Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Af hverju þurfum við Anarkisma???

Kapítalískt stjórnkerfi þrífst á því að auka vald sitt, sem í tilfelli kapitalisma er peningar. Hann gerir þetta með því að misnota okkur vinnandi fólkið og viðskiptavinina og borga minna fyrir vöruna eða þjónustuna en þeir selja hana á. Mismunurinn er kallaður gróði. Það er ekkert sérstaklega vingjarnlegt að hegða sér svona og getur jafnvel orðið hættulegt þegar að gróðinn er síðan aukinn og fyrirtæki verða nógu sterk til að geta virkilega farið að hafa áhrif.

Þetta ferli leiðir af sér stéttaskiptingu þar sem fólki er skipt milli stétta eftir því hversu mikið af framleiðslutækjum og fasteignum það á. Samkvæmt marxískum kenningum eru stéttirnar tvær. Þau sem eiga framleiðslutækin eru auðvaldið, þau arðræna þjóðina til að upphefja sinn eigin fjárhag. Hin stéttin eru við öreigarnir(eins og kommúnistar kalla okkur). Eina hlutverk sem við höfum er að selja auðvaldinu vinnu okkar.

Nú til dags er stéttaskipting mun lauslegra hugtak en það var áður, allavega hérna á vesturlöndum. Komin er ný stétt sem kallast millistétt og inniheldur hún forstjóra, háttsetta skrifstofukalla og fleiri titla í þessa áttina.

Þetta þýðir samt alls ekki að hlutirnir séu nokkuð betri núna. Kapítalisminn nýtur þess að telja okkur trú um að við “hækkum í tign” í þjóðfélaginu samkvæmt því sem við eigum skilið. Þetta er kjaftæði. Það er ekki nægt pláss fyrir okkur öll við stjórnarborðið, alveg sama hversu æðisleg og dugleg við erum. Sérstaklega ekki þar sem flest sætin eru nú þegar frátekin fyrir erfingja þeirra sem tóku þessa stöðu upphaflega. Kapítalisminn passar þó að hleypa alltaf nýju fólki inn í hóp hinna ríku vegna þess að það setur upp hálfgerða öryggisloku fyrir allt vantraust og gagnrýni á ríkjandi stjórnskipulag.

Það má líkja þessu við lottó. Verðlaununum er veifað fyrir framan okkur svo að við tökum ekki eftir óréttlætinu sem er út um allt í skipulaginu.Það skiptir engu máli hvað gerist, það eru alltaf meiri peningar sem fara inn heldur en út.

Þörfin fyrir fólk með sérhæfða menntun í nútíma kapítalísku stjórnkerfi hefur gefið fullt af fólki tækifæri til að spjara sig burtséð frá menntun eða stöðu foreldra þeirra. Þetta fólk fær hærri laun og jafnvel mikla valdastöðu á vinnustaðnum en þrátt fyrir allt eru þetta ennþá bara “öreigar” þar sem um leið og þörfin fyrir menntun þeirra er ekki lengur til staðar eru þau látin fjúka eins og við hin. Flestum þeirra sem ná þessum áhrifastöðum svipar til ráðandi stétta og finnst þeim kapítalisminn vera það besta sem komið hefur fyrir þennan heim síðan heilhveitibrauðið var fundið upp. En það er samt fullt af fólki á þessari skoðun sem eru bara “low life scum” eins og ég og þú.

Önnur mikil breyting, sem hefur orðið í sambandi við stéttaskiptinguna síðan á seinustu öld, er sú að undanfarið hefur hnattvæðing hennar stóraukist. Framleiðslan á ýmsum “gæðum” hefur verið flutt til þriðja heimsins, þar sem allur kostnaður við framleiðsluna er mun lægri, þ.á.m. launakostnaður. Á meðan einbeitir “ríki heimurinn” sér að því að framleiða hátæknihluti sem endalaust er hægt að græða á, t.d. vopn, flugvélar (flugfélög), tölvur, heilaskemmandi tölvuleiki og mannskemmandi hasarmyndir. Eftir því sem meiri og meiri framleiðsla er flutt til þriðja heimsins krefst kapítalisminn þess að laun og aðstaða vinnufólks í ríku löndunum verði að vera sveigjanlegri til að “ýta undir samkeppni”. Mér þykir leitt að benda á þetta en það hefur sýnt sig að “sveigjanleiki” kapítalismans virkar bara í eina átt... ríkir verða ríkari, fátækir verða fátækari.

Stærsta ógnin við kapítalismann kemur frá okkur þegar að við áttum okkur á því að við erum saman í þessu... allavega flest okkar. Til þess að við áttum okkur ekki á þessu býr kapítalisminn yfir einskonar “mismununarstefnu,” þar sem hann notar t.d. rasisma, þjóðrembu og kynjamisrétti til að brjóta fólk upp í hópa. Þessar tegundir sundrungar eru þó ekki þær mikilvægustu fyrir kapítalismann, það er stéttaskiptingin, en þær eru þó fjandi nytsamlegar. Fólk er hvatt til að drottna yfir öðrum og líta á annað fólk sem óvini eða keppinauta.
Á vissan hátt gefur kapítalisminn þetta sundrungarhlutverk frá sér eftir svolítinn tíma. Um leið og búið er að sundra hópunum tekur fólkið sjálft þetta hlutverk að sér. Kapítalisminn sér bara til þess að ríkjandi ástand haldist, til að geta haldið áfram að arðræna okkur öll.

Að halda fólkinu sundruðu og hræddu styrkir ekki aðeins ríkið heldur býður það einnig upp á nýja möguleika til að selja vörur. Langbesta dæmið um þetta er hvernig kapítalisminn nýtir sér og eykur á óöryggi hjá konum til þess að selja þeim snyrtivörur, fatnað, megrunardrykki, glanstímarit og fleira. Kapítalisminn hefur grætt svo óhugnanlega á þessu að núna er hann farinn að nota sömu aðferðir á karlmenn.

Þegar búið er að koma markaðinum í gang þá gerast hlutirnir eiginlega af sjálfu sér. Ríka og valdamikla fólkið heldur ekki leynilega fundi til að samstilla sín illu plön eða eitthvað þess háttar. Þess gerist ekki þörf, þessir kapítalistar eru meira eða minna svo uppteknir af sjálfum sér og á svo svipaðan hátt að þeir fylgja sama mynstrinu án þess að þurfa að ráðfæra sig hvorn við annan. Svo að eina úrræðið fyrir okkur hin er að vakna til lífsins, gera okkur grein fyrir hvað er að gerast og veita andspyrnu.


Rænt af: Sam Buchanan, The Transmogrification of Everyday Life
Þýtt: Árni Hjörvar.

Til baka í greinar