Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Þessi texti var gefinn út sem annað hefti dreifiritsins Lífsmörk  - jákvæðar hugmyndir um viðbrögð og aðgerðir á krepputímum.” Lífsmörkum var dreift aðallega á mótmælafundum á austurvelli í Nóvember og Desember 2008 og var vel tekið af hugmyndaþyrstum fundargestum.

 

VERUM GÓÐ VIÐ HVERT ANNAÐ

Þau okkar sem eru um fertugt og eldri, verða að taka tillit til þess að fólk undir þrítugu þekkir ekkert annað en að hægt sé að lifa varhugaverðu kóngalífi á kreditkortum og yfirdrætti. Gylliboð bankanna hafa verið þeirra húslestur samhliða því að gangur hlutabréfa taldist orðið til frétta.

Vegna þessa gætu einhverjir séð það sem lausn þegar ríkisstjórnin reynir að plástra sig áfram í álappalegum tilraunum til að halda völdum. Þeim yngri gæti líka reynst erfiðara að læra að neita sér um hluti og hætta að lifa við fjárhagslegar reddingar. Við erum öll að læra. Þær staðreyndir, að hvorki yfirdráttur né kreditkort sé eitthvað sem hægt er að kalla eign og, að þeir forréttindahópar sem eru við völd, munu ganga mjög langt til að halda sínum forréttindum, er nýr lærdómur. Við sem stöndum saman gegn átroðningi banka og ríkis á líf okkar verðum því að vera góð við hvert annað og leitast við að skilja hvert annað.   

---

FULLVELDIÐ ENDURREIST 1. DESEMBER

Kallað er til allsherjar útifundar mánudaginn 1. Desember, fullveldisdaginn, klukkan 15 á Arnarhóli. Borgaravettvangur kallar eftir nýju fullveldi, lausu við allar þær klíkur sem tengja saman pólitíkusa, löggjafa og fjárglæframenn og alla þá spillingu sem því fylgir. Fólk er almennt hvatt til þess að ljúka vinnudeginum fyrr til þess að taka þátt í fundinum á þessum mikilvæga degi, nú þegar fullveldi Íslands er ógnað. Krafan er m.a. að ríkisstjórnin fari strax frá og komið verði á neyðarstjórn þar til hægt er að kjósa.

 

-----

NOKKRAR TILLÖGUR AÐ VIÐBRÖGÐUM VIÐ KREPPU

Fyrst er að átta sig á því að meðal þeirra sem hafa völdin og þeirra sem sækjast eftir völdum, situr enginn sem ber sérstakt skynbragð á félagsmál, rekstur eða fjármál, heldur einungis pólitíkusar.

Einnig að raunveruleg samstaða næst ekki gegnum þjóðerniskennd og ekki flokkapólitík heldur þá einföldu staðreynd að í samfélagi hafa allir hag af því að vinna að bættum hag næsta manns.

Jákvæð viðbrögð á krepputímum er m.a. myndun sameignarhópa (collectives) utanum ýmsar grunnþarfir og bjargráð samfélagseininga. Þessar félagslegu einingar geta skipst landfræðilega (íbúar í hverfum eða við götur) eða eftir hvötum, þörfum og aðstæðum. Þessháttar verkefni eiga ekki síst við fólk sem misst hefur vinnuna. Það er svo margt uppbyggilegt hægt að gera utan við atvinnumarkaðinn og þau kerfi sem tengjast honum. Hér eru nokkur dæmi um það sem sameignarhópar geta gert:

-Gert samkomulag við smábátaeigendur um að fá fisk til eigin neyslu beint frá þeim. Um leið er kvótakerfið sniðgengið fyrir þessa aðila (eða gert að eign þeirra sem nýta fiskinn til eigin neyslu en ekki eigin stórhagnaðar) og tryggt að litlir bátar hafi aðgang að olíu.  

-Á sama hátt gera sameignarhópar íbúa, samninga við bændur um milliliðalaus kaup og dreifingu á þeirra framleiðslu. Tryggt verði að einnig bændur hafi aðgang að þeirri olíu og því rafmagni sem þeir þurfa til að framleiða fyrir fólkið í landinu. Þessir sameignarhópar væru jafnframt þrýstihópar á forgang innlendrar matvælaframleiðslu að ódýrri eða ókeypis orku, og um afnám fiskikvóta sem einkaeignir auðugra einstaklinga.

-Nýtið sameiginlegt ræktunarland og gróðurhús fyrir ræktun. Í nágrenni við Reykjavík og aðra þéttbýliskjarna er mikið af vanræktu ræktunarlandi og gróðurhúsum í niðurníslu. Athugið að sumt af þessu ræktunarlandi gæti þurft að taka yfir hvort sem það er í eigu ríkis, borgar eða sveitarfélags. Ekki eru allir þéttbýlisbúar í aðstöðu til beinnar þátttöku í þessháttar verkefnum. Þá geta komið til gjaldmiðilslaus vöruskiptakerfi eins og „LETS (Local Exchange Trading System)“ þar sem einstaklingar og hópar geta lagt inn bæði vöru og þjónustu og þannig safnað sér inneign og tekið hana út í annari vöru eða þjónustu (margar útgáfur eru til af þannig kerfum).

-Endurvekið foreldrarölt eða íbúarölt sem hverfagæslu. Götulögreglan er örfáir úttaugaðir, illa launuðir og pirraðir einstaklingar sem vegna mannfæðar þurfa að velja og hafna við hvert útkall.  Hvers samfélags verður best gætt af þeim sem raunverulega eru hluti af því. Þetta á betur við eftir því sem einingarnar verða minni.

- Einföld lán, eins og verðtryggð húsnæðislán, setja fólk í ánauð fyrir það eitt að vilja eiga þak yfir höfuðið. Það þarf ekki stóran hóp fólks til að það geti gengið upp að hætta að borga bönkunum. Fimm til tíu manna hópur myndi missa eigur sínar en samtaka hópur yfir hundrað einstaklinga sem neita að borga er í aðstöðu til að setja fram kröfur. Eitt þúsund manns sem standa saman eru allir vegir færir, neiti þau að viðhalda ægivaldi bankanna og styðji hvert annað í því. Líklega er ægivald bankanna ekki meira en svo að ef 7-10% skuldara hætta að borga, þá fara þeir á hausinn. Almenningur þarf ekki að tapa svefni yfir því, allra síst þau sem nú sofa ekki út af áhyggjum af skuldum.

-Þess eru dæmi að einstaklingar eða lítil fyrirtæki hafi fjárfest í húsnæði fyrir offjár og séu nú, í örvæntingarköstum, að rembast við að kreista leigjendur sína um hærri leigu til að standa undir eigin gróðavonum. Leiguverð er almennt að lækka og húsnæði af öllum stærðum og gerðum stendur autt. Hér þurfa leigjendur og aðrir að standa saman og beita þessa aðila þrýstingi tilbaka, hætta að borga þeim þar til þeir eru tilbúnir að semja um lægri leigu. Enn betra er að hreinlega taka húsnæðið og þjóðnýta það. Um borg og bý standa stæðilegar eignir fyrrum útrásarvíkinga sem kjörið er að þjóðnýta. Þeir geta aldrei búið í öllum þessum húsum og munu aldrei geta borgað þau heldur. Allar verðlagningar húsnæðis, hvort sem er til kaupa og leigu, hafa hvort eð er ekki tengst neinu raunverulegu verðmæti í mörg ár.  

Hafið í huga að það tilheyrir engri sérstakri stjórnmálastefnu og engri sérstakri hugmyndafræði að vinna með  nágrönnum, fjölskyldu og/eða vinum á þennan hátt. Hæfileikinn til að vinna með öðrum er einfaldlega stór þáttur í þróun og velgengni mannsins.

Sameiginlegu skipulagi af þessu tagi hefur verið bölvað í sand og ösku af hendi markaðstrúmanna. En rétt eins og markaður sem stjórnað er af þeim örfáu sem eru gráðugastir, er hvorki frjáls, né fellur undir neinar skilgreiningar á markaði, geta valdafíklar eyðilagt gott starf á skömmum tíma. Varið ykkur á karakterum sem setja sig í leiðtogastellingar í kreppunni, flestir þeirra eru að fóðra eigið egó. 

 

--

GÖMLU KERFIN SNIÐGENGIN

Á krepputímum opnast nýir möguleikar. Áherslur samfélagsins breytast frá því að bera traust til skyndigróða stórfyrirtækja og þeirra vafasömu viðskiptahátta, yfir í að snúast um okkar mannlegu velferð, okkar vellíðan og hamingju. Gömlu gróðagildin sem voru við lýði eru fallin og margir sitja eftir reiðir og ráðalausir, óvissir í hvorn fótinn skal stíga. Út úr fréttunum lesum við að engum er treystandi fyrir okkar velferð nema okkur sjálfum. Með því að taka þátt í því að móta umhverfi okkar gefst okkur tækifæri til að endurmóta ýmsan rekstur eftir okkar eigin þörfum, ekki þörfum örsmárra forréttindahópa.

Til þess þurfum við að vaxa upp úr því að ætlast til opinberrar þjónustu og læra að afgreiða okkur sjálf.

Samvinnuhópar og samfélagsmiðstöðvar geta séð fyrir mörgum grunnþörfum samfélagsins og rekstur þeirra verið í stöðugri þróun. Kostnaðurinn yrði í algeru lágmarki, enda yrðu miðstöðvarnar algerlega mannaðar af sjálfboðaliðum; fólki sem langar að hafa áhrif á þau málefni sem skipta þau máli.

Hér er lítið dæmi: Hjólreiðamiðstöðvar innan hverfa geta séð íbúum þeirra fyrir ókeypis aðstöðu til hjólreiðaviðgerða og viðhalds. Þær geta skipt lykilmáli í að koma upp umhverfisvænna og hagkvæmara samgöngukerfi, auk þess að halda úti fróðleik og fræðslu hvað varðar umferðakerfi.

Hugmyndina um hjólreiðamiðstöð má útfæra á ýmsan hátt. Í kjarnann byggist framkvæmdin á sjálfboðaliðum sem taka að sér að manna miðstöðina og halda utanum þá starfsemi sem fram fer innan hennar. Því fleiri sem taka þátt í að halda uppi starfsemi miðstöðvarinnar, því betur er hægt að dreifa ábyrgðinni á umsjón rýmisins yfir á fleiri einstaklinga. Ef að einungis ein manneskja kemur að því að halda uppi starfsemi miðstöðvarinnar, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að starfsemi hennar sé mjög virk, enda hefur ein manneskja takmarkaðan tíma og orku. Lykillinn að vel heppnaðri samfélagsmiðstöð er því samvinna.

Sjálfboðaliðarnir skipta með sér verkum, háð eigin tíma og hentisemi, en gott er að gera áætlun einn mánuð fram í tímann um hverjir skuli manna hverja vakt. Þekking á reiðhjólum er auðvitað grundvallarkostur, en þarf ekki að vera skilyrði, enda getur hópurinn lagt sig fram um að deila þekkingu sinni með öðrum og kennt fleirum það sem þarf fyrir hjólreiðaviðgerðir.

Þekkingin þarf þó ekki að vera það eina sem hópurinn deilir með öðrum. Hópurinn getur tekið að sér gömul og ónotuð/ónothæf hjól og gefið þeim nýtt líf. Hjólunum má svo koma aftur á göturnar með ýmsum hætti. Hægt er að dreifa hjólunum til hinna hjólalausu, í skiptum fyrir þjónustu innan verkstæðisins eða utan þess. Annar kostur væri að selja hjólin ódýrt til þeirra sem kjósa að kaupa þau. Jafnvel betra kerfi væri að bjóða almenningi afnot af hjólunum til styttri ferða innan hverfis, endurgjaldslaust. Einungis þyrfti að skila hjólunum aftur á tilteknar skilastöðvar. Með því móti væru hjólin nýtt til fullnustu. Gallinn við þetta kerfi væri þó möguleikinn á stuldi og skemmdarverkum. Mögulegt væri þó að sporna við slíku með því að mála hjólin í skærum auðþekkjanlegum litum, sem myndi þá minnka endursöluverðmæti þeirra, auk þess sem auðvelt væri að koma hjólunum aftur til skila, myndu þau falla í rangar hendur. Þetta kerfi er auðvitað ekki gallalaust, en með uppbyggingu trausts og samfélagsábyrgðar gengur þetta upp. 

Með sömu hugmyndafræði og býr bakvið reiðhjólamiðstöðina, er auðveldlega hægt að koma upp kerfi þar sem iðnaðarmenn og annað faglært fólk getur skipst á þjónustu, bókasöfn geta hýst lestrar og fræðihópa. Samfélagsrými geta hýst borgarafundi, kvikmyndasýningar, listasýningar, málþing, tónleika og námskeið. Jafn einfaldlega er hægt að koma á fót barnaheimilum þar sem barnagæsla er ókeypis, vöruskiptamarkaðir geta blómstrað og sjálfstæðir fjölmiðlar geta loksins haft svigrúm til að vinna frjálst.

Auk allrar þeirra þjónustu og þæginda sem við getum veitt hvort öðru gegnum samvinnuskipulag, þá færir þetta okkur nær hvert öðru. Þetta kallar líka á að hugsa út fyrir viðmið vinnumarkaðarins og allra þeirra kerfa sem tengjast honum.

Möguleikarnir á skipulögðum aðferðum til samfélagslegra betrumbóta er algerlega í höndum þeirra sem kjósa að taka ábyrgð.

------

VIRKT STARF GEGN SÓUN

Frá og með 26. Apríl 2008 hefur hópur ungra anarkista eldað og gefið mat á Lækjartorgi á hverjum laugardegi undir nafninu Food Not Bombs, eða Matur Ekki Sprengjur. Hér útskýrir hópurinn verkefnið: 

Food Not Bombs er alþjóðleg hreyfing sem varð til í Bandaríkjunum árið 1980. Venjulegt fólk, jafn venjulegt og ég og þú, var orðið þreytt á því að horfa upp á ríkisstjórnina eyða gríðarlegum fjármunum í stríðsrekstur á ári hverju á meðan mikill fjöldi fólks býr á götunni og hefur ekki efni á mat. Í stað þess að bíða lengur eftir aðgerðum stjórnvalda tók fólk málin í sínar hendur og byrjaði að gefa þeim mat sem þurftu og vildu.  

Á Íslandi er tiltölulega litlu fjármagni eytt í stríðsrekstur enda enginn her starfræktur hér. Ríkisstjórnin hefur samt sem áður sóað háum fjárhæðum í landkynningarhátíðir, ný sendiráð, ferðalög á einkaþotum, veislur, eftirlaun og frekari óþarfa. Sá peningur væri betur nýttur á öðrum vettvangi. 

Á hverjum degi henda matarverslanir gífurlegu magni af góðum og ætum mat í ruslið, líka hér á Íslandi. Ástæðan getur t.d. verið að síðasti söludagur er liðinn, útlitsgalli er á pakkningum eða ný sending kemur í búðina. Maturinn er samt sem áður í fínu lagi og því er ekkert sem mælir gegn því að matreiða hann og borða. 

Langstærstur hluti matvæla hér á landi er innfluttur. Það þýðir að hann er fluttur hingað með flugi eða skipum og það hefur gríðarleg umhverfisáhrif í för með sér. Framleiðsla á munaðarvörum fyrir vesturlönd hefur nú þegar lagt stór landsvæði í þriðja heiminum í rúst; regnskóga, vötn og beitilönd. Það er því beinlínis glæpur að henda fullkomlega ætum mat í ruslið.  

Rót þessa vandamáls liggur í kerfinu: ofneyslu og offramleiðslu – kapítalisma. Við þekkjum ekki annað en stútfullar verslanir af glænýjum og glansandi mat. Matvælaverslanir vilja halda ákveðnum staðli og vilja alls ekki verða þekktar fyrir að eiga ekki alltaf þessa og hina vöru. Það á alltaf að vera til meira en nóg. Þetta er velmegunarsjúkdómur.  

Auðlindir eru nægar til að fæða allan heiminn en vegna stéttaskiptinga og ójafnræðis milli samfélaga og innan samfélaga, lenda sumir undir og hafa ekki aðgang að mat. Samkvæmt Matvælaaðstoð SÞ deyja 10 milljón manns úr hungri og tengdum sjúkdómum á ári hverju.  Á sama tíma er offita að verða eitt stærsta vandamál vesturlanda og ætum mat er hent í ruslið í massavís.  

Öll þurfum við næringu, rétt eins og við þurfum loft, vatn, húsaskjól og umhyggju. Samfélag þar sem matur er munaðarvara er meingallað samfélag. Samfélag þar sem fáir einstaklingar geta grætt og orðið ríkir á nauðsynjavörum eins og mat, er gjörsamlega spillt samfélag.  

Við tökum ekki þátt í þessu spillta kerfi heldur notum afganga neyslusamfélagsins og matreiðum fyrir hvern þann sem vill fá sér að borða. Það munum við gera þangað til við sjáum raunverulegar breytingar.  

Matur Ekki Sprengjur er ekki góðgerðasamtök og við viljum engar umbætur. Við viljum algjöra byltingu; samfélag þar sem þarfir fólks vega þyngra en græðgi og ríkidæmi. Við viljum heilbrigt samfélag. 

Verkefni á borð við Food Not Bombs getur hver sem er sett upp. Best væri auðvitað ef nokkrir hópar myndu starfa í Reykjavík, hver í sínu hverfi. Hafðu samband ef þú vilt vera með eða stofna þinn eigin hóp og fá ráðleggingar og aðstoð. Eða byrjaðu bara! 

matur.ekki.sprengjur@gmail.com - Your browser may not support display of this image.www.foodnotbombs.net 

 

Til baka í greinar