Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

KAFLI 3

 

FRIÐSAMLEG MÓTMÆLI

 

Friðsamleg mótmæli eru hófsamari afbrigði af borgaralegri óhlýðni en eiga frekar við um þá afstöðu að neita að taka þátt í einhverju sem ríkisstjórn eða annar valdamikill hópur eða stofnun stendur fyrir.

 

Þær aðstæður þar sem hægt er að sýna virka andstöðu með því að sitja heima eru sjaldnast fyrir hendi.

 

Friðarsinnar og herstöðvaandstæðingar eru líklega þeir aktivistahópar sem hvað þekktastir eru fyrir áherslu á friðsamleg mótmæli. Það eru margar leiðir til að ná fram friði og réttlæti. Það þarf að vinna að uppbyggingu réttláts heims með sjálfbærri þróun og þau verk þurfa að vera í höndum almennra borgara á grasrótargrundvelli. Það þarf að finna skapandi leiðir til að leysa deilumál og ný félagsleg form og sjálfbær samfélög til hliðar við þau sem þegar eru þekkt.

 

Sumar aðstæður gera kröfu um að lagt sé í markvissar, friðsamlegar aðgerðir. Til dæmis þar sem mikill valdamunur er þegar tveir deila, þannig að þau sem ekki hafa völdin þurfa að leggja í aðgerðir til að viðræður geti hafist. Þörfin fyrir aðgerðir getur byggst á grundvallaratriðum eins og að valdameiri aðilinn viðurkenni mótaðilann sem jafningja eða viðurkenni að yfirhöfuð sé um eitthvert vandamál að ræða.

 

Markmið friðsamlegra aðgerða er bæði andspyrna og umræður. Umræðuhliðinni er þá ætlað að sannfæra fólk eða vekja það til umhugsunar og andspyrnan gerir kröfu um breytingar.

 

AÐFERÐIR VIÐ MARKVISSAR FRIÐSAMLEGAR AÐGERÐIR

 

Dramatískar aðgerðir, yfirleitt táknrænar, geta nýst vel við að fletta ofan af málum eða leiða athygli að þeim. Sem dæmi má nefna baráttufólk fyrir heimilislausa í Washington DC sem tóku við líki heimilislauss manns sem frosið hafði í hel, lögðu hann í kistu og báru hann að ráðhúsinu. Þannig lögðu þau hann bókstaflega fyrir þau sem báru ábyrgðina.

 

Fólk getur hinsvegar fengið aðra með sér til að leggja niður vinnu, skipuleggja setuverkföll eða tímabundna vinnustöðvun, það er hægt að dreifa bæklingum á vinnustöðum, í skólum og á götum úti, mála skilyrt skilaboð á götur og veggi (hér er ekki átt við veggjakrot), hengja upp plaköt með skilaboðum, skrifa lesendabréf og greinar í blöð, neita að borga skatta, sniðganga vörur og þjónustu frá ákveðnum fyrirtækjum og stofnunum, hvetja aðra til hins sama og leggja fram kærur, fólk getur skipt sér niður á vaktir fyrir framan opinberar byggingar og skrifstofur fyrirtækja og þannig truflað starfsemi þeirra.

 

Sumt af því sem einkennir friðsamlegar herferðir er:

 

  • Alger virðing fyrir andstæðingum og öllum hlutaðeigandi.
  • Umhyggja fyrir öllum sem koma að málum.
  • Engin þátttaka í neinu sem meiðir, særir eða niðurlægir fólk.
  • Ef ekki verður komist hjá sársauka vilja þátttakendur frekar taka hann á sjálfa sig en að leggja hann á aðra.
  • Trú á að allir geti breyst.
  • Höfðað til mannlegra eiginleika mótaðilans.
  • Viðurkennt að enginn hefur fullkomlega rétt fyrir sér og því er leitast við að leiða saman okkar „sannleik” og „sannleik” andstæðinganna.
  • Þjálfun og undirbúningur til að tryggja ofbeldislausa hegðun.
  • Það er tekið með í reikninginn að í upphafi skyldi endirinn skoða þannig að þær aðferðir sem er beitt verða að vera í samræmi við þá útkomu sem óskað er eftir.
  •  

Það er margt hægt að gera en ef fólk vill síður hafa sig í frammi í jafn litlu samfélagi og Ísland er, getur það stutt við bakið á hópum sem beita sér í beinum aðgerðum með því að styrkja þá efnislega eða fjárhagslega með styrktartónleikum, matargjöfum eða öðrum uppákomum svo þau sem virkilega eru að beita sér finni stuðninginn og geti haldið áfram sínu góða starfi.

 

 

 

 

 

 

Til baka í greinar