Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

KAFLI 4 úr bókinni „Beinar Aðgerðir og Borgaraleg Óhlýðni.

 

 

 

 

BEINAR AÐGERÐIR

 

  Hugmyndin um beinar aðgerðar er oft misskilin. Þegar frasinn var fyrst notaður (um 1890) átti hann við andstæðuna við vinnubrögð þings (á þingi er málefnum ekki sinnt af þeim sem koma þeim beint við, heldur fyrrnefndum „fulltrúum” þeirra). Frá sjónarhóli verkalýðshreyfingarinnar þýddi hugtakið iðnaðaraðgerðir, sérstaklega verkföll, viðskiptabann og skemmdarverk sem litið var á sem undirbúning og æfingar fyrir byltingu. Þetta voru aðgerðir sem komu beint að aðstæðunum og fólkinu sem átti hlut að máli og þeim var ætlað að ná árangri frekar en vekja athygli.

 

Þetta ætti að vera nokkuð skýrt en beinum aðgerðum hefur oft verið ruglað saman við friðsamleg mótmæli og borgaralega óhlýðni. Það sama verður líklega uppi á teningnum í gegnum þessa litlu bók. Það sem skiptir máli er árangurinn af aðgerðunum

 

Þegar Gandhi byrjaði að lýsa því sem beinum aðgerðum sem í raun var friðsamlegt form borgaralegrar óhlýðni, fóru öll þrjú formin að taka á sig svipaða merkingu og beinar aðgerðir virtust vera allar birtingarmyndir pólitískra aðgerða sem voru ólöglegar eða á einhvern annan hátt fóru í taugarnar á yfirvöldum.

 

  Hugtakið hefur tekið á sig ýmsar myndir og herskáir friðarsinnar eru enn að brjótast inn í herstöðvar, róttækir stúdentar enn að taka yfir háskólabyggingar, tekið er hús á illræmdum fyrirtækjum og vinnustöðvun skipulögð í verksmiðjum um allan heim. Beinar aðgerðir eru svo algengar að þær hafa snert líf okkar allra.

 

Beinar aðgerðir eru sérstaklega heillandi í allri grasrótarpólitík vegna þess hversu samkvæmt það er sjálfu sér að koma beint að málunum í stað þess að kjörnum fulltrúum sé ætlað að sjá um þau. Einn af mörgum gagnrýnipunktum anarkista á ríkisstjórnir er einmitt að einstaklingsframtakið og náttúruleg samvinnuferli deyji út undir þeim. Beinar aðgerðir eru því náttúrulegt ferli innan samfélaga manna, aðferð sem vex og styrkist þegar henni er beitt og sem hægt er að beita til að skapa og viðhalda frjálsu samfélagi.

 

Markmið beinna aðgerða geta verið nokkur. Ef t.d. bein aðgerð miðar að truflun á ákveðinni starfsemi er sú truflun markmið í sjálfu sér og fjárhagslegt tjón andstæðingsins má alveg verða tilfinnanlegt auk þess sem framkvæmdir á staðnum tefjast eða stöðvast í a.m.k. þann tíma sem aðgerðin stendur yfir. Að hópur fólks skuli dirfast að trufla starfsemi sem nýtur góðsvilja sitjandi ríkisstjórnar er holl áminning til pólitískra og efnahagslegra forréttindahópa um að nóg sé komið af yfirgangi.

 

 Ekki síður mikilvæg eru áhrif af aðgerðinni á aðra einstaklinga og hópa sem eru aðgerðinni og hugmyndafræðinni bakvið hana, sammála, og sjá í henni hvatningu til að taka þátt eða gera svipaða hluti fyrir eigin baráttumál. Einnig geta mótmælendur sem eru hógværari en svo að þeir treysti sér til að taka þátt í beinum aðgerðum í okkar litla samfélagi, fundið mikla hvatningu í því hvað aðrir þora að ganga langt. Beinar Aðgerðir geta þannig einnig verið táknrænar og vakið athygli á rangindum eða mannréttindabrotum, eins og ýmis önnur friðsamleg mótmæli, en almennt eru þær herskárri og beinskeyttari en svo.

 

Það er mikil ábyrgð öxluð með þátttöku í beinum aðgerðum því ólöglegar róttækar aðgerðir eins og vinnutruflun leiða til þess að fólk er handtekið, dregið fyrir dóm og sektað og látið sitja af sér. Hluti af aðgerðunum getur verið að sitja af sér sektardóm frekar en að borga því afli sem kúgar en málskostnaður er annar þáttur sem gæti reynst hugsjónafólki þungur baggi að bera.

 

Því fleiri pólitískar handtökur sem um er að ræða og því fleiri pólitíska fanga sem ríkið situr uppi með því meiri er þrýstingurinn frá því hugsjónafólki sem reiðubúið er að axla þessa ábyrgð. En þau sem eru reiðubúin til þess þurfa dugmikinn stuðningshóp í kringum sig.

 

 

 

 

 

11 ALHÆFINGAR UM EÐLI OG ÁHRIF BEINNA AÐGERÐA, LEIÐRÉTTAR

 

 1. Beinar Aðgerðir samsvara hryðjuverkum.

 

Hryðjuverk beinast markvisst að því að skelfa fólk og þannig lama það. Beinum Aðgerðum er hinsvegar ætlað að vera fólki innblástur og hvatning og sýna í verki hvernig einstaklingar geta náð sameiginlegum markmiðum sínum af sjálfsdáðun. Hryðjuverk eru hinsvegar tæki félagslega aðskilins hóps sem leitast við að ná völdum fyrir eigin hagsmuni en Beinar Aðgerðir sýna fram á möguleika sem allir geta nýtt sér. Þannig hvetja Beinar Aðgerðir til þess að fólk læri að stjórna eigin lífi. Þegar lengst er gengið, geta Beinar Aðgerðir hindrað umsvif stórfyrirtækis eða stofnunar sem aðgerðasinnar telja hafa óréttlæti í frammi, en þetta er einfaldlega eitt form borgaralegrar óhlýðni (eða borgaralegs hugrekkis) en ekki hryðjuverk.

 

 1. Beinar Aðgerðir eru ofbeldi.

 

Að kalla það ofbeldi þegar aðgerðir valda eignatjóni hjá pólitískum flokk sem hvetur til stríðs, eða valda fjárhagstjóni hjá fyrirtæki sem herjar á náttúruna af einskærri græðgi, er að setja hluti framar náttúru og mannslífum. Þessi rök gegn Beinum Aðgerðum eru í raun að réttlæta ofbeldi gagnvart lifandi verum með því að beina athyglinni að eignarréttinum og frá grundvallarspurningum.

 

 1. Beinar Aðgerðir eru ekki pólitísk tjáning heldur glæpir.

 

Því miður er ólögmæti aðgerða illa marktækur mælikvarði á réttmæti þeirra. Að tala gegn aðgerðum vegna þess að þær séu ólöglegar er að horfa framhjá spurningunni um hvort þær séu siðferðilega réttar. Að halda því fram að fólk verði að fara að lögum þó að viðkomandi lög virðist siðferðilega röng eða viðhaldi þannig aðstæðum, er að segja gerræðislega úrskurði löggjafarvaldsins (sem oft voru festir í lögum mörgum kynslóðum fyrr) búa yfir sterkari siðferðisvitund en manns eigin samviska. Þessi rök krefjast einnig hlýðni við óréttlæti. Þegar lagasetningar verja óréttlæti er ólöglegt athæfi engin siðleysa og löghlýðni engin dyggð.

 

4. Þar sem fólk nýtur málfrelsis er engin þörf fyrir Beinar Aðgerðir.

 

Í samfélagi þar sem fjölmiðlun er ískyggilega háð fjársterkum fyrirtækjum og stjórnmálaflokkum, getur verið nærri ómögulegt að koma af stað almennri umræðu um málefni nema eitthvað komi til sem vekur athygli á því. Við þannig aðstæður geta Beinar Aðgerðir verið leið til að efla málfrelsi frekar en hitt. Einnig, þegar fólk sem annars myndi standa gegn óréttlæti, hefur tekið því sem óhjákvæmilegu og látið það því afskiptalaust (eða vanist því að búa við það), þá þarf að sýna því fram á að ýmsir möguleikar séu í stöðunni frekar en að gefast upp.

 

 1. Beinar Aðgerðir skapa fjarlægð milli aðgerðasinna og almennings.

 

Þvert á móti þá finnur það fólk sem upplifir flokkapólitík sem fjarlæga samfélaginu, bæði ögrun og innblástur í Beinum Aðgerðum. Þar sem einstaklingar eru hvor öðrum ólíkir er misjafnt hvaða nálgun á viðfangsefni höfðar til þeirra. Hreyfing með ákveðin markmið verður að vera breiðvirk og innihalda marga möguleika til þátttöku. Stundum er fólk með sömu markmið og aðgerðasinnar að gagnrýna aðferðir þeirra harkalega og eyða allri orku sinni í að harma þær. Þannig búa þau sig undir að tapa í stað þess að nota tækifærið til að beina sjónum almennings að því sem málið snýst um.

 

 1. Fólk sem beitir sér í Beinum aðgerðum ætti frekar að vinna eftir viðurkenndum pólitískum leiðum.

 

Mörg þeirra sem beita sér í beinum aðgerðum vinna einnig innan kerfisins. Að beita sér innan viðurkenndra stofnana til að leysa vandamál þýðir ekki að viðkomandi verði að hætta að vinna að lausnum þegar opinberar leiðir ná ekki lengra.

 

 1. Beinar Aðgerðir útiloka almenning frá þátttöku.

 

Sum form Beinna Aðgerða eru ekki öllum opin en það minnkar ekki vægi þeirra. Allir hafa mismunandi áherslur og ólíka hæfileika og ættu að hafa frelsi til að taka þátt í aðgerðum og finna upp á þeim eftir eigin höfði. Það sem skiptir höfuðmáli er hvernig starfsemi hópa sem vinna að sameiginlegum langtíma markmiðum, fléttast saman þannig að hóparnir bakki hvern annan upp.

 

 1. Beinar Aðgerðir eru heigulsháttur

 

Þessu er nær einungis haldið fram af einstaklingum sem njóta þeirra forréttinda að hafa völd í samfélagi og fylgjendum þeirra. Þeir eru þá ekki í neinni hættu á að verða fyrir aðkasti vegna þess sem þau segja eða gera. Ef við tökum dæmi af andspyrnuhreyfingum ýmissa landa Evrópu gegn hernámi nasista á sínum tíma, þá hefðu meðlimir þeirra skrifað undir eigin dauðadóm hefðu þau starfað fyrir opnum tjöldum. Þar sem ríkisstjórn íslands er einnig að undirbúa lagabálk til að geta skellt hryðjuverkastimpli á aðgerðafólk, er ekki að undra að einstaklingar sem sýni af sér pólitíska óhlýðni vilji halda persónulegum upplýsingum leyndum.

 

 1. Það eru bara menntaskólakrakkar, illa stæðir einstaklingar eða örvæntingarfullt fólk o.s.frv. sem stendur í Beinum Aðgerðum.

 

Þessu er yfirleitt haldið fram án rökstuðnings til þess að drulla yfir aðgerðir. Raunin er sú að það er löng hefð fyrir Beinum Aðgerðum meðal fólks af öllum toga. Eina fólkið sem þetta á ekki við eru þau sem hvað best eru sett í hverju samfélagi. Einhvernveginn virðast viðurkenndar pólitískar leiðir henta markmiðum þeirra hið besta.

 

 1. Beinar Aðgerðir eru oft verk útsendara sem vilja eyðileggja hreyfingar innanfrá.

 

Einnig þessu er yfirleitt skotið fram úr fjarlægð og alveg rakalaust. Að halda þessu fram gerir ekkert annað en draga úr krafti hverrar hreyfingar og aðgerðar. Virkir einstaklingar geta alveg tekið upp á þessu sjálfir, til þess þarf ekki þá kænsku og það innsæi sem lögreglunni er ætluð, útsendara ríkisins sem allt á að vita og sjá. Svona alhæfingar gera fyrirfram ekkert úr gildi þess að nota fjölbreyttar aðferðir við baráttumál.

 

 1. Beinar Aðgerðir eru hættulegar og geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir aðra.

 

Beinar Aðgerðir geta verið hættulegar þar sem pólitískt umhverfi er mjög kúgandi og það er mikilvægt að þau sem beita sér þannig gæti þess að leggja ekki annað fólk í hættu. Hinsvegar er það engin ástæða til að beita sér ekki, þvert á móti. Því hættulegra sem það er að beita sér utanvið viðurkenndar pólitískar leiðir því mikilvægara er að láta verða af því. Yfirvöld nota kannski Beinar Aðgerðir sem afsökun til þess að taka harkalega á saklausu fólki, rétt eins og ríkisstjórnir margra landa hafa verið að gera síðan 11. sept. 2001, en þau sem eru við völd eru þau sem eiga að svara fyrir það óréttlæti sem þau standa fyrir, ekki þau sem standa gegn þeim. Eins getur fólk sem beitir sér í Beinum Aðgerðum sjálft verið í hættu, en þegar óréttlætið er mikið getur verið hættulegra og óábyrgara að láta óréttlætið fara sínu fram.

 

 1. Beinar Aðgerðir skila aldrei árangri.

 

Hver einasta pólitísk hreyfing sögunnar, hvort sem um  er að ræða kvenréttindahreyfinguna eða baráttu verkamanna fyrir bættum kjörum, hefur notað eitthvert form Beinna Aðgerða. Þannig aðgerðir geta stutt við aðrar leiðir pólitískrar baráttu á marga vegu. Þó ekki væri nema að benda á nauðsyn þess að lappa upp á starfsemi stofnana og færa þeim vopn í hendur sem vinna í því. En þær geta gengið miklu lengra og bent á möguleika þess að tilvera manna sé skipulögð á allt annan hátt en nú þekkist, þannig að allt vald dreifist jafnt innan samfélaga og allir meðlimir þeirra hafi jafnan rétt til að hafa áhrif á þau mál sem öllum koma við.

 

 

 

 

 

 

 

 

SKEMMDARVERK?

 

Skemmdarverk eru einn möguleiki, þau eru ekki ofbeldi séu þau framin að vel athuguðu máli og á þann hátt að öruggt sé að ekki geti á nokkurn hátt stafað af þeim hætta. Allir friðarsinnar geta t.d. lýst yfir stuðningi við eldri dömurnar tvær sem brutust inn á herstöð í Englandi og eyðilögðu stýrikerfi sprengjuflugvéla með slaghömrum þannig að vélarnar komust ekki til að varpa sprengjum á fólk og lönd. En það er líka ansi hætt við því að þessar konur séu nú annaðhvort að sitja af sér fangelsisdóma eða vinna fyrir háum sektum.

 

Markmið þeirra sem beita skemmarverkum er að valda eignatjóni hjá aðilum sem eru í stríðsrekstri, kynda undir fordómum, eyðileggja ósnortna náttúru eða hvað annað sem styrinn stendur um í það og það skiptið. Skemmdarverkamenn vonast til að aðgerðir þeirra valdi það miklu fjárhagslegu tjóni að fyrirtækið, samtökin eða stofnunin neyðist til að hætta við það verkefni sem veldur deilunum.

Sumir aðgerðaspekingar vilja meina að þegar það er nefnt ofbeldi þegar framin eru skemmdarverk á vinnuvélum sem einungis er ætlað að beita beint til að eyðileggja ósnortna náttúru, eða valdið er eignatjóni hjá pólitískum flokki sem hvetur til stríðs, sé að setja hluti framar náttúru og mannslífum. Þessi rök gegn aðgerðum eru í raun að réttlæta ofbeldi gagnvart lifandi verum með því að beina athyglinni að eignarréttinum og frá grundvallarspurningum, en auðvitað skyldi enginn fara út í skemmdarverk nema að hafa hugsað sig að minnsta kosti þrisvar um.

 

Næsta víst er að skemmdarverk í miðri baráttuherferð geti eyðilagt það sem þegar hefur áunnist. Því skyldi enginn aktivisti sem hluti er af  hreyfingu eða hóp ákveða upp á eigin spýtur að skemmdarverk verði málstaðnum til gagns.

 

 

 

Til baka í greinar