Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarkismi – Grunn hugleiðingar

 

Áður en nokkrar hugleiðingar um Anarkisma hefjast verður að svara einni algengri spurningu...þurfum við yfirhöfuð einhverja pólítík?

Án þess að það ætti að þurfa að koma nokkrum manni á óvart, er svarið já. Pólítíkusar hafa í gegnum tíðina verið svo sjúklega duglegir að koma slæmu orði á pólítík að flestir vilja ekkert með hana hafa. Marxistar, fasistar og aðrir öfgahópar hafa misnotað hugtakið enn frekar og er ástandið í dag þannig að flestir fyllast tortryggni gagnvart hverjum þeim sem aðhyllast einhvers konar pólítíska stefnu.

Samt sem áður, hvort sem fólki líkar það betur eða verr er pólítíkin órjúfanlegur partur af lífi okkar. Hún fjallar um hvernig við lifum, hvernig samfélög okkar virka, hver fær peninginn, hverjir vinna fyrir hverja o.s.frv. Að afneita pólítík er semsagt það sama og að leyfa öðru fólki að stjórna lífi manns.

Sumir fylgjendur hinar “nýju hægri” stefnu segjast vera á móti pólítík, þeir halda því fram að þeir séu að reyna að frelsa þjóðfélagið úr klóm pólitíkurinnar og vilji bara reka þjóðfélagið á sem skilvirkastan hátt. Þetta þýðir einfaldlega að þeir vilja hrifsa stjórn á lífum fólksins af kjörnum pólitíkusa-aumingjum og færa ókjörnum skrifstofublókum og viðskiptajöfrum stjórnina. Flestir þessara nýju-hægri-stefnu-sinnuðu einstaklinga, fylgja hugmyndafræði sinni jafn blint og Marxistar. Jafnvel þegar að þeirra leið hefur greinilega klikkað munu þeir ennþá kenna okkur hinum um það.

Kenningar verða ekki vandamál fyrr en þær verða að óbeygjanlegri, “sannri” hugmyndafræði, ófærri um að viðurkenna galla sína eða breytast til að aðlagast nýjum aðstæðum.

Góð pólitísk kenning er hinsvegar eins konar leiðarvísir fyrir fólk sem að vill setja sér það markmið að breyta heiminum.Ekkert okkar er nógu gáfað til að geta, upp á eigin spýtur, ákvarðað rétta lausn á öllum pólitískum spurningum sem við mætum. Venjulega, höfum við einfaldlega ekki nægar upplýsingar til þess. Við þurfum oft einhvers konar hjálp og þar koma kenningarnar inn í myndina.

Kenningar eiga ekki að vera eitthvað sem er gripið af einstaklingum eða sett saman af einhverjum töluhakkandi hagfræðingum, kenningar eiga að vera samsuða af reynslu fólksins og sögu þess.

Anarkistar geta t.a.m. tekið þúsundir dæma um hvernig ríkisstjórnir hafa svikið okkur, fólkið sem hún á að vera að þjóna. Þetta hefur gerst aftur og aftur, svo að þessi tilhneiging yfirvaldsins hefur verið innleidd í kenningar okkar. Við sjáum enga ástæðu til að treysta nokkurs konar stjórnvöldum fyrir lífum okkar og erum ekki tilbúin til að leyfa þeim að svíkja okkur aftur. Ef að við hefðum ekki innleitt þessa reynslu inn í kenningar okkar þyrftum við öll að læra þetta “the hard way” aftur og aftur, eins og svo margir sem að einfaldlega afneita öllum pólitískum kenningum.

Að vera virkur í pólítík án þess að aðhyllast einhvers konar grunn-kenningar er svipað og að laga bíl án leiðbeininga, þú gætir alveg náð hlutunum réttum, en það myndi taka óratíma, og þú gætir líka endað með verra ástand á hlutunum en var fyrir.

Kenningar og stefnur Anarkista eru byggðar á þeirri einföldu hugmynd að allar manneskjur séu jafnar, skuli njóta algjörs persónulegs frelsis og skuli geta ákveðið sinn lífsgang án afskipta annara. Þar af leiðandi líta anarkistar á alla valdníðslu, eða bara hvers konar yfirvald yfir höfuð, sem algjöran óþarfa og óréttlætanlega skerðingu á persónulegu frelsi einstaklingsins. Skipulag anarkísks samfélags verður því að vera stjórnað af samfélaginu sjálfu. Allir þegnar hvers samfélags ættu að vera með í ákvarðanatökum samfélagsins og þeir sem verða fyrir mestum áhrifum ákvarðana ættu að hafa mest vægi í ákvarðanatökunni.

Þetta er beint lýðræði!!! Það er algjör ranghugmynd að við lifum við beint lýðræði núna. Stjórnarskipulagið sem við lifum við í dag ætti að heita hálflýðræðisleg valdníðsla eða eitthvað í þá áttina.

Útaf þessu er hægt að kalla Anarkista öfgakennda lýðræðissinna, allavega viljum við miklu, miklu meira lýðræði en við höfum núna.

Beint lýðræði þýðir þó ekki að allt samfélagið þurfi að taka þátt í hverri einustu litlu ákvörðun sem er tekin, margar ákvarðanir eru teknar af einstaklingum og koma engum öðrum við en einstaklingnum sjálfum. Ýmsar aðrar ákvarðanir, t.d. tæknilegar ákvarðanir, geta einnig verið teknar af einstaklingum, þ.e.a.s. í þessu tilfelli sérfræðingum. T.d. efast ég um að heilt samfélag myndi vilja taka þátt í að ákveða hvernig þéttingu ætti að nota í einhverja almenningsbyggingu. Það getur smiðurinn eða umsjónarmaður verksins ákveðið. Hins vegar ætti samfélagið að ákveða hvort ætti að byggja hana eða hvar.

Aðalatriðið hér er að þegar við gefum einhverjum sérfræðingum vald til að framkvæma, áskiljum við okkur rétt til að draga það strax til baka ef okkur líkar ekki hvernig sérfræðingurinn notar það. Hver og einn á að geta beðið um að ákvörðun verði borin undir samfélagið aftur, til endurskoðunar.

Þetta hljómar kannski allt svolítið flókið og erfitt. Auðvitað, það að setja upp anarkískt samfélag myndi kosta mikla vinnu. Samt sem áður má búast við því, þegar allt væri komið af stað, að ákvarðanir yrðu aðeins teknar af þeim sem þær snerta. Samfélagið í heild sinni myndi þá aðeins taka ákvarðanir á stórum atriðum, miklum breytingum, eða þegar einhver stór vandræði kæmu upp.

Góð ákvarðanataka er ekki alltaf það sama og skilvirk ákvarðanataka. Ef þú vilt skilvirkni, náðu þér þá í einræðisherra og farðu að grafa grafir! Hins vegar, ef þú vilt samfélag sem er búið til, til þess að hægt sé að lifa í því, þá ættirðu að sækjast eftir að taka meiri þátt í ákvarðanatöku en felst í að krossa á pappír á 4 ára fresti.

Ein spurning sem vekur alltaf upp umræður milli anarkista er hvernig ákvarðanir skuli vera teknar. Anarkistar eru yfirleitt hrifnir af hugmyndinni að ákvarðanir skuli vera teknar af almenning eftir samkomulagi. Þar sem fyrirkomulaginu er ruglað til og aðlagað óskum fólksins, þar til að allir sem það snertir eru ánægðir. Þetta er skemmtileg hugmynd en því miður er lítill möguleiki á því að mannkynið nái nokkurn tímann að þróa með sér algjörlega gallalausa aðferð til að ná samkomulagi. Það að reyna að ná alltaf samkomulagi milli allra sem málið varðar, getur leitt til þess að einhverjir nái sínu fram með því að setja niður fótinn og neita að semja nokkuð um málið. Sumar ákvarðanir eru einfaldlega þess eðlis að samkomulag er annaðhvort ómögulegt eða þess einfaldlega ekki óskað. Í þess háttar tilvikum má vera að ákvarðanir yrðu teknar með kosningu og meirihlutinn myndi ráða. Hins vegar myndi minnihlutinn fá tækifæri til að reyna aftur þegar til lengri tíma yrði litið. Það yrði þó að passa upp á það að úrskurðaður minnihluti fengi ekki að opna svo oft fyrir umræðuna að að allir aðrir yrðu þreyttir á henni og minnihlutinn myndi vinna þannig.

Þegar að ákvörðun færi á móti vilja minnihluta ættu skoðanir þeirra að vera skoðaðar til að reyna að mæta vilja þeirra á annan hátt. Til dæmis gæti þetta þýtt að deiluefninu yrði skipt niður og minnihlutinn gæti notað sinn hlut eins og þeir vildu, frekar en að vera skyldaðir til að fylgja ákvörðun meirihlutans.

Það eru fleiri vandamál sem eru tengd afneitun nokkurs konar valdbeitingar. Í sumum tilfellum gæti maður þurft að nota vald í sjálfsvörn eða til að verja aðra, sem annaðhvort gerðu sér ekki grein fyrir hættunni eða gætu það einfaldlega ekki. Ekki nokkur heilvita maður myndi leggja til að við myndum ekki nota vald til að koma í veg fyrir að barn drekki málningu eða að fyllibytta fari að keyra.

Bandaríski Anarkistinn Noam Chomsky skilgreinir anarkisma ekki sem algjöra afneitun alls valds heldur segir hann að anarkismi krefjist þess að hvers kyns valdbeiting skuli vera efuð og krefjist réttlætingar. Þ.a.l. er valdbeiting einungis réttlætanleg þegar ekki er til neinna annara úrræða að grípa.
Fair enough...

Aðferðir sem krefjast valdbeitingu mætti því einungis nota eftir miklar rökræður innan samfélagsins og bara til þess að skoða aðra mögulega kosti. Ef að vald er notað í neyð, þar sem ráðfæringar eru ómögulegar, ætti valdbeitingin að vera grandskoðuð og ætti að líta á hana sem alvarlegan hlut sem fylgjast þyrfti grannt með.

Ríkisstjórnir í nútímasamfélögum fara með okkur eins og við séum öll illa innrætt fífl. Okkur er sagt að við þurfum yfirvald til að verja okkur fyrir okkur sjálfum sem og öðrum. En ef að fólk er virkilega svona vont af hverju er þá sumum treyst fyrir að stjórna öðrum? Er það vegna þess að stjórnmálamennirnir og aðrir sem taka að sér stjórnunarstöður eru betri manneskjur en við hin?

Flestar mannverur eru hvorki börn, byttur né bjánar, og eru alveg jafn fær um að stjórna sínum lífum og þau sem áskotnast hefur þetta vald. Þessi steypa sem er að hlutunum í dag bendir meira að segja til þess að flestir stjórnmálamenn séu jafnvel verr í stakk búnir til að takast á við vandamálin en við hin!!

Rænt af: Sam Buchanan, The Transmogrification of Everyday Life
Þýtt: Árni Hjörvar

Til baka í greinar