsunarlaust. Fólk er bara vant því að aðrir taki að sér vandamálin og leysi þau. Ég er sannfærður um að venjulegt fólk gæti spjarað sig mjög vel án þess að ríkisvaldið hefði statt og stöðugt vit fyrir því eða fylgdist með því.

Valdastéttin mundi líka reyna að redda sér. Ef Jón fátæki spjarar sig, því skyldi ekki Jón ríki gera það líka? Munurinn er, að valdastéttin spjarar sig ekki svo glatt sem valdastétt án ríkisvalds. Þá kemur hún nakin fram og allir sjá hana í sínu rétta ljósi. Til að halda valdi þarf hún að beita valdi. Til að vera örugg með eignir sínar þarf hún að bíta frá sér og til að halda sínu þarf að berja niður andstöðuna. Þetta sér ríkisvaldið um í dag. Verkamenn sem yfirtaka verksmiðju geta ekki búist við því að fá að gera það í friði. Lögreglan er frekar fljót á staðinn. Ef engin er lögreglan, þá er um tvennt að velja fyrir verksmiðjueigandann: a) Sætta sig við orðinn hlut og gangast undir að vera sviptur framleiðslutækjum sínum og þar með forréttindum. Einhverjir mundu velja þann kostinn. M.a. þeir sem skildu hinn kostinn og gallana við hann: b) Láta hart mæta hörðu og fyrst engrar lögreglu nyti við, þá ráða sér kraftakarla til að verja eigur sínar. Það væri illur kostur: Launamennirnir mundu fara í verkfall og verkfallsbrjótum yrði mætt af hörku. Án verkamanna gæti kapítalistinn ekki starfrækt framleiðslutækin sín og eitthvað mundi það kosta að borga kraftakörlunum laun. Illur orðstír mundi sjá um neytendur og hluthafa og gjaldþrot væri líkleg niðurstaða. Þriðji kosturinn gæti verið að selja bara verkamönnunum verksmiðjuna. Ef verkamennirnir hafa efni á því sé ég svosem ekkert að þeim kosti í sjálfu sér.

Þetta sem ég var að nefna væri ekki einsdæmi. Þetta mundi gerast í flestum kapítalískum fyrirtækjum fyrr en varði. Launþegasamtök yrðu fljót að átta sig á afli sínu og neyta þess, þótt ekki væri nema í kjarasamningum. Þvinga mætti fram betri kjarasamninga en þekkst hafa - enda væri annars vegar hótunin um að gera upptæk framleiðslutækin ella. Hvað ef valdastéttin kæmi sér upp nýju ríkisvaldi? Fyrir það fyrsta er ekki hlaupið að því ef hinir væntanlegu þegnar streitast á móti. Í öðru lagi, ef það hefði tekist að afnema það gamla, því skyldu menn þá ætla því nýja lengri lífdaga?

----

"Anarkistar eru niðurrifsseggir," segja sumir, "þeir vilja rífa niður gömul gildi, rífa niður allan strúktúr, skipulag og menningu. Ef þeir réðu för mundi siðmenningin sigla í strand og allt fara í öngþveiti." Í stuttu máli svara ég þessu á þá lund að það er einfaldlega ekki satt. Niðurrifsseggur sem niðrandi orð getur átt við ýmsa, en flesta anarkista á það nú varla við. Það þarf ekki einu sinni að vera slæmt. Hvað voru þeir annað en niðurrifsseggir, sem rifu niður Berlínarmúrinn eða aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku? Ef það er rifið niður sem illt er, þá er niðurrifsseggur ekki niðrandi orð lengur og ásökunin fellur um sjálfa sig. Á sama mælikvarða eru marxistar þá líka niðurrifsseggir af því þeir vilja rífa niður stétaskiptinguna og kúgunartæki kapítalismans. Það er einmitt það sama og anarkistar vilja. Munurinn er í verka helst sá að einblínt er á mismunandi hluta vandamálsins. Kannski virka báðar stefnurnar. Það gæti vel verið, þótt ég sé nú ekki sannfærður um það. Að "rífa niður gömul gildi" þarf ekki endilega að vera neikvætt heldur. Gildi sem eru hræsnisfull, fölsk og/eða ill eiga það skilið að vera rifin niður. Fáir held ég að séu svo vitlausir að vilja rífa niður gömul góð gildi. Sú ásökun er svo vitlaus að hún er varla svara verð. "Rífa niður strúktúr"? Strúktúr valdatækja og kúgunarafla, já. Það eru til fleiri strúktúrar en það. Suma strúktúra er sjálfsagt að rífa niður, aðra ekki. Suma er betra að láta bara renna sitt skeið og koðna niður af sjálfu sér. Skipulag? Það skriffinnskubákn hefur enn ekki litið dagsins ljós, sem er nógu stórt til að skipuleggja duttlunga mannskepnunnar eða fjölbreytileika og fullnægja þeim. Það er sama hversu mörgum hillukílómetrum af reglugerðum eða tilskipunum menn hafa úr að moða, það drukknar í eigin magni áður en það verður nógu viðamikið. Fjölbreytileiki mannsins er slíkur að langfarsælast er að hver maður ráði sér sjálfur, hafi vit fyrir sér sjálfur og leiti hamingju sinnar sjálfur. Það er oft best gert í félagi við aðra og það er gott og blessað. Það þarf ekki ríkisvald til að strúktúr geti verið á. Strúktúrinn getur komið sér á sjálfur; eða, réttara sagt, það er ekki ástæða til að skipuleggja menn með fyrirskipunum þegar þeir eru miklu færari um að skipuleggja sig sjálfir án fyrirskipana. Niðurstaðan verður betra skipulag, minna fer til spillis og menn eru ánægðari af því þeir ráða sér sjálfir. Sama gildir um menningu. Ég veit ekki betur en að menning, rétt eins og heilbrigðiskerfið eða menntakerfið, sé rekið af samfélaginu af einfaldri ástæðu: Samfélagið vill það. Það er engin ástæða til að ætla að það mundi breytast þótt ríkisvaldið hyrfi af braut. Ríkið rekur ekki sjúkrahús af því að því sé svo umhugað um heilsu okkar mauranna. Ef ríkið rekur ekki sjúkrahús er sjúkrahúsið bara rekið öðruvísi í staðinn. Með því að sjá um rekstur sjúkrahússins hefur ríkisvaldið vald yfir því. Þar bætist einn hlekkurinn á okkur, einn bagginn á klafann. Gleymum ekki eðli ríkisins: Það er valdatæki valdastéttarinnar og aukin völd ríkisins þýða auðvitað ekki annað en aukin völd valdastéttarinnar. Það er semsagt engin ástæða til að óttast að menning, heilbrigðisþjónusta eða annað sem við viljum gjarnan hafa biði hnekki.

----

"Anarkistar vilja gera byltingu og ... þegar þeir eru búnir að taka völdin þá segjast þeir ætla að leggja niður ríkið? Annað hvort eru þeir heimskir að halda að það sé hægt að leggja það bara niður eða að þeir eru að ljúga og ætla ekkert að leggja það niður heldur öðlast völd sjálfir!"

Flestir anarkistar sem ég hef kynnst eða lesið eitthvað eftir hafa boðað passíva byltingu. Fólk hunsi einfaldlega ríkisvaldið og leiti sér leiða sjálft til að lifa sínu lífi án afskipta þess. Fólk reddar sér, og því fleiri sem redda sér, þess minni þörf verður fyrir afskipti ríkisins. Hugmyndin er að þá komi sá dagur að ríkið sé bara hætt að skipta máli. Að anarkistar þurfi hvergi að koma nálægt valdatöku sjálfir, þeir bara svelti ríkið og þegar það er orðið feyskið og kafnað þá verði það bara lagt niður vegna óhagræðis. Skorið niður, jafnvel.

Sumir vilja beita ofbeldi til að reka ríkisvaldið af höndum sér. Black Bloc til dæmis. Þeir beita aðferðum sem ég er ósammála, en hafa reyndar sumt til síns máls. Rök þeirra - sem eru reyndar ekki alveg óskyld rökum skæruliða og hryðjuverkamanna - eru að með því að beita ofbeldi sé vegið að meginhlutverki ríkisins, sem sé að gæta öryggis. Þegar það sést að ríkið ræður ekki við verkefnið, segja menn, minnkar traust almennings á því og upplausnarástand kemst á. Í upplausnarástandi eða borgarastríði megi beita sömu leiðum eða öðrum til að koma sínum málstað áfram. Ég sé annmarka á þessu: Ef ríkið getur stimplað ofbeldismenn sem ógn við friðinn eða röð og reglu, þýðir það að ríkisvaldið getur áskilið sér rétt til valdbeitingar, og gerir það líka. Eins og Max Weber orðaði það svo skemmtilega, ríkisvaldið er sá aðili sem hefur einkarétt til valdbeitingar á tilteknu landsvæði. Sá sem beitir ofbeldi í trássi við ríkið er ógn við ríkið og honum þarf ríkið að koma úr umferð. Með góðu eða illu. Þetta er ekki bara spurning um öryggi eða traust. Þetta er spurning um sjálfan grundvöll ríkisvaldsins: Tæki yfirstéttarinnar til að tryggja stéttaskiptinguna og eignarhald sitt á framleiðslutækjunum. Það tæki lætur hún ekki svo glatt af hendi, og hvað þá að hún láti bjóða sér möglunarlaust að einkaeignarhaldinu sér ógnað? Ríkisvaldið mundi vígbúast og vígbúast og gera allt áður en það léti undan í illu. Annað eins hefur nú sést. Hinn ókosturinn við ofbeldisaðgerðir er sá orðstír sem þær koma á ofbeldismennina. Enn í dag heyrir maður þá réttlætingu á slagsmálasveitum ungra sjálfstæðismanna á millistríðsárunum, að kommúnistarnir hafi verið uppivöðslusamir og með skrílslæti og skemmdarverk. Auðvitað er það gild afsökun ef sönn er. Nógu slæmt er það ef menn vígbúast gegn loginni ógn - en að leggja þeim til áþreifanlega ógn til að vígbúast gegn - vitanlega margmargfalt úr hlutföllum við ógnina - það er bara vitlaust. Sú mynd sem það dregur upp af róttækum vinstrimönnum eða anarkistum er heldur ekki sérstaklega björt eða kræsileg. Það er ekki gæfuleg leið til að vinna móralskan stuðning samborgaranna, alþýðunnar eða verkamannsins sem vill bara vinna vinnuna sína og fá sanngjörn laun fyrir það.

----

"Fólk er nú bara einu sinni eins og það er," er ein tuggan. Já, því verður ekki neitað, að fólk er eins og það er. En það má líka segja með sömu rökum að köttur er köttur, tveir er tveir og suður er suður. Þessi staðhæfing er semsagt jafnsönn og hún er innihaldslaus. Hvernig er fólk? Er því svarað? Nei. Hins vegar má skilja það af fólkinu sem segir þetta oftast, að það meinar: "Fólk er gráðugt, það er eigingjarnt, ofbeldisfullt og óstýrilátt og það er kaótískt." Já. Það er alveg satt. Fólk er frekar mikið þannig. Hins vegar þarf að taka þrennt inn í reikninginn: a) Við áttum okkur öll á að fólk er svona og þess vegna er verið að tala niður til okkar, röklega séð, með því að benda á þetta. Þetta er það fyrst sem kemur upp í hugann á hverjum manni sem er að byrja að hugsa um róttæka vinstripólítík eða að afnema hitt og þetta. b) Fólk er ekki einhver föst stærð, eitthvað fastmótað eða fyrirfram ákveðið hvernig er. Mannskepnan er allsstaðar eins, en aðstæður eru misjafnar eftir löndum, svæðum, fjölskyldum og öðru og hafa óumdeilanlega mjög mikil áhrif á mótun fólks. Með öðrum orðum, þótt fólk sé einhvern veginn er ekki þar með sagt að það geti ekki verið öðruvísi. Ég trúi því að barn sem elst upp við gott atlæti og vandað uppeldi sé býsna líklegt til að verða nýt manneskja á fullorðinsárum. c) Við erum ekki róttæk fyrir ekki neitt. Þegar við tölum um breytingar meinum við að við viljum taka eitthvað sem er einhvern veginn og gera það einhvern veginn öðruvísi. Við viljum búa þannig um hnútana að fólki líði vel, fólk sé sjálf sín herrar og búi ekki við kúgun. Við slíkar aðstæður ætti hið góða í manninumm að geta blómstrað óáreitt.

----

Sumir gagnrýna anarkista fyrir hvað þeir eru ófúsir til flokksstarfs. Því er auðsvarað: Anarkistar stefna sjaldnast að valdatöku. Því skyldu þeir þá vilja hafa eitthvað með flokk að gera? Anarkistaflokkur er jafn fáránlegur og ef hópur trúleysingja mundi reisa sér kirkju og ráða klerk til að messa í henni. Ég, fyrir mitt leyti, held að það mætti vel hemja okkur saman í einum flokki sem allir mundu sjá sér hag í að taka þátt í: Marxista, anarkista og aðra sem aðhyllast róttækar vinstrisinnaðar lausnir á vandamálum mannfélags og samfélags.

Annars er eitt sem greinir flesta marxista frá flestum anarkistum. Marxistar hneigjast gjarnan til þess að vilja reka flokk sem veitir alþýðunni forystu og leiðir hana í byltingunni. Flokkurinn er brjótsvörnin, hann er menntastofnunin, pólítíski málsvarinn og vettvangurinn. Þetta fyrirkomulag hefur bæði kosti og galla. Óneitanlega er það gott, þegar barátta er annars vegar, að hafa skipulagða hreyfingu. Það er gott að fá styrk hver af öðrum, ráðfæra sig hver við annan og svo framvegis. Aðalgallinn er samt kannski hvað flokksstarf er gjarnt á að verða híerarkískt - mér liggur við að segja ólýðræðislegt. Það þarf ekki að vera það, en verður það mjög gjarnan. Fámennar klíkur verða áhrifamiklar og í gegn um þær einstakir menn, sem verða áhrifamiklir í gegn um kunningskap við aðra flokksmenn en ekki vegna þess að þeir séu vel til þess fallnir að leiða aðra. Menn sem komast áfram ekki í krafti dugnaðar eða skarpskyggni heldur klækja og klíkubragða. Sú leið hefur gjarnan verið notuð af mönnum sem hafa komist á toppinn - en verið svo gagnbyltingarmenn og svikarar þegar á hólminn er komið. Það er í einu orði sagt herfileg niðurstaða fyrir farsæla byltingu og það eru margir menn sem hafa hárreytt sig yfir minna tilefni.

Anarkistar segja stundum að flokksstarf sé líka hrokafullt; það sé hugsað til þess að hafa vald yfir skoðanabræðrum og til að móta einn mann í annars mynd. Vera má að nokkuð sé til í því. Hörð flokkslína sem allir verða að fylgja er mér ekki að skapi og ég mun aldrei taka við flokkslínu og fylgja henni eftir vegna þess að mér sé sagt að gera það. Sannleikurinn er sá að fólk er skynsamt. Það er hægt að fræða fólk án þess að mata það og það er hægt að sannfæra fólk öðruvísi en með ofbeldi. Ef við ætlum að treysta fólki sjálfu til að fara með forræði fyrir sér - sem við hljótum að gera, í hvaða formi sem við viljum gera það - og treysta fólki til að gera rétt með því að styðja rétta leiðtoga til forystu eða berjast fyrir réttum málstað - þá ættum við líka að muna að fólk getur þrátt fyrir allt hugsað upp á eigin spýtur og það þarf ekki alltaf fyrirmæli eða forsjá til að þrauka.

----

Einu sinni á Sturlungaöld, þegar Þórður kakali var nýdauður, fór fyrirmaðurinn Þorvarður Þórarinsson í Saurbæ í Eyjafirði um sveitir og gerði eins konar skoðanakönnun: Hvernig litist bændum á hina og þessa höfðingja til að ráða sveitinni. Hann hafði í hyggju að reyna að ná henni undir sjálfan sig. Þorvarður ríður nú þar til hann kemur á bæ. Talar við bónda og spyr: "Hvern höfðingja vilduð þér helst hafa?" Bóndinn svaraði: "Helst vildum vér engan höfðingja hafa." Mönnum hafði semsagt dottið í hug að tilvera án yfirvalds væri möguleg, löngu áður en farið var að stefna að því með nafngreindum stjórnmálastefnum á 19. öld. Þetta er sammannleg hneigð: Þar sem er vald eru menn sem eru óánægðir með að vera vitlausu megin við það. Þeir sem hafa ekki völd vilja gjarnan að það séu engin völd yfirhöfuð. Þessi ósk er sanngjörn og fróm og hana leitast menn við að uppfylla. Það er markmiðið með byltingunni, á endanum, að afnema kúgun, arðrán og undirokun.

----

Ég get ekki sagt að ég móðgist mikið þegar mér er borið á brýn að ég jaðri nú bara við að vera anarkisti. Slíkt skil ég ekki sem móðgun og orðið "anarkisti" er ekki niðrandi í mínum huga. Mín afstaða er einföld: Ég neita að taka þátt í barnalegum flokkadráttum eða láta klofninga fortíðarinnar ráða úrslitum um mínar skoðanir í dag. Ég tel að eina leiðin til að komast að skynsamlegri niðurstöðu sé að gleyma kreddum eins og þeirri að allir anarkistar séu vitleysingar eða að ekki sé hægt að vinna með trotskíistum eða að stalínistar svíki alltaf. Kreddurnar sundra okkur. Þegar öll kurl koma til grafar og skoðanir okkar eru soðnar niður vænti ég þess að eftir standi þetta: Við erum mörg. Við áttum okkur á að við erum sett í óréttláta stöðu. Við viljum gera eitthvað í því: Við viljum gera allt sem skynsamlegt er eða vænlegt til árangurs til að afnema óréttlætið sem ríkir.

----

Hvers vegna er ég, marxistinn, að setjast niður og skrifa langa málsvörn fyrir anarkisma? Mun einhver lesa þetta? Mun einhver taka mark á þessu? Mun þetta kannski vinna gegn upphaflegum tilgangi sínum og snúa mörgum góðum og gildum marxistum til anarkisma? Væri það endilega galið? Er ekki best að sem flesti komist að sem bestri niðurstöðu og myndi sér lífsskoðun sem er sem gæfulegust?

----

Marxismi er vísindi, hann er hugmyndafræði og hann býður upp á svör við áleitnum samfálagslegum spurningum. Hann er okkur vegvísir og leiðarstjarna á ferðalagi sögunnar. Félagslega og sögulega séð er ég marxisti á sama hátt og ég er darwinisti og pasteuristi í náttúrufræði, mendelejevisti í efnafræði og newtonisti í eðlisfræði. Aðdráttaraflið er. Þróunin er. Lotukerfið er og stéttabaráttan er. Þar með er samt málið ekki útrætt. Ólíkt þyngdarlögmálinu framfylgja lögmál marxismans sér ekki öll af sjálfu sér. Til þarf vinnu, baráttu, þrotlaust erfiði og ósérhlífni margra, já, gríðarmargra manna. Miklu meiri vinnu en hefur verið lögð í framkvæmdina hingað til; altént eru afköstin miklu meiri sem þurfa að nást. Ekki veit ég hvort hugmyndirnar þurfa neitt ferskt blóð í sjálfu sér sem slíkar. Hitt veit ég, að við kunnum að eiga okkur bandamenn eða hauka í horni. Stærsti þröskuldurinn fyrir því að geta unnið saman er að vilja vinna saman. Ef þann vilja vantar verður samvinnan skiljanlega lítil. Gagnkvæmur skilningur fylkinganna getur mögulega eytt tortryggni, opnað umræður og þannig fært okkur öll skrefi nær gæfunni. Kannski er meiri sannleikur en við áttum okkur á við fyrstu sýn fólginn í hinu fornkveðna: Öreigar allra landa sameinist!

Vésteinn Valgarðsson, frjálslyndur marxisti

Til baka í greinar