Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

AÐ ENDURHEIMTA GÖTURNAR (RECLAIM THE STREETS)

 

Hvað þarf til:

 

Fullt af fjörugu fólki.

Hluti til að loka götum – sófa, aflóga bíla.

Samkomustaður sem búið er að kanna vel fyrirfram, gönguleið og dreifimiðar sem útskýra uppákomuna og dreift er til vegfarenda.

Gjallarhorn.

Borðar og flögg með skilaboðum.

Krít, málning og stenslar.

Hljóðkerfi – getur verið allt frá einhverjum bíl með sterkum græjum til sviðspalls með heilu hljóðkerfi. Hvað svo sem það er þá er alltaf hætta á að lögreglan fjarlægi það.

Hlutir til skreytinga – málaðar dúkkur og hlutir úr pappírsmauki, uppblásin fyrirbæri o.s.frv.

Leikir, borð með kynningarefni og sölubásar.

Gefins matur, frítt nudd, andlitsmálun fyrir börn á öllum aldri ofl. ofl.

 

Aðgerð til að endurheimta göturnar felst í því að ræna opinberu svæði til að sýna fram á að hægt er að nýta það á ýmsa aðra vegu sem eru meira afslappandi, skemmtilegir og meira félagslega gefandi en markaðssetning og þung umferð. Í raun er þetta róttækt karnival – kjötkveðjuhátíð þeirra sem taka hlutina í eigin hendur. Um leið og henni er ætlað tímabundið að sýna fram á hverju við erum að missa af í hraða daglega lífsins er hún mótmælaaðgerð sem ögrar því yfirvaldi sem leggur blátt bann við svona uppákomum. Þetta er mögnuð leið fyrir róttækan hóp að skemmta sér og æfa sig í að túlka daglega lífið upp á nýtt og endurgera það.

 

Í grundvallaratriðum snýst þetta um að endurheimta svæði eða rými. Áður en hópurinn velur staðsetningu er rétt að ákvarða hversu mikilli ögrun hann er tilbúinn að standa fyrir. Það er heilmikið af almenningsgörðum og gangstéttum sem eiga skilið að blásið sé í þær nýju lífi og skynsamlegt að ætla sér ekki of mikið í fyrstu. Þar sem svona uppákomur eru ókynntar á Íslandi er líklega betra að byrja með því að ná fólki saman á látlausan og hættulausan hátt frekar en að lenda strax í alvarlegu samstuði við lögreglu. Ef hundrað manns eru að dansa, spila fótbolta og borða nesti á þjóðvegi eitt er næsta víst að aðgerðin fari í taugarnar á fleirum en eiga það skilið. Best er að miða aðgerðina við að pirra þá forstjóra og skrifstofublækur sem hafa unnið til þess og að skemmta Jón og Gunnu um leið.

Burtséð frá því hversu mikið hópurinn vill að aðgerðin trufli rekstur stofnana og fyrirtækja ætti hún að eiga sér stað einhversstaðar þar sem fólk kemur vanalega saman og á tíma sem gerir því kleift að staldra við og athuga hvað er um að vera. T.d. væri Hafnarstræti í Reykjavík fullkomið á föstudagseftirmiðdegi en bílastæði verslanasamstæðu rétt fyrir jólin. Þegar allt gengur upp eru aðgerðir sem endurheimta göturnar ekki bara fyrir útvalda heldur óvænt partý þar sem almenningur er heiðursgestur. Við alla skipulagningu skuluð þið hafa í huga hvernig best er að láta ókunnugum finnast þeir geta tekið þátt í uppákomunni – ef þið gerið þetta almennilega eru þau farin að taka þátt áður en þau ná að hugsa sig um.

 

Hvað varðar kynningu og auglýsingu þá er endurheimtaraðgerð tvöföld í roðinu eins og aðrar aðgerðir sem fara fram án leyfis því hún þarf að forðast eftirlit yfirvalda um leið og hún er öllum augljós. Meira að segja um almenningsgarða gilda reglur sem ætlað er að hindra fólk í að koma saman í öðrum tilgangi en sem kaupendur og seljendur. Leyfisumsókn getur þannig komið í veg fyrir að uppákoman eigi sér stað yfirhöfuð. Kannski viljið þið fá full leyfi fyrir öllu en þá eruð þið um leið að festa enn frekar rétt einhvers yfirvalds til að segja til um hverjir mega hafa gaman og hvernig og borga þeim fyrir um leið. Ef þið skipuleggið ykkur án leyfis getur uppákoman enn verið óvænt en um leið verðið þið þá að koma uppákomunni til eyrna fólks. Kannski með því að kynna þetta eftir nokkrum sértækum leiðum en einn möguleiki er að auglýsa aðgerðina sem nokkrar mismunandi uppákomur; „opinn ásláttarleikur til að fagna komu vorsins,” „kaffi og kökur fyrir alla lengur en birgðir endast,”„ókeypis nuddtímar í sólinni” en um leið láta spyrjast út að allar þessar uppákomur, og fleiri, muni renna saman í eina endurheimtunaraðgerð.

Ef þið þurfið að halda skotmarkinu leynilegu en viljið samt kynna uppákomuna sem mest, auglýsið einungis samkomustað. Allir þátttakendur geta komið saman þar og haldið síðan á áfangastað.

 

Mögulega þarf að blokkera svæðið. Á umferðargötum er yfirleitt betra að vísa umferðinni aðra leið frekar en að stoppa hana algerlega, bæði til að halda samskiptum við aðra borgara á ánægjulegu nótunum og til að aðgerðin endist lengur. Umferðarskilti og þríhyrningsmerkingar sem safnað hefur verið annarsstaðar frá gefa blokkeringunni opinbert útlit en gamlir sófar og hægindastólar undirstrika muninn á vinnustað og leiksvæði. Hægt er að kaupa aflóga bíla, borga í reiðufé án þess að skilja eftir nafn eða auðkenni og leggja þeim á krossgötum.

Ef þið ætlið að halda þetta á bílastæði er hægt að leggja eigin bílum/lánsbílum í mörg stæði fyrirfram. Færið þá síðan alla í einu þannig að hægt sé að taka yfir svæðið með hlutum sem hlaðið var á bílana. Einnig getur einn stór bíll rennt við og hópur af fólki afhlaðið hann í snatri, enn einn möguleiki er að fela hluti í nærliggjandi ruslagámum, svo fremi að fólk sé með á hreinu hvenær þeir eru tæmdir!

 

Þetta var erfiði hlutinn. Nú skulum við fara yfir allt fjörið og skemmtunina sem hópurinn ætlar að halda á frelsaða svæðinu. Rúllið út rauða dreglinum, setjið upp sandkassa, hengið borða um alla staura og stangir, láta borða falla fram af nærliggjandi byggingum (sjá borðafall), dreifið blómum, teiknið á alla sýnilega fleti með götukrít – skreytingar skipta miklu máli þegar endurheimta skal landsvæði og sýna fram á nýja möguleika til að nýta það. Gefið saman pör, setjið upp brúðuleikhús, ljóðalestur, limbóleiki, ræðuhöld eftirherma, ásláttarleikara og götuleikhús. Setjið upp borð með ókeypis mat, bókum og bæklingum, nuddurum, andlitsmálun eða lófalestri. Setjið mottu fyrir breikdansara, gangið á stultum, látið plötusnúða leika danshæfa tónlist, haldið tónleika, komið með mold og setjið niður plöntur, leggið túnþökur á malbikið, verið með trúða og götulistamenn. Dreifið listafólkinu þannig að þau trufli ekki hvert annað. Fáið að stinga rafmagnssnúrum í samband í nærliggjandi húsum og verslunum. Hafið dreifimiða tiltæka sem útskýra aðgerðina frá mismunandi sjónarhornum fyrir alla sem ramba á svæðið. Finnið leiðir til að bjóða fólki sem tilheyrir mismunandi þjóðfélagshópum. Barnaskólakennarar geta komið með heilu bekkina, verið þá með eitthvað fyrir börnin á boðstólum. Félagsfræðistúdentar úr háskólum væru þarna á réttri hillu auk þess sem nærvera þeirra dregur úr hættunni á grófum inngripum lögreglu.

Þegar lögreglan kemur mun hún spyrja hver sé skipuleggjandi þessarar uppákomu. Verið viss um að allir sem taka þátt segi að þeir hafi átt leið af tilviljun og dottið í hug að taka þátt. Því lengur sem yfirvöld eru að átta sig á hvað um er að vera því lengur getur uppákoman ykkar staðið yfir. Á einhverjum tímapunkti, þegar þeir hafa áttað sig, munu þeir taka til við að reka fólk af svæðinu og mögulega handtaka einhverja. Það er yfirleitt best að stoppa með allt rétt áður en það gerist til að þessi reynsla verði jákvæð fyrir alla sem að henni koma. Munið að lögreglan mun gjarnan reyna að hrella fólk til þess að hætta því sem það er að gera og fara svo, reynið að læra á hvenær þeir eru að blöffa.

Tryggið að allir komist örugglega burt og að lögreglan viti ekki hverjum farartæki í grenndinni tilheyra. Hafið hóp reiðubúinn til að annast lagalegu hliðina ef þarf og ef það er hægt, lögmann til að sjá um kærumál ef einhver verða. Áður en aðgerðin hefst gæti verið gott að dreifa til skipuleggjenda miðum með símanúmeri til að hringja í ef kemur til handtöku.

 

 

 

 

Til baka í greinar