Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

(athugið að hér eiga skýringamyndir oft vel við en þær er einungis að finna í bókinni sjálfri)

 

FLEIRI GAGNLEGIR PUNKTAR UM MÓTMÆLAAÐGERÐIR ÞAR SEM MARKMIÐIÐ ER AÐ LOKA AF SVÆÐUM EÐA STÖÐVA ÁKVEÐNA STARFSEMI.

 

Markmiðið með þeim atriðum sem hér verða talin upp er að lengja þann tíma sem aktivistahópurinn getur verið á staðnum sem hann hefur ákveðið að mótmæla á, hvort sem um er að ræða að loka inngang að vinnusvæði, taka yfir skrifstofu eða loka umferðagötu.

 

 

Að nota líkamann

 

Ef ekkert annað er tiltækt er best að beita eigin líkamsþunga. Að sitja eða liggja gerir öryggisvörðum og lögreglu mun erfiðara fyrir að ýta fólki burtu eða færa það. Það er hægt að gera þeim enn erfiðara fyrir með því að slaka algerlega á líkamanum og gera sig þannig þungan. Einnig með samstarfi við aðra:

 

Að læsa saman höndum

 

Sitjið þétt saman og læsið handleggjum saman við næsta mann. Því fleiri sem læsa sig saman því betra. Fimm geta lokað einni akrein, tólf geta lokað götunni allri. Með olnbogana krækta við olnboga næsta manns nær maður höndunum saman við brjóstið og góðu gripi um eigin hendur eða úlnliði. Nú þarf lögreglan að ná að losa ykkar tak áður en hún getur borið ykkur burt. Ef setið er í beinni línu er fólkið við endana óvarið. Því getur verið gott að sitja í hring.

 

Læst saman í hring

 

Fimm eða fleiri geta myndað hring og læst saman höndum eins og lýst var hér að ofan. Ef allir snúa inn má einnig reyna að læsa saman fótum. Þar sem fólk sér þá ekki aftur fyrir sig verður hópurinn augu og eyru hvers annars.

 

 

Friðsamleg mótspyrna við handtöku

 

Friðsamleg mótspyrna er aldagömul mótmælatækni sem er beitt til að hægja á flutningi mótmælahóps af völdu svæði. Gagnvart sumum er það pólitísk yfirlýsing um að vinna ekki með yfirvöldum. Þetta byggist á að slaka á vöðvum líkamans svo fólk verður eins og marglytta á þurru landi. Þá er erfiðara að ná taki og bera fólk burt. Þá getur ekki einn lögregluþjónn fylgt þér burt heldur þarf nokkra til að bera þig. Það fer eftir því hversu mikið lögreglulið er á staðnum hversu langan tíma tekur að rýma og þeir þreytast á því ef langt er í bílinn. Slakir vöðvar hljóta einnig minni skaða en spenntir við högg eða fall.

Verið með muninn á hreinu á því að veita friðsamlega eða beina mótspyrnu við handtöku. Ef þú reynir að losa þig úr greipum lögreglumanns geturðu fengið á þig kæru fyrir að trufla lögreglumann við störf. Mundu að þú hefur valið og átt alltaf að geta staðið upp og gengið með þeim ef þér finnst aðstæðurnar orðnar fullóþægilegar. Vertu í gömlum skóm og fötum sem mega rifna þegar verið er að bera þig eða draga.

 

Samskipti

 

Það er auðvelt að missa sig og fara að hrópa að lögreglunni þegar vinir þínir verða fyrir áreiti og finna til allt í kringum þig. Munið að þið verðið að geta haft samskipti við hvert annað. Kannski vill sá eða sú sem verið er að draga burt ekki að hangið sé í þeim lengur svo að félagarnir séu ekki í reiptogi um þau við lögregluna. Félagarnir verða að geta heyrt í þeim og geta svarað ef þau biðja um hjálp eða biðja um að þeim sé sleppt. Haldið samskiptum á rólegu nótunum, hafið þau skýr og ef hægt er að koma því við, farið yfir mögulegar uppákomur fyrirfram.

 

Samskipti við verkafólk á staðnum

 

Þegar aðgerðahópurinn mætir á staðinn er mikilvægt að hafa jákvæð áhrif á þá verkamenn eða starfsfólk sem hópurinn mætir. Þeim mun finnast þetta afar skrýtið allt saman. Það kemur fyrir að fólki finnst það þurfa að verja vinnustað sinn og sérstaklega bílstjórar geta viljað verja ökutækin sem þeir vinna á. Ef þau sem koma fyrst á staðinn skapa jákvætt andrúmsloft með því að vera ekki ógnandi í fasi er eins víst að þeir sem eru að vinna á staðnum taki mótmælum sem fínni átyllu til að fá sér kaffi og sígarettu. Það er vel athugandi að gera sérstakan dreifimiða fyrir verkamennina (athugið að ekki allir verkamenn á íslandi skilja íslensku), sem skýrir af hverju hópurinn er þarna kominn og yfirlýsingu um að fyrirtækið en ekki starfsfólk þess sé skotmark ykkar og að ykkur þyki miður að þurfa að standa í þessu.

 

Það er rétt að minna verkstjóra á staðnum endurtekið á að það sé í hans verkahring að skipa fyrir og sjá til þess að slökkt sé á vélum á vinnusvæðinu meðan óviðkomandi aðilar eru hlaupandi um það og klifrandi, og að enginn af undirmönnum hans missi stjórn á skapi sínu. Reynið að segja honum nákvæmlega hvers vegna þið eruð þarna og hvað þið ætlið að gera. Einn möguleiki er að segja honum hvenær þið munið fara líka, þá líður honum eins og hann sé með aðstæðurnar í hendi sér og hann slappar af. Einhverjir gætu reynt að fá ykkur til að rífast og vera með dónaskap. Ekki svara í sömu mynt og alls ekki lenda í handalögmálum. Aldrei, nema ýtrustu nauðsyn beri til, þ.e.a.s. í sjálfsvörn. 

 

 

TÆKI OG TÓL VIÐ VINNUSTÖÐVUN OG LOKANIR

 

Borðar

 

Borðar eru grunntækni við umferðarstöðvun og samlæsingu. Vefðu breiðum borða utan um hópinn þinn þegar hann er búinn að krækja sér saman í hring, það gerir lögreglu erfiðara fyrir að brjóta hann upp. Hafðu borðann úr sterku efni og gjarnan máttu sauma í hann sterkar höldur (t.d. úr gömlum bílbeltum eða bakpokum) sem hægt er að stinga höndum í gegn.

 

 

Bílbeltahandföng

 

Þessar eru einfaldar, ódýrar og krefjast ekki tæknilegrar útsjónarsemi. Gömul bílbelti (eða annað sterkt efni) nærðu þér í úr bílhræjum. Þú saumar ca. meterslangan bút innan á gamlan jakka þannig að hann liggi þvert yfir herðablöðin og komi út undir handarkrikanum. Þú brýtur síðan upp á endana og saumar svo þar myndist handföng. Síðan þegar þú ert að taka þátt í aðgerð þar sem þú krækir höndum saman við aðra eða stöðvar vinnuvél svo hún eyðileggi ekki hluti, krækjast handleggir þínir við aðra eða utan um eitthvað og síðan heldur þú fast í handföngin. Því smærri handföng því erfiðara er að losa þig en um leið geta þau herpst um úlnliðina.

 

Keðjur og hengilásar henta vel til að loka hliðum og tvöföldum hurðum ef á þeim eru handföng sem henta. Sterkt lím í hengilása sem loka hliðum að lóðum fyrirtækja eða vinnusvæðum gerir það að verkum að klippa þarf þá upp og stöðugt kaupa nýja.

 

Hjólalásar (D-locks) eru klassísk verkfæri fyrir beinar aðgerðir. Þeir passa vel utan um vélarhluta, hlið og hálsinn á fólki. Þegar ætlunin er að einhver læsi sjálfa/n sig fasta/n er best að vinna tvö og tvö saman. Sá sem læsir sig heldur á U-laga hlutanum, smeygir honum utan um pípu á vél/hliði og utan um eigin háls. Félaginn er með mótstykkið og lykilinn, hann læsir og lætur sig hverfa með lykilinn eða felur hann vel á sér. Ef verið er að læsa sig við vél verður fólk að vera til staðar til að láta bílstjórann vita hvað er um að vera og ef hann hreyfir vélina muni hann hálsbrjóta einhvern. Sá sem ákveður að gera þetta verður að gera ráð fyrir því að þurfa að vera þarna í nokkurn tíma (ekki vera með hálsinn beran við málminn í hörkufrosti).

 

  Í staðinn fyrir hjólalása má nota grófar keðjur, teipa utan um þær með breiðu og sterku límbandi (til að verja húðina fyrir köldum málminum) og læsa þeim um háls og hvaðeina annað fast með hengilás.

 

Öryggisverðir og lögregla gætu tekið af þér teppi og sessur og myndað hring svo enginn vinveittur komist að þér.

Aukalykill í eigin vasa gæti verið góð hugmynd en kannski finnst hann við líkamsleit. Ef félaginn með lykilinn heldur sig í kallfæri er hægt að opna lásinn í neyðartilfellum. Ekki læsa við einhvern vélarhluta sem auðvelt er að skrúfa af. Hlið er hægt að taka af hjörum og leggja bæði aktivistann og hliðið út í vegkant svo vinna geti haldið áfram, svo betra er að læsa sig þannig við hlið að þetta sé ekki hægt.

Ef engin hentug óhreyfanleg fyrirbæri eru til staðar, getur fólk læst sig saman um hálsinn tvö og tvö og lokað veginum sitjandi.

 

Ef klippur eru ekki á staðnum þarf að bíða eftir þeim. Lásinn getur slegist til þegar hann er klipptur, fólk með gamlan hálshnykk eða öðruvísi viðkvæmni fyrir raski ætti ekki gera þetta.

 

Sá sem læsir sig við undirhluta vélar eða trukks mun þurfa nokkra með sér til að koma bílstjóranum í skilning um að það sé maður undir tækinu og hann muni slasa hann eða drepa ef hann ekur af stað. Þegar vinna við Kárahnjúkavirkjun var stöðvuð í fyrsta skipti með því að tveir úr aðgerðahópnum Saving Iceland læstu sig við undirvagn vörubíls, voru allir bílstjórarnir kínverskir en mótmælendur höfðu með sér skýringamyndir á blaði. Öruggast er að hafa einn eða tvo standandi bæði fyrir framan og aftan með stórt „STOPP” skilti svo hann reyni ekki að hreyfa tækið. Að leggja bíl fyrir framan hann er enn áhrifaríkara þar sem bílstjórinn mun ekki aka á annað ökutæki en það er vitað til þess að vörubílstjórar hafi ekið gegnum hópa mótmælenda.

 

 

 

 

HANDLEGGJARÖR

 

Handleggjarör eru best séu þau gerð úr þykkum málmi eins og bútum úr gömlum ljósastaurum en gamlar pípulagnir og regnsvatnsrör úr harðplasti eru líka fín. Markmiðið með þeim er að ekki sé hægt að losa fólk sem er búið að læsa sig við fasta hluti eða aðrar manneskjur. Rörið kemur í veg fyrir að lögregla komist að með klippur.

 

Rörið þarf að passa utan um vel klæddan handlegg og vera um meter að lengd. Í gegnum mitt rörið skrúfast pinni sem maður læsir sinni úlnliðskeðju við með smellulás eða klifurlás/karbínu (eins og fjallgöngumenn nota eða forfrömuð lyklakippa). Þannig getur aktivistinn losað sig sjálfur ef honum líst ekki á blikuna. Ef enginn pinni er til staðar læsir viðkomandi sig við félagann sem stingur sinni hendi inn um hinn endann á rörinu.

 

Handleggjarörum er hægt beita á ýmsa vegu: Fólk getur læst sig saman sem keðja yfir veg eða inngang og einnig er hægt að læsa sig saman í hring eða utan um vélar. Tveir geta beitt handleggjarörum til að læsa sig utan um vélarhluta eða öxul vörubíls. Einstaklingur getur notað V-laga rör til að festa sig við gröfu eða utan um súlu. Y-laga rör eru líka möguleiki til að loka umferðargötum, þar sem lína af fólki rörar sig saman yfir götuna og endi línunnar rörar sig utan um ljósastaura sitt hvorum megin við götuna. Allt fer þetta eftir aðstæðum og hvaða aðgerðir eru í gangi.

 

Lögregla og öryggisverðir munu reyna að losa fólk með því að pota klippum inn í rörið meðfram handleggjum og klippa á festingar. Þykkbólstraðir handleggir þrengja þann aðgang. Þeir gætu beitt ógnunum, poti og snúið upp á handleggi til að fá aktivista til að losa sig eða beitt „bíðum þar til einn þarf að pissa” aðferðinni. Lausnin við því er auðvitað að drekka ekki mikið fyrir aðgerð (og verða sér úti um bleyjubuxur). Nái þeir ekki að sannfæra aktivistann um að aflæsa sig saga þeir gat á rörið svo þeir komist að með klippur að pinna og lás. Þá er keðjan rofin.

 

Það getur orðið bæði blautt og kalt þegar setið er á jörðunni svo miðið allan klæðnað við aðstæður. Hafið með nesti og drykkjarföng og félaga sem hjálpa þeim sem eru með báðar hendur læstar. Hafið í huga að þessir stuðningsaðilar verða kannski fjarlægðir af svæðinu og jafnvel handteknir. Læsið ykkur föst á síðustu mögulegu stundu því þær aðstæður geta verið óþægilegar (og munið að fara fyrst á klósett).

 

Ónýtir bílar

 

Hægt er að ná sér í aflóga bíla í gegnum auglýsingar í dagblöðum og í bílakirkjugörðum. Þú munt ekki komast langt akandi á óskoðuðum, númerslausum bíl en það má draga þá á staðinn og nota þá til að loka hliðum, götum eða hverju sem er. Þegar flakið er komið á sinn stað er hægt að skera á dekkin, taka þau undan eða velta bílnum svo erfiðara sé að færa hann burt. Það er einnig hægt að læsa honum við fasta hluti eða festa sjálfa/n sig.

 

 

 

KYNDLAR

 

Efni:

Kyndilfótur, eins og löpp af ónýtu borði eða tréstól.

Niðursuðudós

Gamlir bolir eða aðrar efnisræmur.

Hamar og nagli, skrúfur og skrúfjárn

Rúmt og loftgott vinnusvæði

 

Logandi kyndlar gefa hópgöngu að næturlagi rómantískt yfirbragð ef veður er stillt. Það er auðvelt að búa þá til. Fyrst skal fjarlægja allan pappír utanaf dósinni. Leggið dósina á hliðina og sláið með nagla og hamri göt meðfram efsta hluta hennar og miðju. Þannig næst meira loft inn í hana og loginn verður stærri.

Kyndilfóturinn er handfangið. Það þarf að vera nógu langt til að loginn sé hvergi nærri hendi eða andliti. Skrúfaðu dósina fasta ofan á stólfótinn þannig að opið snúi frá. Gott er að gera pínulítið gat í botn dósarinnar fyrst. Tyllið dósinni vel svo hún losni ekki.

Takið gamlan bómullarbol eða tusku, rífið í ræmur og vætið í lampaolíu. Þegar tuskan er vætt setjið hana í plastpoka eða einhvern dall svo ekki sé sullað með olíuna. Ekki vera með opinn eld nærri og verið staðsett þar sem loft leikur um. Geymið olíuvættar tuskurnar í lokuðu íláti fram að notkun. Þá er þeim troðið í dósina og kveikt í á réttri stundu.

Kyndillinn mun endast í um 20 mínútur. Hægt er að slökkva á honum með því að halda honum á hvolfi fast við jörð í nokkrar mínútur. Til að tryggja að tuskurnar detti ekki úr eða ef þarf að hlaupa með kyndilinn er gott að krækja vír þvert yfir opið milli gatanna sem sett voru í dósina.

 

Aðvörun: Það er alltaf hættulegt að handleika eld og eldberi gæti jafnvel fengið á sig kæru fyrir tilraun til íkveikju. Ef hópur ætlar að ganga með kyndla, verið þá vel skipulögð og búin undir rólegheit, þið viljið ekki vera með logandi kyndla í göngu sem gæti leyst upp í óreiðu. Takið lítil slökkvitæki með og látið ákveðna aðila vera ábyrga fyrir þeim. Verið viss um að halda kyndlum fjarri höfði og höndum. Aldrei bæta olíu í logandi kyndil. Ekki heldur kveikja á kyndli með hendurnar útataðar í olíu.

 

 

 NOKKUR FREKARI ÖRYGGISATRIÐI

 

 

Lögreglan

 

Ekki vinna með fólki sem finnst „svalt” að ögra lögreglunni og eru að taka þátt í aðgerð vegna þess. Ekki bara mun það geta eyðilagt markmið aðgerðarinnar og skaðað ímynd hópsins og málstaðsins heldur getur það verið hættulegt þegar trúðurinn fer að atast í lögregluþjónum, öryggisvörðum og öðrum mögulega pirruðum sem koma aðvífandi. STÆKKA

 

 

GSM símar virka sem staðsetningartæki. Ef þú vilt ekki að lögreglan viti hvar og hvenær þú varst á ákveðnu svæði skaltu ekki vera með farsíma á þér. GSM símar geta einnig virkað sem hlerunartæki.

 

Ekki senda neinar leynilegar upplýsingar með tölvupósti nema þið getið notað dulkóðaðan póst. Hafi einhver áhuga á að fylgjast með tölvupósti fólks er það auðsótt mál fyrir kunnáttufólk.

 

Ef þeir lögregluþjónar sem koma á staðinn eru atvinnumenn með reynslu af beinum aðgerðum ættu samskipti að geta gengið vel og án ofbeldis. Hinsvegar er hætta á því að þeir sem fara að eiga við þig séu töffarar sem réðu sig í sumarvinnu meðvitað eða ómeðvitað til að fá útrás fyrir einhverja valdafíkn. Þeir gætu gert alls kyns vitleysu svo fremi að þeir komist upp með það og þessvegna eru myndavélar og kvikmyndatökuvélar afar mikilvæg tæki fyrir aktivista. Lögregla á Íslandi hefur engar sérstakar vinnureglur hvað varðar beinar aðgerðir, þar sem hópur af fólki er t.d. búinn að hlekkja sig við vinnuvélar til að stöðva starfsemi þeirra af einskærri hugsjón og hugrekki. Hættan er því sú að þeir lögreglumenn sem koma á staðinn taki á málum með skyndiákvörðunum og af hvatvísi. 

 

Ákveðið alltaf einn yfirvegaðan og rólegan aðila sem sér um samskipti við lögreglu meðan á  aðgerð stendur. Sá eða sú mun verða krafin um persónulegar upplýsingar sem gæti dregið dilk á eftir sér þegar lögreglan reynir að finna sér blóraböggul og gera leiðtoga eða ábyrgðarmann úr einhverjum einum í hóp þar sem hver og einn ber fulla ábyrgð á eigin orðum og gerðum. 

 

 

Öryggisverðir á vinnusvæðum, starfsmenn eða aðvífandi borgarar gætu tekið það upp hjá sjálfum sér að vera með hnýtingar, hótanir eða jafnvel líkamlegt ofbeldi gagnvart mótmælendum. Einnig á öll starfsemi stórra fyrirtækja eða stofnana sér sína fylgismenn sem geta litið á það sem persónulega árás þegar hópur mótmælenda stöðvar starfsemi fyrirtækisins.

Við þær aðstæður er mikilvægt að halda ró sinni. Þó að undirrót þess að fólk tekur þátt í mótmælum og beinum aðgerðum sé óánægja og reiði, þá eru einstaklingar sem ganga á reiðinni einni saman fljótir að brenna út. Það er vitundin um hvernig verið er að brjóta á réttlætismálum sem hvetur fólks til að grípa til aðgerða. Það hefur ekkert að gera með blinda heift, hatur eða örvinglun. Ekki vinna með þannig fólki og ekki láta þannig sjálf/ur.

 

Við mælum með því að allir þeir sem taka þátt í mótmælum, borgaralegri óhlýðni og beinum aðgerðum taki einhverja andlega ástundun inn í líf sitt. Dagleg ástundun, t.d. jóga, hugleiðsla eða kyrjun eða allt þetta og meira til er góður grunnur til að byggja á virka og meðvitaða þátttöku í hverju því borgaralegu framtaki sem þessi bók fjallar um.

 

 

 

Til baka í greinar