Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

CRITICAL MASS – KEÐJUVERKUN

 

Hér þarf fullt af fjörugu fólki á reiðhjólum eða öðrum farartækjum sem ekki eru vélknúin. Þessi hópur ferðast á sínum hraða eftir götum sem vanalega eru einungis ætlaðar fyrir bíla. Markmiðið er að vekja vinsamlega athygli á því að þegar fer allt of mikið land undir bíla (t.d. er 48% af landi Reykjavíkur lagt undir bíla – götur, bílastæði og bílastæðahús) og rétt er að staldra við og hugsa málið því í skipulagi flestra borga er ekki gert ráð fyrir öðrum möguleikum til að fara milli staða. Bílar menga, það er fýla af þeim og hávaði og slysin sem bílstjórar valda eru hroðaleg. Hver bíll er stór kostnaðarbaggi á heimili landsins og skattfé almennings vegna kröfunnar um hraða og þenslu kapítalismans. Samt hafa bílar meiri réttindi en fótgangandi eða hjólandi umferð.

 

Fyrsta keðjuverkunin átti sér stað í San Francisco árið 1992. Þetta hefur síðan gerst reglulega í borgum og bæjum víða um heim. Samt er þetta ekki skipulögð hreyfing og það eru engir leiðtogar. Í hverri borg hafa það verið nokkrir hjólreiðamenn sem ákváðu stað og stund og kynntu aðgerðina með dreifimiða. Aðgerðinni er beitt reglulega (oftast mánaðarlega) samhliða t.d. lobbýisma eða öðrum þrýstingi á ríki og borg um að bæta aðstæður og réttindi reiðhjólafólks. Leiðin sem hópurinn hjólar er sjaldnast fyrirfram ákveðin, sá sem fer fremstur í það og það skiptið leiðir hina. Það má alveg ákveða leiðina fyrirfram en það er ekki nauðsynlegt. Verið með hjólin ykkar lögleg, bremsur og ljós í lagi og hjálm á höfðinu.

 

Hjá því verður varla komist að aðgerðin valdi einhverjum umferðartruflunum. En það er ekki markmið aðgerðarinnar heldur er hún til að fagna gæðum þess að vera á reiðhjóli frekar en að vera háður bíl. Ef hópurinn blokkerar umferðaræðar algerlega munu bílstjórar sprengja símakerfi 112 með farsímunum og reiðhjólafólk eignast svarna óvini. Það er ekkert vit í því. Ef einhverjir tveir í fimmtíu manna hóp ætla að skemmta sér við að pirra bílstjóra eru þeir um leið fulltrúar alls hópsins og gefa honum stimpil.

 

Hópurinn ætti að halda sig á einni akrein. Það ræður enginn yfir aðgerðinni en sá sem kallar til aðgerðarinnar getur tekið það skýrt fram á dreifimiðanum að markmiðið sé ekki truflun á umferð heldur hátíð. Margir þeirra reiðhjólamanna sem taka þátt í svona hjólahátíð leggja áherslu á að vera vingjarnlegir við bílstjóra. Brosa og veifa tilbaka þegar bílstjórar öskra og bölsótast og sumir ganga enn lengra með því að dreifa blómum, hjóla með skilti sem á stendur „afsakið töfina” eða rétta út dreifimiða sem afsaka truflunina og útskýra hvert markmiðið sé.

 

Lögreglan er vís til að birtast, og alveg örugglega ef að hópurinn er að taka yfir alla götuna. Það getur vel verið að lögreglan reyni að hrekja hópinn af götunni og fari að handtaka fólk hvort sem að hópurinn braut einhver umferðarlög eða ekki. Lítill hluti bílstjóra er líka nógu tillitslaus til að aka utan í reiðhjól hvort sem hjólamaðurinn er viljandi að ögra eða ekki. Besta vörnin er þá alltaf myndbandstæki.   

 

Góða skemmtun

 

 

 

Til baka í greinar