Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

KAFLI 5

 

 

SKILGREININGAR, VANGAVELTUR OG TILLÖGUR VARÐANDI RÓTTÆKAR BEINAR AÐGERÐIR OG SKIPULAG ÞEIRRA:

 

Einstaklingar sem vilja vera virkir í mótspyrnu við ranglátt framferði valdamikilla hópa geta skipulagt sig á ýmsa vegu, hvort sem er einstaklingar, litlir hópar eða hreyfingar. Hinsvegar geta einstaklingar einangrast og hreyfingar staðnað, því mælum við hér með litlum einingum -  markmiðshópum (affinity groups).

 

MARKMIÐSHÓPUR (AFFINITY GROUP):

 

Markmiðshópur er lítill hópur aktívista (aktivisti er slangur yfir einstakling sem er virkur í grasrótarstarfsemi) sem vinna saman að beinum aðgerðum. Þessir hópar telja yfirleitt 3 til 20 einstaklinga. Skipulag þeirra er flatt, þannig að enginn hefur leiðtogastöðu og yfirleitt er notast við upplýst samþykki (consensus) þegar rætt er um markmið og leiðir innan hópsins (lesið meira um upplýst samþykki/einróma ákvörðun í viðauka 1).

 

Hópurinn samanstendur yfirleitt af vinum eða einstaklingum sem tengjast félagslega og hugarfarslega. Smæð hópsins og tengsl meðlima hans gerir það að verkum að útsendarar lögreglu geta ekki potað sér inn í hann til að komast á snoðir um hvað grasrótin er með á prjónunum.

 

 Skipulagsform hópsins er sveigjanlegt og síbreytilegt og hópurinn aldrei það stór að ekki sé hægt að ræða hlutina á óformlegan hátt. Þegar lýðræðisleiðum er beitt innan hóps, lokar það alltaf á rödd einhverra innan hópsins og því nota markmiðshópar upplýst samþykki nema hópurinn sé það lítill að honum nægi að hittast í vinaspjalli.

 

 Markmiðshópar geta byggt á sameiginlegri hugmyndafræði (t.d. anarkisma), sameiginlegum málstað (eins og að verja náttúruna) eða hæfni eða hlutverki (t.d. fyrsta hjálp eða samskipti við fjölmiðla þar sem stórtæk mótmæli eiga sér stað).

 

Hóparnir geta verið bæði opnir eða lokaðir fyrir nýjum meðlimum en það síðarnefnda er mun algengara. Einstaklingar sem vilja taka þátt í markmiðshóp geta stofnað sinn eigin, eða það sem algengara er, áttað sig á því að þau eru þegar hluti af þannig hóp og þurfa bara að byrja að halda utan um hann á markvissan hátt.

 

Ákveðinn hópur fólks getur unnið saman aftur og aftur sem markmiðshópur með mismunandi markmið í hvert skipti. Meðlimir geta einnig verið hluti af öðrum hópum með öðru fólki, hópar geta brotnað upp í minni markmiðshópa og meðlimir geta líka verið virkir utan við þetta skipulagsform.

 

Til að stofna hóp og halda honum gangandi þarf sem sagt hóp af fólki sem getur treyst hvert öðru og komist að samkomulagi, það þarf ákveðna leynd, góða hugmynd, skipulag til útfærslu hennar og til að geta brugðist við öllum uppákomum, kannski þarf smáskammt af hugrekki í bland og svo er hægt að leggja í aðgerðir!

 

 

 

UNDIRBÚNINGUR FYRIR AÐGERÐIR

 

 

RANNSÓKN Á STARFSEMI FYRIRTÆKJA OG STOFNANA

 

Til þess að aktivistahópur byggi málstað sinn á réttum upplýsingum, þarf góða rannsóknarvinnu.

Það má byrja á að athuga hvað aðrir hópar hafa þegar tínt til og grafið upp. Síðan væri það góð byrjun að hringja í fyrirtækið og á einhverjum forsendum biðja kurteislega um að fá senda ársskýrslu þess. Það er hægt að kynna sig sem lausaleiksblaðamann eða háskólastúdent í ritgerðavinnu. Internetið er yfirleitt á sínum stað og fullt af upplýsingum en stundum þarf að læra að nota það. Kunnir þú það ekki þá skaltu finna fólk sem kann það, finndu heimasíður aðgerðahópa erlendis og skrifaðu þeim. Heimasíður þeirra fyrirtækja og stofnana sem athyglin beinist að eiga það til að birta og stæra sig af ótrúlegustu hlutum sem seinna eru teknir út. Fylgist með fréttum úr viðskiptaheiminum, bæði í almennum fjölmiðlum og netmiðlum. Notið almenningsbókasöfnin, starfsfólk þeirra getur hjálpað við að leita uppi greinar um fyrirtæki eða málaflokka.

 

Þegar búið er að fá nokkuð góða grunnmynd af starfsemi fyrirtækisins er kominn tími til að fylgja eftir þeim málaflokkum sem fnykur er af. Fáið viðtal, aftur getur lausaleiksblaðamaður, stúdent eða einstaklingur í atvinnuleit komist að. Aðgætið klæðaburð í stíl við það sem viðkomandi segist vera. Í upphafi er gott að beina viðtalinu að jákvæðri ímynd fyrirtækisins til að virka trúverðugri.

 

Verið alltaf vingjarnleg við ritara og aðra launaþræla. Hafið upp á óvinum fyrirtækisins. Viðtal við kynningarfulltrúa fyrirtækisins er best að taka allra síðast, þegar mikilvæg atriði eru komin á hreint og þeir geta síður logið að viðmælanda sínum. Hafið fyrirfram á hreinu hvaða svörum má búast við og rétt er að flikka upp á þekkingu sína í orðagjálfri viðskiptaheimsins. Það getur einnig verið gott að ákveða fyrirfram hvort maður vill að kynningarfulltrúinn sé manni vinveittur eða ekki þegar viðtalinu lýkur. Skráið viðtalið niður í smáatriðum og takið eftir hvað viðmælandinn forðast að ræða.

 

Þegar það sem fannst er sett fram sem blaðagrein, bók eða bæklingur skal geta heimilda. Notið mikið af orðum eins og „samkvæmt” og „mögulega” í textanum.

 

Hvað hægt er að gera í framhaldinu er einungis háð ímyndunarafli þeirra sem hafa upplýsingarnar undir höndum (og afleiðingunum sem gætu hlotist af að því að nota þær). Ýmislegt sem fólk hefur gert hingað til er t.d. greinaskrif í dagblöðin, fólk setur aðra fjölmiðla inn í málið, skrifar dreifirit og bæklinga til dreifingar í skólum og á vinnustöðum, upplýsingum má beina til hluthafa fyrirtækisins, hópur fólks getur lokað dyrum fyrirtækisins eða tekið skrifstofur þess yfir, stöðvað vinnu á vinnusvæði og  kært fyrirtæki fyrir auglýsingafals eða ólöglega starfsemi o.fl. o.fl..

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

UNDIRBÚNINGUR FYRIR BEINAR AÐGERÐIR

 

Undirbúningur er alltaf lykilatriði að því að ná árangri, sama hvers kyns aðgerð fólk er með í bígerð. Það gleymist allt of oft að velta fyrir sér hvaða viðbröðum má búast við, hvað þarf að hafa með sér og hvert hlutverk hvers og eins er. Mikilvægur þáttur í undirbúningi er að gera sér grein fyrir því að allar aðgerðir, sama hversu friðsamlegar og hógværar þeim eru ætlað að vera, geta leitt til samstuðs við lögreglu og öryggisverði. Verið alltaf með lagalegan rétt ykkar á hreinu áður en lagt er í aðgerðir og gerið aldrei ráð fyrir því að verða ekki handtekin.

 

Hlutverkaskipting

 

Stuðningshlutverk ýmiskonar eru afar mikilvæg til þess að aðgerðir gangi upp og beri árangur. Það er sjaldnast neinn „hetjuljómi” yfir þeim en þau er ekki síður mikilvæg en hlutverk þeirra sem standa í meira stappi en aðrir. Aðgerðir munu ekki eiga sér stað án þeirra. Hér eru nokkur dæmi:

 

Flutningar:  Ef fólk kemst ekki á staðinn verður auðvitað ekki neitt úr neinu. Við margar aðgerðir þarf bíl og fólk til að aka þeim. Fólk þarf líka að komast aftur heim svo að bílstjórar ættu frekar að reyna að forðast handtöku.

 

Stuðningur vegna lögregluafskipta: Einn eða tveir einstaklingar sjá um samskipti við lögreglu á staðnum. Hafa yfirsýn yfir hverjir eru í haldi og hvar þeir eru, þeir vita nöfn allra í hópnum og fylgist með öllum samskiptum við lögreglu. Myndavél og tökuvél eru hentug verkfæri fyrir þetta hlutverk.

 

Fjölmiðlafulltrúi: Sér um samskipti hópsins við fjölmiðla. Sendir út fréttatilkynningar og hringir í þá fjölmiðla sem óskast á staðinn … ef eftir þeim er óskað. Fjölmiðlafulltrúi er með allt á hreinu hvað varðar mál málanna og getur komið því frá sér skýrt og skorinort. Þetta skiptist oft í grunnvinnu (að skrifa og senda út fréttatilkynningar) og að vera talsmaður á staðnum.

 

Fyrsta hjálp: Því fleiri sem vita eitthvað um fyrstu hjálp, því betra.

 

Stuðningur: Einn tekur að sér að vera þeim stuðningur sem standa í aðgerðinni beint (sem eru þá t.d. að blokkera götur, læsa sig föst eða klifra). Færir þeim vatn og matarbita og færir skilaboð milli hópa. Ef um er að ræða aðgerð þar sem fólk læsir líkama sinn við fasta hluti er best að hafa a.m.k. einn stuðningsmann fyrir hverja tvo aktivista.

 

Þátttakendur: Sem eru þá allir þeir sem standa í hinni eiginlegu aðgerð. Þau ættu öll að vera vel undirbúin fyrir allt sem þau ætla að gera, vera vel úthvíld, södd og í andlegu jafnvægi. Þau gætu ekki verið „aðgerðahetjur” ef ekki kæmi til öll vinna stuðningsteymisins.

    

 

 

 

 

 

 

 

PERSÓNULEGT ÖRYGGI Í AÐGERÐUM

 

Nokkrir punktar um persónulegt öryggi – mest af því sem hér er talið byggir auðvitað á almennri skynsemi.

 

Viðeigandi klæðnaður:

 

Fötin þurfa að henta aðstæðum. Almenn skynsemi – ef þú ert að taka þátt í t.d. blokkeringu þar sem hópurinn lokar aðgangi að vinnusvæði eða verksmiðju með því að setjast á götuna og læsa saman höndum og þið ætlið að verjast handtöku friðsamlega, er líklegt að lögregla og öryggisverðir eigi eftir að draga þig til og frá. Ef fötin þín eru þunn eða stutt svo bak þitt berast færðu skrámur. Reiknaðu einnig með öruggum vasa fyrir mikilvæga hluti eins og veski og skilríki. Mundu að belti og reimar verða tekin af þér í fangaklefa. Ekki missa buxurnar niður um þig!

 

Vertu í fötum í mörgum lögum.  Þá geturðu aðlagað þig aðstæðum. Ef  þér er of heitt fækkarðu fötum en sé kalt geturðu ekki bætt neinu á þig ef þú ert bara í peysu og bol. Aukaföt seturðu í lítinn bakpoka sem ver bak þitt um leið.

 

Losaðu þig við skartgripi og ólar fyrir aðgerð. Allt skart getur meitt. Ekki hafa sítt hár laust, það flækist og gefur gott hald fyrir lögreglu.

 

Nesti og neyðarvistir – Vertu með nóg af vatni og nesti til að endast í 6-9 tíma. Það er aðgerðatími plús vistun hjá lögreglu. Stuðningsfólk geymir þetta eða mögulega bílstjórinn í grennd. Engar glerflöskur, þær brotna og glerbrot geta meitt, auk þess að bjóða upp á rangtúlkun sem mögulegt vopn. Hafðu einnig bak við eyrað hluti eins og túrtappa, nauðsynleg meðul, lesefni sem lítið fer fyrir og klink fyrir síma/strætó.

 

Hvað á EKKI að hafa með: Hnífa, kannski er hnífur bráðnauðsynlegur fyrir aðgerðina, en jafnvel minnsta vasahníf getur lögreglan túlkað sem vopn ef þeim sýnist svo. Áfengi eða öðrum vímugjöfum hefur enginn gagn af og ekki vera með nöfn og heimilisföng annara eða aðgerðaplön á þér. Ef þú ert handtekinn verður leitað á þér og lögreglan getur notað hvað sem þeir finna sem sönnunargögn gegn þér og öðrum aktivistum.

  

 

 

Fleiri punktar um áhrifaríkar og öruggar aðgerðir

 

Þjálfun: Hægt er að fá reynda einstaklinga til að þjálfa hópa í beinum aðgerðum. Þá er sett upp stutt námskeið þar sem einhverjir deila reynslu sinni með öðrum og settir eru upp hlutverkaleikir svo tilvonandi aktivistar fái vitneskju um hverju þeir geta átt von á og hver viðbrögð þeirra sjálfra gætu orðið.

 

Grunnreglur – Ef hópurinn er að skipuleggja aðgerð, geta nokkrar grundvallarreglur tryggt að aðgerðin gangi upp eins og þið viljið að hún geri. Þessar grundvallarreglur, eða skortur á þeim geta hjálpað til við að ákveða hvaða aðgerðum hópurinn vill taka þátt í.

 

Lagaleg réttindi: Ef þið eruð ekki viss, talið við lögfróða eða fáið upplýsingar hjá reyndara fólki.

 

Vel undirbúinn markmiðshópur þar sem fólk þekkir hvert annað og finnst það geta treyst hvert öðru er umhverfi þar sem allir fá stuðning, bæði andlega og líkamlega.

 

Hvað finnst vinum, fjölskyldu og vinnuveitendum? Ef þessir aðilar vita hvernig þér líður og hvað þú ert að fara að gera er minni hætta á að þeir fjarlægist þig vegna þátttöku þinnar í aðgerðum. Margir aktivistar verða undrandi þegar þeir átta sig á því að þeir njóta fulls stuðning þessara aðila. En vertu viss um að þú missir ekki vinnuna þó að þú lendir í handtökum fyrir eitthvað sem þér finnst mikilvægt og nauðsynlegt.

 

Notkun fjölmiðla

Verið viss um að vera í sambandi við fjölmiðlafólk sem hefur áhuga á því sem hópurinn er að gera. Fjölmiðlafólk á aðgerðastaðnum getur minnkað hættuna á ofbeldi af hendi lögreglu, öryggisvarða eða almennings. Notaðu einnig óháða fjölmiðla eins og indymedia og heimasíður hópa og einstaklinga. Vel frágengnar fréttir af aðgerðum hvetja aðra til að bregðast við og stofna eigin hópa en hversu vel opinberir fjölmiðlar segja frá aðgerðum er með höppum og glöppum. Sumir blaðamenn misskilja fréttatilkynningar og aðrir mistúlka þær viljandi en fjölmiðlar eru samt fljótlegasta aðferðin til að ná til sem flestra. Hafið auga með röngum fréttum af aðgerðum og leiðréttið þær með lesendabréfum eða nýrri aðgerð sem beinist þá beint að þeim miðli sem lýgur upp á hópinn. Fjölmiðlafulltrúar hópsins verða fyrirfram að hafa tiltækan lista með netföngum og símanúmerum fjölmiðla.

 

 

 

Uppskrift að mögulegri fréttatilkynningu:

 

FRÉTTATILKYNNING

 

6. September 2007

 

Íbúar Reykjanesbæjar stöðva vinnu við fyrirhugað álver

 

Í dag var tilkynnt að hópur íbúa Keflavíkur og nágrennis muni setja upp mótmælabúðir gegn fyrirhuguðu álveri við Helguvík. Búðunum er ætlað bæði að vekja athygli á því að mikil andstaða er meðal íbúa á svæðinu við fyrirhugað álver Century-RUSAL og að vera virk andspyrna við allri vinnu verktaka sem beinist að grunnvinnu fyrir álver á svæðinu.

 

Um 40 einstaklingar ætla að taka þátt og búið er að skipuleggja tjaldbúðir með eldhúsi og rennandi vatni á lóð í einkaeigu sem liggur að fyrirhuguðu byggingasvæði Century-RUSAL.

 

Talsmenn hópsins segjast meðvituð um að til þess geti komið að þau lendi í átökum við lögreglu og öryggisverði vegna beinna aðgerða sem ætlað verður að stöðva vinnu á svæðinu en þau hafa undirbúið sig með námskeiðum í friðsamlegum mótmælum og hverju þau megi búast við af hendi lögreglu.

 

Anna Jónsdóttir, húsmóðir og tveggja barna móðir frá Garði sagði hópinn „vera spenntan og vottaði einnig fyrir áhyggjum því ekkert okkar hefur gert eitthvað þessu líkt en langlundargeð okkar er löngu þrotið því hér er gengið yfir okkur á skítugum skónum endalaust. Það er góð tilfinning að gera loksins eitthvað í því að almennir íbúar á svæðinu eru sniðgengir því við höfum hvorki peninga né völd og teljumst því ekki marktæk nema sem kjósendur og vinnuafl. En það erum við sem eigum heima hérna og við erum að verja okkar land og okkar samfélag.“

 

Baráttuhópar íbúa frá öðrum þéttbýliskjörnum á landinu hafa lýst yfir stuðningi við búðirnar og hafið fjársöfnun þeim til stuðnings en baráttan gegn stóriðju í landinu hefur stóreflst á síðustu árum.

 

Fyrir frekari upplýsingar:

Anna- sími ……

Jóhannes-  sími …..

Ragnheiður- sími ……   

 

Til baka í greinar