Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

ÞAÐ SEM ANARKISTAR ERU SANNFÆRÐIR UM

 

Fyrstu anarkistarnir voru fólk í ensku og frönsku byltingunum á sautjándu og átjándu öld en anarkistaheitið var gefið þeim til háðungar þegar þeir voru taldir aðeins vilja óreiðu eða ringulreið. En frá um 1840 voru anarkistar fólk sem tók upp heitið til merkis um það vildi anarkí sem þýddi að vera laus við yfirstjórn. Gríska orðið anarkhia, eins og enska orðið „anarchy,” felur í sér báðar þessar merkingar, fólk sem ekki er anarkistar telur að merking þeirra komi í sama stað niður, en anarkistar eru harðir á því að þetta sé tvennt ólíkt. Í yfir hundrað ár hafa anarkistar verið fólk sem trúir því að lausn undan ríkisstjórn þurfi ekki að þýða óreiðu og ringulreið og trúir því meira að segja að samfélag án ríkisstjórnar verði betra en það samfélag sem við lifum í núna.

            Í öllum hópum manna koma upp meðvituð viðbrögð gegn yfirvaldi. Anarkismi er pólitísk útfærsla meðvitaðra viðbragða þeirra. Allir þekkja til fólks sem er anarkistar frá náttúrunnar hendi; þeirra sem vilja ekki trúa neinu eða gera neitt sem þeim er skipað að gera, og allir geta gert sér í hugarlund aðstæður þar sem nokkurnveginn allir eru á öðru máli en næsti maður og enginn tekur mark á neinum. Þegar rýnt er í söguna má sjá praktíska hneigð til anarkisma meðal einstaklinga og hópa sem eru í uppreisn gegn þeim sem yfir þeim ráða. Hin  fræðilega hugmynd um virkan anarkisma er einnig mjög gömul. Finna má lýsingar á fyrri glæsitímum sem lausir voru við yfirstjórnir í sögum frá Kína til forna og Indlandi, Egyptalandi, Mesópótamíu, Grikklandi og Róm og á sama hátt má finna drauminn um fyrirmyndarríki án ríkisstjórnar í hugmyndum ótal hugsuða, trúarhópa og stjórnmálahópa. En tenging virks anarkisma við aðstæður nútímans kom seinna og það er ekki fyrr en innan anarkistahreyfingar nítjándu aldar sem við rekumst á kröfuna um samfélag án yfirstjórnar, hér og nú.

            Aðrir hópar á bæði vinstri og hægri væng stjórnmála segjast vilja losna við ríkisstjórnina, þegar annaðhvort markaðurinn er orðinn svo frjáls að hann þarf ekki frekara eftirlit, eða þegar svo mikið jafnræði hefur skapast meðal manna að ekki verður lengur þörf fyrir að hafa á þeim bönd, en aðferðirnar sem þessir hópar grípa til virðast stöðugt styrkja ríkisstjórnina í sessi. Það eru einungis anarkistarnir sem vilja í raun losna við hana. Þetta þýðir ekki að anarkistar trúi allrahanda rómantískum þvættingi og telji allar manneskjur í eðli sínu góðar, einsleitar eða fullkomnar. Þetta þýðir að anarkistar telja nær allar manneskjur félagslyndar og svipaðar og færar um að lifa eigin lífi og hjálpast að. Margir segja ríkisstjórn vera nauðsynlega vegna þess að fólki sé ekki treystandi til að líta eftir sjálfu sér. Anarkistar spyrja hinsvegar svo: Ef allt fólk er svo slæmt að aðra þurfi til að stjórna því, hvernig getur þá nokkur verið nógu góður til að ráða yfir öðrum? Vald virðist spilla og óskorað vald spillir algerlega. Um leið er auður jarðar afurð verka alls mannkyns og hver manneskja hefur jafnan rétt til þátttöku í því starfi og til að njóta afurðanna. Anarkismi er hugsjón sem gerir kröfu um bæði algert frelsi og algert jafnrétti.

 

FRJÁLSLYNDI OG SÓSÍALISMI

 

Líta má á anarkisma sem þróun út frá annaðhvort frjálslyndi (libertarianism) eða félagshyggju (sósíalisma) eða frá þessu tvennu. Eins og frjálslyndir vilja anarkistar frelsi og eins og sósíalistar vilja þeir jafnrétti. En við sættum okkur ekki við frjálshyggjuna útaf fyrir sig eða sósíalismann út af fyrir sig. Frelsi án jafnréttis þýðir að fátækir og sjúkir njóta minna frelsis en hin ríku og vel settu og jafnrétti án frelsis þýðir að við erum öll í þrældómi saman. Frelsi og jafnrétti stangast ekki á heldur bæta hvort annað upp. Í stað hinnar gömlu gagnstæðusetningar frelsis og jafnréttis, þegar okkur er sagt að aukið frelsi þýði minna jafnrétti og að meira jafnrétti þýði minna frelsi, benda anarkistar á að í raun er ekki hægt að njóta annars án hins. Frelsi er ekki raunverulegt ef sumir eru of fátækir eða illa staddir til að njóta þess og jafnrétti er ekki raunverulegt ef sumum er stjórnað af öðrum. Úrslitaframlag anarkista til stjórnmálakenninga er þessi áttun; að frelsi og jafnrétti er í raun það sama.

Anarkismi sker sig einnig frá bæði frjálslyndi og félagshyggju með öðru viðhorfi til framþróunar. Frjálslyndir sjá söguna sem línulega þróun frá villimennsku, hjátrú, þröngsýni og harðstjórn til siðmenningar, upplýsingar, víðsýni og frelsunar. Það gengur á með framför og afturhaldi inn á milli, en hin raunverulega framþróun mannkyns leiðir frá slæmri fortíð til góðrar framtíðar. Félagshyggjufólk sér söguna sem rökrétta framþróun frá villimennsku gegnum harðstjórn, lénsskipulag og kapitalisma, til sigurs verkalýðsins og afnáms stéttaskiptingar. Það gengur á með byltingum og því að þær eru brotnar á bak aftur en hin raunverulega framþróun mannkyns er einnig hér frá slæmri fortíð til góðrar framtíðar.

Anarkistar sjá framþróun mjög svo öðruvísi, raunar sjá þeir oft alls enga framþróun. Við sjáum söguna ekki sem línulega eða rökrétta framför í eina átt, heldur sem tvíþætt ferli. Saga samfélags manna er saga baráttu milli þeirra sem ráða og þeirra sem ráðið er yfir, milli þeirra sem hafa fullar hendur og þeirra sem ekkert hafa, milli þess fólks sem vill ríkja og láta yfir sér ríkja og fólksins sem vill frelsa sig og sitt fólk; lögmál yfirvalds og frelsis, ríkisstjórnar og byltingar, ríkis og samfélags eru varanlega gagnstæð. Þessar ýfingar hætta aldrei, hreyfing samfélags manna almennt eða einhvers tiltekins samfélags er í eina átt á einum tíma og í aðra átt á öðrum. Uppgangur nýs stjórnskipulags eða hrun einhvers eldra er ekki dularfullt uppbrot í þróuninni eða einhver jafnvel enn dularfyllri þáttur hennar, heldur nákvæmlega það sem það lítur út fyrir að vera. Sögulegar uppákomur eru velkomnar svo framarlega sem þær auka frelsi og jafnrétti fyrir fólk almennt. Engin dulin ástæða er til þess að kalla góðan viðburð slæman vegna þess að hann sé óhjákvæmilegur. Við getum ekki haft uppi neina spádóma að gagni um framtíðina og við getum ekki verið viss um að heimurinn verði betri. Okkar eina von er að með aukinni þekkingu og auknu innsæi, verði fólk frekar meðvitað um að það getur lifað lífi sínu án þess að hafa nokkra þörf fyrir yfirvald.

Samt sem áður sprettur anarkismi af frjálslyndi og félagshyggju bæði sögulega og fræðilega. Frjálslyndi og sósíalismi voru til á undan anarkisma og anarkisminn spratt upp þar sem þetta tvennt bætti hvort annað upp og þar sem það stangaðist á. Enn byrja flestir anarkistar sem annaðhvort frjálslyndir eða sósíalistar eða bæði. Uppreisnarandinn fæðist sjaldan fullvaxta og yfirleitt vex hann inn í anarkisma frekar en innan anarkisma. Segja má að anarkistar verði alltaf frjálslyndir og alltaf sósíalískir og í hvert skipti sem þeir afneita því sem er gott í öðru hvoru, svíki þeir anarkismann sjálfan. Á einn veg treystum við á málfrelsi og frelsi til funda, ferða, hegðunar og sérlega þó á frelsi til andstæðra skoðana, á hinn veginn trúum við á jafnrétti til eignarhalds, á samstöðu manna, hagnýti samvinnu og sérstaklega á dreifingu valds. Við erum frjálslynd en aðeins umfram það og sósíalistar en aðeins umfram það.

Samt er anarkismi ekki bara blanda af frjálslyndi og félagshyggju, þ.e. því félagslega lýðræði eða velferðarkapitalisma sem er ríkjandi í þessu landi. Hvað svo sem við eigum inni hjá þeim og hversu nálæg sem við erum frjálslyndum og sósíalistum, þá skilur á milli okkar og þeirra, og sósíaldemókrata, í grundvallaratriðum þegar við afneitum þeirri stofnun sem ríkisstjórn er. Bæði frjálslyndir og jafnaðarmenn treysta á ríkisstjórn. Frjálslyndir að því er virðist til að viðhalda frelsi en í raun til að koma í veg fyrir jafnræði, sósíalistar að því er virðist til að viðhalda jafnræði en í raun til að hindra frelsið. Jafnvel þau framsæknustu meðal frjálslyndra og sósíalista geta ekki verið án ríkisstjórnar og ríkisstjórn er ekkert annað en að sumt fólk níðist á öðru fólki með valdbeitingu. Kjarni anarkismans er afneitun þess að nokkur hafi vald yfir öðrum, án þess kjarna er anarkisminn ekki neitt.

 

LÝÐRÆÐI OG FULLTRÚAR

 

Margir standa gegn ólýðræðislegri ríkisstjórn, en anarkistar eru frábrugðnir þeim því þeir standa einnig gegn lýðræðislegri ríkisstjórn. Sumir aðrir hópar standa líka gegn lýðræðislegri ríkisstjórn en anarkistar eru einnig frábrugðnir þeim, ekki vegna þess að þeir óttist eða hati stjórnun fólksins heldur af því að þeir sjá lýðræði ekki sem stjórnun fólksins heldur sem rökleidda mótsögn. Raunverulegt lýðræði er einungis framkvæmanlegt í litlu samfélagi þar sem allir geta tekið þátt í hverri ákvörðun og þá er það ónauðsynlegt um leið. Það sem er kallað lýðræði og á að heita ríkisstjórn fólksins fyrir fólkið er raunar ríkisstjórn fólksins fyrir kosna ráðamenn og ætti frekar að kallast „samþykkt fámennisstjórn.”

            Ríkisstjórn skipuð ráðamönnum sem við höfum valið er frábrugðin og yfirleitt betri en ríkisstjórn skipuð ráðamönnum sem hafa valið sig sjálfa, en hún snýst samt um vald yfir öðrum. Ríkisstjórn, sama hversu lýðræðislega sinnuð hún er, er háð því að einhver láti einhvern annan gera eitthvað eða hindri einhvern í að gera eitthvað. Líka þegar okkur er stjórnað af fulltrúum okkar er verið að stjórna okkur og um leið og þeir fara að stjórna okkur gegn okkar vilja eru þeir ekki lengur okkar fulltrúar. Flest fólk er nú sammála því að við höfum engum skyldum að gegna við ríkisstjórn sem við höfum ekki kosið, anarkistar ganga lengra og segja okkur hafa engum skyldum að gegna við ríkisstjórn sem við höfum kosið. Við kannski lútum henni vegna þess að við erum sammála henni eða vegna þess að við erum ekki í aðstöðu til að óhlýðnast, en okkur ber engin skylda til að hlýða þegar við erum henni ósammála og er stætt á að óhlýðnast. Flest okkar eru á því að þau sem breytingar koma við ættu að vera spurð áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar; anarkistar ganga lengra og krefjast þess að þau ættu sjálf að taka ákvarðanirnar og ganga eftir því að koma þeim í framkvæmd.

            Þannig að anarkistar hafna hugmyndum um félagslegan samning og fulltrúakerfi. Eflaust munu flestir hlutir alltaf verða framkvæmdir af fáum; þeim sem hafa áhuga á ákveðnu vandamáli og eru fær um að leysa það, en þess gerist ekki þörf að þau séu valin eða kosin. Þau munu hvort eð er alltaf skjóta upp kollinum og það er betra að það eigi sér stað náttúrulega. Málið er að leiðtogar og sérfræðingar þurfa ekki að vera ráðamenn. Leiðtogahæfileikar og sérfræðikunnátta eru ekki endilega tengd valdi. Einu raunverulegu fulltrúarnir eru staðgenglar eða þeir skipaðir sem hafa skyldum að gegna gagnvart þeim sem senda þá og eru stöðugt afturkallanlegir[VH1] . Á vissan hátt er stjórnandinn sem segir sig vera fulltrúa fólksins verri en stjórnandinn sem er blátt áfram harðstjóri, því að erfiðara er að kljást við valdníðslu sé henni pakkað inn í falleg orð og sértæk rök. Sú staðreynd að við getum kosið þá sem ráða yfir okkur á fjögurra ára fresti þýðir ekki að við verðum að hlýða þeim það sem eftir er kjörtímabilsins. Ef við gerum það, er það af hagnýtum ástæðum, ekki siðferðilegum. Anarkistar eru á móti ríkisstjórn, hvernig svo sem hún er uppbyggð eða rökstudd.

 

RÍKI OG STÉTT

 

Anarkistar hafa í baráttu sinni gegn yfirvaldi beint spjótum sínum að ríkinu, þ.e. þeirri stofnun sem gerir tilkall til einræðisvalds á tilteknu svæði. Þetta kemur til af því að ríkið er fyrirferðarmesta dæmið um yfirvald í samfélagi auk þess sem það veitir vald og stýrir því innan samfélagsins. Þar að auki hafa anarkistar einnig staðið gegn öllum gerðum ríkja, ekki einungis hinni greinilegu harðstjórn kóngs, einræðisherra eða herforingja, heldur og tilbrigðum eins og upplýstri einvaldsstjórn, framsæknu krúnuveldi, lénsskipulögðu fáræði eða viðskiptafáræði, þingræði, sovétkommúnisma o.s.frv. Anarkistar hafa jafnvel látið hafa eftir sér að öll ríki séu af sama meiði og valmöguleikar þeirra á milli séu engir.

            Þetta er ofureinföldun. Öll ríki eru sannarlega byggð á valdi en sum eru sannarlega valdagírugri en önnur og allt eðlilegt fólk myndi frekar vilja lifa undir því sem er minna valdagírugt en hitt. Til að benda á einfalt dæmi, þá hefði ekki verið hægt að gefa út þessa anarkistayfirlýsingu í mörgum ríkjum fyrri tíma og enn í dag væri ekki hægt að gefa hana út í mörgum ríkjum bæði hægrisinnuðum og vinstrisinnuðum, hvort sem er í austri eða vestri, norðri eða suðri. Ég myndi frekar vilja eiga heima þar sem hægt er að gefa hana út og sama má segja um flesta lesendur mína.

            Fáir anarkistar hafa enn svo einfeldningsleg viðhorf gagnvart afstæðum hlut eins og „ríkinu” og anarkistar einbeita sér ekki að árásum á ríkisstjórnina og þær stofnanir sem af henni spretta, einungis vegna þess að þetta er hluti af ríkinu heldur einnig vegna þess að þær eru öfgakennd dæmi um beitingu valds í samfélaginu. Við sjáum ríkið sem andstætt samfélaginu, en við lítum ekki lengur á það sem utanaðkomandi í samfélagi. Við lítum á það sem hluta þess  eða náttúrulegan vöxt. Vald er eðlileg hegðun, alveg eins og árásarhneigð en það er hegðun sem bæði er hægt og ætti að stjórna og þroskast burt frá. Það verður ekki gert með því að binda það í stofnanir heldur einungis með því að finna leiðir til að komast af án þess.

            Anarkistar andmæla þeim ríkisstofnunum sem greinilega kúga; embættismönnum, löggjöfum, lögreglu, lögréttu, fangelsum, her o.s.frv. og einnig þeim sem virðast góðkynja; samfélagsþáttum á opinberum styrkjum og sveitarstjórnum, bönkum og tryggingafélögum, skólum og háskólum, dagblöðum, útvarpi, öðrum ríkismiðlum og öllu hinu. Allir geta séð að hið fyrrnefnda er ekki byggt á samþykki heldur á hlýðni og þegar upp er staðið, á þvingun. Anarkistar leggja áherslu á að það síðarnefnda stýrir einnig með járnhnefa, jafnvel þó að hann sé klæddur flauelshanska.

Samt sem áður, sé gengið útfrá því að þær stofnanir sem stafa beint eða óbeint af ríkinu séu bara slæmar, er ekki hægt að skilja þær. Þær geta haft góðar hliðar, á tvo vegu. Þær eru gagnlegar á neikvæðan hátt þegar þær standa gegn valdapoti annara stofnana, svo sem illskeyttum foreldrum, gráðugum leigusölum, yfirmönnum með yfirgang og ofbeldisglæpamönnum og þær gagnast á jákvæðan hátt þegar þær fylgja eftir æskilegri félagslegri hegðun eins og félagsþjónustu, áfallahjálp, samskipta- og flutningakerfum, menningu og listum, heilbrigðisþjónustu, ellilífeyri, fátækrahjálp, menntun og fjölmiðlun. Þannig að við höfum frjálslynda ríkið og velferðarríkið; ríkið sem ýtir undir frelsi og ríkið sem bætir mannréttindi.

            Fyrsta svar anarkista við þessu er að í grundvallaratriðum höfum við ríki sem er kúgandi; helsta hlutverk ríkisins er að halda fólkinu niðri, að takmarka frelsið. Öll jákvæð hlutverk ríkisins er hægt að útfæra og þau hafa oft verið útfærð með samvinnu sjálfviljugra hópa. Í þessu tilviki er líkt farið með ríkið og kirkjuna á miðöldum. Á miðöldum var kirkjan hluti af öllum helstu félagslegum athöfnum og ótrúlegt þótti að þessar athafnir væru mögulegar án hennar. Einungis kirkjan mátti skíra, gifta og grafa fólk og það þurfti átak til að átta sig á því að reyndar stjórnaði kirkjan ekki fæðingum, ást og dauða. Hver einasta almenn athöfn þurfti opinbera blessun kirkjunnar. Almenningur þurfti að læra að athöfnin var alveg jafn áhrifarík án þessarar blessunar og þetta er víða þannig ennþá. Kirkjan skipti sér af og stjórnaði oft þeim hliðum lífsins og samfélagsins sem í dag er stjórnað af ríkinu. Fólki hefur tekist að átta sig á að afskipti kirkjunnar eru óþörf og jafnvel skaðleg. Það sem nú þarf að læra er að yfirráð ríkisins eru jafn óþörf og skaðleg. Við þurfum á ríkinu að halda einungis jafnlengi og við teljum svo vera og allt sem það gerir má gera jafn vel og betur án heimildar yfirvaldsins.

            Seinna svar anarkista er að helsta hlutverk ríkisins er að viðhalda því ójafnræði sem er til staðar. Fáir anarkistar eru sammála Marxistum um að grunnþáttur samfélags sé stéttin, en flestir eru sammála um að ríkið sé pólitísk útfærsla efnahagslegrar uppbyggingar. Þannig sé það fulltrúi þeirra sem eiga eða stjórna auði samfélagsins og kúgi þá sem vinna verkin og skapa auðinn. Ríkið er ófært um að dreifa auðnum jafnt þar sem það er helsti miðill ójafnrar dreifingar. Anarkistar eru sammála Marxistum að núverandi kerfi verði að eyðileggja, en þeir eru ósammála því að kerfi framtíðarinnar sé hægt að koma á með ríkinu í annara höndum. Ríkið er orsök sem og afleiðing stéttaskiptingar og stéttlaust samfélag sem komið er á af ríkinu mun fljótt verða stéttskipt samfélag aftur. Ríkið mun ekki visna og eyðast, það verður að afnema með því að fólkið taki völdin af ráðamönnum og auðinn af þeim ríku. Þetta tvennt tengist og annað án hins mun alltaf enda með ósköpum. Anarkí í sínum besta skilningi þýðir samfélag án bæði valdamikils og auðugs fólks.

 

SKIPULAG OG SKRIFRÆÐI

 

Þetta þýðir ekki að anarkismi afneiti skipulagi, þó að þar liggi helstu ranghugmyndir meðal manna um anarkisma. Fólk getur sætt sig við að anarkí þurfi ekki að þýða bara óreiðu og ringulreið og að anarkistar vilji ekki óskipulag heldur skipulag án yfirstjórnar, en það er sannfært um að anarkí þýði skipulag sem sprettur upp af sjálfsdáðun og að anarkistar vilji ekki skipulagningu. Þetta er fjarri sannleikanum. Anarkistar vilja í raun miklu meiri skipulagningu, en skipulagningu án valdníðslu. Ranghugmyndirnar um anarkisma koma til af ranghugmyndum um skipulagningu, fólk á erfitt með að sjá að skipulagning er ekki háð valdi og að í rauninni gengur hún betur án yfirvalds.

            Ef við hugsum málið í smástund sjáum við að þegar þvingun er hafnað og samráð kemur í staðinn eykst öll umræða og áætlanagerð í stað þess að minnka. Allir sem koma að ákvarðanatöku verða í aðstöðu til að taka þátt í henni og enginn getur látið verkin í hendur launaðra embættismanna eða kjörinna fulltrúa. Ef engar reglur eru til að fara eftir eða fordæmi að fylgja, verður að taka hverja ákvörðun upp á nýtt. Ef engir eru ráðamenn til að hlýða eða leiðtogar til að fylgja, munum við öll taka eigin ákvarðanir. Til að halda öllu þessu gangandi mun fjöldi og fjölbreytni tengsla milli einstaklinga aukast, ekki minnka. Vera má að þessháttar skipulagning verði óskýr og skili minni afköstum, en hún kemst miklu nær þörfum og tilfinningum þeirra sem málið varðar. Ef einhverju  er ekki hægt að koma í verk án gömlu skipulagningarinnar; með valdapoti og þvingun, er hæpið að það sé þess virði og við værum því betur komin án þess.

            Anarkistar hafna því að binda skipulagningu við stofnanir, eins og þegar komið er á fót sérstökum hópi manna og kvenna sem hefur það hlutverk að skipuleggja annað fólk. Skipulagning á anarkískum nótum yrði flæðandi og opin. Um leið og skipulagning stífnar og lokast, lendir hún í höndum skrifræðis, verður handbendi sértækrar stéttar og fer að túlka yfirvald í stað þess að samræma þætti í samfélaginu. Hver hópur hneigist alltaf til þess að fáir ráði og hvert kerfi hneigist til skrifræðis; yfirráða sérfræðinganna. Anarkistar verða alltaf að berjast gegn þessum tilhneigingum í framtíðinni eins og í dag, sín á milli og milli annarra.

 

EIGNARHALD

 

Anarkistar afneita ekki heldur eignarhaldi þó að við höfum á það sérkennilegt sjónarhorn. Í einum skilningi orðsins er eignarhald þjófnaður, þ.e. yfirtaka einhvers af einhverjum er að synja öllum öðrum um það. Þetta þýðir ekki að séum öll kommúnistar. Þetta þýðir að réttur tiltekins einstaklings til einhvers ákveðins hlutar er ekki háður því hvort að viðkomandi einstaklingur skapaði hlutinn, fann hann, keypti hann, var gefinn hann, er að nota hann, vill fá hann eða hefur lagalegan rétt til hans, heldur hvort þessi einstaklingur hafi þörf fyrir hann, og til að herða áhersluna, hvort þessi einstaklingur þarfnist hans meira en einhver annar. Þetta er ekki spurning um afstætt réttlæti eða náttúrulögmál, heldur samstöðu meðal manna og hreina og beina skynsemi. Hafi ég brauðhleif og þú ert svangur er hann þinn, ekki minn. Hafi ég yfirhöfn og þér er kalt, tilheyrir hún þér. Hafi ég hús og þú ekki, hefur þú rétt til að nota í það minnsta eitt af mínum herbergjum. En í öðrum skilningi orðsins er eignarhald frelsi, þ.e. að geta í einkalífi sínu notið hluta og lausafjár í mátulegu magni, er nauðsynlegt lífsgæðum einstaklingsins.

            Anarkistar eru fylgjandi einkaeign sem ekki er hægt að nýta af einum til að misnota annan, eins og þær persónulegu eigur sem við sönkum að okkur frá barnæsku og verða hluti af lífi okkar. Það sem við erum á móti eru þær almenningseignir sem einungis er hægt að nota til að féfletta fólk; jarðnæði og byggingar, framleiðslu- og dreifingartæki, hráefni og unnar vörur, peningar og höfuðstólar. Grundvallaratriðið er nánast að fólk hafi rétt til þess sem það framleiðir með eigin vinnu en ekki þess sem það fær útúr vinnu annara. Fólk hefur rétt til þess sem það þarfnast og notar en ekki til þess sem það þarfnast ekki og getur ekki notað. Um leið og sumir hafa meira en nóg fer það annaðhvort til spillis eða kemur í veg fyrir að aðrir hafi nóg. Þetta þýðir að ríkt fólk hefur engan rétt til eigna sinna vegna þess að það er ekki ríkt vegna eigin vinnu heldur vegna þess að fjöldi fólks vinnur fyrir það. Fátækt fólk hefur rétt til eigna ríka fólksins þar sem fátæktin stafar ekki af því að það vinnur lítið heldur af því að það vinnur fyrir aðra. Raunar er vinnutími fátækra yfirleitt miklu lengri og vinna þeirra fer fram við verri aðstæður en efnaðra. Enginn hefur nokkru sinni orðið ríkur eða haldist ríkur með eigin vinnu heldur einungis með því að misnota vinnu annara. Vera má að við höfum hús og landskika, eigin verkfæri og búum við góða heilsu alla ævi og við leggjum eins hart að okkur og við getum eins lengi og stætt er. Við leggjum til nóg fyrir fjölskyldu okkar en ekki mikið meira og jafnvel þá sjáum við ekki sjálfum okkur raunverulega farborða því við treystum á aðra til að leggja til sumt af því sem við þurfum og þiggja eitthvað af okkar framleiðslu í staðinn.

            Almenningseign er ekki bara spurning um eignarrétt, heldur einnig um stjórnun. Það er ekki nauðsynlegt að vera eignamaður til geta misnotað aðra. Ríkt fólk hefur alltaf notað aðra til að sjá um eignir sínar og nú, þegar nafnlaus samsteypufyrirtæki og ríkisfyrirtæki eru að koma í stað einstaklinga sem eigendur, eru framkvæmdastjórar að verða lykilmenn í að nýta sér vinnu annara. Bæði í þróuðum og vanþróuðum löndum og í ríkjum kapítalista og kommúnista, er það lítill minnihluti íbúanna sem ennþá á, eða á annan hátt stjórnar mestum hluta almenningseigna.

            Þrátt fyrir að það líti þannig út þá er þetta ekki hagfræðilegt eða lagalegt vandamál. Það sem skiptir máli er ekki dreifing fjármagns eða ábúðarréttur lands eða skattakerfið eða innheimtuaðferðir eða erfðaréttur, heldur sú grundvallarstaðreynd að sumt fólk lætur sig hafa það að vinna fyrir aðra, alveg eins og sumir hlýða öðrum. Ef við myndum neita að vinna fyrir þau ríku og valdamiklu myndi eignarhaldið hverfa. Á sama hátt og ef við neitum að hlýða ráðamönnum myndi valdníðslan hverfa. Gagnvart anarkistum er eignarhaldið byggt á valdníðslu en ekki á hinn veginn. Málið er ekki hvernig smábændur fóðra landeigandann eða hvernig verkafólk setur peninga í vasa yfirmannsins, heldur hversvegna það gerir það og þetta er pólitískt atriði.

            Sumt fólk vill reyna að leysa eignarhaldsvandamálið með því að breyta lögum og ríkisstjórn, annaðhvort með umbótum eða umbyltingum. Anarkistar hafa enga  trú á slíkum lausnum, en þeir eru ekki allir sammála um réttu lausnina. Sumir anarkistar vilja dreifingu alls meðal allra svo að við getum öll fengið jafnan hlut í auð heimsins, og „laisses-faire” viðskiptakerfi með gegnsæju bókhaldi til að koma í veg fyrir yfirgengilega auðsöfnun. En flestir anarkistar hafa enga trú á þessari lausn, heldur vilja einnig eignarnám allra almenningseigna frá þeim sem hafa meira en þau þurfa og að stjórnun verði í höndum samfélagsins í heild, svo að við höfum öll jafnan aðgang að auðlegð heimsins. Að minnsta kosti er samkomulag um að núverandi eignarhaldskerfi þurfi að eyðileggja um leið og núverandi valdakerfi.

 

GUÐ OG KIRKJA

 

Anarkistar hafa gegnum tíðina verið guðleysingjar og á móti klerkastéttinni. Fyrstu anarkistarnir voru jafn mikið á móti kirkjunni og ríkinu og flestir þeirra hafa verið andstæðir trúarbrögðunum sjálfum. Slagorðið „hvorki guð né herra” hefur oft verið notað til að taka saman inntak anarkismans. Margt fólk er enn að taka fyrstu skref sín til anarkisma með því að gefa upp trú sína og breytast í rökhyggjufólk eða húmanista. Afneitun hins himneska yfirvalds hvetur til afneitunar valds meðal manna. Nær allir anarkistar í dag eru líklega trúleysingar eða efahyggjufólk. En það hafa verið til trúaðir anarkistar þó að þeir hafi yfirleitt verið utan meginhreyfingar anarkista. Skýr dæmi um þetta eru heiðnir söfnuðir sem héldu uppi anarkískum hugmyndum fyrir nítjándu öldina og hópar trúaðra friðarsinna í Evrópu og Norður Ameríku á nítjándu og tuttugustu öld. Sérstaklega má nefna Tolstoy og fylgjendur hans við upphaf tuttugustu aldarinnar og hreyfingu kaþólskra verkamanna í Bandaríkjunum frá 1930.

            Dregið hefur heldur úr hinu almenna hatri anarkista á trúarbrögðum eftir því sem veldi kirkjunnar hefur hnignað og flestir anarkistar í dag líta á trú sem persónulegt mál. Þeir myndu standa gegn þvinguðu afnámi trúarbragða en þeir myndu einnig standa gegn þvingaðri endurreisn trúarbragða. Þeir myndu leyfa hverjum sem er að trúa á hvað sem er og gera hvað sem er svo fremi að það hafi einungis áhrif á viðkomandi, en þeir myndu ekki vilja veita kirkjunni meira vald.

            Annars er saga trúarbragðanna líkan fyrir sögu ríkisstjórna. Í eina tíð var talið ómögulegt að hafa samfélag án Guðs, nú er Guð dauður. Enn er talið ómögulegt að hafa samfélags án ríkis, nú þurfum við að koma ríkinu fyrir kattarnef.

 

STRÍÐ OG OFBELDI

 

Anarkistar hafa alltaf verið andsnúnir stríði en ekki hafa þeir allir verið andsnúnir ofbeldi. Þeir eru á móti her en eru ekki endilega friðarsinnar. Gagnvart anarkista er stríð hin algera birtingarmynd valdníðslu utan samfélags og um leið mikil lyftistöng fyrir valdníðslu innan samfélags. Hið skipulagða ofbeldi og eyðilegging sem á sér stað í stríði eru gífurlega stækkuð mynd af skipulögðu ofbeldi og eyðileggingu ríkisins og stríð er ríkinu heilsubót. Anarkistahreyfingin hefur alltaf staðið gegn stríði og stríðsæsingum. Örfáir anarkistar hafa stutt sum stríð, en það hefur alltaf verið litið á þá sem liðhlaupa af félögum þeirra og þessi algera andstaða við stríð milli þjóða er einn af helstu sameiningarþáttum anarkista.

            En anarkistar hafa skilið á milli stríða milli þjóða og borgarastríðs milli stétta. Hreyfing byltingarsinnaðra anarkista á seinni hluta nítjándu aldar hvatti til uppreisnar með ofbeldi til að eyðileggja ríkið og anarkistar hafa verið virkir í mörgum vopnuðum uppreisnum og borgarastríðum, sérstaklega í Rússlandi og á Spáni. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt í slíkri baráttu létu þeir ekki glepjast til að halda það eitt í sjálfu sér muna koma á byltingunni. Vera má að ofbeldis sé þörf til að fyrirkoma gamla kerfinu, en það er gagnslaust og raunar hættulegt við uppbyggingu nýs kerfis. Her fólksins getur sigrað ráðandi stétt og eytt ríkisstjórn, en hann getur ekki hjálpað fólkinu að skapa frjálst samfélag og það er einskis virði að vinna stríðið ef friður vinnst ekki.

            Margir anarkistar hafa reyndar efast um að nokkurt gagn sé að ofbeldi. Eins og ríkið, er það ekki hlutlaust afl þar sem áhrifin fara eftir því hver beitir því og það mun ekki gera rétta hlutinn einungis vegna þess að það er í réttum höndum. Auðvitað er ofbeldi hinna kúguðu ekki ofbeldi kúgarans, en jafnvel þegar það er besta leiðin út úr óþolandi aðstöðu er það bara næstbest. Ofbeldi er einn af ógeðfelldustu þáttum nútímasamfélags og það verður áfram ógeðfellt sama hversu góður tilgangurinn er. Þar að auki leitast það við að eyðileggja tilgang sinn, jafnvel í aðstæðum þar sem það virðist viðeigandi, eins og í byltingu. Reynsla sögunnar bendir til þess að byltingar verði ekki tryggðar með ofbeldi, þvert á móti, því meira ofbeldi, því minni bylting.

            Allt þetta getur virst fáránlegt í augum fólks sem ekki er anarkistar. Einn af elstu og lífseigustu fordómum gagnvart anarkisma er að anarkistar séu umfram allt ofbeldismenn. Meira en aldargömul stöðluð ímynd anarkistans með sprengju undir skikkjunni er enn á kreiki. Margir anarkistar hafa nefnilega aðhyllst ofbeldi, sumir hafa reynt launmorð á þekktum andlitum og örfáir hafa jafnvel aðhyllst hryðjuverk gagnvart almenningi til að ýta undir eyðileggingu stjórnkerfis. Anarkisminn á sínar skuggahliðar og tilgangslaust að afneita því. En það er aðeins ein hlið anarkisma og það lítil um sig. Flestir anarkistar hafa ávallt staðið gegn ofbeldi nema þess gerist virkilega þörf, hinu óhjákvæmilega ofbeldi sem á sér stað þegar fólkið hristir af sér ráðamenn og arðræningja, en hafa þó hikað við að fordæma þá fáu anarkista sem hafa gripið til ofbeldis af einlægum hvötum.

            Helstu gerendur ofbeldisglæpa hafa verið þeir sem vilja halda völdum, ekki þeir sem ráðast gegn þeim. Mestu morðingjarnir hafa ekki verið þessir grátlegu sprengjumenn í suður Evrópu sem fyrir rúmri öld voru knúnir til verka af örvæntingu heldur þeir sem stjórna hervélum hvers ríkis þessa heims. Enginn anarkisti getur staðið í samkeppni við árásarstríð og atómsprengjuna, enginn einn launmorðingi getur staðið jafnfætis Hitler eða Stalín. Við myndum hvetja verkafólk til að taka yfir verksmiðjur eða hvetja smábændur til að taka landið í sínar hendur og við gætum brotið girðingar eða reist götuvígi en við höfum enga hermenn, engar flugvélar, enga lögreglu, engin fangelsi, engar fangabúðir, engar aftökusveitir, enga gasklefa og enga böðla. Í augum anarkista, er ofbeldi öfgakennt dæmi um valdbeitingu eins aðila gagnvart öðrum, eða hápunktur alls sem við stöndum á móti.

            Í sumum tilfellum hafa anarkistar hneigst til að vera friðarsinnar og friðarsinnar hneigst til anarkisma. Þetta hefur reynst vel fyrir báðar hliðar; anarkistar lært af friðarsinnum og friðarsinnar lært af anarkistum. Sumir anarkistar hafa laðast sérstaklega að herskárri friðarbaráttu, eins og hvatt var til af Tolstoy og Gandhi, og beitingu friðsamlegra mótmæla sem tækni við beinar aðgerðir. Margir anarkistar hafa tekið þátt í hreyfingum gegn stríði og hafa stundum haft þýðingarmikil áhrif á þær.En margir anarkistar, jafnvel þeir sem koma náið að málum, telja friðarbaráttuna ætla sér um of með höfnun allra á allskyns ofbeldi við allar aðstæður og of þröngsýna að halda að útrýming ofbeldis út af fyrir sig geti valdið grundvallarbreytingum í samfélaginu. Þar sem friðarsinnar horfa á yfirvald sem veikari útgáfu ofbeldis sjá anarkistar ofbeldi sem harðari útgáfu af yfirvaldi. Sumir anarkistar eru einnig frábitnir siðaboðskap friðarsinna, meinlætishugsunarhætti og sjálfbirgingshætti og ljúflingsviðhorfi þeirra til heimsins. Svo ég endurtaki mig, þá eru þeir á móti hernaði en eru ekki endilega friðarsinnar.

 

EINSTAKLINGURINN OG SAMFÉLAG

 

Grunnþáttur samfélagsins er einstaklingurinn. Nær allir einstaklingar lifa í samfélagi en samfélag er ekkert annað en samansafn einstaklinga og eini tilgangur þess er að veita þeim fullnægjandi líf. Anarkistar telja fólk ekki hafa réttindi frá náttúrunnar hendi. Það á við um alla. Einstaklingur hefur engan rétt til að gera eitthvað en enginn annar einstaklingur hefur rétt til að stöðva þann einstakling í að gera eitthvað. Það er ekki um að ræða neinn almennan vilja og ekkert félagslegt viðmið sem við ættum að fylgja. Við erum jöfn en ekki einsleit. Samkeppni og samvinna, fjandsemi og friðarvilji, þröngsýni og umburðarlyndi, ofbeldi og sátt, átroðningur og uppreisn, allt eru þetta náttúrulegar myndir félagslegrar hegðunar, en sumar auka og aðrar hindra gefandi líf einstaklinga. Anarkistar trúa því að besta leiðin til að tryggja einstaklingunum gefandi líf sé að tryggja jafngilt frelsi fyrir alla meðlimi samfélagsins.

            Þessvegna höfum við engan tíma fyrir siðsemi í venjulegum skilningi orðsins og við höfum ekki áhuga á hvað fólk gerir í lífi sínu. Látum hvern einstakling gera nákvæmlega það sem honum sýnist, innan marka eigin getu, svo fremi að þeir leyfi öllum öðrum að gera nákvæmlega það sem þeir vilja. Hlutir eins og klæðnaður, framkoma, málfar, mannasiðir, kunningjahópur o.s.frv. eru háðir persónulegu vali. Sama á við kynlíf. Við erum fylgjendur frjálsra ásta, en það þýðir ekki að við séum fylgjendur alheimslauslætis. Það þýðir að allt sem tengist kynlífi er frjálst, nema vændi og nauðganir og að fólk ætti sjálft að geta valið (eða hafnað) mismunandi kynhegðun eða bólfélögum. Öfgakennd nautnahyggja getur hentað einum en algert skírlífi öðrum. Þó eru flestir anarkistar sammála um að heimurinn væri betri staður ef hér hefði verið miklu minna af röfli og miklu meira af ríðingum. Sama grundvallaratriði á við hluti eins og vímugjafa. Fólk getur eitrað fyrir sér með alkóhóli eða koffíni, kannabis eða amfetamíní, tóbaki eða ópíötum og við höfum engan rétt til að hindra það, hvað þá refsa þeim þó að við gætum reynt að hjálpa þeim. Á sama hátt geta einstaklingar beðið til þeirra sem þeim hentar, svo fremi að þeir leyfi öðrum einstaklingum að biðja á sinn eigin hátt eða að tilbiðja ekki eitt eða neitt. Það skiptir ekki máli hvort einhverjum sé misboðið, það sem skiptir máli er ef fólk meiðist. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af mismunandi persónulegri hegðun, það sem þarf að hafa áhyggjur af er hið óhugnanlega óréttlæti samfélags þar sem valdi er misskipt.

            Anarkistar hafa alltaf staðið gegn kúgun í nafni þjóðar, félagsskiptingar, kynþáttar eða kynferðis og hafa alltaf stutt hverja hreyfingu til frelsunar í nafni þjóðar, félagshóps, kynþáttar og kynferðis. En þeir eru ólíkir félögum sínum í hreyfingunum með því að telja allar myndir kúgunar verandi pólitískar í eðli sínu og sjá öll fórnarlömb kúgunar sem einstakar manneskjur frekar en hluta af þjóð, stétt, kynþætti eða kyni.

            Helsti andstæðingur hins frjálsa einstaklings er hið yfirþyrmandi vald ríkisins en anarkistar eru einnig andsnúnir öllum öðrum birtingarmyndum yfirvalds sem takmarkar frelsi innan fjölskyldunnar, í skólanum, á vinnustað og í hverfinu, og standa gegn hverri tilraun til að láta einstaklinginn fylgja ákveðinni félagsmynd. En áður en farið er í hvernig skipuleggja megi samfélagið þannig að meðlimir þess njóti hvað mest frelsis, er nauðsynlegt að lýsa þeim formum sem anarkismi hefur tekið útfrá mismunandi sjónarhornum á samskipti milli einstaklings og samfélags.

 

 


 [VH1]Þessi málsgrein er illskiljanleg

Til baka í greinar