Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Consensus ákvörðunarferlið (upplýst samþykki, einróma ákvörðunarferli eða einróma ákvörðun) 

Hvað er einrómaferli? 

Consensus (Upplýst samþykki/einróma ákvörðunarferli eða einróma ákvörðun) er uppbyggilegt ferli sem miðast við að virkja alla meðlimi hóps sem þátttakendur í ákvarðanatöku. Í stað þess að einfaldlega sé kosið um hlut og meirihlutinn látinn fá sínu framgengt er hópurinn ákveðinn í því að finna lausn sem allir meðlimir hópsins geta lifað með. Þannig er leitast við að tryggja að skoðanir, hugmyndir og varnaglar allra í hópnum séu teknir með í reikninginn. En einróma ákvörðun er meira en bara málamiðlun, því þetta ferli getur leitt af sér óvænta og skapandi lausn sem er stundum betri en upprunalega tillagan. Einróma ákvörðun getur virkað við ýmiskonar aðstæður: Í litlum aktivistahópum, staðbundnum samfélögum, fyrirtækjum og jafnvel heilum þjóðum og stórum landsvæðum. Hreyfing Zapatista í Oaxaca og Chiapas í Mexíkó beitir íbúastjórnun sem kallast „la consulta." Þessi samkoma, sem samanstendur af öllum körlum, konum og börnum 12 ára og eldri, hittist á íbúafundum þar sem allir meðlimir taka þátt í umræðum og eiga þannig hlut í lokaákvörðun. Í litlum hópum, um 20 manns, verður ferlið oftar einfaldara því að allir geta kynnst hver öðrum og áttað sig á hvaða sjónarhorn á tilveruna þau eiga sameiginleg. Fyrir stærri hópa hafa önnur ferli verið þróuð eins og að skipta hópum í smærri einingar fyrir umræður og ákvarðanatökur með stöðugum skoðanaskiptum og svörunum milli eininga. 

Afhverju ekki meirihlutakosningu? 

Lesendur þessarar bókar hafa alist upp innan menningarhóps sem trúir því að vestræna lýðræðiskerfið, þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði og situr svo uppi með kjörna leiðtoga, sé æðsta form lýðræðis. En meðal þeirra þjóða þar sem hvað hæst er galað um gildi lýðræðis, eru stórir hópar fólks sem nenna ekki lengur að kjósa vegna þess að því finnst kosningin ekki skipta neinu máli fyrir sig. 

Þegar fólk kýs fulltrúa er það um leið að gefa frá sér sitt persónulega umboð til þátttöku í ákvarðanatöku og eigin möguleika á að stuðla að breytingum. Á sama tíma er þetta ekki leið til að skapa sátt í samfélagi því þetta skiptir fólki í meirihluta og minnihluta, þar sem minnihlutinn er oft mjög óánægður með útkomuna. Óneitanlega getur meirihlutakosning verið praktísk því hún gerir það mögulegt að taka jafnvel mjög umdeildar ákvarðanir á stuttum tíma, en það er ekkert sem tryggir að þessi ákvörðun verði viturleg eða siðferðilega ásættanleg. Til dæmis kaus meirihluti íbúa amerísku nýlendanna að styðja réttinn til þrælahalds á sínum tíma. 

Í meirihlutastjórnkerfi ber meirihlutanum ekki skylda til að hlusta á hinn óhlýðna minnihluta eða að taka skoðun hans alvarlega vegna þess að hann getur einfaldlega beitt fyrir sig atkvæðafjölda og kosið skoðanir þeirra burt. Þannig staðhæfir meirihlutastjórnkerfi að meirihlutinn sé óskeikull og að hann geti ekkert lært af minnihlutanum. 

 Þetta skapar aðstæður þar sem sumir eru í sigurliðinu og allir aðrir tapa. Það ýtir undir ýfingar og árekstra og býður uppá að skoðun meirihlutans valti yfir hugmynd minnihlutans sem „neikvæðniraus". Vilji meirihlutans er talinn vilji alls hópsins þar sem minnihlutanum er ætlað að samþykkja og framfylgja ákvörðun jafnvel þótt að hún sé algerlega á skjön við sannfæringar og lífsskoðanir þeirra sem ekki kjósa „rétt”. Skýrt dæmi um þetta er fangelsun þeirra sem af siðferðisástæðum neita að gegna herþjónustu í lýðræðisríkjum. 

Hversvegna ætti fólk að nota einróma ákvörðun? 

Öfugt við meirihlutakosningu miðar einróma ákvörðun að því að finna sameiginlegan flöt og niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir alla innan hvers hóps eða samfélags. Ákvarðanir eru teknar í samræðum á meðal jafningja, sem taka hvern annan alvarlega og viðurkenna jafnan rétt hvers annars. Fólk sem býr við fulltrúalýðræði er oft óvirkt vegna þess að það finnur að það hefur engin áhif innan kerfisins og það verði hvort eð er ekki hlustað á raddir þess. Í einróma ákvörðun hefur hver og einn umboð til að koma fram breytingum í því kerfi sem lifað er við og til að hindra breytingar sem þeim finnst óásættanlegar. Rétturinn til að blokkera ákvörðun þýðir að það er ekki hægt að einfaldlega hunsa minnihlutann, heldur verður að finna skapandi lausnir til að koma til móts við hans hlið í öllum málum. 

 Annar kostur við einróma ákvörðun er að allir meðlimir samþykkja lokaákvörðunina og því er mun meiri skuldbinding til þess að gera ákvörðunina að veruleika. Einróma ákvörðun vinnur að þátttöku og jafnri dreifingu valds og ábyrgðar innan hóps og samfélags. Þannig getur það verið mjög öflugt ferli við að byggja upp samfélög og virkja einstaklinga. 

Hverjir nota einróma ákvörðun? 

Einróma ákvörðun er ekki ný hugmynd heldur hefur það verið prófað og sannreynt um allan heim. Samfélög laus við valdapýramída hafa verið til í  N- og S- Ameríku í hundruð ára. Fyrir árið 1600, mynduðu 5 þjóðir - Cayuga, Mohawk, Oneida, Onondaga og Seneca - Haudensosaunee þjóðasambandið sem starfaði á grunni einróma ákvörðunarferlis og er enn til í dag. Hver þjóð innan sambandsins velur einstaklinga sem sína fulltrúa á sambandsfundum. Málefni eru síðan rædd þangað til að allir eru sammála um sameiginlega stefnu. Meirihlutinn þröngvar sínum vilja aldrei upp á minnihlutann. Á sama hátt getur enginn þröngvað stríðsmanni til að fara í stríð á skjön við hans dómgreind. Annað dæmi um samfélag byggt á einróma ákvörðunarferli er Muscogee (Creek) þjóðin. Muscogee hafa elstu pólitísku stofnanir í Norður Ameríku en skrásett saga þeirra nær lengra en 400 ár aftur í tímann. Ef einróma samþykki náðist ekki um stór málefni þannig að allir væru sáttir þá var fólki frjálst að flytja og setja upp sín eigin samfélög með stuðningi samfélagsins sem þau voru að yfirgefa. Þetta er algerlega á skjön við pólitískt skipulag samtímans þar sem þörf ríkisins til að stjórna viðfangsefnum sínum gerir það nánast ómögulegt fyrir einstaklinga að vera ósammála almennri stefnu og fara útfyrir kerfið til að gera hlutina eftir eigin höfði. 

Einróma ákvörðun finnst víðar en í samfélögum frumbyggja. Í sögu Evrópu eru margar miðaldastofnanir eins og bæjarráð og ráð iðnaðarmanna („guilds"). Það eru einnig mörg dæmi um vel heppnaðar og stöndugar útópískar kommúnur sem nota einróma ákvörðunarferli. 

í Kristjaníu í Kaupmannahöfn hafa íbúarnir stjórnað sér sjálfir með notkun einróma ákvörðunarferlis síðan árið 1970. Undir það fellur skipulagning á efnahagsmálum, listrænum uppákomum og menntamálum, framboði á vatni og rafmagni ásamt heilsugæslu og öryggismálum. 

Innan samvinnuhreyfinga nota mörg húsnæðissamvinnufélög og fyrirtæki einróma ákvörðunarferli á árangursríkan hátt, þar á meðal við að taka erfiðar ákvarðanir um fjárhagsmál og framkvæmdir. Margir aktivistar sem vinna að friði, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti álíta einróma ákvörðun nauðsynlegt fyrir vinnu sína. Þeir trúa því að aðferðirnar sem beitt er til að ná fram breytingu þurfi að eiga við markmið þeirra og sýn á frjálst og friðsamt samfélagi byggt á jafnræði. Einróma ákvörðun er einnig leið til að byggja upp samfélag, traust milli manna, tilfinningu fyrir öryggi og sameiginlegan stuðning - sem er mikilvægt á tímum streitu og neyðar. Í mótmælum gegn hernaði í Greenham common í Englandi á áttunda áratugnum tóku þúsundir kvenna þátt í aðgerðum og prófuðu sig áfram með einróma ákvörðunarferli. Stórtækar aðgerðir sem telja til nokkur þúsund einstaklinga hafa þannig aftur og aftur verið skipulagðar og framkvæmdar með einróma ákvörðunarferli. 

Hvernig virkar einróma ákvörðun ? 

Það eru til margar gerðir einróma ákvörðunar og leiðir til að byggja það upp. Sumir hópar hafa þróað með sér nákvæmt skipulag meðan hjá öðrum er ferlið náttúrulegt. Formið veltur einnig á stærð hópsins og hve vel fólk þekkir hvert annað. Hér á eftir er farið yfir atriði sem taka til allra hliða einróma ákvörðunar en geta jafnframt verið auðveldlega aðlöguð ólíkum hópum. Hinsvegar þarf að virða nokkur skilyrði til að uppbygging einrómaferlis sé möguleg.

Sameiginleg markmið:  Allir meðlimir hópsins/fundarins verða að sameinast um markmið, hvort sem um er að ræða fyrirhugaða aðgerð eða eitthvað annað. Það hjálpar að skilgreina hvað þetta sameiginlega markmið er og að skrifa það niður. Síðar þegar aðstæður koma upp þar sem það virðist vera erfitt að ná samkomulagi þá er gagnlegt að rifja upp þetta sameiginlega markmið og muna um hvað þessi hópur snýst.

Skuldbinding um að ná samkomulagi

Allir meðlimir hópsins verða að skuldbinda sig til þess að ná samkomulagi við allar ákvarðanir sem eru teknar. Það getur skemmt mjög mikið fyrir ef einstaklingar vilja í laumi snúa aftur til kosningakerfis og eru aðeins að bíða eftir tækifæri til að segja: „Ég sagði ykkur að þetta myndi ekki virka." Einrómaferlið þarfnast skuldbindingar, þolinmæði og vilja til að láta hópinn ganga fyrir.

Nægur tími

Það þarf tíma til að taka ákvarðanir sem og að læra að vinna á þennan hátt.

Skýr aðferð

Gangið úr skugga um að hópurinn sé með aðferðirnar á hreinu sem hann ætlar að nota við að tækla öll málefni. Samþykkið fyrirfram allar aðferðir og viðmiðunarreglur. Í flestum tilvikum þýðir þetta að hafa einn eða fleiri málamiðlara til að hjálpa hópnum í gegnum ferlið. Hópurinn getur lesið sér til og prófað sig áfram með möguleika á málamiðlara (eða fundarstjóra). 

Aðferðin 

Það eru til mörg módel fyrir einróma ákvörðun. Það sem hér á eftir fylgir er tekið úr „peace news", tímariti friðaraktivista. 

1. Byrjað er á að skilgreina vandamálið sem þarf að ræða eða ákvörðunina sem þarf að taka. Þetta hjálpar til við að aðskilja vandamálin og spurningarnar frá persónulegum viðhorfum.

2. Hópurinn fleygir fram mögulegum lausnum. Skrifið þær allar niður, jafnvel þær sem hljóma fáránlega.

3. Hópurinn gefur fólki rými fyrir spurningar eða útskýringar á stöðu mála.

4. Möguleikarnir sem eru komnir á blað eru ræddir. Einhverjir eru lagaðir til, öðrum er eytt og stuttur listi settur upp. Hvaða möguleikar eru í uppáhaldi?

5. Tillögur eða mögulegar tillögur eru lagðar fram svo að allir séu með hlutina á hreinu.

6. Kostir og ókostir hverrar tillögu eru ræddir og gengið úr skugga um að allir viðstaddir hafi möguleika á að koma sínum sjónarmiðum fram.

7. Ef hörð andmæli gegn tillögunni koma fram, er snúið aftur að skrefi 6 (þetta er sá hluti sem tekur mestan tíma). Stundum þarf að snúa aftur að skrefi 4.

8.  Ef engin hörð andmæli eru höfð uppi má leggja ákvarðanirnar fyrir hópinn og athuga hvort hljómgrunnur sé fyrir þeim innan hans.

9.  Minniháttar andmæli eru tekin til greina og viðbætur teknar inn í dæmið.

10. Umræður.

11. Athugað hvort að upplýst samkomulag náist innan hópsins. 

Hvað ef hópurinn getur ekki náð samkomulagi ? 

Í öllum tilvikum nema örfáum mun módelið hér að ofan ná fram upplýstu samþykki innan hópsins svo fremi að meðlimir hans hafi skuldbundið sig til að ná fram ákvörðun. Hinsvegar getur það komið upp að einn eða fleiri eru meira eða minna ósammála afganginum af hópnum og engin lausn er í sjónmáli. Hér fyrir neðan eru nokkrar leiðir til að kljást við þetta. 

Einstaklingar taka yfirlýsta afstöðu, að styðja ekki eða færa sig til hliðar og leyfa þá hópnum að halda áfram með ákvörðun sína. Einnig er hægt að lýsa yfir stuðningi við ákvörðun hópsins með einhverjum ákveðnum fyrirvara.

Styð- ekki: „Ég kem ekki auga á mikilvægi þessarar ákvörðunar en ég skal samt fylgja henni."

Að standa til hliðar: „Ég persónulega get ekki tekið þátt í þessu en ég mun ekki hindra aðra í því." Persónan sem stendur til hliðar er ekki ábyrg fyrir afleiðingunum. Þetta ætti að vera skráð í fundargerð. Þriðja afstaðan er beiting neitunarvalds. Taki aðeins einn aðili innan hóps þá afstöðu er það nóg tilað hindra að tillaga sé samþykkt. Ef einhver hefur mikið við tillöguna að athuga þýðir það að hann eða hún geti ekki lifað með tillögunni ef að hún nær að ganga í gegn. Hún er svo andstæð viðhorfum viðkomandi að hann mun blokkera hana. Áköf andmæli eru ekki viðhorf eins og „Mér finnst þetta eiginlega ekki gott mál" eða „mér líkaði betur við hina tillöguna" heldur „ég get ekki lifað með þessari tillögu ef hún nær fram að ganga vegna þess að......!"  Hópurinn getur annaðhvort samþykkt neitunina eða rætt málefnið frekar og skissað upp nýjar tillögur. Neitunarvaldið er öflugt tól og því skyldi beitt af varúð.

Að vera sammála um að vera ósamála: Hópurinn getur ákveðið að samkomulag um ákveðið málefni muni ekki nást. Hér eru nokkrar tillögur um hvað er hægt að gera þegar samkomulag þarf að nást en hópurinn nær ekki saman:

*Leyfa manneskjunni sem þetta snertir hvað mest að taka ákvörðunina.

*Geyma ákvörðunina þangað til seinna eða gera hlé á umræðunum og fá sér hressingu.

*Biðja alla viðstadda um að setja fram sannfærandi rök fyrir þeirri skoðun sem þeim fellur best.

*Skipta má ákvörðuninni í smærri einingar. Hverri þeirra er hópurinn sammála og hvaða atriði ágreiningsins eru þá eftir?

*Einangra þau viðhorf og gildi sem eru gegnumgangandi í málefninu og komast þannig að kjarna málsins.

*Velta upp möguleikunum á hvað muni gerast eftir 6 mánuði, ár eða 5 ár ef að samkomulag næst ekki. Hversu mikilvægt er að taka ákvörðun núna?

*Setja má alla möguleikana í hatt og draga einn úr. Þessa lausn þarf hópurinn að  samþykkja fyrirfram.

*Ef hópurinn er ófær um að vinna úr ágreiningi eða ef svipuð mál skjóta aftur og aftur upp kollinum þá má hugleiða hvort hann ætti að fá til leiks málamiðlara sem er þjálfaður í aðferðum við að leysa ágreining.

*Sumir hópar hafa meirihlutakosningu sem neyðaráætlun, oft með skilyrðum um að samþykki verði að nást með yfirgnæfandi kosningu, eins og 80% eða 90%, til að ákvörðun teljist gild.

Að yfirgefa hópinn:  Ef einni manneskju finnst hún ávallt standa á skjön við vilja hópsins getur verið tímabært að velta fyrir sér ástæðum þess. Er þetta virkilega rétti hópurinn til að vera í? Hópur getur einnig beðið meðlim um að fara. 

 

 

 

Viðmiðunarreglur fyrir uppbyggingu einróma ákvörðunarferlis 

*Ganga þarf úr skugga um að allir skilji umræðuefnið/vandamálið. Á meðan á uppbyggingu einróma ákvörðunarferlis stendur þurfa allir innan hópsins að vera með á nótunum, þau þurfa að hlusta á umræðurnar og skilja hvert annað.

*Ganga þarf úr skugga um að allir meðlimir leggi sínar hugmyndir og þekkingu á viðfangsefninu í púkkið.

*Hver og einn setji eigin afstöðu skýrt fram. Hver og einn hlustar eftir viðbrögðum annarra meðlima og íhugar þau vel áður en eigin afstaða er ítrekuð.

*Meðlimir sýna hver öðrum virðingu og traust. Þetta er ekki keppni. Það verða engir sigurvegarar og ekkert taplið. Enginn á að vera hræddur við að viðra sínar hugmyndir og skoðanir. Manneskjur hafa allar ólíkan bakgrunn, viðmið og skoðanir, fólk hegðar sér mismunandi og það er misjafnt hvar það setur sér mörk.

*Ekki skal gera sjálfkrafa ráð fyrir að einhverjir verði að hafa betur og að einhverjir aðrir verði að tapa þegar umræðan strandar. Í staðinn þarf að finna þá lausn sem er ásættanlegust fyrir alla aðila.

*Greina þarf á milli neitunarvalds eða harðra andmæla og athugasemda sem krefjast einungis lagfæringa. Neitun eða hörð andmæli er ósætti við einhver grundvallaratriði en ekki smáatriði í tillögunni sem verið er að ræða.

*Fólk á ekki að gefa eftir einungis til að forðast árekstra og létta andrúmsloftið. Hópurinn ætti að hafa varann á sér ef samkomulag næst of fljótt og auðveldlega, það má kanna ástæðurnar og ganga úr skugga um að allir samþykki lausnina af nokkurn veginn svipuðum ástæðum. Margir hræðast ósætti og forðast það eins og heitan eldinn. Samþykki við tillögur getur þá mögulega verið byggt á litlu sjálfstrausti hjá einstaklingum eða öryggisleysi til að tjá sig opinskátt um hluti sem þau eru í raun ósátt við.

*Það er eðlilegt að fólk hafi ólíkar skoðanir á hlutunum og viðbúið að þær séu til staðar. Draga þarf þær fram og reyna að láta alla taka þátt í ákvörðunarferlinu. Ósamkomulag getur hjálpað til við ákvarðanatöku innan hópsins vegna þess að eftir því sem breidd upplýsinga og skoðana er meiri, því meiri líkur eru á því að hópurinn finni viðeigandi lausn. Hinsvegar verður hver og einn að vera sveigjanlegur og viljugur til að gefa einhver persónulega mikilvæg atriði eftir til að ná fram samkomulagi undir lokin.

*Hafa þarf í huga að hugsjónin á bak við einróma ákvörðun er að virkja og styrkja samkomulag í stað þess að knýja það fram. Ferlið við ákvarðanatökuna er það sem hver og einn setur í það sem einstaklingur og sem hluti af hópnum. Fólk þarf að vera opið og hreinskilið varðandi ástæðurnar fyrir sínum sjónarmiðum.

*Að hugsa áður en maður talar og hlusta áður en maður andmælir.

*Gefa þarf ferlinu öllu nægan tíma. Hraði er ekki merki um gæði. Það er tímafrekt að hugsa málefni vel og vandlega til enda. Þegar verið er að taka stórar ákvarðanir eða kljást við þverstæðukenndar aðstæður þá er það alltaf góð hugmynd að salta málið og leggja höfuðið í bleyti.   

Hvenær á ekki að nota einróma ákvörðun (úr bókinni Truth or Dare eftir Starhawk) 

Þegar hópurinn nær ekki sameiginlega utan um hugsunina

Hóphugsunarferli getur ekki virkað á áhrifaríkan máta nema hópurinn eigi nægilega margt sameiginlegt til að framkalla sameiginleg viðmið og viðhorf.  Þegar djúpur ágreiningur er til staðar innan hópsins um hvað hver og einn innan hans vill verður ferlið ekkert meira en æfing í pirringi.

Þegar það eru engir góðir kostir

Einróma ákvörðun getur hjálpað hóp við það að finna bestu mögulegu lausnina á vandamáli, en það er ekki áhrifarík leið til að velja á milli tveggja slæmra kosta, því að meðlimir geta aldrei ákveðið hvor er verri. Ef hópurinn þarf að velja milli þess að vera skotinn eða hengdur, má alveg eins kasta peningi upp á það. Þegar hópur siglir í strand við að reyna að taka ákvörðun, er rétt að stöðva umræðurnar í litla stund, slaka á og tæma hugann. Er hópurinn strand vegna þess að það eru aðstæðurnar sem eru óþolandi? Eru valmöguleikarnir kannski ekkert annað en tálsýn? Gæti verið að uppbyggilegasta aðgerð hópsins sé að neita að taka þátt í þessum skrípaleik?

Þegar liggur á

Í neyðartilvikum, í aðstæðum þar sem áríðandi og nauðsynlegt er að bregðast snarlega við getur það skynsamlegasta í stöðunni verið að útnefna leiðtoga til bráðabirgða.

Þegar málefnið er ekki neitt

Heyrst hefur af hópum sem eyða hálftíma í að ákveða með einróma ákvörðunarferli hvort þeir eigi að hafa fjörutíu mínútur eða klukkutíma í hádegishlé. Munið að ferlið er hugsunarferli - þegar ekkert er sem þarf að hugsa um, kastið peningi uppá niðurstöðuna.

Þegar ófullnægjandi upplýsingar eru til staðar

Þegar hópurinn er týndur á fjöllum, enginn veit leiðina heim og þið náið ekki að átta ykkur á leiðinni með því að ræða saman, sendið þá út könnunarmenn. Spyrjið: Höfum við upplýsingarnar sem þarf til að leysa þetta vandamál eða getum við aflað þeirra? Þetta á við um nálgun allra málefna sem hópurinn gæti viljað glíma við.

Almenn vandamál og hvernig maður tæklar þau 

Einróma ákvörðun getur verið tímafrek

Þegar ferlið er óvenju langt gæti það tekið meira en viku að taka sumar ákvarðanir. Hinsvegar er ekki nauðsynlegt að allur hópurinn sé með á öllum stigum ferlisins:

-Fáið lítinn hóp eða jafnvel bara einhverja tvo til að fara og endurskapa umræður og flæði alls hópsins og setja fram nokkrar mögulegar lausnir sem allur hópurinnn getur rætt síðar.

-Skiptið fundinum upp til að kljást við nokkur málefni samhliða og komið svo aftur með fullt blað af tillögum. Þetta getur gert fundinn þrisvar sinnum styttri.

-Setjið af stað vinnuhópa með mismunandi svið eins og fjölmiðla, fjáröflun, rannsóknir. Þessir undirhópar geta tekið ákvörðun um það sem þeir eru ábyrgir fyrir, innan vissra marka sem eru ákveðin fyrirfram.

Tímapressa

Tímapressa við að finna lausn á áríðandi vandamáli getur leitt af sér streitu og hópþrýsting um að „drífa þetta bara af."

-Reynið að ganga úr skugga um að í fundargerðinni gert sé ráð fyrir nægum tíma til að tækla öll málefni sómasamlega.

-Þið gætuð einnig reynt að finna bráðabirgðalausn.

Ofnotkun, of lítil notkun eða misnotkun á réttinum til að beita neitunarvaldi.

Að taka virkan þátt í hóp getur verið erfitt og að beita neitunarvaldi enn erfiðara, sérstaklega fyrir einstaklinga sem finna fyrir óöryggi innan hópsins. Þau þurfa þá að standa frammi fyrir (ímynduðum eða raunverulegum) hópþrýstingi og pirringi. Það freistar margra að þegja þunnu hljóði (að minnsta kosti þar sem þau geta kosið með handauppréttingu) og forðast mikilvæg umræðuefni. Í höndum þeirra sem eru vanir meiri völdum og athygli en þeim sjálfum er hollt, getur neitunarvaldið verið stórhættulegt. Það getur magnað upp raddir þeirra og verið beitt gegn breytingum sem gætu haft áhrif á  valdastöðu þeirra og áhrif. Í vel starfshæfum hóp ætti neitunarvald að vera sjaldséð ef því væri þá nokkurn tímann beitt, ekki bara út af því að það er síðasta úrræði heldur líka vegna þess að best er ef tekist er á við óánægju einhvers áður en kemur að því stigi að neitunarvaldi sé beitt.

-Reynið að fá fram starfskraft hópsins. Hegðun fólks í hóp endurspeglar almennt einhverjar duldar þarfir eða fyrri reynslu.

-Vinnið að því að búa til öruggt umhverfi og andrúmsloft. Takið strax á móðgunum, mismunun og yfirgangi.

-Ekki vera hrædd við að lagfæra einrómaferlið ykkar. Sumir hópar hafa möguleikann á notkun (yfirgnæfandi) meirihlutakosningar eða hlutkesti í bakhöndinni, ef að ekki er hægt að finna lausn á málefni með einróma ákvörðun.

Er hópurinn of stór?

Ef hópur er stærri en 15 - 20 manns er ráðlagt að skipta honum upp í undirhópa til að ná fram merkingabærri umræðu.

Og að lokum

Einróma ákvörðun snýst algerlega um þátttöku og valdajöfnun. Það getur einnig verið mjög öflugt ferli til að byggja upp samfélög og kraftmikla einstaklinga. Ekki örvænta þótt að þetta verði erfitt. Fyrir flest fólk er ferlið algerlega ný leið til að taka ákvarðanir. Það tekur tíma að venja sig af þeim hegðunarmynstrum sem við höfum verið alin upp við að séu góð og gild. Einróma ákvörðun æfist og það er algerlega þess virði að gera mjög góða tilraun.

 

 

 

Til baka í greinar