Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

MÓTMÆLABÚÐIR

 

Mótmælabúðir eru áratugagömul aðferð við bæði að vekja athygli á misrétti, verja landsvæði, trufla ákveðna starfsemi eða hafa eftirlit með henni. Innan búða skapast líka sjálfstætt samfélag þar sem þátttakendur miðla sínum viðhorfum til annara sem koma af forvitni eða koma ákveðin í að taka þátt.

 

 Til dæmis hafa kennarar og nemendur slegið upp tjaldbúðum við skóla sína til að mótmæla niðurskurði, foreldrar stríðsdauðra hermanna í bandaríkjunum tjaldað við hvíta húsið, friðarsinnar hafið umsátur um herstöðvar, umhverfisverndarsinnar tjaldað á akstursleiðum skógarhöggsmanna og búið upp í trjám sem kapítalistar vilja höggva og síðast en ekki síst hafa andstæðingar stóriðju slegið upp mótmælabúðum í grennd við virkjanaframkvæmdir hérlendis.

 

Mótmælabúðir geta verið fyrirfram planaðar í ákveðinn tíma eða staðið allt árið um kring. Í þeim geta búið fjórir einstaklingar eða fjögur þúsund. Þær geta verið róttækar og beinum aðgerðum verið beitt útfrá þeim eða þær geta verið hógværar og reistar til áminningar. Stundum leysast þær upp vegna áhugaleysis, annara aðkallandi verkefna eða vegna veðurs en í flestum tilfellum lokast á búðir mótmælenda þegar lögreglan hreinsar út úr þeim, rífur niður tjöld og handtekur viðstadda vegna skipana frá stjórnmálamönnum eða öðrum sem lögreglu finnst rétt að hlýða (eins og stjórn landsvirkjunar í tilfelli mótmælabúða nærri Kárahnjúkum áríð 2006).

 

Mótmælabúðir eru líklega alltaf settar upp án leyfis og stundum á svæðum þar sem ekki er vaninn að tjöld standi. Þær standa líka alltaf í óþökk einhvers valdamikils eða auðugs aðila sem á pólitískra eða efnahagslegra hagsmuna að gæta. Á íslandi er einmitt helsta vandamál mótmælenda sem vilja setja upp búðir í grennd við t.d. virkjanasvæði, að finna tjaldsvæði þar sem búðirnar fá að standa. Þó að velviljaður landeigandi gefi grænt ljós er næsta víst að um leið og mótmælendur fara að taka til hendinni og kannski stöðva vinnu við tilraunaboranir í grennd, mun landeigandinn verða fyrir þrýstingi frá lögreglu.

 

Undirbúningur: Ef þið viljið að sem flest fólk komi í búðirnar ykkar þarf að koma upplýsingum um þær til allra sem gætu haft áhuga. Á staðnum þarf að vera salernisaðstaða og helst rennandi vatn svo gott sé. Hægt er að leigja kamra hér og þar en lærið frekar að setja upp náttúrulega, vistvæna kamra. Athugið að ef þið eruð að fá hundrað manns til liðs við ykkur þá þarf allt þetta fólk að fá þrjár máltíðir á dag. Einhver þeirra gætu komið allslaus og án þess að hafa hugmynd um hvað þarf að gera til að lifa af útivist í íslenskri náttúru. Verið viðbúin alls kyns þannig uppákomum. Munið að því fleiri vandamál sem hægt er búa sig undir að leysa fyrirfram, því færri vandamál koma upp meðan á búðunum stendur. Notið heimasíður eða fréttablað búðanna til að benda áhugasömum á bæði málstaðinn og um leið á gagnlega hluti sem gott er að vita taki maður þátt í mótmælabúðum.

 

Við undirbúning og rekstur mótmælabúða gildir jafnvel enn frekar en í annarskyns aðgerðum reglan um að dreifa verkefnum á sem flesta og leyfa öllum að njóta sín. Þótt að lítill markmiðshópur komi að undirbúningi búðanna eru allir sem koma og setjast að, um leið orðnir þátttakendur í rekstri þeirra. Ákvarðanataka fer þá fram á fundum (sem eru yfirleitt lokaðir fjölmiðlum en aðgangur fjölmiðla að búðunum er eitthvað sem búðahaldarar ákveða sjálfir fyrirfram) þar sem málin eru rædd með upplýstu samþykki.

 

Gangið vel um og alls ekki skilja eftir neitt rusl.

 

 

 

 

Til baka í greinar