Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

ÞAÐ SEM ANARKISTAR VILJA

 

Það er erfitt að segja til um hvað anarkistar vilja, ekki vegna mismunandi áherslna, heldur vegna þess að þeir hika við að leggja fram nákvæmar áætlanir um framtíð sem þeir hvorki geta né vilja stjórna. Þegar upp er staðið vilja anarkistar samfélag án yfirstjórnar og þannig samfélag myndi vitaskuld vera breytilegt eftir mismunandi tímum og stöðum. Aðalatriðið er að samfélagið sem anarkistar vilja er það sem meðlimir þess vilja. Því er hægt að segja til um hvað flestir anarkistar myndu vilja sjá í frjálsu samfélagi þó að alltaf verði að hafa í huga að það er engin yfirlýst stefna og að engin leið er til að samrýma öfgaáherslur einstaklingshyggju og kommúnisma.

 

Hinn frjálsi einstaklingur

 

Flestir anarkistar aðhyllast frjálslynd viðhorf gagnvart einkalífi og vilja miklu meira valfrelsi fyrir persónulega hegðun og félagsleg tengsl milli einstaklinga. En sé einstaklingurinn atóm samfélagsins þá er fjölskyldan mólikúlið og fjölskyldulífið myndi halda áfram jafnvel þó að öll þau kúgandi öfl sem ýta undir það væru fjarlægð. Samt sem áður, þó að fjölskyldan sé kannski náttúrulegt fyrirbæri, er hún ekki lengur nauðsyn. Getnaðarvarnir sem virka og skipulagning verka og vinnu hafa leyst mannkyn undan hinu þrönga vali milli einlífis og einkvænis. Þess gerist ekki þörf að pör eignist börn og börn geta alist upp með fleiri eða færri en tveimur foreldrum. Fólk getur lifað út af fyrir sig og samt átt sér kynlífsfélaga og börn eða lifað í kommúnum án nokkurs fasts sambands eða opinbers foreldrahlutverks.

            Án efa mun flest fólk halda áfram að lifa í hjónabandi í einhverri mynd og flest börn verða alin upp í fjölskylduumhverfi, hvað svo sem kemur fyrir samfélagið, en innan hvers samfélags gæti persónulegt fyrirkomulag verið af ýmsum toga. Helsta krafan er að konur séu lausar undan kúgun karla og að börn séu laus undan kúgun foreldra. Valdníðsla er engu skárri í smækkaðri mynd innan fjölskyldunnar en í stækkaðri mynd samfélagsins.

            Gerræðislegar lagasetningar eða efnahagsleg samkeppni mega ekki stýra persónulegum tengslum utan fjölskyldunnar, heldur eðlislæg samheldni manneskjunnar. Næstum öll okkar vita hvernig á að koma fram við aðrar manneskjur – eins og við viljum að þau komi fram við okkur – og sjálfsvirðing og skoðanir almennings eru mun betri leiðbeinendur en ótti og sektarkennd. Sumir andmælendur anarkisma hafa talið að siðferðileg kúgun samfélagsins yrði verri en bein kúgun ríkisins. Meiri hætta myndi þó stafa af óheftu valdapoti sveita sjálfskipaðra lögreglumanna, hengingarmúgs, ræningjaflokka eða glæpagengja, þ.e. þeirra frumstæðu ríkisforma sem koma upp á yfirborðið þegar lagabundið yfirvald hins raunverulega ríkis er af einhverjum ástæðum fjarri.

            En anarkistar deila lítið um einkalífið og í þeirri umræðu eru engin alvarleg vandamál. Það er nú líka þannig að fjöldinn allur af fólki er þegar búinn að skapa sér sitt eigið fyrirkomulag, án þess að bíða eftir byltingu eða nokkru öðru. Allt sem þarf til að frelsa einstaklinginn er að losna við gamla fordóma og ná ákveðnum lífsgæðum. Hið raunverulega vandamál er frelsun samfélagsins.

 

Hið frjálsa samfélag

 

Fyrsta forgangsmál frjáls samfélags væri afnám yfirvalds og afnám eignarhalds. Í stað yfirstjórnar fastra fulltrúa og staðnaðra möppudýra á framabraut sem eru einungis háðir þessum venjulegu kosningum, vilja anarkistar samhæfingu fulltrúa með tímabundna skipun og sérfræðinga sem raunverulega er hægt að treysta. Í slíku kerfi myndu allar félagslegar athafnir sem innihalda skipulagningu líklega vera framkvæmdar af samráðshópum. Þá má tala um nefndir eða samhjálparhópa eða sameignarhópa eða kommúnur eða ráð eða félög eða hvað annað, titill þeirra hefur óverulega merkingu, það sem er mikilvægt er hvernig þeir virka.

            Vinnustaðahópar yrðu starfandi í verksmiðjum og við smábúskap og allt upp til stærstu iðnaðar- eða landbúnaðareininga, til að sjá um framleiðslu og vöruflutning, ákveða vinnuaðstæður og reka efnahagskerfið. Svæðahópar yrðu starfandi í hverfum eða þorpum og stærri íbúðablokkum til að sjá um málefni samfélagsins; húsnæði, gatnagerð, sorp, þægindi. Sérstakir hópar sæju um félagslegar hliðar málaflokka eins og samskipti, menningu, dægrastyttingu, eftirlit, heilsugæslu og menntun.

            Ein afleiðing þess að samhæfa með frjálsri hópamyndun, frekar en tilskipunum ráðsettra valdapýramída, yrði öflug dreifing valds á bandalagshópa. Þetta má skoða sem rök gegn anarkisma en við segjum það vera rök með honum. Eitt af undarlegustu fyrirbærunum í stjórnmálahugsun samtímans er að tilveru smáþjóða er oft kennt um verstu styrjaldir sögunnar þótt sökin sé hjá fáum stórum þjóðum. Ríkisstjórnir reyna stöðugt að skapa stærri og stærri stjórnunarblokkir þó að athuganir leiði í ljós að þær litlu eru bestar. Niðurbútun stórra stjórnmálakerfa yrði hin mesta hagræðing í kjölfar anarkisma og lönd yrðu aftur menningareiningar en þjóðir myndu hverfa.

            Sá samstarfshópur sem sæi um hverskyns fjármagn og eignir myndi hafa það mikilvæga ábyrgðarhlutverk að sjá til þess að þeim væri dreift jafnt milli þeirra sem koma að málinu eða að halda utan um það og sjá til þess að nýting þess skiptist jafnt milli þeirra sem hlut eiga að máli. Anarkistar eru ekki á eitt sáttir um hvaða kerfi sé best og án efa myndu meðlimir frjáls samfélags einnig hafa mismunandi skoðanir. Það væri hlutverk fólksins í hverjum samstarfshóp að móta þær aðferðir sem beitt yrði. Það gætu verið jöfn laun fyrir alla eða laun útfrá þörf eða alls engin laun. Sumir hópar myndu nota peninga í öllum skiptum, aðrir einungis fyrir stórar eða flóknar tilfærslur og sumir myndu kannski alls ekki nota þá. Vörur má kaupa, leigja eða skammta eða þær væru fríar. Virðist þessar vangaveltur fáránlega óraunverulegar eða draumkenndar má minnast þess hve margt við eigum þegar saman og hversu margir hlutir eru nýttir án greiðslu.

            Í Bretlandi eru nokkur stór iðnfyrirtæki í samfélagseign, einnig flug- og lestarsamgöngur, ferjur og strætisvagnar, útvarpssendingar, vatnsveitur, gas og rafmagn þó að greitt sé fyrir það, en vegir, brýr, ár, strendur, garðar, bókasöfn, leikvellir, almenningssalerni, skólar, háskólar, sjúkrahús og bráðaþjónusta eru ekki bara eign almennings heldur má nota það án þess að borga. Skilgreiningarmunur þess hvað er í einkaeign og hvað er sameign, hvað má nota gegn greiðslu og hvað má nota að vild, er ansi handahófskenndur. Það virðist augljóst að við eigum að geta notað vegi og strendur án greiðslu, en málum hefur ekki alltaf verið þannig háttað og ókeypis afnot sjúkrahúsa og háskóla er eitthvað sem kom til bara á þessari öld. Á sama hátt getur það virst augljóst að við ættum að greiða fyrir almenningssamgöngur og eldsneyti, en það er ekki víst að það verði alltaf þannig og það er engin ástæða til að þetta kosti nokkuð.

            Ein afleiðing jafnrar skiptingar eða frjálsrar dreifingar auðs frekar en söfnunar eigna, væri endalok þeirrar stéttaskiptingar sem byggir á eignarhaldi. En anarkistar vilja einnig binda endi á þá stéttaskiptingu sem byggir á stjórnun. Þetta myndi þýða stöðuga árvekni til að hindra vöxt skrifræðis í hverjum samstarfshóp og umfram allt myndi það þýða endurskipulagningu atvinnuvega án stéttar framkvæmdastjóra.

 

Vinna

 

Fyrsta grunnþörf hverrar manneskju er matur, skjól og klæði sem gera lífið bærilegt, næst koma þau þægindi sem gera lífið enn frekar þess virði að lifa því. Fyrsta hagfræðilega áhersluatriði hvers hóps manna er framleiðsla og dreifing hluta sem uppfylla þessar þarfir og mikilvægasta hlið samfélags, á eftir þeim persónulegu tengslum sem það byggist á, er skipulagning nauðsynlegustu verka. Anarkistar hafa tvær meginhugmyndir um vinnu. Sú fyrri er að flest verk geti verið óskemmtileg en hægt sé að skipuleggja þau þannig að þau verði þolanlegri eða jafnvel ánægjuleg. Sú seinni er að öll vinna skuli vera skipulögð af þeim sem sinna henni.

            Anarkistar eru sammála Marxistum um að atvinna eins og hún er í dag skapi firringu meðal verkamanna. Atvinnan er ekki líf þeirra heldur það sem þeir gera til að geta lifað. Líf þeirra er það sem þeir gera utan vinnunnar og þegar þeir gera eitthvað sem þeir hafa ánægju af þá kalla þeir það ekki vinnu. Þetta á við um megnið af störfum flests fólks hvar sem er og það getur ekki verið annað en alltaf satt um mörg störf fyrir fjöldann allan af fólki. Hina þreytandi endurtekningu margra þeirra verka sem þarf til að plöntur vaxi og skepnur þrífist, til að færibönd og samgöngukerfi rúlli, til að fólk fái það sem það vill og losni við það sem það vill ekki, væri ekki hægt að afnema án stórkostlegs samdráttar í afkomu. Sjálfvirkni sem getur gert verkin minna þreytandi, eykur þessa endurtekningu. En anarkistar eru harðir á því að engin lausn sé að skilyrða fólk til að trúa því að aðstæðurnar séu óbreytanlegar, heldur verði að endurskipuleggja nauðsynleg verk þannig að í fyrsta lagi sé eðlilegt fyrir hvern sem er fær um að taka þátt í að sinna þeim verkum, og að enginn eigi að þurfa að eyða meira en nokkrum klukkustundum á dag í þau. Einnig verði mögulegt fyrir alla að skipta milli ólíkra leiðinlegra starfa, sem yrðu þá ekki jafn leiðinleg vegna aukinnar fjölbreytni. Þetta er ekki bara spurning um réttláta hlutdeild fyrir alla, heldur einnig um réttláta vinnu fyrir alla.

            Anarkistar eru einnig sammála syndikalistum um að vinna ætti að vera skipulögð af því fólki sem vinnur verkin. Þetta þýðir ekki að verkamannastéttin, eða verkalýðsfélög eða verkamannaflokkurinn (þ.e. sá flokkur sem segist vera fulltrúar verkalýðsins), stjórni rekstri efnahagskerfisins og hafi alla stjórn yfir atvinnu. Þetta þýðir ekki heldur sama fyrirbæri á minni mælikvarða, eins og að starfslið verksmiðju fái að kjósa sér framkvæmdastjóra eða fái að hafa auga með bókhaldinu. Það þýðir einfaldlega að að fólkið sem sér um ákveðin verk stjórnar því beint og algerlega hvað það gerir, án þess að hafa nokkra forstjóra eða framkvæmdastjóra eða eftirlitsmenn. Sumt fólk hefur kannski skipulagshæfileika og getur einbeitt sér að skipulagningu, en það þarf ekki að hafa neitt vald yfir fólkinu sem sér um hin eiginlegu verk. Sumt fólk er kannski latt og afkastar litlu, en það er það þá fyrir. Markmiðið er að hafa sem mesta mögulega stjórn yfir eigin verkum og eigin lífi.

            Þetta grundvallaratriði á við öll störf; á víðavangi sem og í verksmiðjum, í stóru sem smáu, bæði þar sem ákveðinna hæfileika er krafist og þar sem þeir skipta litlu máli, bæði í drulludjobbum og sérhæfðum verkum og þetta nýtist ekki bara til að létta undir með verkafólki heldur er þetta grundvallaratriði í hverskyns frjálsu hagkerfi. Augljós andmæli gegn þessu er að alger stjórnun verkafólks myndi leiða til orkufrekrar samkeppni milli vinnustaða og framleiðslu á óþarfa. Hið augljósa svar yrði að þegar vinnufólk hefur engin afskipti af stjórnun leiði það til nákvæmlega sömu hluta. Þörf er á skynsamlegri skipulagningu og  þrátt fyrir að margir haldi annað, þá er hún ekki háð meiri stjórnun að ofan heldur meiri upplýsingum að neðan - láréttum samskiptum frekar en lóðréttum.

            Flestum hagfræðingum hefur verið hugleikin framleiðni frekar en neysla, þ.e. gerð hluta frekar en notkun þeirra. Fólk á bæði hægri og vinstri væng vilja að verkamenn framleiði meira, hvort sem það er til að gera þau ríku enn ríkari eða til að styrkja ríkið og afleiðingin er offramleiðsla samfara fátækt, vaxandi framleiðni með vaxandi atvinnuleysi, hærri skrifstofublokkir um leið og heimilislausum fer fjölgandi og meiri uppskera af hverjum hektara þegar fleiri hektarar eru í órækt. Anarkistum er umhuguð neysla frekar en framleiðni, þannig að hlutir nýtist til að uppfylla þarfir allra í stað þess að auka hagnað og völd þeirra ríku og vel settu.

 

Nauðsynjar og munaður

 

Samfélag sem þykist aðhyllast siðsemi getur ekki leyft misnotkun grunnþarfa. Má vera að ásættanlegt sé að munaðarvörur gangi kaupum og sölum, þar sem við getum valið hvort við notum þær eða ekki, en nauðsynjavörur eru meira en þægindi þar sem við getum ekki valið hvort við notum þær. Ef það er eitthvað sem ætti að taka af almennum markaði og úr höndum sérréttindahópa, þá er það landið sem við lifum á, maturinn sem vex á því, heimilin sem eru byggð á því og þeir nauðsynlegu hlutir sem mynda efnislegan grunn mannlífsins – klæðnaður, verkfæri, þægindi, eldsneyti o.s.frv. Það er öruggt að þegar nóg er til af einhverri þurftavöru ættu allir að geta tekið það sem þá vantar, en sé skortur, ætti að vera almenn sátt um skömmtunarkerfi svo allir fái jafnan hlut. Það er á tæru að það er eitthvað að hverju því kerfi sem lætur sóun og skort þrífast hlið við hlið og þar sem sumt fólk hefur meira en það þarf um leið og annað fólk hefur minna.

            Umfram allt er það á hreinu að fyrsta verkefni heilbrigðs samfélags er að útrýma skorti á nauðsynjavörum - eins og fæðuskorti í vanþróuðum löndum og vöntun á húsnæði í þróaðri löndum - með réttri notkun tæknikunnáttu og auðlinda samfélagsins. Væru þeir hæfileikar og það vinnuafl sem er til staðar, til dæmis á Íslandi, nýttir réttilega þá er engin ástæða til að ekki væri hægt að rækta nægilega fæðu og byggja nógu mörg heimili til að allur íbúarnir hefðu fæði og þak yfir höfuðið.

Það er ekki þannig núna vegna þess að forgangsmál samfélagsins í dag eru önnur, ekki vegna þess að það geti ekki átt sér stað. Í eina tíð var það talið ómögulegt að hægt væri að klæða alla almennilega og fátækt fólk var alltaf í tötrum, nú er nóg til af fötum og það ætti líka að vera nóg til af öllu öðru.

            Munaðarvörur eru, þó furðulegt sé, einnig nauðsynjavörur, þó þær séu ekki grunnþarfir. Annað verkefni heilbrigðs samfélags er að gera einnig munaðarvöru öllum aðgengilega, þó að í þessu tilviki gæti verið að peningar kæmu enn að gagni, svo fremi að þeim væri ekki dreift samkvæmt hinu fáránlega skipulagsleysi kapitalískra ríkja, eða jafnvel enn fáránlegra kerfi kommúnistaríkja. Áhersluatriði hér er að allir ættu að hafa frjálsan og jafnan aðgang að munaði.

            En maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og jafnvel ekki á kökum. Anarkistar vilja ekki sjá afþreyingar- og menningarstarfsemi og aðra viðlíka starfsemi í höndum samfélagsins, ekki einusinni frjálslyndasta samfélags. Það er önnur starfsemi sem ekki er hægt að láta eftir einstaklingum í samvinnuhópum heldur verður að vera í höndum samfélagsins alls. Þetta er það sem kalla má velferðarþætti; samhjálp sem nær lengra en til fjölskyldu og vina og út fyrir vinnustað og nágrannabyggð. Lítum nánar á þrjá þessara þátta.

 

Velferðarsamfélagið

 

Menntun er mjög mikilvæg í samfélagi manna vegna þess að við erum svo lengi að vaxa úr grasi og það tekur okkur langan tíma að læra um hluti og öðlast hæfni sem nauðsynleg er fyrir félagslíf. Anarkistar hafa látið sér mjög annt um vandamál menntunar. Margir leiðandi einstaklingar úr röðum anarkista hafa átt vel metin innlegg til kennslufræða og margir umbótasinnar í menntamálum hafa hneigst til frjálslyndis, allt frá Rousseau og Pestalozzi til Montessori og Neill. Hugmyndir manna um menntun sem áður var litið á sem draumóra eru nú eðlilegur hluti af námsskrá bæði innan sem utan ríkisrekna menntakerfisins á Íslandi og menntun er kannski sá félagsþáttur sem er hvað mest hvetjandi fyrir praktíska anarkista.

            Þegar fólk segir anarkí hljóma vel en ekki geta gengið upp getum við bent á góðan skóla eða menntaskóla, eða góða leiksmiðju eða félagsmiðstöð. En jafnvel bestu menntakerfi er enn undir stjórn fólks í valdastöðu; kennara, framkvæmdastjóra, formanna, embættismanna og fleiri svipaðra. Viðbúið er að þau fullorðnu sem láta menntun skipta sig máli, komi til með að hafa einhver yfirráð, en þess gerist engin þörf að þau stjórni menntamálum, hvað þá fólk sem hefur engin bein afskipti af henni.

            Anarkistar vilja að núverandi umbætur í menntamálum gangi miklu lengra. Ekki bara á að afnema strangan aga og opinberar refsingar, heldur og hverskyns aga sem komið er á og allar refsingar. Menntastofnanir eiga ekki bara að vera lausar undan utanaðkomandi yfirvaldi, heldur eiga stúdentar að vera lausir undan valdi kennara eða eftirlitsmanna. Í heilbrigðum viðhorfum til menntunar ætti sú staðreynd, að ein persóna veit meira en önnur ekki að vera átylla til að kennarinn hafi vald yfir nemanum. Staða kennara í nútímasamfélagi er byggð á aldri, styrk, reynslu og lögum. Eina staðan sem kennarar ættu að hafa væri byggð á þekkingu þeirra á viðfangsefninu og hæfileikum þeirra til að kenna það og loks á hæfileika þeirra til að vekja aðdáun og virðingu. Það vantar ekki endilega vald til stúdenta, þó það væri gagnleg leiðrétting á valdi kennara og skrifstofuþræla, heldur vantar vinnustaðastjórnun alls þess fólks sem kemur að menntastofnun. Mikilvægt er að höggva á tengslin milli kennslu og yfirráða og gera menntun frjálsa.

            Slit þessara tengsla eru nokkuð nær okkur í heilbrigðisgeiranum en í menntun. Læknar eru ekki lengur töframenn og hjúkrunarfræðingar ekki dýrlingar og í mörgum löndum, þar á meðal Bretlandi, er sátt um réttinn til ókeypis heilbrigðisþjónustu. Það sem vantar er framlenging frelsislögmálsins frá hagfræðihlið heilbrigðiskerfisins til pólitískrar hliðar þess. Fólk á að geta farið á sjúkrahús án þess að borga fyrir og fólk á að geta unnið á sjúkrahúsi án nokkurs valdapýramída. Enn og aftur er það vinnustaðastýring með þátttöku allra sem koma að heilbrigðisstofnun. Alveg eins og menntun er fyrir stúdenta, þá er heilbrigðisgeirinn fyrir sjúklinga.

            Í meðferð afbrota hefur einnig orðið mikil framþróun, en hún er enn langt frá því viðunandi. Anarkistar hafa tvær almennar hugmyndir um afbrotahegðun: Hin fyrri er að flestir hinna svokölluðu glæpamanna eru nokkurnveginn eins og annað fólk, bara fátækari, verr staddir, heimskari eða óheppnari. Hin er sú að fólk sem á meðvitaðan hátt meiðir annað fólk ætti ekki að meiða í staðinn heldur hafa undir eftirliti. Stærstu glæpamennirnir eru ekki innbrotsþjófar heldur yfirmenn, ekki glæpagengi heldur ráðamenn, ekki morðingar heldur fjöldamorðingjar. Ríkið sýnir fram á nokkur minniháttar réttlætismál og refsar fyrir þau, meðan helstu óréttlætismál samfélags nútímans eru falin og raunar framin af ríkinu. Almennt skaða refsingar samfélagið meira en glæpir, þær teygja sig lengra, eru betur skipulagðar og miklu áhrifaríkari. Samt sem áður myndi jafnvel hið frjálslyndasta samfélag þurfa að verja sig gegn sumu fólki og óhjákvæmilega myndi það hafa í för með sér einhverja þvingun. En rétt meðferð við afbrotum væri hluti af mennta- og heilbrigðiskerfinu og yrði ekki stofnanabundið refsingakerfi. Síðasta úrræði yrði ekki fangelsun eða dauði, heldur brottvísun eða einstaklingurinn sniðgenginn.

 

Fjölbreytni

 

Þetta gæti snúist við. Sumir einstaklingar eða hópar gætu neitað að taka þátt eða gætu krafist þess að yfirgefa hið besta mögulega samfélag, ekkert gæti stöðvað þau. Fræðilega séð er mögulegt að við getum haldið okkur gangandi með eigin fyrirhöfn, þó að í raun værum við háð samfélaginu um ýmsa hluti og létum einhverja hluti í staðinn, því erfitt er að vera bókstaflega sjálfum sér nægur. Samfélag samhjálparsinna eða kommúnista myndi þola slík tilvik einstaklingshyggju og jafnvel hvetja til þeirra. Það sem væri óviðunandi væri ef sjálfstæðir einstaklingar reyndu að nýta sér annara vinnu með því að ráða þá í vinnu á ójöfnum kjörum eða selja vöru á óréttlátu verði. Þetta ætti ekki að gerast þar sem fólk myndi undir venjulegum kringumstæðum ekki vinna eða versla til ágóða fyrir einhvern annan aðila. Um leið og engin lög væru til að hindra eignaupptöku myndu heldur engin lög vera til að hindra að eignir væru teknar tilbaka – þú gætir tekið eitthvað frá einhverjum öðrum en þau gætu tekið það tilbaka. Einstaklingar ættu bágt með að koma aftur á yfirvaldi og eignarhaldi.

Stórhætta gæti stafað af sjálfstæðum hópum. Aðskilið samfélag gæti auðveldlega þrifist innan stærra samfélags og það gæti valdið mikilli spennu. Ef slíkt samfélag hneigðist til valdboðs og séreignar sem gæti gert það stöndugra og auðugra, gæti fólk freistast til að ganga til liðs við aðskilnaðarsinna, sérstaklega ef stórsamfélagið ætti í tímabundnum erfiðleikum.

            En frjálst samfélag yrði að vera fjölbreytt og yrði að þola ekki bara minniháttar ágreiningsatriði um hvernig frelsi og jafnræði væri útfært í framkvæmd, heldur einnig meiriháttar frávik frá öllum kenningum um frelsi og jafnræði. Eina skilyrðið væri að enginn sé neyddur til að ganga slíkum afbrigðum á hönd og þar yrði einhvers konar valdtengdur þrýstingur að vera til staðar til að verja samfélag, sama hversu frjálslynt það væri. En anarkistar vilja skipta stóra samfélaginu út fyrir fjölda samfélaga sem öll lifa saman jafn frjáls og einstaklingarnir innan þeirra. Stærsta hættan sem steðjar að þeim frjálsu samfélögum sem komið hefur verið á fót hefur ekki verið afturför innanfrá heldur aðför utanfrá og vandamálið er ekki hvernig eigi að halda frjálsu samfélagi gangandi heldur hvernig eigi að koma því í gang í byrjun.

 

Bylting eða umbætur

 

Anarkistar áður fyrr hvöttu til vopnaðrar byltingar til að koma á fót frjálsu samfélagi en sumir hafa hafnað ofbeldi eða byltingu eða hvoru tveggja. Ofbeldi fylgir svo oft gagnofbeldi og byltingu fylgir gagnbylting. Á hinn bóginn hafa fáir anarkistar hvatt til umbóta því þeir hafa áttað sig á því að svo lengi sem kerfi valdboðs og eignarhalds er til munu yfirborðskenndar breytingar aldrei ógna grundvallarbyggingu samfélagsins. Vandamálið er að það sem anarkistar vilja er byltingarkennt, en bylting mun ekki endilega leiða til þess sem anarkistar vilja. Það er vegna þessa sem anarkistar hafa átt það til að grípa til örþrifaráða eða falla í vonlaust framtaksleysi.

            I raun eru flest ágreiningsefni milli umbótasinnaðra og byltingarsinnaðra anarkista merkingarlaus, því bara gallharðasti byltingarsinni neitar að fagna umbótum og einungis mildasti umbótasinni neitar að fagna byltingum. Allir byltingarsinnar vita að verk þeirra munu almennt ekki leiða til nokkurs nema umbóta og allir umbótasinnar vita að verk þeirra leiða almennt til einhverskonar byltingar. Það sem flestir anarkistar vilja er stöðugur þrýstingur af öllum toga, sem leiðir til umbreytinga einstaklinga, myndunar hópa, lagfæringar stofnana, upprisu fólksins og eyðileggingu yfirvalds og eignarhalds. Ef þetta gæti átt sér stað án vandamála yrðum við hæstánægð, en það hefur aldrei gert það og mun líklega aldrei. Þegar upp er staðið er nauðsynlegt að ganga af bæ og standa gegn útsendurum ríkisins í hverfinu, á vinnustaðnum og á götum úti. Verði ríkið unnið er enn meiri þörf á áframhaldandi starfi til að koma í veg fyrir myndun nýs ríkis og hefja uppbyggingu frjáls samfélags í staðinn. Það er staður fyrir alla í þessu ferli og allir anarkistar finna eitthvað að gera í baráttunni fyrir því sem þeir vilja.

 

Til baka í greinar