Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Hér er annar kafli, um borgaralega óhlýðni, úr bókinni „Beinar Aðgerðir og Borgaraleg Óhlýðni.“

 

KAFLI 2

 

 

BORGARALEG ÓHLÝÐNI

 

Skilgreining

 

Borgaraleg óhlýðni er að neita að hlýða lögum, kröfum eða fyrirskipunum ríkisstjórnar, fulltrúa hennar eða hverju öðru yfirvaldi. Óhlýðnin er sett skýrt fram en felur ekki í sér ofbeldi. Má segja að óhlýðnir borgarar séu að berjast fyrir því að samfélag sitt verði betra og fylgi við það hjarta sínu og sannfæringu frekar en settum lögum og félagslegum reglum.  

Fólk sem beitir sér í borgalegri óhlýðni getur kosið að brjóta ákveðin lög á markvissan hátt, t.d. með því að mynda hópa sem loka götum eða taka yfir opinberar byggingar.

  Þátttakendur gera ráð fyrir þeim möguleika að handbendi yfirvalda taki þá höndum eða jafnvel ráðist á þá og berji. Einstaklingar með reynslu af þátttöku í þannig aðstæðum eru oft að þjálfa fólk í viðbrögðum við handtökum og árásum þannig að ekki komi til átaka af hendi mótmælenda. Áherslan á friðsamlega andspyrnu kemur m.a. til af því að bregðist mótmælendur við handtökum með ofbeldi, eiga andstæðingar þeirra auðveldara með að fordæma aðgerðir þeirra og lýsa málflutning þeirra marklausan. Svari mótmælandi hótunum og dónaskap í sama dúr er hann/hún að gera sig að hluta af þeirri vél sem barist er gegn.

 

Dæmi um borgaralega óhlýðni

 

Á síðustu öld börðust íbúar fyrrum nýlenda vesturvelda fyrir sjálfstæði. Baráttan einkenndist af borgaralegri óhlýðni þegar borgarar héldu út á götur og mótmæltu. Gandhi þróaði þessa aðferð þegar hann var leiðtogi sjálfstæðishreyfingar Indverja undan kúgun bretaveldis. Baráttuhópar gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku beittu sér einnig í trássi við ríkjandi lög um mótmæli og aðgerðir almennings. Sama á við um baráttu margra minnihlutahópa fyrir mannréttindum eins og innflytjendur og samkynhneigða. Verkamenn í öllum löndum hafa barist af hörku fyrir kjörum sínum og einnig femínistar hafa verið afar óhlýðnir gegnum tíðina. Í mörgum löndum sem áður heyrðu undir „kommúnistastjórn” Sovétríkjanna tóku stúdentar og aðrir borgarar yfir göturnar til að mótmæla yfirráðum Kremlstjórnar.

Þetta eru allt þekkt dæmi úr sögunni sem allir geta tekið undir sem jákvæð dæmi um baráttu gegn fordómum og kúgun rotins yfirvalds. Þetta eru dæmi sem hægt er að setja fram án þess að nokkur dragi réttmæti óhlýðninnar í efa.

Ríkisstjórnir margra landa hafa lært af þessu og í stað þess að beita beinni kúgun og hráu ofbeldi til að stjórna löndum er beitt áróðri þar sem almenningi er talin trú um að gegnum lýðræðiskerfið hafi fólk almennt eitthvað að segja um gang mála í eigin samfélagi. Þau sem sjá í gegnum þetta og beita sér áfram gegn valdakerfinu er miklu auðveldara að stimpla sem óvini lýðræðis, óeirðaseggi og hryðjuverkamenn þegar fólk almennt trúir því að ríkið sé hluti af samfélaginu og geri því einungis góða hluti fyrir heildina.

Margir þeirra sem beita sér í aðgerðum sem flokkast sem borgaraleg óhlýðni gera það af trúarástæðum. Dæmi eru um presta sem hafa lagt sig alla fram í mótmælum gegn stríðsrekstri ríkisstjórna og verið handteknir mörgum sinnum.

 

MÓTRÖK GEGN BORGARALEGRI ÓHLÝÐNI

 

  Þeir sem andmæla borgaralegri óhlýðni segja hana óréttlætanlega því ranglátum lögum megi breyta eftir lýðræðislegum leiðum. En stundum er það stjórnarskráin og lög ríkisins sem mynda vandamálið, en ekki lausnina. Lagabreytingar geta tekið gífurlega langan tíma og alls ekki víst að neitt dragi úr ranglætinu þó að þær gangi í gegn. Að láta reyna á lagalegar leiðir „til hlítar" áður en gripið er til markvissra lögbrota með óhlýðni er ekki hægt, því lagalegar leiðir er hægt að teygja út í hið óendanlega. Þátttaka í slíkum þvælingi verður til þess eins að drepa niður baráttuanda hugsjónafólks. Baráttufólk er þá farið að taka þátt í sömu vélinni og það berst gegn og ómeðvitað farið að hlýða. Það er líka hægt að bíða næstu kosninga og bíða enn lengur eftir að eitthvað jákvætt fyrir grasrótarmálstað komi út úr þeim, en meðan fólk bíður getur mikil eyðilegging átt sér stað og dregið allan kraft úr fólki.

Önnur mótrök gegn markvissum lögbrotum er að þau brjóti upp sátt í samfélaginu. En löggjafinn og önnur valdamikil öfl, eins og stórfyrirtæki og stofnanir, eru oft sá aðili sem rýfur sáttina og næsta víst er að einstaklingar verða ekki öðrum réttlátari eða hæfari til að dæma um rétt og rangt þó þeir fái völd í hendurnar. Sé einstaklingum raunverulega annt um að samfélag sitt leitist við að vera sem réttlátast, ber þeim skylda til að berjast gegn óréttlátum lagasetningum og yfirgangi með öllum ráðum og auðvitað ber þeim engin skylda til að hlýða óréttlátum lögum.

Samfélag er summa allra þeirra sem eru hluti af því og því fleiri sem leitast við að taka þátt í betrun þess, því betra.

Fylgispekt og hugsunarlaus hlýðni er mun skaðlegri fyrir samfélag en markviss og meðvituð óhlýðni.

Andmælendur borgaralegrar óhlýðni hafa einnig haldið því fram að aðgerðir sem brjóta lög verði öðrum til eftirbreytni og geti leitt til stjórnleysis. Mörgum óhlýðnum einstaklingum finnst stjórnleysi (þ.e. þegar samfélag er skipulagt í litlum einingum án yfirvalds eða yfirstjórnar) hið besta mál en hinsvegar er alltaf eitthvað af rugludöllum sem gætu rangtúlkað markvissa óhlýðni sem glæpi og apað eftir þeim í hugsunarleysi. Kærulaust fólk getur líka tekið upp á hugsunarlausri eftiröpun og skaðað bæði sjálfa sig, nánasta umhverfi sitt og málstað mótmælenda. Þessvegna þurfa mótmælendur að forðast hrokafulla framkomu og vanda sig við bæði undirbúning og framkvæmd aðgerða sinna. Til dæmis fór þjóðhetjan Ghandi ekki út í aðgerðir fyrr en samningaleiðin var fullreynd og hann tók barsmíðum lögreglu, handtökum og refsingum án þess að svara með ofbeldi þannig að ekki var hægt að tengja athæfi hans við glæpi.

Henry Thoreau sagði einu hættuna sem skapaðist af borgaralegri óhlýðni geta kviknað af viðbrögðum yfirvalda við aðgerðunum.

Þeir aktivistar sem vita hvað þeir eru að gera skyldu fagna því að aðrir hópar taki aðgerðir upp eftir þeim og hvetja til þess.

Það er staðreynd að þegar almenningur tekur ekki virkan þátt í samfélagi sínu munu fámenn stjórnunarkerfi byggð á valdafíkn og græðgi eflast og styrkjast möglunarlaust. Fyrr en varir er daglegt líf almennings orðið svo pakkað inn í reglugerðir og skipulag að friðsamleg mótmæli flokkast undir hryðjuverk … og öllum er sama. Það er miklu skelfilegra en „hættan” á stjórnleysi.

Immanúel Kant: „Þegar löghlýðni getur valdið meiri skaða en óhlýðni er rétt að óhlýðnast."

 

Til baka í greinar