Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

UPPSKRIFTIR FRÁ FÓLKI MEÐ REYNSLU

 

Hér á eftir fara lýsingar, ráðleggingar og leiðbeiningar frá fólki með reynslu af ýmiskonar aðgerðum. Þær eru hér snaraðar og staðfærðar.

 

BORÐAFALL

 

Að láta stóran borða með áletruðum skilaboðum falla fram af hárri byggingu getur gert hópnum þínum kleift að koma einföldum skilaboðum á framfæri á dramatískan hátt.

 

Það sem til þarf er:

 

Málningarburstar

Reipi eða keðja

Flöskur úr plasti eða annað til að þyngja með vatni eða sandi

Sérlega sterkur saumþráður

Efni – það má nota lök eða dúka til að sauma saman eða næla sér í yfirbreiðsludúka af einhverju tagi.

Saumavél

Málning – helst vatnsmálning, olíumálning þornar svo seint, húsamálning ku henta vel.

Bílastæðahús, göngu- eða umferðabrýr, nýbyggingar, bíóhús, verslanamiðstöðvar, kirkjur, stofnanir og aðrar háar byggingar.

 

Þessi aðgerð felst í því að fara upp á hátt mannvirki og láta borða með skilaboðum hanga á framhlið þess þannig að skilaboðin á honum blasi við í sem lengstan tíma. Svona aðgerð kemur að mestu gagni þegar mikil umferð er í grennd, eins og við skipulagðar fjöldagöngur, í miðri jólaverslun eða á annars fjölförnum stöðum og umferðargötum á annatíma.

 

Það er hægt að búa til mjög stóran borða úr samansaumuðum lökum og borðdúkum eða öðrum efnisbútum. Verið viss um að þeir rifni ekki við lítið álag! Tví- eða þrísaumið bútana saman. Þegar stærð er ákveðin hafið í huga svæðið sem hann á að hanga á, fjarlægðin sem hann á að sjást úr og þá staðreynd að þið verðið að geta komið borðanum á staðinn í laumi.

Til að útbúa svo stóran borða munuð þið þurfa nokkuð rými við að sauma og mála. Það þarf ekki mikla listamannshæfileika til að mála stafi og einfaldar teikningar, ekki samt reyna að spreyja skilaboðin á borðann nema þið hafið hæfni og reynslu til þess. Athugið að málningin kemur í gegnum efnið en þið viljið kannski ekki flekka gólfið þar sem þið eruð að verki. Notið krít eða viðlíka til að grunna fyrir texta og/eða teikningu svo það passi á borðann áður en þið farið að mála. Notið liti sem skera sig úr og leturgerð og myndir sem eru greinilegar. Gætið að réttri stafsetningu!

 

Brjótið brúnir borðans langsum, á báðum hliðum, yfir reipi eða keðju og saumið efnið utan um. Saumið í gegnum reipið eða keðjuna svo borðinn renni ekki af þeim þegar hann hangir og gætið þess að góður reipis-/keðjuendi sé eftir að ofan til að festa borðann með. Keðja er þyngri upp á að borðinn liggi vel í vindi en um leið þyngri í meðförum og dýrari (nema þú getir fengið hana einhversstaðar ókeypis). Á neðri enda reipis/keðju festið þið flöskur fullar af vatni eða sandi sem akkeri til þyngingar svo borðinn fjúki ekki og leggist saman um leið og hreyfir vind. Þær þarf að festa mjög vel, ef þær detta af gæti það orsakað vandamál. Til að fyrirbyggja vandamál vegna vinds enn frekar, má skera U-laga skurði í efnið svo að vindurinn blási í gegn án þess að allur borðinn fjúki upp í loft.

 

Þegar borðinn er tilbúinn til notkunar byrjið þá á neðri endanum þegar þið rúllið honum upp, með vatnsflöskurnar inn í vafningnum. Verið með á hreinu hvernig borðinn rúllast út svo að hann snúi ekki öfugt á ögurstundu og þið fáið vægt taugaáfall. Ekki vefja borðann of þétt. Hann gæti límst eða stífnað á annan hátt svo hann rúlli ekki allur út í aðgerðinni og þið þurfið að draga hann aftur upp og rétta úr honum við aðstæður þar sem ríður á að hafa hraðar hendur.

  Við uppsetningu er best að vinna í tveggja manna teymum. Fyrst þarf að koma borðanum á staðinn, síðan festa hann vel að ofan og komast burt ef fólk vill forðast handtöku. Að vilja ekki forðast handtöku er náttúrulega eitt form borgaralegrar óhlýðni.

 

Að komast upp á þak á stórri byggingu með stóran böggul undir hendinni getur vakið grunsemdir öryggisvarða. Einnig að komast út. Verið viss um að geta hlaupið hratt upp og niður nokkurra hæða stigagang án þess að mæðast ef aðstæður eru þannig. Verið klædd þannig að þið skerið ykkur ekki úr (klædd eins og gluggaþvottafólk eða aðrir sem eiga leyfilegt erindi á staðnum).

  Ef þið eruð viss um að hafa góðan tíma til að hnýta efri spottana/festa keðjuna við pípur eða súlur er það fínt. Ef ekki, eru smellulásar/karbínur (eins og notaðir eru á stórar lyklakippur, fjallgöngubúnað o.fl.) hentugir og þið þá búin að hnýta lykkjur á reipisendana fyrirfram. Ef engar pípur eða annað sem hægt er að festa í eru uppi á þakinu eða hæðinni sem þið standið á, notið plastflöskur fullar af sandi og hnýtið efri spottana í þær sem akkeri. Látið efri spottana tvo strekkjast hvorn frá öðrum svo ekki komi brot í borðann. Verið fyrirfram viss um að akkerin þoli þungann, annars húrrar allur borðinn niður á jafnsléttu. Auðvitað er hægt að halda kyrru fyrir og halda borðanum með eigin afli en þá er hætt við handtöku.

 

Til eru ýmsar fleiri aðferðir til að nota borða. Ef hægt er að koma því við að fleygja hlut með áfestum streng frá einu þaki, yfir þrönga götu, yfir á annað og við strenginn fest snæri er hægt að strekkja það yfir götuna og renna mótmælaborða á strekkt snærið. Þessa borða þarf einnig að þyngja að neðan.

 

 

Ein skemmtileg notkun á mótmælaborðum er að festa þá á helíumfylltar blöðrur. Fólk hefur gert þetta klætt í trúðaföt á tyllidögum t.d. í stórum bönkum og verslanasamstæðum þar sem hátt er til lofts. Sprellandi anarkistar í trúðafötum ganga inn á meðal gestanna með tvo blöðruklasa og kannski aðstoðarmaður með sem heldur sig til hliðar þar til kemur að rétta augnablikinu fyrir borðann. Blöðruklasarnir eru festir á sitt hvort hornið á litlum borða sem á eru letruð mikilvæg og krassandi skilaboð. Borðinn hangir síðan upp undir lofti þangað til næst að sprengja blöðrurnar eða ná þeim niður en trúðurinn og aðstoðarmaður hans eru þá löngu farnir út sömu leið og þeir komu.

 

Fyrir þessa innanhúsaðgerð, saumið fald á efsta hluta borðans og smeygið í hann grönnum lista úr tré eða plasti til að borðinn haldist vel útbreiddur. Hafið lykkjur á hornum hans til að snögglega gangi að smella borðanum við strenginn í blöðrunum. Æfið ykkur heima til að vera viss um að blöðrurnar þoli þungann og fari beint uppundir loft með skilaboðin fyrir gesti að skemmta sér yfir.

 

Til baka í greinar