Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarkistum hefur alltaf, bæði í orði og á borði, verið umhuguð gagnrýni á stjórnmál sem einn arm mannlegrar hegðunar aðskilinn frá allri annari hegðun og sem ýtir undir myndun sérstakrar stéttar pólitíkusa og stjórnmálafræðinga.”

Benjamin Noys

 

  Stjórnmál á íslandi eru arfafátækt fyrirbæri. Pólitísks þroska verður varla vart nema þá kannski meðal þeirra sem eru nógu skynsamir til að halda sig fjarri þeim leik. Eins og önnur fyrrum nýlenduríki, fékk sá menningarhópur sem byggir eyjuna, ríkisfyrirkomulag í arf frá sínum nýlenduherrum. Með því fylgdi lýðræðiskerfi byggt á starfsemi stjórnmálaflokka. Firring stjórnmála hefur aukist hratt síðustu ár þar sem flokkastarf hefur einokað pólitískt starf og þeim sem ekki eru hluti af því finnst eins og stjórnmál eigi ekki að koma þeim við og að stjórnmál hafi ekkert að gera með hvernig fólk lifir sínu lífi.

Hverri skoðun sem sett er fram er þegar fenginn staður í gráu litrófi flokkapólitíkur. Ungt fólk „með áhuga á stjórnmálum” leitar að skoðunum sínum í stefnuskrá flokka eða aðlagar skoðanir sínar þeim. Framabrautir innan stjórnmálaflokka eiga rætur í skólakerfinu. „Career politician“ er enn ömurlegra fyrirbæri en t.d. poppstjarna eða leikari sem byggir feril sinn á aumkvunarverðum uppákomum og um leið er „career politician“ hættulegt fyrirbæri því framabraut stjórnmálapoppstjörnunnar leiðir til valda og áhrifa. Annar ömurleiki þessara framabrauta verður ljós í muninum í áhugamælingum almennings á einkalífi popparans og áhrifum þeirra stjórnmála sem búið er að stela.   

Fegurð mótmælauppákomanna frá síðasta hausti og þar til nú, liggur í þeirri staðreynd að mótmælin tengjast engum stjórnmálaflokkum, nema sem andstaða við það sem stjórnmálaflokkar standa fyrir, og að þau eru ekki leidd af neinum. Skipuleggjendur og fundarstjórar eru eingöngu þeir aktivistar sem hafa tekið að sér að skipuleggja. Megnið af þeim öflum sem hafa haft stýrandi áhrif á mótmælin og þær raddir sem kölluðu til þeirra voru í flestum tilfellum nafnlausar. Það má benda á að einhverjir hafi staðið meira á stalli en aðrir en það er rétt eins og með ritstjóra þessarar síðu; hann tekur ekki við hvaða texta sem er til birtingar. Gagnrýnin á mögulegar leiðtogastellingar kemur þá kannski frá þeim sem, samkvæmt lærðri fjölmiðlataktík, geta ekki fjallað um neitt stjórnmálatengt án þess að stilla upp einhverjum sem forsprakka og helst formanni (flokksforystu).

Gangur og skipulag mótmælanna er (hingað til) mjög anarkískur í eðli sínu og hinn eðlislægi anarkismi mótmælenda (nei góða fólk, ég er ekki að kenna anarkismakenningunni upp á alla sem tóku þátt í mótmælum gegn ofurvaldi og aulagangi ríkis og banka heldur benda á staðreyndina anarkisma sem skipulag án yfirvalds) kemur fram vegna yfirlýsts vantrausts fjölda fólks á þeim sem standa í framlínu viðurkenndra flokka. Lýðveldið er rotið og allir finna ólyktina, meðal almennings vekur hún reiði og andstyggð (eða þreytu og leiða meðal þeirra sem draga fram lífið með flatt ímyndunarafl) en meðal atvinnupólitíkusa vekur hún örvæntingu.

Hafi atvinnupólitíkus náð stól er áhersla hans eða hennar á að halda völdum. Það er alltaf forgangsverkefni og til þess þarf miklar málamiðlanir. Í málamiðlunum eru stefnumál (þau sem frambjóðendur selja sig með) sjálfsagður fórnarkostnaður undir því yfirskini að haldi þau ekki völdum nái stefnumálin (sem búið er að fórna) ekki fram að ganga: Hinn sjálfsagði vítahringur framabrautarinnar.

 Fram til 20. Janúar 2009 var Helgi Hóseason eini maðurinn sem mætt hefur til þingsetningar með einlæg áform. Þegar hriktir í lýðveldinu, hriktir í valdapýramídanum og almenningur áttar sig vonlausri stöðu sinni gagnvart eigin stjórnmálum. Rétt eins og þegar glittir í gjaldþrot þeirra sem tekið hafa yfir dreifingu og sölu matvæla og vextir bankanna stjórna fjárhag heimilanna, áttar almenningur sig á vonlausri stöðu sinni gagnvart efnahagskerfinu.

Það vita allir að það felst engin lausn í nýjum kosningum. Hin stjórnmálalega fátækt nýlendunnar býður bara ekki upp á róttækari kröfur.  Það er dauðadómur þessarar grasrótarbylgju fari fulltrúar hennar að makka við atvinnupólitíkusa. Ástæða þess að hægt er að gala á torgum (bloggsíðum) um að grasrótin hafi engin svör er að grasrótin leitast við hugsa ekki eins og stjórnmálaflokkur. Grasrótin sendir ekki frá sér fréttatilkynningar, hún leitar að leiðum til að njóta lífsins og bjarga lífi sínu frá sjálfskipuðum verjendum þess. Fyrir fólk sem sér fram á ævilangar afborganir er endurreisn trausts í fjármálageiranum ekki aðkallandi vandamál. Ekki heldur fyrirlitning okkar á stjórnmálaflokkum. Að tromma jakkafatamennin til helvítis og berja stofnanirnar þeirra að utan eru eðlileg varnarviðbrögð samfélags sem vill endurheimta sín stjórnmál, sitt sjálfstæði og sitt frelsi og endurheimta merkingu þessara orða um leið.

 

Til baka í greinar