Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

ÞAÐ SEM ANARKISTAR GERA

 

Anarkistar byrja á því að hugsa og tala. Fæst fólk byrjar sem anarkistar og að verða anarkisti vill oft verða glundroðakennd reynsla sem felur í sér umtalsvert tilfinningalegt og vitsmunalegt umrót. Að vera meðvitaður anarkisti er staða sem er sífellt erfið (ekki ósvipað því að vera t.d. trúleysingi í Evrópu á miðöldum), það er erfitt að brjótast gegnum hugsanamúrinn og sannfæra fólk um að nauðsyn ríkisstjórnar (eins og tilvist guðs) er ekki sjálfsögð heldur sé rétt að ræða hana og jafnvel hafna henni. Anarkisti þarf að byggja upp nýja sýn á heiminn og nýjar leiðir til að eiga við hann, það á sér oftast stað í samræðum við annað fólk sem er anarkistar eða standa anarkisma nær, sérstaklega innan einhvers hóps vinstrisinna eða í öðru hópastarfi.

            Þegar upp er staðið þá hefur jafnvel einarðasti anarkisti samskipti við fólk sem er ekki anarkistar og þau samskipti er óhjákvæmilega tækifæri til að miðla anarkískum hugmyndum. Meðal fjölskyldu og vina, heima og á vinnustaðnum munu allir anarkistar sem eru ekki algerlega heimspekilegir í sannfæringu sinni geta haft áhrif. Það er algengt en ekki algilt að anarkistar hafi minni áhyggjur en annað fólk af hlutum eins og tryggð maka sinna, hlýðni barna sinna, fylgispekt nágranna sinna eða stundvísi vinnufélaga sinna. Starfsfólk og borgarar sem eru anarkistar eru ólíkleg til að gera það sem þeim er skipað að gera og kennarar og foreldrar sem eru anarkistar eru ólíklegri til að láta aðra gera það sem þeim er sagt. Anarkismi sem ekki birtist í einkalífinu er heldur óáreiðanlegur.

            Sumir anarkistar eru sáttir við að gera upp eigin hug og halda skoðunum sínum við eigið líf, en flestir vilja ganga lengra og hafa áhrif á annað fólk. Í samræðum um félagsleg mál eða stjórnmál munu þeir setja fram frjálslynd sjónarmið og í deilum um almenn ágreiningsmál munu þeir styðja við frjálslyndustu lausnina. En til að hafa raunveruleg áhrif er nauðsynlegt að vinna með öðrum anarkistum eða einhverskonar pólitískum hópi á varanlegri grundvelli en að ramba tilviljanakennt hvert á annað. Þetta er byrjun skipulagningar, sem leiðir til fræðslu og síðar til aðgerða.

 

Skipulagning og fræðsla

 

Anarkísk skipulagning hefst á umræðuhóp. Reynist hann lífvænlegur, þróast hann á tvo vegu; hann myndar tengsl við aðra hópa og aðgerðasviðið víkkar. Tengsl við aðra hópa geta að lokum leitt til einhvers konar bandalags sem getur samstillt aðgerðir og tekist á við stórtækari verkefni. Anarkistastarfið byrjar yfirleitt með einhvers konar áróðursstarfsemi til að koma grunnhugmyndum um sjálfan anarkismann til skila. Það eru tvær aðal leiðir til að gera þetta; miðlun í orði og miðlun í verki.

            Orðið má bæði prenta og setja fram í ræðuformi. Í dag heyrist minna til ræðumanna en áður en almennir fundir, hvort sem er innandyra eða utan, eru enn góð aðferð til að ná beint til fólks. Undanfari þess að verða anarkisti er venjulega persónuleg samskipti og fundur er gott tækifæri til þess. Samfara því að halda sértæka anarkistafundi, er ágætt að mæta á annarskonar fundi til að setja fram sjónarmið anarkista, hvort sem það er með þátttöku í framgangi mála eða truflun á þeim.

            Háttvísasta form hins talaða máls í dag er auðvitað útvarp og sjónvarp og anarkistar hafa af og til náð að taka þátt í einhverjum dagskrárliðum. En þessháttar útsendingar eru reyndar frekar ófullnægjandi miðill fyrir fræðsluefni, því þær eru óhentugar til að koma á framfæri nýstárlegum hugmyndum og anarkismi er enn lítt þekkt hugmynd fyrir flest þeirra sem hlusta og horfa. Útsendingar henta einnig illa til að miðla róttækum pólitískum hugmyndum og anarkisma verður líklegast helst komið til skila með því að færa boðskapinn í búning frásagna. Sama á við um miðla eins og kvikmyndir og leikhús en þetta tvennt getur nýst sem afar virk áróðurstæki í réttum höndum. Almennt hafa þó anarkistar ekki getað nýtt sér þessar samskiptaleiðir jafn mikið og vonir stóðu til.

            Það er sama hversu áhrifarík munnleg fræðsla getur verið þá er hið skrifaða orð nauðsynlegt til að miðla og sú leið hefur verið og er enn langalgengasta áróðursformið. Hugmyndin um samfélag án yfirvalda hefur verið til neðanjarðar öldum saman og hefur stöku sinnum komið upp á yfirborðið í róttækum fjöldahreyfingum, en henni var fyrst komið á framfæri til þúsunda manna gegnum bækur eftir rithöfunda eins og Thomas Paine, William Godwin, Pierre-Joseph Proudhon, Max Stirner og fleiri. Þegar hugmyndin náði svo að festa rætur og var sett fram af skipulögðum hópum, hófst það flæði tímarita og dreifirita sem enn er helsta samskiptaleið innan anarkistahreyfingarinnar. Sumar þessara útgáfa hafa verið mjög góðar, flestar hafa verið frekar slakar, en þær hafa allar verið mikilvægar til að tryggja það að hreyfingin hefur ekki orðið innhverf heldur haldið uppi stöðugum samskiptum við umheiminn. Aftur komum við að því að um leið og við gefum út sértæk verk anarkista er það vel þess virði að skrifa í tímarit sem ekki eru anarkísk og að skrifa bækur sem ekki eru anarkistabækur til að koma sjónarhorni anarkista inná borð lesenda sem ekki eru anarkistar.

            En þó að hið mælta og hið skrifaða orð séu nauðsynleg eru þau aldrei nóg. Við getum talað og skrifað eins mikið og við viljum, en það út af fyrir sig mun aldrei leiða okkur neitt lengra. Það er nauðsynlegt að koma fræðslunni lengra áleiðis á tvo vegu; með því að velta upp ákveðnum málefnum á réttum tíma og á áhrifaríkan hátt, eða með því að ná til fólks með einhverju dramatískara en orðanotkun. Það fyrra er hvatning (agitation), hið síðarnefnda virk skilaboð (propaganda by deed).

Það er í hvatningu sem pólitísk fræði koma inn á pólitískan veruleika. Hvatning anarkista á best við þegar almenningur er sérstaklega móttækilegur fyrir hugmyndum anarkista vegna einhverskonar álags í ríkisbatteríinu; á stríðstímum, í réttindabaráttu verkafólks, í herferðum gegn kúgun eða hneykslismálum. Hvatning er þá fræðsla gerð jarðbundnari og útfærð í verki. Þegar almenn vakning er meðal almennings hefur fólk minni áhuga á almennum vangaveltum en er reiðubúið að hlusta á sérstakar tillögur. Þetta er tækifæri til að benda á, í smáatriðum, hvað sé rangt við núverandi kerfi og hvernig væri hægt að leiðrétta þau rangindi. Hvatning anarkista hefur stundum haft áhrif, sérstaklega í Frakklandi, á Spáni, á svæðum Suður-Ameríku og í Bandaríkjunum fyrir fyrri heimsstyrjöld. Í Rússlandi, á Ítalíu og í Kína eftir fyrri heimsstyrjöld og á Spáni um 1930. Einnig af og til í Englandi; um 1880, um 1940 og aftur frá 1960.

            Hugmyndin um virk skilaboð er oft misskilin, bæði af anarkistum og andstæðingum þeirra. Þegar hugtakið var fyrst notað (um 1870) þýddi það mótælaaðgerðir, óeirðir og uppreisnir sem frekar var litið á sem táknrænar aðgerðir til að vekja athygli á málstaðnum. Málið var að skilaboðin væru ekki bara orðagjálfur um hvað hægt væri að gera heldur fréttir af því sem hefði verið gert. Hvorki þá né í dag er átt við ofbeldi, hvað þá launmorð, en eftir bylgju óhæfuverka sem einstaklingshyggjuanarkistar frömdu um 1890, voru virk skilaboð almennt kennd við ofbeldisverk einstakra manna og þessi ímynd hefur ekki horfið.

            Fyrir flesta anarkista samtímans eru virk skilaboð líklegri til að vera laus við ofbeldi og þeir eru á móti sprengjum frekar en með þeim. Þátttaka í þeim hefur snúið aftur til upprunalegu merkingarinnar og tekur á sig önnur form; fólk fer í setuverkföll og tekur yfir skrifstofur, hrellir ræðumenn með framíköllum og leggur stund á óhefðbundin mótmæli. Virku skilaboðin þurfa ekki að vera ólögleg, þó að þau séu það oft. Borgaraleg óhlýðni er sérstök gerð af virkum skilaboðum sem felur í sér opinská og blátt áfram lögbrot til að ná athygli almennings. Mörgum anarkistum líkar ekki við hana vegna þess að hún býður upp á að þátttakendum sé refsað, það ofbýður tilfinningu anarkistans sem hefur engin sjálfviljug afskipti af yfirvöldum, en við mörg tækifæri hefur sumum anarkistum fundist hún heppilegt áróðursform.

            Hvatning, sérstaklega vel heppnuð hvatning, og virk skilaboð, sérstaklega þau af ólöglegu gerðinni, ganga bæði lengra en fræðslan. Æsingamennskan hvetur til aðgerða og virk skilaboð eru aðgerðir. Það er hér sem anarkistar byrja að beita sér og þar byrjar anarkisminn að vera alvarlegt mál.

 

Aðgerðir

 

Breytingin frá því, að velta fyrir sér anarkisma til þess að virkja hann, er skipulagsbreyting. Í hinum dæmigerða umræðuhóp, sem er aðgengilegur fyrir utanaðkomandi og staðsettur þar sem yfirvöld geta haft auga með honum, geta allir meðlimir geta gert það sem þeir vilja og sleppt því sem þeir vilja ekki. Við breytinguna verður hópurinn sértækari og formlegri. Þetta er hættulegt tímabil því of stíf viðhorf leiða til þess að einhverjir verða ráðríkir og hópurinn breytist í lokaða klíku, meðan of mikill slaki leiðir til ringulreiðar og ábyrgðarleysis. Það sem er jafnvel enn hættulegra er að þegar anarkismi verður alvarlegt mál verða anarkistar alvarleg ógnun við yfirvöld og raunverulegt áreiti hefst.

            Algengasta form anarkískra aðgerða er þegar hvatning varðandi sérstakt málefni verður að þátttöku í herferð. Þetta getur verið á umbótavísu, fyrir einhverju sem myndi ekki breyta kerfinu í heild sinni eða það getur verið byltingarkennt og stefnt að breytingum á kerfinu sjálfu. Kannski er það löglegt og kannski ólöglegt eða hvort tveggja. Kannski fela aðgerðirnar í sér ofbeldi og kannski ekki. Möguleiki á árangri gæti verið einhver eða verkefnið vonlaust frá upphafi. Anarkistarnir eru hugsanlega umsvifamiklir eða jafnvel leiðandi í herferðinni eða eru kannski einn af mörgum hópum sem taka þátt. Það þarf ekki að hugsa sig um lengi til að upp í hugann komi fjöldinn allur af mögulegum aðgerðum og síðustu hundrað árin hafa anarkistar reynt þær allar. Þær aðgerðir sem anarkistar hafa verið ánægðastir með og eru algengastar meðal anarkista eru beinar aðgerðir.

            Hugmyndin um beinar aðgerðar er einnig oft misskilin, bæði af anarkistum og andstæðingum þeirra. Þegar frasinn var fyrst notaður (um 1890) þýddi hann bara andstæðuna við „pólitíska-” eða þingræðisaðgerð og frá sjónarhóli verkalýðshreyfingarinnar þýddi hann iðnaðaraðgerðir, sérstaklega verkföll, viðskiptabann og skemmdarverk sem litið var á sem undirbúning og æfingar fyrir byltingu. Málið var að aðgerðirnar komu beint að aðstæðunum og fólkinu sem átti hlut að máli og þeim var ætlað að ná árangri frekar en vekja athygli.

            Þetta ætti að vera nógu skýrt en beinum aðgerðum hefur verið ruglað saman við virk skilaboð og sérstaklega við borgaralega óhlýðni. Tækni beinna aðgerða þróaðist í frönsku syndikalistahreyfingunni til mótvægis við öfgakenndari aðferðir virkra skilaboða. Í stað þess að lenda á villigötum með dramatísku en gagnslitlu fálmi varð verkalýðsmönnum ágengt með leiðinlegri en árangursríkri vinnu, það var a.m.k. kenningin. En um leið og syndikalistahreyfingin óx og lenti upp á kant við kerfið í Frakklandi, á Spáni, Ítalíu, í Bandaríkjunum og í Rússlandi, og jafnvel Bretlandi, fóru hápunktar beinna aðgerða að gegna sama hlutverki og virk skilaboð. Þá, þegar Gandhi byrjaði að lýsa því sem beinum aðgerðum sem í raun var friðsamlegt form borgaralegrar óhlýðni, fóru öll þrjú formin að taka á sig svipaða merkingu; hvaða form pólitískra aðgerða væru ólögleg eða á einhvern annan hátt fengju ekki stjórnarskrárstimpil.

Gagnvart flestum anarkistum hefur hugtakið beinar aðgerðir enn upprunalegu merkinguna. Þó að sú merking haldi sér hefur hugtakið tekið á sig nýjar eins og innbrot í herstöðvar eða yfirtöku háskólabygginga, hústökur og setuverkföll í verksmiðjum. Gagnvart anarkistum er þetta hugtak sérstaklega heillandi vegna þess hversu samkvæmt það er grundvallarkenningum frjálslyndisins og hversu samkvæmt það er sjálfu sér. Flestum formum pólitískra aðgerða af hendi einhverskonar andspyrnuhópa er aðallega ætlað að ná völdum, sumir hópar beita sér í beinum aðgerðum en um leið og þeir hafa náð völdum bæði hætta þeir því og koma í veg fyrir að nokkrir aðrir hópar geti beitt þeim. Anarkistar eru fylgjandi beinum aðgerðum á öllum tímum. Þau sjá það sem eðlilega aðgerð, aðgerð sem vex og styrkist þegar henni er beitt og sem hægt er að beita til að skapa og viðhalda frjálsu samfélagi.

            En til eru anarkistar sem hafa enga trú á möguleikum þess að skapa frjálst samfélag og þeirra inngrip eru náttúrulega á skjön við annara.  Svartsýnishneigðin innan anarkisma er níhilismi. Níhilismi var orðið sem Túrgénév bjó til (í skáldsögu sinni Feður og Synir) til að lýsa efahyggju og fyrirlitningu ungra populista í Rússlandi, en það tók á sig þá merkingu að afneita ekki bara gildismati ríkis eða almenns siðgæðis, heldur og samfélagi og sjálfu mannkyni. Hinum gallharða níhílista er ekkert heilagt, ekki einusinni hann sjálfur, svo að níhilismi gengur skrefinu lengra en einarðasti egóismi.

            Öfgakennt form aðgerða, innblásið af níhílisma, er terrorismi (hryðjuverk),  sem þjónar sjálfum sér frekar en að hann sé sprottin af hefnd eða sé áróðurstæki. Anarkistar hafa ekki einokað hryðjuverk, en þau hafa stundum þótt við hæfi í afkimum innan hreyfingarinnar. Við þá slítandi reynslu að prédika minnihlutakenningu í samfélagi sem annaðhvort tekur því illa eða er alveg sama, getur orðið freistandi að ráðast á samfélagið líkamlega. Það breytir ekki miklu hvað varðar mótlætið en fólki stendur þó ekki á sama lengur; „þau mega hata mig, svo lengi sem þau óttast mig,“ er hugsanagangur hryðjuverkamannsins. En hafi rökstudd launmorð gefið lítið af sér þá hafa tilviljanakennd hryðjuverk einungis skemmt fyrir og það er ekki ofsagt að halda því fram að ekkert hafi unnið anarkisma meiri skaða en sá vottur af sturlunarkenndu ofbeldi sem hefur verið og er enn fylgifiskur hugmyndafræðinnar.

            Annað og ásættanlegra atferli, innblásið af níhilisma, er bóhemalíf sem er varanlegt fyrirbæri þó að nafngiftir breytist í hvert skipti sem það birtist. Sumsstaðar innan anarkistahreyfingarinnar hefur þetta verið í tísku og auðvitað einnig utan hennar. Í stað þess að ráðast á samfélagið, dettur bóheminn út úr því. Þó að þeirra lífsstíll sé utan við hegðunarreglur samfélagsins lifa þeir í því og á því. Mikið er bullað um þetta fyrirbæri. Þó bóhemar séu afætur þá er það fjöldinn allur af öðru fólki. Hins vegar gera þeir engum skaða nema sjálfum sér sem er ekki hægt að segja um alla aðra. Það besta sem hægt er að segja um þá er að þeir geta látið gott af sér leiða með því að hafa gaman af lífinu og ögra viðteknum gildum af oflátungshætti án þess að gera nokkurn skaða. Verst við bóhemana er að þeir geta ekki raunverulega breytt samfélaginu og geta dregið úr tilraunum til þess, en fyrir flesta anarkista er aðalmálið að breyta samfélaginu.

            Uppbyggilegri leið til að detta út úr samfélaginu, sem er um leið samkvæmari sjálfri sér, er að yfirgefa það og setja upp nýtt sjálfbjarga samfélag. Stundum hefur þetta breiðst út, m.a. á miðöldum meðal heittrúaðra og á seinni tímum meðal fólks af öllu tagi, s.s. í N-Ameríku. Þetta hefur haft áhrif á anarkista, en gerir ekki mikið nú til dags. Eins og aðrir vinstrisinnaðir hópar eru þau líklegri til að setja upp eigið óformlegt samfélag, byggt á tengslaneti milli fólks sem lifir og starfar saman innan samfélagsins. Þetta getur verið hugsað sem kjarni nýrrar samfélagsmyndar sem vex innan þeirrar gömlu eða sem lífvænlegt afdrep frá kröfum yfirvaldsins án þess að vera of öfgakennt fyrir venjulegt fólk.

            Annað sem fólk gerir og byggir á svartsýnisviðhorfi til möguleikanna innan anarkisma er stöðug andspyrna (permanent protest). Samkvæmt því viðhorfi er vonlaust að það takist að breyta samfélaginu, eyðileggja ríkiskerfið og virkja anarkismann. Það er ekki framtíðin sem er mikilvæg eða að halda sig við ákveðna hugsjón og útfærslu fallegrar draumsýnar, heldur nútíðin, skilningur á bitrum veruleika og stöðug andspyrna gegn ömurlegum aðstæðum. Stöðug andspyrna er lífssýn margra fyrrverandi anarkista sem hafa ekki gefið upp sannfæringuna en eru hættir að vonast eftir árangri. Þetta á einnig við um marga virka anarkista sem viðhalda sannfæringunni og halda áfram eins og þeir vonist eftir árangri en vita, meðvitað eða ekki, að þeir muni aldrei sjá hann. Þegar litið er tilbaka má segja að það sem anarkistar hafa verið að gera síðustu hundrað árin hafi verið stöðug andspyrna, en það er sama kreddan að verki hvort sem fullyrt er að hlutirnir muni aldrei breytast eða að hlutunum sé ætlað að breytast, og enginn getur sagt til um hvenær mótmæli fara að hafa áhrif og nútíðin breytist í framtíð. Það eina sem raunverulega skilur að er að litið er á stöðuga andspyrnu sem bakvörslu í þegar töpuðu máli, meðan flest verk anarkista eru framlínubarátta eða skæruliðainngrip í baráttu sem vera má að við vinnum ekki og getum aldrei séð fyrir endann á en er enn baráttunnar virði.

            Bestu baráttuaðferðirnar í þessari baráttu eru þær sem eru samkvæmar almennri stríðstækni þessarar baráttu fyrir frelsi og jafnræði, allt frá persónubundnum skæruhernaði til orrusta í stórtækum herferðum. Anarkistar eru nær alltaf í minnihluta, svo það er ekki þeirra að velja orrustuvöllinn heldur verða þeir að berjast hvarvetna þar sem hlutirnir eru að gerast.

            Almennt séð hefur mestur árangur náðst þar sem hvatning anarkista hefur leitt til þátttöku anarkista í breiðum vinstri hreyfingum, sérstaklega innan verkalýðshreyfingarinnar, en einnig friðarhreyfingum í ríkjum sem búa sig undir stríð eða eru í stríði, hreyfingum gegn klerkastéttinni og með húmanistum í löndum kreddutrúar, þjóðfrelsishreyfingum í baráttu við nýlenduherra, hreyfingum fyrir jafnrétti óháð kyni og kynþætti, með umbótasinnum í laga- og réttarkerfinu eða fyrir mannréttindum almennt.

            Þessháttar þátttaka þýðir óhjákvæmilega samstöðu með hópum sem ekki eru anarkistar og einhverja tilslökun í áherslumálum anarkista. Anarkistar sem verða mjög virkir þannig eiga alltaf á hættu að gefa anarkisma algerlega upp á bátinn. Á hinn bóginn er það yfirleitt ávísun á andleysi og kreddu að neita slíkri samvinnu algerlega og anarkistahreyfingin hefur yfirleitt ekki haft áhrif nema taka fullan þátt. Sértæk innlegg anarkista í slíkar aðstæður eru yfirleitt tvenns konar; að leggja áherslu á markmið hins frjálsa samfélags og að gera kröfu um frjálslyndar leiðir að settum markmiðum. Þetta er reyndar eitt innlegg, því mikilvægasta áhersluatriðið sem við getum komið með er ekki bara að markmiðið réttlætir ekki aðferðirnar heldur ákveða aðferðirnar niðurstöðuna; í flestum tilfellum eru aðferðirnar útkoman. Við getum verið viss um eigin aðgerðir, en ekki afleiðingarnar.

            Í gamla daga gáfust helstu tækifærin til myndunar stöndugra hreyfinga sem hneigðust til anarkisma á tímaskeiðum herskárra syndikalista í Frakklandi, Mexíkó, Kína, Rússlandi og á Spáni. Á seinni tímum hafa tækifærin verið færri í ofbeldisfullum valdaránsuppreisnum í Asíu, Afríku og S-Ameríku en hafa frekar gefist í opnari hreyfingum eins og Committee of 100 í Englandi, 22 Mars hreyfingunni í Frakklandi, SDS í Þýskalandi, Provos og Kabouters í Hollandi, Zengakuren í Japan og hinum ýmsu hreyfingum fyrir mannréttindum, gegn herkvaðningu, stúdentahreyfingum, kvenréttindahreyfingum, meðal hústökufólks og umhverfisverndarsinna í mörgum löndum vestursins. En áhrifamestu tímabilin hafa verið róttækari uppreisnir eins og þær í Ungverjalandi 1956, í Frakklandi og Tékkoslóvakíu 1968, í Portúgal 1974, í Póllandi 1980 - og á Íslandi hvenær?

 

 

 

Til baka í greinar