Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Emma Goldman fluttist til Bandaríkja N-Ameríku rétt í endaða nítjándu öld, þá ung stúlka. Um og uppúr aldamótunum var hún orðin leiðandi afl í starfi anarkistahreyfingarinnar sem þá einkenndist af hugmyndafræði anarkó-kommúnisma. Hún ritstýrði tímaritinu "Mother Earth" og ferðaðist um Bandaríkin með fyrirlestra um anarkisma, jafnrétti kynjanna, frjálsar ástir, verkalýðsbaráttu og gegn herkvaðningu svo eitthvað sé nefnt af hennar baráttumálum. Sjálfsævisaga hennar "Living My Life" er yfirgripsmikil heimild um baráttu verkalýðsins fyrir réttindum sínum auk þess að vera mjög sterkt rit um hugsjónabaráttu. Lestur þeirrar bókar hafði einmitt mikill áhrif á þýðanda þessarar greinar á sínum tíma. Þessi ritgerð sem hér er þýdd; "Anarchism, What it really stands for" var skrifuð fyrir réttum hundrað árum. Orðalag er eðlilega nokkuð öðruvísi en fólk á að venjast í dag, kannski er líka um að kenna vanhæfni þýðanda en betur verður ekki gert í bili. Atvinnufólk í textaþýðingum er almennt ekki að þýða texta um anarkisma svo sjálfboðaliðar verða að gera það sjálfir.

Reykjavík/Arnhem 2004
Sigurður Harðarson

 

Anarkismi, það sem hann raunverulega stendur fyrir.

Þroska- og þróunarsaga mannsins er um leið saga af hrikalegri lífsbaráttu hverrar nýrrar hugmyndar sem boðar bjartari dögun. Í heljartaki sínu á siðvenjum hefur hið gamla aldrei hikað við að beita grófustu og grimmilegustu aðferðum til að standa hinu nýja á fæti, sama í hvaða mynd eða á hvaða tímaskeiði hið síðarnefnda hefur sýnt sig. Við þurfum heldur ekki að leita langt inn í fortíðina til að átta okkur á umfangi þeirrar andstöðu, erfiðleika og þess mótlætis sem lagt hefur verið í götu hverrar einustu framsækinnar hugmyndar. Píslarbekkurinn, þumalskrúfan og hengingarólin eru enn á meðal okkar, sem og fangabúningurinn og hin félagslega heift, sameinuð gegn þeim anda sem í æðruleysi heldur göngu sinni áfram.

Anarkismi gat ekki vonast til að komast undan örlögum allra annara hugmynda um nýbreytni. Sem byltingarkenndasti og einbeittasti frumkvöðullinn hefur anarkismi þurft að mæta samanlögðu þekkingarleysi og illkvittni þess heims sem hann vill endurbyggja. Þó ekki væri nema til að að koma stuttlega inn á allt sem hefur verið sagt og gert gegn anarkisma þyrfti að skrifa heila bók. Ég mun því einungis koma inn á tvö af grundvallar mótrökunum. Um leið mun ég reyna að útlista hvað anarkismi raunverulega stendur fyrir.

Hið undarlega við andstöðu gagnvart anarkisma er að hún dregur fram í dagsljósið tengslin milli þess sem hefur verið kallað "greind" og fáfræði. Samt er það ekki svo undarlegt þegar við veltum fyrir okkur afstæði allra hluta. Hinn fáfróði meirihluti hefur sér til málsbóta að hann gerir sér ekki upp þekkingu eða umburðarlyndi. Þar sem hann bregst við, eins og alltaf, samkvæmt eðlisávísun, eru rök hans eins og barns. "Hversvegna? - Vegna þess." Samt á andstaða hinna óupplýstu við anarkisma skilið að njóta sömu athygli og andstaða hins upplýsta manns.

Hver eru þá mótrökin? Í fyrsta lagi að anarkismi sé falleg hugsjón en gangi ekki upp. Í öðru lagi að anarkismi stand fyrir ofbeldi og eyðileggingu og þessvegna skuli honum hafnað sem afleitri hugmynd og hættulegri. Hvorki hinn upplýsti einstaklingur né fáfróður almenningur dæma útfrá þekkingu á málefninu, heldur útfrá sögusögnum og rangtúlkunum. Oscar Wilde segir áform sem ganga upp vera annaðhvort þegar í notkun eða vera áform sem hægt væri að útfæra við þær aðstæður sem þegar er lifað við; en það eru einmitt aðstæður samtímans sem unnið er gegn og hvaða áætlun sem sættir sig við þær er röng og heimskuleg. Raunverulegur mælikvarði á hagnýti er þessvegna ekki spurning um hvort að hið síðarnefnda geti haldið hinu ranga og heimskulega gangandi, heldur hvort að áætlunin sé nógu lífvænleg til að hefja sig upp úr stöðnu vatni hins gamla og byggja upp og viðhalda nýju lífi.

Í þessu ljósi verður anarkismi einkar hagnýtur. Frekar en nokkur önnur hugsun ýtir anarkisminn undir að rutt sé burt ranglæti og heimsku, frekar en nokkur önnur hugsun byggir hann upp og viðheldur nýju lífi.

Tilfinningum hins óupplýsta manns er stöðugt haldið strekktum með sögum um anarkisma sem fá blóðið til að frjósa í æðum hans. Ekkert er svo svakalegt að ekki sé hægt að nýta það gegn þessari heimspeki og talsmönnum hennar. Þessvegna er anarkismi gagnvart þeim sem ekki hefur hugsað málið sama og vondi kallinn er gagnvart barninu: Skrímsli sem er tilbúið að gleypa hvað sem fyrir er, eyðilegging og ofbeldi.

Eyðilegging og ofbeldi! Hvernig á almúgamaðurinn að vita að ofbeldisfyllsti þáttur sem fyrirfinnst í samfélaginu er fáfræði; að hið eyðileggjandi afl fáfræðinnar er einmitt það sem anarkisminn berst gegn. Hvað þá að hann átti sig á að anarkisminn, sem á sér rætur í náttúruöflunum, eyðileggur ekki heilbrigðan vef, heldur sníkjuvöxt sem nærist á lífskrafti samfélagsins. Hann er að hreinsa jarðveginn af illgresi og njóla þannig að vaxið geti heilbrigður ávöxtur. Einhver lét eftir sér hafa að það krefðist minna andlegs átaks að fordæma heldur en að hugsa. Hin útbreiddi andlegi doði, jafn útbreiddur og hann er í samfélaginu, sannar þetta. Frekar en að kanna hverja hugmynd til botns og rannsaka uppruna hennar og merkingu, mun flest fólk frekar fordæma hana í heild sinni eða treysta á yfirborðskennda eða fordómafulla útlistun á nokkrum punktum.

Anarkismi hvetur manninn til að hugsa, að rannsaka, að skilgreina hverja staðhæfingu. Hafi ekki þegar verið gengið fram af getu hins almenna lesanda til vangaveltna mun einnig ég byrja á skilgeiningu og síðan útlista hið síðarnefnda.

ANARKISMI: Heimspeki nýrrar skipulagningar samfélagsins, byggð á frelsi, ósnertu af lögum manna. Kenning um að öll yfirstjórn sé byggð á ofbeldi og sé þessvegna röng og hættuleg, sem og óþörf.

Hið nýja félagslega skipulag hvílir að sjálfsögðu á efnislegum grunnþörfum lífsins, en um leið og allir anarkistar eru sammála um að helsta ógn okkar sé efnahagslegs eðlis, segja þeir að lausn við þeirri ógn sé einungis hægt að koma á með tilliti til allra þátta lífsins – einstaklings og samfélags, innri sem og ytri þátta.

Ýtarleg rýni í sögu mannlegs þroska leiðir í ljós tvo grunnþætti sem stangast heiftarlega á; það er fyrst núna sem einhver skilningur á þessum grunnþáttum er að myndast, þá ekki sem eitthvað tvennt ólíkt heldur sem nátengda og afar samræmda, sé þeim komið fyrir í réttu umhverfi: Einstaklingurinn og félagshyggjan. Einstaklingurinn og samfélagið hafa háð vægðarlausa og blóðuga baráttu í aldir, hvort um sig hefur krafist yfirráða því hvorugt kom auga á gildi og mikilvægi hins. Einstaklingurinn og félagseðlið - annað sem er afar hvetjandi þáttur fyrir þroska einstaklingsins, vöxt hans, innblástur og sjálfsþekkingu. Hitt ekki síður mikilvægt fyrir gagnkvæma hjálpsemi og félagslegan velfarnað.

Skýringa á þeim stormi sem geisar innan einstaklingsins og milli hans og umhverfis hans, þarf ekki að leita langt. Hinn frumstæði maður, ófær um að skilja eigin tilveru, enn síður sameiningu alls lífs, upplifði sjálfan sig algerlega háðan ósjáandi, duldum öflum sem ætíð voru reiðubúin að hæða hann og skensa. Frá þessu sjónarhorni varð til það viðhorf trúarbragðanna að maðurinn sé ekki nema rykkorn háð æðri öflum sem einungis eru hægt að nálgast með algerri uppgjöf.

Allar gamlar sögur byggja á þessari hugmynd, sem er enn leiðandi í biblíusögunum og lýsa tengslum mannsins við guð, ríki og samfélag. Aftur og aftur kemur fyrir sami grunnurinn; - maðurinn er ekkert, mátturinn er allt. Þessvegna gat Jehóva einungis þolað manninn væri hann í algerri uppgjöf. Maðurinn má njóta allra dýrinda jarðarinnar en hann má ekki verða meðvitaður um sjálfan sig. Ríki, samfélag og siðareglur syngja öll sama sönginn: Maðurinn má njóta allra dýrinda jarðarinnar en hann má ekki verða meðvitaður um sjálfan sig.

Anarkismi er eina hugmyndafræðin sem kennir manninum meðvitund um sjálfan sig og heldur því fram að Guð, Ríki og samfélag séu ekki raunveruleg, að loforð þeirra séu núll og nix þar sem einungis er hægt að uppfylla þau með undirokun mannsins. Anarkismi er því að leiðbeina um einingu lífsins, ekki bara í náttúrunni heldur í manninum. Það er ekkert ósætti milli einstaklingsins og félagslegra eðlisþátta, ekki frekar en er á milli hjartans og lungnanna. Annað virkar sem móttakandi dýrmætra krafta en hitt ber í sér þá grunnþætti sem halda kraftinum tærum og sterkum. Einstaklingurinn er hjarta samfélagsins og felur í sér kraft hins félagslega lífs, samfélagið er lungun sem viðhalda hreinleika og krafti lífskjarnans – þ.e. einstaklingsins.

Emerson segir að það eina í heiminum sem skiptir mál sé hinn lifandi andi. Hann geymir hver maður innra með sér. Hinn virki andi sér allan sannleika, gefur af sér sannleika og skapar. Með öðrum orðum er einstaklingseðlið það sem mestu skiptir í heiminum. Það er hinn lifandi andi sem sér og skapar lifandi sannleika og þaðan kemur enn frekari sannleikur, hinn endurfæddi, félagslegi andi.

Anarkismi er hinn magnaði frelsari mannsins frá þeim draugum sem hafa haldið honum föngnum, hann er dómari og sáttasemjari aflanna tveggja á leið til friðsamlegrar samræmingar einstaklings og samfélags. Til að nálgast þá sameiningu hefur anarkisminn sagt stríð á hendur þeim skaðlegu áhrifum sem hafa hingað til hindrað að einstaklingseðlið og félagseðlið næðu saman á sáttfúsum nótum.

Trúarbrögðin; yfiráð yfir mannshuganum: Eignarhaldið; yfirráð yfir þörfum manna og Ríkisstjórn; yfirráð yfir hegðun mannsins eru hornsteinar þrælkunar mannsins og alls þess hryllings sem henni fylgir. Trúarbrögð! Sjáið hvernig þau ráðskast með mannshugann, hvernig þau lítillækka og niðurlægja mannssálina. Guð er allt, maðurinn ekkert fullyrða trúarbrögðin. En frá því sem ekkert er hefur Guð skapað konungsríki einræðis, svo illskeytt, svo ráðríkt, svo grimmilegt, svo krefjandi að ekkert utan grátur og gnístran tanna hafa stýrt heiminum síðan tímar guða hófust.

Anarkismi reisir manninn upp gegn þessu svarta skrímsli. Brjóttu þína andlegu fjötra, segir anarkisminn við manninn, því ekki fyrr en þú getur hugsað og dæmt fyrir sjálfan þig munt þú losna undan myrkraveldinu, mestu hindrun allrar framþróunar.

Eignarhaldið; yfirráð yfir þörfum mannsins, er afneitun á rétti hans til að fullnægja þörfum sínum. Áður fyrr var eignarrétturinn talinn guðleg forsjón, þegar kom að manninum var viðkvæði trúarbragðanna; “Fórnið!, Afneitið!, Hlýðið!” Andi Anarkismans hefur hafið manninn upp frá því að vera á grúfu. Hann stendur nú uppréttur og snýr að ljósinu. Hann hefur lært að þekkja hið óseðjandi og eyðileggjandi eðli eignarhaldsins sem allt vill gleypa og hann er reiðubúinn að veita þeim ófreskjum banahögg.

"Eignarhald er rán," sagði hinn magnaði franski anarkisti, Proudhon. Það er rétt en án þess að ræninginn taki nokkra áhættu. Með því að einoka sameiginlegt átak manna hefur eignarhaldið rænt meðfæddu réttindum þeirra og skilað manninum af sér sem betlara og úrhraki. Eignarhaldið nýtur ekki einusinni þeirrar þreyttu afsökunar að maðurinn framleiði ekki nægilega til að fullnægja þörfum allra. Grundvallarþekking í hagfræði er nóg til að vita að framleiðni vinnumarkaðarins nokkra síðustu áratugi er miklu meiri en þörf er fyrir. En hvað eru eðlilegar kröfur gagnvart óeðlilegri stofnun? Eina krafan sem eignarhaldið viðurkennir er eigin græðgikrafa um meiri auðlegð, því auðlegð þýðir vald, vald til að kúga, að brjóta niður, misnota, þrælka, svívirða og lítillækka. Ameríka er sérstaklega stolt af sínum mikla krafti, sinni miklu þjóðarauðlegð. Vesalings Ameríka, hver er árangurinn af allri hennar auðlegð þegar einstaklingarnir sem þjóðin samanstendur af eru fátækir vesalingar? Ef þeir lifa í eymd, skít og glæpum, vonlaus, gleðilaus, heimilislaus og landlaus her af fórnarlömbum.

Það er almennt talið rétt að afkoma hverskyns reksturs verði að vera meiri en kostnaðurinn, annars sé gjaldþrot óhjákvæmilegt. En þeir sem standa í fjármagnsrekstri hafa ekki enn lært þessa einföldu reglu. Ár hvert eykst kostnaðurinn í mannauði (á síðasta ári 50.000 dauðir, 100.000 slasaðir í Ameríku). Afraksturinn sem skilar sér til almennings sem vinnur að því að skapa þennan auð, minnkar stöðugt. Samt er Ameríka áfram blind á þetta óhjákvæmilega afhroð framleiðslukerfisins. Þetta er heldur ekki eini glæpur þess. Jafnvel enn banvænni er sá glæpur að breyta framleiðandanum í einungis hluta af vélinni, þannig að hann hefur minni vilja og ákvörðunarrétt en járnbentur húsbóndinn. Maðurinn er ekki bara rændur afrakstri vinnu sinnar heldur og frjálsu framtaki, frumleika og áhuga fyrir þeim hlutum sem hann býr til og þeirri tilfinningu að þeir hlutir sem hann tekur þátt í að skapa, höfði til hans.

Raunveruleg auðlegð samanstendur af gagnsemi hluta og fegurð þeirra, hlutum sem hjálpa okkur að skapa sterka og fallega líkama og umhverfi sem hvetur til lífsgæða. En sé maðurinn dæmdur til að vefja baðmull uppá snældu, grafa eftir kolum eða leggja vegi í þrjátíu ár ævi sinnar, er tómt mál að tala um auðlegð.

Hann hefur ekkert að gefa heiminum nema gráma og ljóta hluti sem endurspegla daufa og ömurlega tilveru, of veiklundaður til að lifa, of huglaus til að deyja. Þó undarlegt sé frá því að segja er til fólk sem telur þessa hægdrepandi leið miðstýrðar framleiðni vera mikilvægasta framtak okkar tíma. Þau átta sig alls ekki á að sé okkur ætlað að lifa áfram í vélrænni undirokun er þrælkun okkar heilsteyptari en þegar við vorum undir konungi. Þau vilja ekki vita að miðstýring er ekki einungis dánarorsök frelsisins heldur og heilsu og fegurðar, lista og vísinda, því þetta er allt gert ómögulegt í vélrænu umhverfi reknu áfram af klukkunni.

Anarkisminn kemst ekki hjá því að afneita þessháttar framleiðsluaðferðum. Markmið hans er að leyndir hæfileikar einstaklingsins fái að koma í ljós á eins opinn hátt og mögulegt er. Oscar Wilde skilgreinir fullkominn persónuleika sem „þann sem þróast við fullkomnar aðstæður, sem er ekki særður, lemstraður eða í lífshættu.” Því er fullkominn persónuleiki einungis mögulegur í samfélagi þar sem maðurinn nýtur frelsis til að velja það starf sem hann kýs, velja vinnuaðstæður og njóta frelsis til að sinna sínu starfi. Þannig líti sá sem smíðar borð, byggir hús eða ræktar jörðina, á starf sitt á sama hátt og listmálari sér málverkið og vísindamaðurinn horfir í uppgötvun; afrakstur innblásturs, ákafrar löngunar og djúpstæðs áhuga á starfi sem skapandi afli.

Sem inntak Anarkisma verður efnahagslegt skipulag að byggjast upp af framleiðni og dreifingu reistri á grunni sjálfviljugra tengsla sem þróast yfir í frjálsan sameignarbúskap, því þannig náist mest framleiðni með minnstri sóun mannauðs. Anarkismi hinsvegar tekur einnig til greina rétt einstaklings og hópa af einstaklingum til að hagræða verklagi og vinnutíma í samræmi við áhuga þeirra og langanir.

Þar sem þessháttar útfærsla á orku mannsins yrði einungis möguleg við algert frelsi einstaklings og samfélags, beinir Anarkismi spjótum sínum gegn þriðja og versta óvini félagslegs réttlætis; Ríkinu, skipulögðu yfirvaldi, eða reglugerðum bundnum í lög - stýringu mannlegrar hegðunar.

Á sama hátt og trúarbrögðin hafa hlekkjað mannshugann og eignarhaldið, eða einokun efnislegra hluta, hefur kúgað og kæft mannlegar þarfir, hefur Ríkið þrælkað andann og stýrir allri hegðun. „Innst inni er öll ríkisstjórn harðstjórn” segir Emerson. Engu skiptir hvort að ríkisstjórn er setin af guðlegum mætti eða meirihluta kjörinna. Í öllum tilvikum er markmið hennar alger undirokun einstaklingsins.

Um ríkisstjórn Bandaríkjanna sagði hinn merkilegi ameríski anarkisti; David Thoreau: „Ríkisstjórn er ekkert annað en siðvenja og það nýleg, hún leitast við að yfirfæra sig á komandi kynslóðir, en tapar heilindum sínum í hvert skipti, hún hefur ekki lífvænleika eða kraft eins einasta manns. Lög hafa aldrei gert nokkurn mann réttlátari og með þeim aðferðum sem beitt er til að fá fram virðingu þeirra fyrir þeim, eru jafnvel þeir sem hvað fúsastir eru, daglega gerðir að útsendurum óréttlætis.”

Svo sannarlega er undirtónn ríkisstjórnar óréttlæti. Með hroka og sjálfbirgingshætti kóngsins sem var ófær um að framkvæma rangan hlut, eru það ríkisstjórnir sem skipa fyrir, dæma, fordæma og refsa fyrir minnstu yfirsjónir, en um leið viðhalda þær sér með stærsta misgjörð allra tíma; útrýmingu einstaklingsfrelsis. Þessvegna hefur Ouida rétt fyrir sér þegar hún heldur því fram að „Ríkið miðar einungis að því að rækta þá hæfileika meðal almennings sem fylgja eftir að kerfum þess sé hlýtt og sjóðir þess fylltir. Æðsta markmið þess er umbreyting mannkyns í klukkuverk. Hver einasti hinna sértæku og vandmeðförnu frelsisþátta sem þurfa aðhald og rými til útfærslu, visna og eyðast í andrými ríkisstjórnar. Ríkið þarf agnúalausa skattgreiðsluvél, sjóði sem aldrei hallar á og almenning, einsleitan, eintóna, hlýðinn, litlausan og andlausan sem færist auðmjúklega eins og sauðfé eftir beinum vegi milli tveggja veggja.”

Samt myndi jafnvel hópur af sauðum rísa gegn prettum Ríkisins, væri það ekki fyrir þær spillandi og kúgandi harðstjórnaraðferðir sem það beitir til að ná sínu fram. Þessvegna líkir Bakunin Ríkinu við það að einstaklingar og minnihlutahópar gefi eftir frelsi sitt og að það sé eyðilegging félagslegs sambands eða jafnvel afneitun á sjálfu lífinu, fyrir eigin upphefð. Ríkið er altari pólitísks frelsis og eins og altari trúarbragðanna er því viðhaldið til mannfórna.

Í reynd er varla til sá hugsuður á okkar tíma sem er ekki sammála því að þörf sé fyrir Ríkisstjórn, skipulagt yfirvald eða Ríkið, einungis til að viðhalda og vernda eignarréttinn og einkaréttinn. Það hefur sýnt sig skila árangri í þeim tilgangi einum.

Jafnvel George Bernhard Shaw, sem vonast eftir kraftaverkum af hálfu ríkisins við Fabianisma, viðurkennir samt sem áður að „sem stendur sé það heljarvél ætluð til að ræna og þrælka hina fátæku af hörku.” Þar sem þetta er málið er erfitt að sjá hversvegna hinum snjalla ræðuskörung finnst æskilegt að viðhalda Ríkinu eftir að fátækt á að hafa þurrkast út.

Því miður er enn mikið af fólki sem stendur í þeirri banvænu meiningu að Ríkisstjórn sé byggð á náttúrulögmálum, að hún viðhaldi félagslegu skipulagi og velfarnaði, dragi úr glæpum og hindri letingjann í því að féflétta félaga sína. Ég mun því skoða inntak þess.

Náttúrulögmál er sá mannlegi þáttur sem setur sig sjálfkrafa, án þrýstings og í samræmi við þarfir náttúrunnar. Til dæmis er þörf fyrir næringu, kynferðislega viðurkenningu, ljós, loft og hreyfingu allt náttúrulögmál. En útfærsla þeirra þarfnast ekki tækja ríkisstjórnarinnar, það er engin þörf fyrir kylfuna, byssuna, handjárnin eða tukthúsið. Að hlýða þannig lögum, sé hægt að kalla það hlýðni, gerist af sjálfsdáðun. Það að ríkisstjórnir viðhalda sér á ekki svo friðsamlegan máta sýnir sig og sannast á þeirri skelfilegu fylkingu ofbeldis, hörku og kúgunar sem allar ríkisstjórnir beita til að þrífast. Þessvegna hefur Blackstone rétt fyrir sér þegar hann segir; „Lög manna eru ómerk því þau ganga gegn lögmálum náttúrunnar.”

Ekki nema við séum að tala um dæmi eins og ástandið í Varsjá eftir að þúsundum manna hafði verið slátrað, þá er erfitt að eigna ríkisstjórnum einhverja getu til að skapa reglu eða félagslegan velfarnað. Regla sem komið er á með undirokun og viðhaldið með ógnarstjórn er ekki sérlega áreiðanleg; samt er það eina „reglan” sem ríkisstjórnir hafa nokkru sinni náð að viðhalda.

Raunverulegur félagslegur velfarnaður vex náttúrulega vegna sameiginlegra hagsmuna. Í samfélagi þar sem þau sem vinna stöðugt hafa aldrei neitt meðan þau sem aldrei vinna hafa allt, eru engir sameiginlegir hagsmunir, þarafleiðir að félagsleg sátt er goðsaga. Það eina sem skipulagt yfirvald gerir til að koma til móts við þetta alvarlega ástand er að auka enn frekar forréttindi þeirra sem þegar hafa einkarétt til jarðarinnar og með því að leiða arflausan almenning enn lengra í þrældóm. Þannig að allt vopnabúr ríkisstjórnarinnar – lög, lögregla, hermenn, rétturinn, reglugerðir og fangelsi - leggja allt kapp á að koma á „sátt” milli andstæðustu grundvallarþátta samfélagsins. Fráleitasta afsökun fyrir yfirvaldi og lagasetningum er að þeim sé ætlað að draga úr glæpum. Burtséð frá því að ríkið sjálft er mesti glæpamaðurinn þegar það brýtur hvert einasta af skrifuðum lögum sem og náttúrulögmálum, stelur gegnum skattakerfið, fremur morð með stríðsrekstri og dauðarefsingu, þá er barátta gegn glæpum í algerri kyrrstöðu. Því hefur mistekist algerlega að eyða og jafvel draga úr hræðilegu böli sinnar eigin sköpunar.

Glæpir eru ekkert annað en orka á rangri braut. Svo lengi sem hver stofnun dagsins í dag, hvort sem hún er hagfræðileg, pólitísk, félagsleg eða siðferðileg, leggur á ráðin um að leiða orku mannsins inn á rangar brautir, svo lengi sem flest fólk er ranglega staðsett að verki við hluti sem því leiðist og leiðandi líf sem er þeim óþolandi, munu glæpir vera óhjákvæmilegir og allir lagarammar munu einungis geta aukið glæpi en aldrei losað okkur við þá. Hvað þekkir samfélagið, eins og það er í dag, til þróunarferlis örvæntingarinnar, fátæktarinnar, hryllingsins og hinnar óttalegu baráttu sem mannssálin verður að ganga í gegnum á leið sinni til glæpa og lítillækkunar. Hver sem þekkir þessa skelfilegu þróun getur komist hjá því að sjá sannleikann í þessum orðum Peter Kropotkin: „Þau sem vilja horfa í jafnvægið milli ávinninga sem rekja má til laga og refsinga og þeirra niðurlægjandi áhrifa sem það síðarnefnda hefur á mannseðlið, þau sem vilja meta straum siðspillingar þeirrar sem uppljóstrarinn færir inn í samfélag manna, þó að dómarinn kunni að meta það og ríkisstjórnin greiði fyrir það undir því yfirskini að það hjálpi til við að fletta ofan af glæpum; þau sem vilja fara innfyrir fangelsisveggi og sjá þar hvað verður úr manneskjum þegar þær eru sviptar frelsi, þær látnar í hendur ruddalegra varða, þolandi ruddaskap í orðum, þolandi þúsund skerandi, stingandi móðganir, munu vera sammála okkur að í heild sinni er kerfi fangelsa og refsinga ein allsherjar ómynd sem ætti að taka úr umferð.”

Hin fælandi áhrif lagasetninga á letingjann er of fáránleg til að eiga skilið umhugsun. Bara ef samfélagið væri losað við þá sóun og útgjöld sem fylgja því að halda stétt letingja og þau álíka miklu útgjöld sem fara í þá vernd sem þessi lata stétt krefst, myndi verða eftir nóg fyrir alla, jafnvel meðtalinn hinn staka lata einstakling. Þar að auki er rétt að átta sig á því að leti kemur til af annaðhvort sérstökum forréttindum eða líkamlegum og andlegum frávikum. Hið brenglaða framleiðslukerfi sem við búum við í dag elur á báðum og það sem er merkilegast er að fólk skuli yfirhöfuð vilja vinna í dag. Anarkismi stefnir að því að hreinsa atvinnu af dauðyflislegu leiðindaviðhorfi eymdar og þvingunar. Hann stefnir að því að gera atvinnu að tæki til að efla gleði, styrk og raunverulega sátt svo að hinn fátækasti meðal manna geti fundið í verki bæði upplyftingu og von.

Til að ná að koma á þessháttar fyrirkomulagi lífsins, verður að koma ríkisstjórninni og hennar óréttlátu og gerræðislegu kúgunarleiðum, frá. Í besta falli hefur hún þröngvað einni ákveðinni lífsmynd uppá alla án þess að horfa í félagslegan og einstaklingshæfan fjölbreytileika. Með því að eyðileggja ríkisstjórnina og lögboðnar tilskipanir vill Anarkisminn bjarga einstaklingnum frá öllum höftum og innrásum yfirvalds. Einungis frjáls getur maður náð fullum þroska. Einungis frjáls lærir hann að hugsa og ferðast og gefa það besta af sér. Einungis frjáls mun hann átta sig á raunverulegum kröftum þeirra félagslegu hafta sem tengja menn saman og eru hin sanna uppspretta eðlilegs félagslífs.

En hvað um eðli mannsins? Verður því breytt? Og ef ekki, mun það þola við undir Anarkisma? Vesalings manneðlið, hve hræðilegir glæpir hafa verið framdir í þínu nafni! Hvert fífl, allt frá konungi til götulöggu, frá heitstrengingaklerk til hugsjónalauss vísindafiktara, hefur tekið upp hjá sér að tala af yfirlæti um eðli mannsins. Því meiri andlegan loddara sem um er að ræða, því ákveðnari er viðkomandi í kröfu sinni til illkvittni og veiklyndis manneðlisins. Og þó, hvernig getur nokkur maður haft á því orð, þar sem hver sál er innilokuð, hvert hjarta í hlekkjum, sært og meitt?

John Burroughs hefur látið hafa eftir sér að rannsóknir á dýrum í haldi sé algerlega tilgangslaus. Séreinkenni þeirra, hegðun og matarvenjur umbreytast algerlega þegar þau eru slitin úr sínu umhverfi á sléttu og skógi. Hafandi eðli mannsins lokað í búri og daglega barið til hlýðni, hvernig er hægt að fullyrða nokkuð um möguleika þess.

Anarkismi þýðir því í raun frelsun mannshugans frá yfirráðum trúarbragðanna, frelsun mannslíkamans frá yfirrráðum eignarhaldsins, frelsun úr böndum og höftum ríkisstjórnar. Anarkismi þýðir félagslegt skipulag byggt á sjálfviljugri hópamyndun einstaklinga í þeim tilgangi að skapa raunverulegan félagslegan auð; skipulag sem mun tryggja hverri manneskju frjálsan aðgang að jörðunni og alla möguleika til að njóta þess sem þarf til að lifa, samkvæmt smekk, löngunum og hneigðum.

Þetta er ekki hugarflug á villigötum eða hugarbrenglun. Þetta er niðurstaða fundin af hópum gáfaðra manna og kvenna um allan heim. Niðurstaða sem fengin er eftir nákvæma og fræðilega úttekt á tilhneigingum samfélags nútímans; einstaklingsfrelsi og efnhagslegu jafnrétti, þau tvö öfl sem geta leitt af sér hið góða og sanna í manninum.

Að aðferðum. Anarkismi er ekki, eins og einhverjir munu þegar hafa áttað sig á, kenning um framtíð sem nálgast má með guðlegum innblæstri. Það er lifandi afl í málefnum lífs okkar og leitast stöðugt við að skapa nýjar aðstæður. Aðferðir anarkismans byggja því ekki á járnbentri dagskrá sem fylgja ber við allar aðstæður. Aðferðir verða að vaxa upp af hagfræðilegum þörfum hvers staðar og umhverfis og af skynsemi og eðlislægum þörfum einstaklingsins. Hinn friðsami og rólegi persónuleiki Tolstoy myndi óska eftir öðruvísi aðgerðum til félagslegrar enduruppbyggingar en hin ákafa og yfirþyrmandi persónugerð Michael Bakunin eða Peter Kropotkin. Á sama hátt hlýtur það að vera greinilegt að hagfræðilegar og pólitískar þarfir Rússlands munu leiða til harkalegri aðferða en í Englandi eða Ameríku. Anarkismi stendur ekki fyrir herútkalli eða einsleitni, hinsvegar stendur hann fyrir uppreisnaranda, í hvaða formi sem er, gegn hverju því sem hindrar vöxt mannsins. Allir anarkistar eru sammála um það, á sama hátt og þau eru sammála í andstöðu sinni við pólitísk gangverk sem leið til að koma á hinum miklu félagslegu breytingum.

"Allar kosningar," segir Thoreau, "er einskonar leikur, líkt og skák eða kotra, leikur með rétt og rangt, skuldbinding þeirra við stundarhagsmuni er ofar öllu. Jafnvel að kjósa réttan málstað hjálpar honum ekkert. Vitur maður mun ekki vilja hafa réttan málstað uppá tilviljunina kominn, né óska honum að eyðast undir valdi meirihlutans." Glögg skoðun á gangverki stjórnmálanna mun leiða í ljós að það sem þau hafa til að hreykja sér af mun ekki þola röksemdir Thoreau.

Hvað sýnir saga þingræðis okkur? Ekkert nema uppgjöf og mistök. Engar einustu umbætur í þá átt að bæta úr efnahagslegri og félagslegri streitu fólksins. Lög hafa verið sett og framkvæmdir átt sér stað til að bæta og vernda vinnustaði. Samt sannaðist það á síðasta ári að Illinois, sem hefur hvað harðasta reglugerð um námurekstur, hafði líka hræðilegustu námuslysin. Í fylkjum þar sem lög um vinnu barna eru áberandi er barnaþrælkun hvað mest og þó að hérna njóti verkamenn fullra pólitískra réttinda, hefur kapitalisminn náð blygðunarlausum hápunkti.

Jafnvel þar sem verkamenn geta haft sína þingmenn, eins og vorir indælu sósíalistapólitíkusar mæra, hvaða möguleikar eru á þeirra heiðarleika og góðu trú? Maður þarf ekki annað en hafa í huga framgang stjórnmála til að sjá að leið góðra ætlana eru lögð gildrum; spottatog, launráð, sleikjuskapur, lygar og svik, í sannleika sagt svindl af öllu tagi, svo pólitískur framapotari megi ná sem lengst. Að þessu viðbættu er alger afsiðun persónu og sannfæringar, þartil ekkert er eftir sem fær mann til að vonast eftir nokkrum hlut frá slíku mannhraki. Hvað eftir annað hefur fólkið verið nógu vitlaust til að treysta, trúa og styðja pólitíkusa á framabraut með sínum síðasta aur, til þess eins að vera svikin og prettuð.

Það má halda því fram að ráðvendnir menn myndu ekki láta spillast í hinu pólitíska mortéli. Kannski ekki, en eins og svo oft hefur sýnt sig yrðu slíkir menn þess ekki umkomnir að hafa nokkur áhrif í þágu verkalýðsins. Ríkið er efnahagslegur herra þjóna sinna. Góðir menn, ef slíka er að finna, myndu annaðhvort halda sinni pólitísku sannfæringu og þá missa fjárhagslegan stuðning, eða þeir myndu fylgja sínum efnahagslega herra og vera algerlega ófærir um að gera nokkurt gagn. Hið pólitíska leiksvið gefur enga fleiri möguleika; maður verður annaðhvort að vera bjáni eða bófi.

Hin pólitíska hjátrú hefur enn ítök í hjarta og huga almennings, en hinir sönnu unnendur frelsis koma ekki nálægt henni lengur. Þess í stað, sammælast þeir við Stirner að maðurinn eigi jafn mikið frelsi og hann er reiðubúinn að taka sér. Þessvegna stendur anarkismi fyrir Beinar Aðgerðir, hreina og beina óhlýðni og andstöðu við öll lög og reglugerðir, efnahagslegar, félagslegar og siðferðilegar. En óhlýðni og andstaða er ólögleg. Innan þess liggur frelsun mannsins. Hvað sem er ólöglegt gerir heilindi, sjálfstraust og hugrekki að nauðsyn. Í stuttu máli er það tilkall til þeirra sem eru frjálsir og sjálfstæðir í anda, "sannra karlmanna sem standa fyrir sínu."

Almennur kosningaréttur er tilkominn vegna beinna inngripa. Væri það ekki fyrir uppreisnarandann og óhlýðni bandarísku byltingarfeðranna myndu afkomendur þeirra enn bera merki konungs. Væri það ekki fyrir bein inngrip John Brown og félaga hans myndi Ameríka enn stunda viðskipti með hold blökkumannsins. Rétt er það að viðskipti með hvítt hold er enn stundað, en einnig þau verður að afnema með beinum inngripum. Verkalýðsfélögin, efnahagslegt hringleikahús skylmingaþræla nútímans, eiga tilvist sinni að þakka beinum inngripum. Stutt er síðan að lagaréttur og ríkisstjórn reyndu að brjóta niður verkalýðshreyfinguna og dæmdu til fangavistar sem samsærismenn þá sem voru talsmenn réttinda manna til skipulagningar. Hefðu þeir farið bónleiðina að leita réttar síns með beiðnum og málamiðlunum væri verkalýðsbarátta í dag í óverulegu magni. Í Frakklandi, á Spáni, í Ítalíu, í Rússlandi, jafnvel í Englandi (fylgist með vaxandi uppreisn enskra verkalýðsfélaga) hafa bein, byltingarkennd, efnahagsleg inngrip orðið svo sterkt afl í baráttunni fyrir frelsi iðnaðarins að heimurinn hefur áttað sig á mikilvægi krafta verkalýðsins. Allsherjarverkfallið, sem tjáning verkamannanna um stéttarvitund sína, var haft að háði og spotti í Ameríku fyrir stuttu. Í dag verður hvert verkfall, eigi sigur að nást, að fara fram með áttun á mikilvægi almennra samstöðumótmæla.

Bein inngrip, sem sýnt hafa áhrifamátt sinn í efnhagslegum þáttum, eru jafn áhrifarík þegar kemur að umhverfi einstaklinganna. Hundrað mismunandi kraftar ganga á tilveru hans og einungis staðföst andspyrna gegn þeim mun að lokum veita honum frelsi. Beinar aðgerðir gegn yfirvaldinu í versluninni, beinar aðgerðir gegn yfirvaldi lagabálksins, beinar aðgerðir gegn afskiptasemi og innþrengingum siðferðiskenninga er hin rökrétta og einbeitta aðferð anarkismans.

Mun það ekki leiða til byltingar? Svo sannarlega. Engar raunverulegar félagslegar breytingar hafa nokkurntímann átt sér stað án byltingar. Annaðhvort þekkir fólk sögu sína eða það hefur ekki enn lært að bylting er ekki annað en hugsun í framkvæmd.

Sú sterka hugvekja sem anarkisminn er, gegnsýrir í dag hvert stig mannlegrar viðleitni. Vísindi, listir, bókmenntir og leikhúsin, hvert átak til hagfræðilegra framfara, í raun er hver einstaklingsbundin eða félagsleg andstaða við núverandi óreiðu, uppljómað andlegu ljósi anarkismans. Hann er heimspeki fyrir samstöðu einstaklinganna. Hann er kenningin um félagslega velferð. Hann er hinn mikli ólgandi, lifandi sannleikur sem eru að endurskipuleggja heiminn og hann mun vísa okkur inn í dögunina.

 

Emma Goldman

Til baka í greinar