Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

AÐ SKIPULEGGJA AÐGERÐ

 

Aðstæður geta verið þannig að hópurinn þinn sé að skipuleggja eina ákveðna aðgerð, sem er þá mögulega ykkar innlegg í herferð sem aðrir hófu, eða þá að ykkar aðgerð stendur alveg út af fyrir sig. Stundum getur það sem þið eruð að skipuleggja verið ein af mörgum aðgerðum sem vinna að sama markmiði.

 

Hér er listi af spurningum varðandi skipulagningu aðgerða sem aktivistar verða að svara fyrir sjálfa sig áður en þau hefjast handa: 

 

TIL HVERS eruð þið að skipuleggja aðgerð?

HVERT er markmiðið? Hverju viljið þið ná fram?

HVERNIG á þessi aðgerð við herferðina í heild sinni?

HVAÐ er það sem er í gangi sem þið eruð sannfærð um að þurfi að tala og vinna gegn? HVERJIR er ábyrgir aðilar og hverjir virðast bara vera ábyrgir?

HVAÐA fyrirtæki situr bakvið ákvörðun ráðamanna og hvernig fer best á því að fletta ofan af þessu ferli og stöðva það?

HVER eru skilaboð aðgerðarinnar?

Hafið þau skýr, einföld og í takt við þá/þau sem skilaboðin beinast að.

TIL HVERRA viljið þið ná?

AÐ HVERJUM eiga spjótin að beinast?

Stundum beinast aðgerðir að starfsfólki stórfyrirtækis eða stofnunar. Aðrar beinast að almenningi og enn aðrar að fjölmiðlum. Það hvernig hópurinn orðar skilaboð sín og kemur þeim frá sér er mismunandi og háð því hverjum þau beinast að.

 

HVAR á aðgerðin að eiga sér stað?

HVAÐA staðsetning mun efla áhrif hennar? Er einhver staður sem er táknrænni en annar eða sem mun draga meiri athygli að henni? Stundum ræður skotmarkið staðsetningunni. Ef þið ætlið t.d. að stöðva vinnu við tilraunaborun, fer hópurinn beint þangað sem vinnuhópur er að bora.  

HVENÆR munu skilaboðin heyrast hæst?

Er einhver tímasetning sem styrkir áhrif aðgerðarinnar? Viljið þið að aðgerðinni slái saman við fund, ráðstefnu eða opinbera heimsókn pólitískrar fígúru? Ef aðgerðin á að höfða til þeirra of mörgu sem keyra einir um í stórum mengandi bílum alla daga ætti hún að eiga sér stað á háannatíma. Ef aðgerðin miðast við að ná til fjölmiðla má hún sín lítils ef að daginn áður hefst eldgos undir Vatnajökli (nema aðgerðin sé því stærri!!).

HVERNIG komið þið skilaboðunum frá ykkur?

HVAÐA aðgerðaform hentar? Hvaða aðferðum á að beita?

Viljið þið ná til fjölmiðla eða bara beita ykkur í beinum aðgerðum?

Ef þið viljið reyna að vekja almenning til umhugsunar notið þið kynningarborð og dreifirit?

STÆKKA

 

 

 

 

 

 

 

Val hópsins á aðgerð getur orðið fyrir áhrifum af öðrum mikilvægum þáttum:

 

Forðabúr:

Hverju hefur hópurinn úr að vinna? Í hverju eru einstaklingarnir innan hópsins hæfastir? Hversu mikinn tíma og orku getið þið lagt í þetta? Er nógu margt fólk til að standa undir þessu? Ef ekki, er þá hægt að hóa þeim saman í tíma?

 

Samkomulagsstig:

Eru allir þátttakendur inni í ákvarðanaferlinu? Er þetta aðgerð sem allir eru sáttir við og vilja vera hluti af? Krefst hún sérstakra hæfileika sem koma í veg fyrir þátttöku þeirra sem hafa þá ekki? Hvernig geta sem flestir sem vilja tekið þátt? Margir markmiðshópar líða fyrir fáa meðlimi, kannski ættu fyrstu aðgerðir hópsins að beinast að því að höfða til fleiri og stækka þannig?

 

Um leið og þið eruð búin að átta ykkur á hvað á að gera og hvernig, hefst undirbúningur.   

 

Ef það er sami kjarninn sem sér alltaf um hlutina lendir hópurinn í vandræðum. Bæði komast ekki aðrir að til að prófa sig áfram og finna sig og aðrir fara að treysta á að þeir sömu og venjulega sjái um hlutina. Hvetjið alla til að taka jafna ábyrgð – deilið hlutverkum og verkefnum þó að í fyrstu virðist sem fljótlegra væri að redda hlutunum sjálf.

 

AÐ KOMA HUGMYNDUM TIL SKILA Í AÐGERÐUM

 

Þó það sé ekki alltaf auðvelt er réttast að reyna að halda framsetningu skilaboða einfaldri. Umhverfisvernd og félagsleg vandamál geta verið flókið mál en einföld skilaboð munu gera hverja aðgerð áhrifaríkari. Þá þarf að fækka þeim rökum sem sett eru fram í aðgerðinni til að vera viss um að eitt eða tvö komist til skila. Setjið sömu rök fram á eins marga mismunandi vegu og þið getið, bæði munnlega og sjónrænt.

 

Gætið þess að aðgerðin hæfi skilaboðunum. Ef markmiðið er að ná til almennings og vinna fólk á ykkar band þá er aðgerð sem pirrar fólk, hrellir það eða er því til óþæginda, ekki besta valið. Fólk man samskiptin við hópinn betur en það sem hann hafði fram að færa. Ef að fólk fer heim reitt út í hópinn þá er það sú tilfinning sem það tekur með sér og þið hafið misst  af stuðningi þeirra. Ef fólk fer heim ánægt með sannfæringarkraft ykkar, hlæjandi að húmornum í aðgerðinni eða reitt út í þá aðila sem aðgerðin beinist gegn er það hið besta mál!

 

 

HVAÐ EF ALLT FER Í VITLEYSU?

 

Ekki nokkur aðgerð fer fram alveg eins og ætlunin er svo að rétt er að tylla sér aðeins og fara yfir nokkra möguleika á því sem getur farið úrskeiðis.

Ef springur á bílnum svo enginn kemst á staðinn? Hvað ef bara tíu manns koma? En ef 10.000 manns koma? Því betur sem þessir möguleikar eru ræddir, því betur er hópurinn undirbúinn.

 

Hér eru nokkrir punktar varðandi hvað þarf að vera búið að gera til þess að aðgerð geti gengið upp:

 

Tæki og Tól – Hverju er þörf á og hvar náið þið í það, hverju er hægt að redda, hvað af því þarf að kaupa og hvað getið þið búið til sjálf?

 

Staðhættir – Það er grundvallaratriði að kynna sér staðhætti áður en lagt er í aðgerð. Ef meiningin er að taka yfir inngang hjá stórfyrirtæki eða stofnun er ekki viturlegt að sjá staðinn fyrst á aðgerðadag. Farið í spæjararölt um svæðið á sama tíma dags og heimsóknin er fyrirhuguð. Takið myndir og teiknið kort ef það er hægt án þess að vekja óþarfa athygli. Sá í hópnum sem tók að sér þessa rannsóknarvinnu gefur hinum skýrslu.

 

Rannsóknarvinna – verið með staðreyndir á hreinu til að styðja málflutning hópsins. Verið með ástæður ykkar og markmið á hreinu. Fólk mun reyna að reka ykkur á gat. 

 

Áróður – bæklingur eða dreifimiði - Annaðhvort nota einhvern sem þegar er til, endurskrifa hann eða skrifa alveg nýjan. Hverjum er ætlað að lesa hann? Munið að það er sitt hvor nálgun  efnisins útfrá því hvort verið er að skrifa fyrir almenning eða starfsfólk fyrirtækis. Hafið textann stuttan og skýran. Bendið á hvar er hægt að nálgast frekari upplýsingar. Hafið síma eða tölvupóstfang hópsins þar með ef þið viljið að fólk geti haft samband. Myndskreytingar gera bæklinga áhugaverðari. Er listamaður í hópnum eða ljósmyndari? Er hægt að sækja myndefni á netið?

Borðar og plaköt eru einföld tæki til að koma skilaboðum áfram. Ef báðar hendur eru uppteknar, notið T-boli í staðinn og gangið um í skilaboðunum. Borðar nýtast einnig þegar hópur af fólki lokar fyrir umferð um veg.

 

Miðlun upplýsinga – ef aðgerðin er öllum opin, verið þá viss um að áhugasamir viti af henni, hvar á að hittast og hvenær.

 

Kynning – Til að vera viss um að allir sem vilja taka þátt, viti um hvað málið snýst, er um að gera að halda kynningarfund, senda inngang gegnum tölvupóst eða halda almennan fund á kaffihúsi, félagsmiðstöð eða annarri samfélagseign eða bara heima hjá einhverjum, til að fara yfir málin.

 

Húsakynni – Mögulega þarf að skjóta skjólshúsi yfir einhverja þátttakendur yfir nótt og hafa öruggan stað þar sem fólk getur geymt eigur sínar meðan það stendur í ströngu.

 

Eftir aðgerð er rétt að koma saman og fara yfir hvað gekk vel og hvað hefði getað gengið betur. Fagnið því sem vel fór og lærið af mistökunum. Það er auðvelt að sópa vandamálum undir teppið en þá skjóta þau aftur upp kollinum við næstu aðgerð, svo ekki vera hrædd við að taka á þeim. Fólk þarf að tjá sig og lýsa sinni persónuleg upplifun. Svona yfirferðir eru mikilvægar ætli hópurinn sér að starfa saman í framtíðinni og skipuleggja enn árangursríkari aðgerðir. Þessar umræður geta líka virkað sem stökkpallur fyrir næstu aðgerð þar sem nýjar hugmyndir myndast útfrá þeirri aðgerð sem nýlokið er.

 

Hvað ef lögreglan atar nafn okkar auri, kallar okkur hryðjuverkamenn, atvinnumótmælendur og segir okkur vera ógn við almannaöryggi?

Þið vitið sjálf hvort þið eruð hryðjuverkamenn, atvinnumótmælendur eða ekki. Svona níði hefur verið beitt gegn mótmælendum og aktivistum í áratugi. Á kaldastríðsárunum voru t.d. allir friðarsinnar kallaðir „kommar.” Fylgist maður með óhlýðnu fólki utanfrá sést hvernig þessi taktík er reglulega notuð gegn því. Besta leiðin til að vinna gegn þessu er að tryggja að einstaklingar úr sem flestum sviðum samfélagsins taki þátt. Því fleiri sem vita um einhvern úr sinni fjölskyldu, sínu hverfi eða af sínum vinnustað sem er hluti af herferð eða mótmælabúðum því auðveldara er að bera af sér óhróður.

 

Hvað ef við erum sögð vera barnaleg?

Alltaf er hreytt í fólk sem reynir að reka siðferðilegar spurningar og upphrópanir inn í pólitík, að það sé barnalegt. Fyrstu kvenréttindakonurnar voru sagðar vera einfeldningar en þær unnu samt konum þau réttindi sem eru staðreynd í dag. Segið þeim sem hreyta að það sé barnaskapur að halda réttinn alltaf vera valdmegin.

 

Hvað með allar óþekktu afleiðingarnar?

Það eru alltaf óvæntar afleiðingar. Það eina sem hægt er að gera er að gera að leggja höfuðið í bleyti og reyna að átta sig á þeim fyrirfram en það er aldrei hægt alveg. Eina viðmiðið sem hægt er að taka sér er að vera hrein í hjarta, blátt áfram og með einlæg áform. Fólk getur leyft ótta sínum að lama sig eða það getur beitt áhyggjunum uppbyggilega til að örva sköpunargáfuna og koma í veg fyrir áhyggjuefnið.

 

 

 

Til baka í greinar