Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

LÍFSMÖRK

Jákvæðar hugmyndir um viðbrögð og aðgerðir á krepputímum

---

VERJUM HEIMILI LANDSMANNA – MEÐ HANDAFLI

Ólíkt við mörg önnur evrópulönd er það hefð á Íslandi að kaupa frekar en leigja íbúðarhúsnæði. Þar sem landsmenn eru almennt ekki milljónamæringar þýðir þetta staðlaða skuldsetningu heimilanna. Með verðtryggingu og uppgreiðslukostnaði er síðan heimilum landsmanna haldið í ánauð því engin leið er að ná að borga upp. Á nokkrum áratugum (og sérstaklega með „frelsun“ bankanna) er búið að gera skuldasöfnun einstaklinga og heimila að normi. Örfáar bankastofnanir eru áskrifendur að launum almennings. Þar sem ríkisstjórnin, stjórn seðlabankans og nýlega ríkisvæddir bankar landsins hafa fullan hug á því að herða sig við að kreista skuldara er viðbúið að fjölskyldur fari að missa heimili sín.  Þó að oft sé sagt að langt sé á milli íslendinga er Ísland alltof lítið til þess að nokkur maður geti horft upp á það eiga sér stað. Almenningur mun stofna hópa sem standa saman um að verja heimili hvors annars. Engin fjölskylda eða einstaklingur verður borinn út sé einbeittur samstöðuhópur til staðar sem varnar fulltrúum auðvaldsins vegar.

 Þetta er kall eftir fólki sem hefur tíma, orku og getu til að skipuleggja sig fyrir aðra á þennan hátt. Það sem þarf að gera er að safna saman nöfnum og símanúmerum og setja upp símatré fyrir útköll. Hafa þarf (helst fleiri en eitt) neyðarnúmer og gera það aðgengilegt fyrir fólk sem hefur fengið hótanir um að vera borið út.  Það þarf enga leiðtogahæfileika til þess að skipuleggja sig á þennan hátt. Það þarf einungis að hugsa með hjartanu.

Það er sama hvort og hversu mikla óráðsíu fólk hefur gert sig seka um í ímyndaðri veislu „góðærisins.“ Það þurfa allir á samstöðu að halda og allir eiga hana inni þegar sótt verður að heimilinu. Heimili er skjól fyrir veðri, vindum og ati samfélagsins, er ekki fríðindi, lúxus eða áunnin réttindi, heldur órjúfanlegur partur af mannlegri tilvist á þeirri eyu sem við byggjum. Okkar samfélag snýst um gagnkvæma virðingu og gagnkvæma aðstoð en ekki samkeppni.

--

EGGJAKAST ER GÓÐ SKEMMTUN

 

Að kasta eggjum í alþingishúsið er góð skemmtun. Hvort það  er „saurgun“ eins og einn fréttamiðill orðaði það er umdeilanlegt, en það orð er yfirleitt notað í samband við óvirðingu gagnvart skurðgoðum og öðrum trúarlegum fyrirbærum.

Við mælum samt frekar með því að egg séu nýtt til að baka kökur og dreifa til mótmælenda. Það er uppbyggilegt, fólk kynnist við kökuborðið og áttar sig á því að í grunninn erum við öll í þessu saman. Mæðrastyrksnefnd þarf líka á matvælagjöfum og öllum öðrum stuðningi að halda nú og enn frekar á komandi mánuðum.

--

TIL LÖGREGLUÞJÓNA

Íslenskt samfélag er lögreglunni afar þakklátt fyrir að bregðast skjótt við neyðarköllum vegna slysa, nauðgana og grófs ofbeldis. Við kunnum vel að meta þetta þó að það komi ekki alltaf fram. Við sem mótmælum vitum öll að þið eruð líka láglaunastétt og að bankarnir eru líka með áskrift að ykkar launum. Þið eruð ekki einkaher neins ráðherra eða ríkisstjórnarinnar og eruð almennt meðvituð um hversu firrtir æðstu yfirmenn ykkar eru. Þið kusuð þetta starf sem leið til að hjálpa til í samfélaginu. Þessvegna hafið þið ekkert erindi að standa milli fólksins og þeirra forréttindahópa sem eru að arðræna okkur öll. Við biðjum ykkur að óhlýðnast skipunum að ofan verði ykkur skipað að ráðast gegn fólki sem krefst breytinga. Við biðjum ykkur að standa hjá eða ganga burt. Við mótmælendur ætlum ekki að beita neinn einstakling ofbeldi. Við viljum reka smákóngana burt, ekki hengja þá.

 --

NÚLLSTILLING FJÁRMÁLAKERFISINS

Sá miskunnarlausi hraði sem einkenndi komu kreppunnar yfir landann sýnir okkur m.a. að peningar eru eitthvað sem enginn skilur fullkomlega en um leið er líf okkar allra gert algerlega háð sveiflum á verðmæti þeirra. Hefur einhver leitt hugann að því, að burtséð frá andlegu og félagslegu valdi þeirra, þá eru peningar í raun ekkert nema litríkir pappírsmiðar og tölur á hörðu drifi bankatölva? Það er a.m.k. raunin með íslensku krónuna erlendis. Það þýðir einnig að allir aðrir gjaldmiðlar geta misst merkingu sína án þess að nokkur bein skýring liggi fyrir.

Er þá ekki ráð að grípa tækifærið og núllstilla hagkerfið? Leggja niður bankarekstur í þeirri mynd sem stjórnendur þeirra hafa mótað hann. Strika út allar skuldir og fólk heldur heimilum sínum. Ef ekki er eitthvað að gert halda bankarnir áfram að vera undir stjórn og í eigu forréttindahópa. Og forréttindahóparnir halda áfram að rannsaka sjálfa sig. Þetta er gífurleg ofureinföldun á flóknu máli sem fleygt er fram hér, en þetta kerfi liggur sem mara á lífi okkar allra svo við hættum að lifa og erum að skrimta. Við verðum að henda því út einhvernveginn til að lifa af. Við getum aldrei skapað hið fullkomna hagkerfi en við megum ekki láta útvöldum eftir að hanna það eftir eigin höfði.

Varðandi rekstur getur grunnhugmynd af banka eða sparisjóði alveg verið sett upp án kúgunar. Það er hægt að ganga út frá þeirri hugmynd að eigir þú meira fé en þú þarft að nota akkúrat núna, eða sért að leggja reglulega fyrir, að þá getir þú lagt þetta fé inní sameiginlegan sjóð (og fáir kvittun fyrir - bankabók).  Á meðan þú notar ekki fé þitt geta aðrir haft aðgang að því með loforði (ekki einu og sér) um að greiða það til baka án nokkurra vaxta.  Eitthvað lántökugjald þarf þó að vera því greiða þarf fyrir laun starfsmanna bankans, húsnæði hans, orkunotkun og innbú, en ekki krónu meira.  Það á undir engum kringumstæðum að vera tekjuafgangur af rekstri banka hvað þá arður þar sem það flokkast undir hreina fjárkúgun eða hreinlega rán.  Ef það kemur upp að afgangur er af rekstri bankans eða sjóðsins á að skila þeim peningum til allra viðskiptavina, jafnt sparifjáreigenda sem og lækkun skulda þeirra sem ekkert annað eiga en þær.

Á þennan hátt gætu bankar veitt raunverulega félagslega þjónustu en ekki verið hagnaðarapparöt fyrir einstaklinga sem þegar hafa of mikið milli handanna.

--

NÚLLSTILLING LÝÐRÆÐISINS

Um leið þarf að núllstilla lýðræðið. Fulltrúalýðræðið eins og það er orðið í dag, býður upp á að fulltrúarnir myndi forréttindahóp. Þannig þrífst spillingin í samvinnu við þann forréttindahóp sem hefur mest ítök í hagkerfinu. Við verðum því að útrýma fulltrúalýðræðinu. Ef við ákveðum að halda við einhverju formi þess verða að vera skýrar og harðar reglur um framkvæmdavald og tíma hvers manns í hverri stöðu og að fulltrúa sé alltaf hægt að afturkalla. Að vera fulltrúi fólksins VERÐUR að vera erfitt og krefjandi starf vegna þess harða aðhalds sem fólkið ÞARF að veita.

Til að núllstilla lýðræðið dugir kannski að hætta að taka þátt í því, sniðganga það af algjöru tillitsleysi og stofna í staðinn þorpa- og hverfishópa sem hittast reglulega og leita leiða til sameiginlegra lausna á sameiginlegum málum. Þannig fundir geta í fyrstu litið út fyrir að vera afar þreytandi og leiðinlegir. En einmitt nú er raunveruleg þörf fyrir svona fundi og sú þörf mun aukast eftir því sem stjórnarkreppan versnar. Raunverulegt lýðræði ER og verður alltaf tímafrekt málavafstur því við erum öll svo fallega ólík. Munið að íbúafundir eru til þess gerðir að finna lausnir, og þess vegna er ekki hægt að mæta á þá hugsandi málin einungis út frá eigin egói. Sá hugsunarháttur skapaði jú kreppuna. Vinnum að sameiginlegum lausnum og upplýstu samþykki (consensus) í staðinn fyrir flokks- og fulltrúalýðræði. Öll okkar nauðsynlegu grunnkerfi geta haldið áfram að rúlla því fólkið sem t.d. vinnur við vatnsveitur og ruslhirðu mæta auðvitað líka á hverfisfundina.

Ef við losum okkur ekki við stjórnmálaflokkana í heilu lagi gerum við samt þá kröfu að enginn sem tilheyrir stjórnmálaflokki geti orðið partur af framkvæmdavaldinu; að haldnar séu aðskildar kosningar til þings annars vegar og ríkisstjórnar hins vegar. Þetta eru algjörar lágmarkskröfur. Einnig ættum við að stöðva framapotið sem fylgir kosningunum. Auglýsingar á síðum dagblaða, sjónvarpsskjám og veggspjöldum gera ekkert nema að brengla og skemma raunverulega mynd af þeim sem bjóða sig fram. Við ættum að kjósa fólk og málefni í stað andlita og flokka.

--

SAMSTAÐA FÓLKSINS ER NÁTTÚRUAFL

Laugardagurinn 8. Nóvember 2008 mun vonandi líða fólki seint úr minni. Á vikulegum mótmælafundi á Austurvelli klifraði ungur anarkisti upp á Alþingishúsið og flaggaði þar fána Bónus verslananna. Skilaboðin voru einföld: RÍKISSTJÓRNIN ER ÓDÝRT SVÍN! og viðstaddir tóku undir með fagnaðarlátum.

 

Stór hópur fólks sem áður hafði haldið sig á Austurvelli umkringdi nú Alþingishúsið, fánamanninum svokallaða til stuðnings. Fólk virtist ánægt með þessa ágætu tilbreytingu frá ræðuhöldum og skiltaburði. En af því að fánamaðurinn var sniðugur og ákvað að nota sér mátt beinna aðgerða til að draga upp sannleikann um yfirvöld og eðli þeirra, ákvað lögreglan auðvitað að stöðva leikinn og handtaka manninn.

En ólíkt því sem við höfum mátt venjast ákvað fólkið sem statt var á mótmælunum að standa fullkomlega með fánamanninum og koma í veg fyrir handtöku hans. Fólk sem hvorki þekkti manninn né vissi hver hann var, ákvað að stíga út fyrir lagaramma yfirvalda og berjast gegn aðgerðum lögreglunnar.

Fánamaðurinn komst hjá handtöku með aðstoð fjöldans, kom sér undan og slapp við þá leiðinlegu og niðurlægjandi meðferð að vera handjárnaður, hent inn í lögreglubíl og keyrður upp á stöð til yfirheyrslu. Lögreglan átti engan möguleika því samstaða fólks og vilji til að koma í veg fyrir handtökuna var miklu sterkari. Þannig sannaðist máttur samstöðunnar.

- Samfélag byggt á samstöðu -

Við þurfum að byggja upp nýtt og betra samfélag þar sem þarfir fólks vega þyngra en græðgi og valdafíkn, þar sem framapot er upprætt og valdníðsla er markvisst barin tilbaka. Og til þess að betra samfélag verði einhvern tíma að veruleika þurfum við að berjast fyrir því – gegn þeim sem vilja fyrir því spilla. Grundvallarforsenda þess að mótspyrnan sé öflug og árangursrík og að hjól samfélagsins snúist, er samstaða. Í pýramídalöguðu skipulagi traðka yfirgnæfandi og sterkir einstaklingar á þeim sem hafa sig ekki í frammi og ýta þannig undir að fyrst og fremst vilji þeirra spilltu sé framkvæmdur. Lárrétt skipulag krefst þess hins vegar að fólk hlusti á hvort annað og taki ákvarðnir með hagsmuni hvers og eins að leiðarljósi.

Almennt kýs fólk að starfa og skipuleggja eftir láréttu fyrirkomulagi, þ.e. að rödd hvers og eins hafi sama vægi. Fjölskyldur og vinahópar blómstra best þegar ekkert valdabrölt á sér stað, fólk talar saman og ákvarðanir er teknar í sameiningu. Það ætti líka að eiga við um vinnustaði og íbúahverfi – allt frá smæstu til stærstu þátta samfélagsins. Það er hið eina raunverulega lýðræði og eina raunverulega frelsi.

- Tökum stjórn á eigin lífi og samfélagi -

Samstaðan í kringum Alþingishúsið 8. Nóvember var vonandi bara byrjunin. Nú þurfum við að auka samstöðuna og efla - færa hana yfir á alla þætti samfélagsins og henda yfirvöldum í ruslið. Tökum stjórn á eigin lífi og samfélagi!

--

Að þessum textum er enginn réttur áskilinn. Fólk er hvatt til að taka upp þær hugmyndir sem koma fram hérna, þróa lengra, dreifa sem víðast og gera þær virkar í sínu lífi.

Ritstjóri Lífsmarka er Sigurður Harðarson. Fyrir aðsent efni til birtingar eða ábendingar um efnistök í næstu útgáfum skrifið til andspyrna@gmail.com eða Pósthólf 35, 101 Reykjavík. Ritstjóri ákveður hvað verður birt. Athugið að afar auðvelt er að miðla hugmyndum sínum á þennan hátt og það ættu fleiri að gera (frekar en að blogga endalaust).

 

 

Til baka í greinar