Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Inngangur

 

  Þegar vandamál koma upp í lýðræðislegu samfélagi þannig að fólki finnst vegið að frelsi sínu eða réttlætiskennd sinni misboðið, er fyrsta hugsun flestra að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað í málinu. Þegar hinsvegar þessi sama ríkisstjórn eða einhver stofnun hennar bera ábyrgð á óréttlætinu, er hugað að kosningum – að kjósa betur næst – vitandi að í grundvallaratriðum mun það ekki breyta neinu.

 

  Þeir einstaklingar og hópar sem ekki vilja gefast upp við þær vonlausu aðstæður sem nútímalýðræði getur skapað, grípa til mótmæla og ýmissa annara aðgerða sem flokkast undir borgaralega óhlýðni og beinar aðgerðir. Í gegnum pólitíska sögu mannkyns hefur þetta þrennt verið virkt verkfæri þeirra sem barist hafa gegn óréttlæti en hafa ekki haft verkfæri valdhafa á hendi sér. Bætt kjör verkamanna og annara valdaminni hópa, réttindi kvenna, kosningaréttur og lýðræðisfyrirkomulagið sjálft komust á með þessum verkfærum fólksins; mótmælum, borgaralegri óhlýðni og beinum aðgerðum af ýmsum toga.

 

Andspyrnuhreyfingar ýmissa landa gegn hernámi nasista á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar beittu sér með beinum aðgerðum. Ghandi og fylgismenn hans frelsuðu allt Indland undan yfirráðum Breta með borgaralegri óhlýðni og Martin Luther King braut margar reglur síns samfélags þegar hann vann gegn kynþáttamisrétti í USA. Stríðsrekstur ríkisstjórna hefur verið stöðvaður vegna ófriðsamlegs þrýstings frá skipulögðum hópum meðal almennings. Þegar 60 bændur tóku sig saman og eyðilögðu stíflu í Laxá árið 1970 var það dæmi um vel heppnaða beina aðgerð. Eins atvikið þegar þrír anarkistar ruddust inn á ráðstefnu álframleiðenda á Hótel Nordica og slettu grænu skyri yfir ráðstefnugesti. Aðgerðin gaf skýr skilaboð um að þeir hefðu engan rétt til að djöflast frekar í náttúru og efnahag landsins. Um leið vakti hún aftur upp spurninguna um réttmæti stóriðjustefnu valdhafa.

 

Stúdentar hafa, a.m.k. síðustu fimmtíu árin, verið duglegir við að taka yfir skrifstofur stofnana og loka þeim heilu og hálfu dagana. Feministar hafa einnig verið afar óhlýðnir gegnum tíðina og fyrir utan að leggja niður störf í stórum hópum og sniðganga og áreita dónaleg fyrirtæki hafa feministar stofnað og rekið eigin fræðsluhópa um t.d. kynheilbrigði og sjálfsvörn kvenna. Þegar fjölskyldur og nágrannar halda götunni sinni hreinni frekar en að bíða eftir að bæjaryfirvöld skipi einhverjum að gera það er það bein aðgerð. Nágrannar stofna saman foreldrarölt til að tryggja að fíkniefnasalar og ofbeldismenn komi sér ekki fyrir í þeirra hverfum. Foreldrar tala við börn sín í stað þess að ætlast til þess að menntakerfið geri það. Kunningjar stofna leshópa frekar en að hangsa í háskóla og láta segja sér hvað þeim finnst um menn og málefni.

 

  Beinar aðgerðir geta því verið af ýmsum toga. Stundum löglegar, stundum ekki. Þær geta vakið athygli á ákveðnu málefni sem búið er að svæfa, þær geta truflað framgang mála og verkefna eða stöðvað þau og með þeim er hægt að byggja upp aðra möguleika til að lifa og starfa.

 

  Beinar aðgerðir í alvarlegri kantinum skyldi aldrei leggja í nema að vandlega íhuguðu máli og einungis þannig að allir þátttakendur séu reiðubúnir að taka afleiðingunum.

 

 

 

EF LÝÐRÆÐIÐ VAR EINHVERN TÍMA EINHVERS VIRÐI ÞÁ HAFA FRAMABRAUTIR STJÓRNMÁLANNA GERT ÚTAF VIÐ ÞAÐ.

 

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður lögð á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna, ríki og ríkisstjórnir, að því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins.

 

Fyrsti stóri bílaframleiðandi heims, Henry Ford, vildi lækka bílaverð til neytenda og bæta kjör verkamanna þegar fyrirtæki hans fór að skila verulegum hagnaði. Meðeigendur hans drógu hann þá fyrir lög og dóm og rétturinn dæmdi þannig að hlutverk fyrirtækisins væri ekki að skila gæðum til neytenda heldur til eigenda þess.

 

Fyrirtæki sem ætlað er að starfa sem þjónustufyrirtæki lenda í svipuðu ferli eftir því sem þau festast í sessi og stækka valdsvið sitt. Hér má nefna sem dæmi Landsvirkjun, orkuveiturnar og bankana. Stjórnendur þeirra hafa átt allan sinn feril innan valdapýramída þar sem til alls er að vinna að komast hærra. Því nær sem maður kemst þeim sem ofar sitja því betra. Þessvegna gera stjórnendur orkufyrirtækjanna hvað sem er til að hafa yfirmenn í áliðnaði góða. Völd álkónganna í heimsmarkaðnum eru meiri, þeim ber því að lúta. Að fá að vera undir þeim stærstu finnst íslenskum smákóngum vera heiður.

 

Lýðræðiskerfið ræður ekki við valdapýramída efnahagskerfisins. Kjörnir fulltrúar eiga stöðu sína undir góðri markaðssetningu flokks og ímyndar sem er kostuð af aðilum sem eru sterkir innan efnahagskerfisins. Stór verktakafyrirtæki eru dæmi um þrýstihóp sem er með fólk í áhrifastöðum innan ríkisbatterísins í rekstri. Stjórnmálaflokkum á Íslandi ber heldur engin lagaleg skylda til að gefa upp hvaðan fjárstyrkur þeirra kemur og virðing sumra þeirra fyrir lýðræðinu er ekki meiri en svo að þeir gera það ekki.

 

 

 

2.

 

Iðnbyltingin, sem hófst í Englandi fyrir um 250 árum og hefur breiðst um allan heim, vinnur hratt á auðlindum jarðar. Um leið vinnur hún hratt að eyðileggingu vistkerfa jarðarinnar. Uppgangur hennar hefur verið hraður vegna aðgangs að ódýrri orku (olíu) og hann mun ekki stöðvast fyrr en orkuna þrýtur eða vegna vistfræðilegs hruns. Það er engin leið að stöðva iðnbyltinguna eftir viðurkenndum pólitískum leiðum. Til þess eru völd þeirra of mikil sem engin tengsl finna við uppruna sinn í náttúrunni.

 

Þau sem bera ábyrgð á árásum á það lífkerfi sem allar lifandi verur á jörðunni eru hluti af, vita vel af ábyrgð sinni, þeim finnst bara peningar skipta meira máli.

 

Sá menningarhópur sem byggir Ísland lifði í 600 ár sem nýlenda undir erlendum konungi. Þegar þetta er skrifað hefur fulltrúalýðræði verið við lýði í 60 ár. Sá hugsunarháttur að það sé hlutverk einhverra annara að sjá um að hlutirnir gangi vel fyrir sig hefur náð að festa sig í sessi, rétt eins og meðal ákveðinna kynslóða innan þeirra menningarhópa sem lifðu í áratugi undir alræðisstjórn „kommúnista.” Því er sú hugsun ósjálfráð að félagslega þjónustu, stjórnmál og jafnvel mótmæli taki einhverjir hópar að sér.

 

Þau sem gagnrýna kerfið beina rökum sínum og tilfinningum að ríkisstjórnum og alþingi en gagnrýnin skilar engu því þessar stofnanir eru hluti af spilltu lýðræðiskerfi og þar með umkomulausar gagnvart efnahagslegum öflum.

Þær lagabreytingar sem lýðræðislegar stofnanir koma í kring eru nokkurn veginn þær einu sem trufla ekki valdajafnvægið og þær sem koma sér betur fyrir rekstur sem skilar fjársterkum aðilum arði. Þannig verða til lög sem draga úr réttindum launþega á atvinnumarkaði og lög sem breyta friðlýstum svæðum í iðnaðarhverfi. 

 

Stjórnmál eru ekki einkamál félagsmálafífla á framabraut. Stjórnmál eru hluti af því hvernig fólk lifir lífi sínu, þessvegna eiga allir sem lifa og þrífast innan samfélags að koma beint að ákvörðunum sem hafa áhrif á samfélagið og umhverfi þess. Einstaklingar sem taka að sér fasta stöðu sem fulltrúar einhverra annara eru enn á eigin framabraut. Þeir aðilar eru gjarnir á að lýsa mótmælum almennings sem „sjálfsögðum rétti borgara í lýðræðisríki” en vilji minnihlutahópa skiptir þá engu máli. Fyrir þeim er minnihlutahópurinn tapliðið sem tryggir þeirra eigin valdastöðu.

 

Við höfum engan áhuga á þessum brjóstumkennanlega „rétti til að mótmæla.” Við krefjumst þess að vera laus við misvitra einstaklinga sem gefa sig út fyrir að tala okkar máli og hafa vit fyrir okkur.

 

„Við heimtum ekki stærri bita af kökunni, við eigum allt helvítis bakaríið”

 

Það er svo margt sem við, sem teljumst til almennra borgara, þurfum að taka á. Heimurinn er fallegur en það er svo margt sem þarf að leiðrétta vegna þess að of mikil völd eru á höndum of fárra. Lýðræði er góð hugmynd en í of stórum einingum myndast forréttindahópar sem eiga allt of auðvelt með að brjóta af sér gegn heildinni. Ísland virðist einangrað en hinn almenni launþegi þarf ekki annað en að spyrjast fyrir um hvar lífeyrissjóðurinn fjárfestir sem honum er skylt að greiða í. Eins klukkutíma rannsóknarvinna gæti leitt í ljós að fjármunir sem launþeginn skapar með hluta af lífi sínu eru bundnir fyrirtækjum í vopnaframleiðslu og annari óhugnanlegri starfsemi sem eyðileggur fegurð heimsins (þegar kemur að fjárfestingum lífeyrissjóða er engin krafa um siðferði heldur einungis arðsemi). Þetta kerfi og öll hin kerfin sem það fléttast inn í, er ekki hægt að kjósa burt, það þarf að brjóta það niður með handafli.

 

 

„Aldrei efast um að lítill hópur borgara sem láta hlutina skipta sig máli og ganga ákveðið til verks, geti breytt heiminum. Reyndar er það eina aflið sem hefur einhvern tímann gert það.”

 

Margaret Mead (1901-1978)

 

Til baka í greinar