Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

HVERNIG ANARKISTA GREINIR Á

 

Anarkistar eru frægir fyrir að vera ósammála innbyrðis og þegar fólk sem fyrst og fremst afneitar yfirvaldi, er laust við leiðtoga og embættismenn, valdapýramída og trúarreglur, refsingar og verðlaun, stefnur og áætlanir, er eðlilegt að það hneigist til varanlegs ágreinings. Samt sem áður er um að ræða nokkur stöndug form anarkisma sem flestir anarkistar hafa valið eitt úr til að túlka sitt sérstaka sjónarhorn.

 

Heimspekilegur Anarkismi

 

Frumgerð anarkisma var það sem nú er kallað heimspekilegur anarkismi. Í því sjónarhorni felst að hugmyndin um samfélag án yfirstjórnar sé heillandi en ekki sérlega eftirsóknarverð, eða eftirsóknarverð en ekki möguleg, a.m.k. ekki strax. Slíkt viðhorf er gegnumgangandi í öllum meintum anarkistaskrifum frá því fyrir 1840 og gerði sitt til að koma í veg fyrir að almennar anarkískar hreyfingar yrðu alvarleg ógnun við ríkisstjórnir. Þetta viðhorf má víða finna meðal margra sem kalla sig anarkista en halda sig utan hverskyns skipulagðra hreyfinga og einnig meðal sumra innan anarkistahreyfingarinnar. Þetta er anarkismi í huga en ekki í hjarta, fræðilegur anarkismi en ekki framtakssamur. Nokkuð oft virðist það vera nær ómeðvitað viðhorf að anarkismi, rétt eins og konungsríkið guð, sé innra með þér. Það sýnir sig fyrr eða seinna hjá sumum með innskotum eins og „Auðvitað er ég anarkisti, en…”

Virkir anarkistar hneigjast til að fyrirlíta heimspekilega anarkista og það er skiljanlegt þó að það sé óheppilegt. Svo lengi sem anarkismi er hreyfing í minnihluta, þá skapar almennur velvilji í garð hugmynda anarkista, sama hversu vægur hann er, umhverfi þar sem hlustað er á málflutning anarkista og anarkistahreyfingin fær að vaxa. Á hinn bóginn getur heimspekilegur anarkismi ýtt undir að fólk læri ekki að meta raunverulegan anarkisma en það er samt betra en að þeim sé alveg sama. Eins og heimspekilegir anarkistar eru margir sem standa okkur nærri en neita að kalla sig anarkista og einhverjir sem neita að kalla sig eitt eða neitt. Þeir hafa allir sitt hlutverk, þó ekki væri nema til að vera skilningsríkur hlustendahópur og vinna að frelsi í sínu eigin lífi.

 

Einstaklingshyggja, egóismi og frjálslyndi

 

Fyrsta gerð anarkisma sem var meira en bara heimspekileg var einstaklingshyggja. Hún er það sjónarhorn að samfélagið sé ekki samhangandi heild heldur samsafn sjálfstæðra einstaklinga sem hafa engum skyldum að gegna við samfélagið heldur einungis hver við annan. Þetta viðhorf var til staðar löngu áður en nokkuð var til sem hét anarkismi og það hefur haldist við nokkuð fjarri honum. En einstaklingshyggjan virðist alltaf gera ráð fyrir því að allir einstaklingarnir sem mynda samfélagið ættu að vera frjálsir og jafnir og að þeir geti orðið svo einungis með eigin átaki en ekki vegna inngripa utanaðkomandi stofnana. Öll framþróun þessa viðhorfs leiðir einstaklingshyggju beint til raunverulegs anarkisma.

            Fyrsti maðurinn sem útfærði greinanlega kenningu um anarkisma – William Godwin í ritgerðinni Enquiry Concerning Political Justice (1793) – var einstaklingshyggjumaður. Viðbrögð hans við bæði andstæðingum og stuðningsmönnum frönsku byltingarinnar voru að setja fram forsendur fyrir þjóðfélagi án yfirstjórnar og með eins litlu skipulagi og mögulegt væri. Þar skyldu sjálfstæðir einstaklingar gjalda varhug við öllum varanlegum tengslamyndunum. Þrátt fyrir mörg tilbrigði þá er þetta enn grundvallaratriði einstaklingshyggjuanarkisma. Þetta er anarkismi fyrir menntamenn, listafólk og sérviskupúka, fyrir fólk sem starfar með sjálfu sér og vill halda sig útaf fyrir sig. Allt frá tímum Godwin hefur hann laðað að sér þannig fólk, sérstaklega í Englandi og Norður Ameríku og þar á meðal karaktera eins og Shelley, Oscar Wilde, Ralph Waldo Emerson og Henry Thoreau, Augustus Jon og Herbert Read. Má vera að þeir hafi kallað sig eitthvað annað en einstaklingshyggjan skín alltaf í gegn.

            Það er kannski misvísandi að segja einstaklingshyggju vera útgáfu af anarkisma, því hún hefur alltaf haft mikil áhrif á alla hreyfingu anarkista og hverskyns upplifun eða athugun á anarkistum sýnir að hún er enn mikilvægur þáttur í starfi þeirra eða a.m.k. meginsannfæringu þeirra. Einstaklingshyggjuanarkistar eru sem fyrr, anarkistar í grundvallarskilningi orðsins, sem vilja einfaldlega eyða yfirvaldinu og sjá enga þörf fyrir að neitt komi þar í stað. Þetta er anarkismi fyrir sjálfið, ekki sérstaklega fyrir neinn annan. Þetta er viðhorf til mannkyns sem gengur upp svo langt sem það nær, en það gengur ekki nógu langt til að glíma við hin raunverulegu vandamál samfélagsins sem auðvitað þurfa félagslegs átaks við frekar en persónulegs. Alein má vera að við björgum okkur sjálf, en þannig getum við ekki bjargað öðrum.

            Öfgakenndari mynd af einstaklingshyggju er egóismi, sérstaklega í þeirri mynd sem Max Stirner setti fram í Der Einzige und sein Eigentum (1844), sem yfirleitt hefur verið þýtt sem the Ego and His Own, þó að betri túlkun væri The Individual and his Property. Líkt og með Marx og Freud, þá er erfitt að túlka Stirner án þess að misbjóða öllum fylgismönnum hans en kannski dugar að segja egóisma hans almennt frábrugðinn einstaklingshyggju í því að hafna hugtökum eins og siðferði, réttlæti, skuldbindingu, rökhyggju og skyldum og horfa þess í stað á það hve einstakur hver einstaklingur er í tilverunni. Auðvitað er andstaða við ríkið en einnig við samfélagið og egóismi hneigist til níhilisma (sú afstaða að ekkert skipti máli) og solipsisma (sú afstaða að einungis maður sjálfur sé til). Þetta er anarkískt en ekki á sérlega uppbyggilegan hátt þar sem litið er á hverskyns skipulag sem uppsprettu nýs kúgunarafls nema um sé að ræða tímabundna „samstöðu egóista.” Þetta er anarkismi fyrir skáld og flakkara, fyrir fólk sem vill skýr svör og engar tilslakanir. Þetta er anarkismi hér og nú, ef ekki í heiminum, þá í eigin lífi.

            Hófsamara afsprengi einstaklingshyggju er frjálslyndi (libertarianism). Í einfaldasta skilningi orðsins merkir þetta að frelsi sé góður hlutur. Ef við þrengjum skilgreininguna þá snýst þetta um að frelsi sé alltaf mikilvægasta markmið stjórnmála. Þannig er frjálslyndi ekki beint sérstök útgáfa af anarkisma heldur kannski hófsamasta form hans, fyrsta stigið á leið til almenns anarkisma. Stundum er orðið frjálslyndi notað sem samheiti eða fegrunarorð yfir anarkisma, þegar ástæða þykir til að forðast tilfinningaríkara orð, en það er almennt notað þegar átt er við að sæst sé á hugmyndir anarkista á ákveðnu sviði án þess að anarkismi sé viðurkenndur í heild sinni. Samkvæmt skilgreiningunni eru fylgjendur einstaklinghyggju frjálslyndir, en frjálslyndir sósíalistar eða frjálslyndir kommúnistar eru þeir sem færa inn í sósíalisma eða kommúnisma viðurkenningu á gífurlegu mikilvægi einstaklingsins.

 

Samhjálp (mutualism) og bandalagsmyndun (federalism)

 

Sú gerð anarkisma sem birtist þegar einstaklingshyggjumenn fara að virkja hugmyndir sínar er Samhjálp (mutualism). Þetta er það sjónarhorn að samfélagið ætti að vera skipulagt af einstaklingum sem vinna saman af eigin hvötum á grundvelli jafnræðis og gagnkvæmra samskipta í stað þess að vera háðir ríkinu. Samhjálp er þáttur í hverskyns tengslum sem eru æðri eðlisávísunum en ná ekki að vera opinber, hún er ekki endilega anarkísk, en var sögulega mikilvæg fyrir þróun anarkisma og nær allir tillögur anarkista um endurskipulagningu samfélagsins hafa verið byggðar á samhjálp.

            Fyrsti maðurinn sem kallaði sig anarkista, Pierre-Joseph Proudhon í What is Property? (1840), var samhjálparsinni. Sem andsvar við útópískum og byltingarsinnuðum sósíalistum á fyrsta hluta nítjándu aldar, setti hann fram forsendur samfélags sem byggðist upp af samvinnuhópum frjálsra einstaklinga sem skiptust á nauðþurftum á grundvelli vinnu sinnar og deildu með sér hagnaði gegnum almenningsbanka. Þetta er anarkismi fyrir iðnaðarmenn og handverksmenn, fyrir smábændur og verslunarmenn, atvinnumenn og sérfræðinga, fyrir fólk sem er reiðubúið að vinna á sömu forsendum en standa á eigin fótum. Þrátt fyrir að Proudhon afneitaði sumum hugmynda sinna síðar átti hann sér marga fylgjendur, sérstaklega meðal sérhæfðra verkamanna og fólks af lægri miðstétt og áhrif hans voru þó nokkur í Frakklandi á seinni hluta nítjándu aldar. Samhjálparhugmyndir höfðuðu einnig til margra í Norður Ameríku og að nokkuð minna marki í Englandi. Síðar var þeim hampað af fólki sem hvatti til lagfæringa á gjaldmiðlakerfum, sjálfbærra samfélagsþátta eða annarskonar ráðstafana sem lofa snöggum útkomum en hafa ekki áhrif á grundvallaruppbyggingu samfélagsins. Þetta viðhorf til mannkyns gengur upp svo langt sem það nær, en það seilist ekki nógu langt til að taka fyrir þætti eins og iðnað og höfuðstól, stéttaskiptinguna sem ræður yfir þeim, eða, fyrst og fremst, ríkið.

            Samhjálparstefnan er auðvitað helsta viðmið hreyfingarinnar um samvinnu, en samfélög byggð á samvinnu eru rekin eftir lýðræðislegum línum frekar en anarkískum. Í samfélagi sem skipulagt væri útfrá sannfæringu anarkískrar samhjálparstefnu væru samfélagslegar athafnir í raun í höndum samvinnuhópa án fastra framkvæmdastjóra eða kjörinna opinberra fulltrúa. Hagfræðileg samhjálparstefna væri þannig séð eins og samvinna án skrifræðis eða kapitalismi án hagnaðar.

            Samhjálparstefnan útfærð landfræðilega í stað hagfræðilega verður bandalagsmyndun. Í því er horft á að samfélagið, í stærra samhengi en nánasta umhverfi, skuli stýrt af neti nefnda sem raðað er í frá ýmsum svæðum og þeim er síðan er stýrt af nefndum sem hafa umsjón með stærri svæðum. Aðalinntakið í anarkísku bandalagi er að meðlimir slíkra nefnda væru fulltrúar án nokkurs framkvæmdavalds sem alltaf má kalla tilbaka og að nefndirnar hafi ekkert vald til miðstýringar, heldur séu einungis einfalt ráðuneyti. Proudhon, sem fyrstur lýsti samhjálparstefnu, varð einnig fyrstur til að lýsa bandalagsmyndun í The Federal Principle (1863). Hann og fylgjendur hans voru kallaðir federalistar eins og mutualistar, sérstaklega þeir sem voru virkir í verkalýðshreyfingunni. Þannig lýstu þeir sjálfum sér aðallega sem federalistum, mennirnir sem á árum Fyrsta alþjóðafundarins og í Parísarkommúnunni settu fram hugmyndir anarkistahreyfingar samtímans.

Bandalagsmyndun getur eins verið tilbrigði við anarkisma eins og óhjákvæmilegur hluti hans. Nokkurnveginn allir anarkistar eru bandalagssinnaðir, en fæstir þeirra myndu lýsa sér sem einungis bandalagssinnum. Þegar upp er staðið er bandalagsmyndun grundvallarlögmál sem er alls ekki bundið við anarkistahreyfinguna. Það er ekkert útópískt við það. Þau alþjóðakerfi sem skipuleggja lestasamgöngur, skipaferðir, loftumferð, póstdreifikerfi, skeyta- og símamál, vísindarannsóknir, neyðaraðstoð, stórslysavarnir og margar aðrar framkvæmdir á heimsvísu, eru í uppbyggingu einskonar bandalög. Anarkistar bæta því einfaldlega við að þessháttar kerfi myndu virka allt eins vel innanlands eins og þau virka milli landa. Þegar upp er staðið á þetta þegar við um meirihluta hverskyns samtaka sem skipulögð eru í sjálfboðavinnu, eða hver þau félagasamtök og kerfi sem halda utanum þær félagslegu athafnir sem ekki eru fjárhagslega arðsamar eða pólitískt viðkvæmar.

 

Sameignarstefna (Collectivism), kommúnismi og syndikalismi

 

Sú gerð anarkisma sem gengur lengra en einstaklingshyggja og samhjálparstefna og felur í sér beina ógnun við stéttaskiptinguna og ríkið er það sem áður var kallað sameignarstefna. Hún segir að samfélagið sé hægt að endurskipuleggja einungis þegar verkamannastéttin tekur yfir stýringu efnahagsins með félagslegri byltingu, leysir upp ríkisfyrirkomulagið og endurskipuleggur framleiðslukerfin á grunni sameiginlegs eignarhalds með stjórnun í höndum samráðs vinnandi fólks. Framleiðslutæki yrðu sameign, en framleiðslunni yrði dreift samkvæmt lögmáli slagorðs sem varpað var fram af sumum franskra sósíalista árið 1840, „Hver gefur eftir getu, hver fær eftir framlagi.”

            Fyrstu nútímaanarkistarnir; Bakúnínistarnir á Fyrsta aþjóðafundinum, voru sameignarsinnar. Til mótvægis við umbótasinnaða mutualista og federalista og einnig gegn valdapoti Blanquista og Marxista, drógu þeir upp einfalda mynd af byltingarkenndum anarkisma; anarkisma stéttabaráttunnar og verkalýðsins, fjöldauppreisn hinna fátæku gegn hinum ríku og skjótri umbreytingu til frjáls og stéttlauss samfélags án nokkurs millitímabils einræðisríkis. Þetta er anarkismi fyrir stéttvísa verkamenn og smábændur, fyrir þau herskáu og virku í verkalýðshreyfingunni og fyrir sósíalista sem vilja frelsi sem og jafnræði.

            Þessari anarkísku eða byltingarkenndu sameignarstefnu má ekki rugla saman við hina betur þekktu valdasæknu og umbótasinnuðu sameignarstefnu sósíaldemókrata eða Fabianista; sem er byggð á sameiginlegu eignarhaldi efnahagsins en einnig stjórnun ríkisins á framleiðslu og dreifingu. Að hluta til vegna hættunnar á þessum ruglingi og að hluta til vegna þess að það er hér sem anarkistar og sósíalistar ná hvað mest saman, þá er þessari gerð anarkisma betur lýst sem frjálslyndum sósíalisma, sem felur í sér ekki bara anarkista sem eru sósíalistar heldur og sósíalista sem hallast að anarkisma en eru ekki alveg anarkistar.

            Sú gerð anarkisma sem birtist sé sameignarstefnan útfærð í frekari smáatriðum er kommúnismi. Þetta viðhorf segir það ekki vera nóg að framleiðslutækjum sé haldið í sameign, heldur einnig að afrakstur verkanna ætti að líta á sem sameign og þeim skuli dreifa samkvæmt lögmáli slagorðsins sem notað var af áðurnefndum frönskum sósíalistum um 1840; „Hver gefur eftir getu, hver fær samkvæmt þörf.” Rök kommúnistanna eru þau að um leið og fólk hafi rétt til þess að vinna þeirra sé metin til fullnustu, sé ómögulegt að reikna út verðmæti vinnu hvers einstaklings, því verk hvers manns tengist verkum allra og ólík verk eru metin á ólíkum forsendum. Þess vegna sé það betra fyrir allt hagkerfið að vera í höndum samfélagsins í heild og að launa- og verðlagningarkerfin verði lögð af.

            Nær allir leiðandi einstaklingar anarkistahreyfingarinnar við lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu, eins og Peter Kropotkin, Errico Malatesta, Elisé Reclus, Grave, Faure, Emma Goldman, Alexander Berkman, Rudolf Rocker o.s.frv., voru kommúnistar. Út frá sameignarstefnu og í andstöðu við Marxisma, lýstu þau háttprúðari tegund byltingarkennds anarkisma; þeim anarkisma sem inniheldur hvað best útfærða gagnrýni á nútímasamfélagið og eins tillögur fyrir framtíðarsamfélag. Þetta er anarkismi fyrir þau sem eru sátt við stéttabaráttuna en horfa á heiminn í víðara samhengi. Ef sameignarstefna er byltingarsinnaður anarkismi sem miðast við vandamál vinnustaðarins og byggir á sameign verkamannanna, þá er kommúnismi byltingarsinnaður anarkismi miðaður við lífsins vandamál og byggir á samfélagi fólksins.

            Síðan um 1870 hefur verið sátt um meginatriði kommúnisma meðal flestra samtaka anarkista í byltingarhug. Helsta undantekningin var hreyfingin á Spáni, sem hélt sig við grunnþætti sameignarkenninga vegna sterkra áhrifa Bakúnínista, en í reynd var lítill munur á markmiðum fólks í öðrum hreyfingum og í raun, var sá „comunismo libertario” sem komið var á í spænsku byltingunni 1936 áhrifaríkasta dæmi sögunnar um anarkó-kommúnisma.

            Þessum anarkó- eða frjálslynda kommúnisma má að sjálfsögðu ekki rugla saman við hinn betur þekkta kommúnisma Marxistanna - þann kommúnisma sem er byggður á almenningseign efnhagsins og stjórnun ríkisins á framleiðslu, dreifingu og neyslu auk einræðis flokksins. Sögulegur uppruni þess að anarkistahreyfing nútímans deildi við Marxista á Fyrsta og öðrum alþjóðlega fundinum endurspeglast í hugmyndafræðilegri þráhyggju anarkista í tengslum við yfirvaldsmengaðan kommúnisma og ágreiningurinn efldist vegna rússnesku og spænsku byltinganna. Af því leiðir að margir anarkistar virðast hafa kallað sig kommúnista, ekki sérstaklega vegna sterkrar sannfæringar, heldur meira til að ögra Marxistum á þeirra heimavelli og valta yfir þá í augum almennings. Mann grunar að anarkistar séu sjaldnast alvöru kommúnistar, að hluta til vegna þess að þeir eru alltaf of einstaklingssinnaðir, og að hluta til vegna þess að þeir myndu ekki vilja negla niður ítarlegar áætlanir um framtíð sem á að vera frjáls til að gera eigin ráðstafanir.

            Sú gerð anarkisma sem birtist þegar sameignarstefna eða kommúnismi einblína sérstaklega á vinnustaðinn, er syndikalismi. Þar er meiningin sú að samfélagið skuli byggja á fagstéttum, það skuli vera birtingarmynd verkamannastéttarinnar og skuli endurskipulagt þannig að það nái utan um bæði iðn og umráðasvæði og að því skuli umbylt þannig að það sé í höndum almúgans svo efnahagskerfinu í heild sinni sé stýrt eftir lögmálum stjórnar verkalýðsins.

            Flestir anarkó-sameignarsinnar og margir kommúnistar á nítjándu öld létu bendla sig við syndikalisma og þetta átti sérstaklega við um anarkistana á Fyrsta alþjóðafundinum. En anarkó-syndikalismi þróaðist ekki af sjálfu sér fyrr en með hreyfingu franskra syndikalista við aldarlok. (Enska orðið „syndicalism” er dregið af franska orðinu syndicalisme, sem þýðir einfaldlega „stéttarfélög”). Þegar Franska verkalýðshreyfingin skiptist í byltingarsinna og umbótasinna kringum 1890, urðu byltingarsinnaðir syndikalistar umsvifameiri og margir anarkistar gengu í lið með þeim. Sumir þeirra, eins og Fernand Pelloutier og Emile Pouget, höfðu nokkur áhrif innan hreyfingarinnar og franska syndikalistahreyfingin var kraftmikið tæki fyrir anarkismann fram að fyrri heimsstyrjöld og rússnesku byltingunni, þrátt fyrir að vera aldrei alveg anarkísk. Samtök anarkó-syndikalista voru einnig sterk í verkalýðshreyfingum Ítalíu og Rússlands stuttu eftir fyrri heimsstyrjöld, í Suður Ameríku og sérlega á Spáni allt til loka borgarastyrjaldarinnar 1939.

            Þetta er anarkismi fyrir þau stéttvísustu og herskáustu í sterkri verkalýðshreyfingu. En syndikalismi er ekki endilega anarkískur og jafnvel ekki byltingarsinnaður. Í raun hafa anarkó-syndikalistar átt það til að verða valdagírugir og/eða umbótasinnaðir og það hefur reynst erfitt að halda jafnvægi milli sannfæringar frjálslyndisins og hinnar daglegu baráttu fyrir bættum launum og vinnuaðstæðum. Þetta eru ekki rök gegn anarkó-syndikalisma frekar en varnaðarorð fyrir anarkó-syndikalista. Hin raunverulegu mótrök gegn anarkó-syndikalisma og syndikalisma almennt eru að hann leggi ofuráherslu á atvinnumál og mikilvægi verkalýðsins. Stéttaskiptingin er mikilvægt pólitískt vandamál en stéttabaráttan er ekki eina pólitíska baráttumál anarkista. Syndikalismi er ásættanlegur þegar horft er á hann sem eina hlið anarkisma en ekki þegar hann skyggir á allar aðrar hliðar. Þetta er sýn á mannkyn sem gengur upp svo langt sem hún nær, en hún gengur ekki nógu langt til að glíma við lífið utan vinnustaðarins.

 

Munurinn er ekki svo mikill

 

Í raun hefur vægi þess mismunar sem er á milli ýmissa útfærslna anarkismans minnkað síðustu árin. Fyrir utan blinda fylgispekt öfgamanna í hverjum stað, þá hneigjast flestir anarkistar til að horfa á gömlu skiptingarnar sem óræðar frekar en raunverulegar, sem tilbúnar áherslubreytingar, eða orðaleiki, frekar en djúpstæðan mun á grundvallaratriðum. Raunar væri betra að líta ekki á þær sem tegundir anarkisma heldur ólíkar hliðar á anarkisma sem fara eftir áhugasviðum okkar.

            Í einkalífinu erum við einstaklingshyggjufólk og gerum okkar hluti og veljum okkur félaga og vini af persónulegum ástæðum. Félagslega erum við samhjálparsinnar þar sem við stofnum til frjálsra tengsla hvert við annað, gefum það sem eigum og fáum það sem við þurfum með því að skipta hvert við annað. Á vinnustaðnum værum við aðallega sameignarsinnar; vinnandi með félögum okkar að framleiðslu fyrir almannaheill og í stýringu vinnustaða værum við aðallega syndikalistar; hefðum samráð við félaga okkar þegar teknar væru ákvarðanir um hvernig verkin skuli unnin. Stjórnmálalíf okkar væri aðallega kommúnískt, við hittum nágranna okkar til að ákveða hvernig samfélagið skuli rekið. Þetta er auðvitað einföldun, en hún veitir innsýn í hvernig anarkistar hugsa yfirleitt í dag.

 

Til baka í greinar