Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Íslenskt mál (og allt sem af því leiðir) notað án leyfis höfunda. Enginn réttur áskilinn. Alla hluta þessarar bókar má endurprenta og flytja í hvaða formi sem er og með hvaða aðferð sem er, munnlega eða af pappír, sérlega þó ef það tekur til ljósritunar á kostnað einhvers stórs fyrirtækis sem á sér einskis ills von. Aðrar aðferðir sem mælt er með er upplestur í ólöglegu útvarpi, endurprentun í blöðum og tímaritum sem þekkja ekki til þessarar bókar og svo má alveg kvitta undir þetta og gefa út undir eigin nafni. Sérhverri kröfu um að einhverju í bókinni hafi verið stolið, sé ærumeiðandi eða hvetji til ólöglegra athafna, landráðs og óeirða o.s.frv., skal beina til þingmanna viðkomandi og auðvitað er þetta gefið út einungis sem skemmtiefni. 
 

 

AÐVÖRUN

 

Þessi bók mun ekki bjarga lífi þínu! 

  Á síðustu áratugum hefur sprottið upp blómstrandi iðnaður kringum óánægt fólk. Hann stendur saman af athafnamönnum sem hagnast á því að selja fólki vöru sem skilgreinir eymd þess og útmálar hana. Þannig finnur markaðurinn jafnvel óvinum sínum stað. Bæði iðnaðinum sjálfum og óánægjunni sem er grunnur hans, er haldið við um leið og barist er gegn hvorutveggja, hjólunum er haldið gangandi með því að selja meira. Rétt eins og í öðrum þáttum tilverunnar er löngun fólks til að eitthvað raunverulegt eigi sér stað, stýrt inná neytendamarkaðinn. Þannig er möguleikum og hæfileikum fólks ýtt til hliðar og því stýrt til að kaupa „byltingarkenndar“ vörur.

  Þessi bók gæti verið hluti af því ferli. Um leið og við vonumst til að nota okkar framleiðslu til að „selja“ byltingu, getur verið að við séum bara að nota „byltingu“ til að selja okkar vöru.* Jafnvel einlægustu fyrirætlanir geta ekki bægt þessari hættu burt. En við höfum lagt í útgáfu þessarar bókar því okkur fannst, fyrir utan önnur verkefni okkar sem eru kannski eitthvað minna áberandi, að þá gæti það verið þess virði að reyna þessa tilraun einu sinni enn; sjá til hvort að hægt er að skapa vöru sem gefur meira en hún tekur.

  Ef að þessi bók á að hafa einhverja möguleika á að ná því markmiði getur lesandinn ekki nálgast hana á hlutlausan hátt eða ætlast til að hún geri það fyrir sig sem þarf að gera. Lesandinn þarft að líta á hana sem verkfæri og ekkert umfram það. Þessi bók mun ekki bjarga lífi þínu, vinur minn, það er þitt verk. 

*Þegar upp er staðið þá, eins og samfélag manna er í dag, getur það sem ekki er til sölu alveg eins ekki verið til – það er nærri ómögulegt að láta sér detta nokkuð annað í hug við verðmætan hlut en að markaðssetja hann. 
 
 

-----
 
 

Einbeittu þér að hvernig tilveran staðsetur þig. Enginn getur logið neinu að þér hvað það varðar.  

Hversu margar klukkustundir á hverjum degi situr þú við sjónvarpsskjá? En tölvuskjá? En bakvið bílrúðu? Hversu margar stundir á dag ertu bakvið gler?  

Hverju er glerið að halda frá þér? 

Hversu mikið af tilverunni kemur til þín af skjá? Er jafnspennandi að horfa á hluti eins og að gera þá? Hefur þú tíma til að gera alla þá hluti sem þig langar til að gera? Hefurðu þrek til þess? 

Hvað sefurðu lengi? Hvaða áhrif hefur stöðluð tímasetning heimsins á þig? Hún er hönnuð til að samræma ferðir milljóna einstaklinga auk þín. Hversu langt líður yfirleitt milli þess að þú athugar hvað klukkan er? Hvað er það sem stjórnar mínútunum þínum?  

Mundu að þetta eru mínúturnar sem raðast saman í líf þitt.  

Geturðu verðlagt fallegan dag þegar fuglarnir syngja og fólk röltir um? Hversu margar krónur á klukkutímann kostar að fá þig til að hanga inni við að selja hluti og pota í lyklaborð? Hvað kemur í þinn hlut í fyrir þennan dag úr lífi þínu? 

Hvaða áhrif hefur það á þig að vera í mannfjölda? Finnurðu hvernig þú blokkerar viðbrögð þín við öðrum manneskjum? 

Hver eldar ofan í þig? Borðar þú einhvern tímann án þess að annað fólk sé með þér? Borðarðu stundum standandi? Hvað veistu um það sem þú étur og hvaðan það kemur? Eru þær upplýsingar sannfærandi? 

Hvað er það sem vinnusparandi aðgerðir taka frá fólki? Hvað með hugsanasparandi aðgerðir? Hvaða áhrif hafa framleiðnikröfur á þig….samkvæmt þeim liggur verðmætið í framleiðslunni frekar en ferlinu og í framtíðinni en ekki nútíðinni sem styttist óðum því okkur liggur svo á, en vitum við hvert við erum að fara? 

Erum við að spara tíma? Spara fyrir hvern? 

Hvernig tilfinning er það að fara milli staða eftir ákveðnum brautum, í lyftum, strætisvögnum, lestum, á hraðbrautum og gangbrautum? Hvaða áhrif hefur það á þig að líf þitt sé skipulagt, sett í skorður og planað?  

Hversu langt nær ferðafrelsi þitt….frelsi þitt til að fara um og kanna ókunnugar slóðir? 

Hefur biðin áhrif á þig? Að bíða í röð, bíða í umferð, bíða eftir mat, bíða eftir strætó, bíða eftir að klósettið losni og læra að hafa hemil á þér. 

Er erfitt að hafa alltaf hemil á sér? Hafa hemil á kynhvöt sinni, slá henni á frest eða afneita henni. Þetta byrjar í barnæsku og er hamið samfara öllu öðru sem í þér býr og gefur til kynna það villta eðli sem gerir þig að félaga í dýraríkinu. 

Er ánægjan hættuleg?

Getur áhættan verið gefandi? 

Þarftu nokkuð að sjá himininn (eru stjörnur himinsins enn sýnilegar)? Þarftu að hafa fyrir augunum vatn, gras, laufskrúð, dýr eða annað sem glitrar, geislar og iðar? 

Hversu mikið af tilverunni kemur óbeint til þín af skjá? 

Finnst þér heillandi að horfa á sjálfan þig og vinahópinn af myndbandi eins og ímynd þín sé raunverulegri en veruleikinn? 

Ef gerð væri kvikmynd um líf þitt myndi einhver nenna að horfa á hana? Hvernig líður þér í aðstæðum sem þröngva þér til að hafast ekki að? Þú verður fyrir stöðugri árás táknrænna samskipta á leið þinni gegnum skóg af táknum  – hljóð, mynd, texti, skilti, tölva, myndband, útvarp, vélrænar raddir  - hverju er verið að þröngva uppá þig? Hversu oft á dag gjóarðu augunum á símann þinn? 

Finnst þér stundum eins og þig vanti einsemd, þögn og vangaveltur? Manstu eftir hvernig er að hugsa út af fyrir sig í stað þess að bregðast við áreiti? Er erfitt að líta undan? 

Er það kannski það eina sem er bannað? 

Hvert geturðu farið til að upplifa þögn og einsemd? Tæra þögn í stað skerandi hávaða…ekki einmanaleika heldur þægilega einsemd. Hversu oft hefurðu staldrað við og spurt sjálfan þig svona spurninga? Stendurðu sjálfan þig að táknrænu ofbeldi? Ertu stundum svo einmana að orð fá ekki lýst? 

Finnst þér stundum eins og þú sért tilbúinn að hætta að láta að stjórn? 

 
 
 
 
 
 
 
 

 

 

Athugið: Orðið „bylting“ sem æ ofan í æ er notað á þessum síðum í kaldhæðnum barnaskap, getur hinum meðvitaða lesanda fundist annaðhvort hlægilegt eða fráhrindandi, jafn sannfærður og hann er um að virk andstaða við einhæfni daglega lífsins sé ómöguleg og því ekki þess virði að velta henni fyrir sér. Ágæti lesandi, við viljum biðja þig að leggja vantrú þína til hliðar nógu lengi til að a.m.k. velta fyrir þér hvort að þannig hlutur væri þess virði, væri hann mögulegur og síðan, að þú gangir lengra, nógu langt til að þú áttir þig á því að þessi vantrú þín er ekkert annað en örvænting. 
 
 
 
 

Hvernig nota skal þessa bók. 

Mikilvægt er að það komi fram að þessi bók er ekki sett upp til að nota eins og „venjulega“ bók. Í stað þess að lesa hana frá upphafi til enda og vega og meta innihaldið um leið (eða jafnvel ákveða að „taka inn“ hugmyndir hennar í sönnum neytendastíl) áður en hún er sett upp á hillu eins og hver annar dauður hlutur, þá vonumst við til að hún sé notuð sem tæki til að ekki einungis velta fyrir sér heiminum heldur einnig að breyta honum. Þessi bók er sett saman úr hugmyndum og ímyndum sem var stolið og aðlagaðar markmiðum höfunda. Þau skammast sín ekkert og vonast til að lesandinn geri hið sama við innihald hennar. Það þarf ekki einusinni að lesa hana í heild ef einhvern langar ekki til þess, það getur hvort sem er verið of mikil endurtekning í því. En endilega og í öllum bænum má nota ímyndirnar fyrir hvað sem er, setja textabrot inn í sín eigin skrif, túlka hugmyndir upp á nýtt og gera þær að sínum eigin eins og að skila greinunum sem ritgerðum í félagsfræði … ef einhvern langar að vera að skila einhverju inn á annað borð.

  Hvað varðar innihaldið sjálft þá beinist það mestmegnis að gagnrýni á það skipulag sem hér hefur verið komið á fót, lesandann er treyst til að sjá um afganginn. Gagnvart hverjum og einum er himnaríki til í ýmsum útgáfum, helvíti erfum við öll saman. Þessari bók er ætlað að hjálpa fólki að skilgreina þennan heim og hluta hann í sundur. Hvað sem byggt er í staðinn er undir lesendum komið þó að bent sé á nokkrar almennar leiðir sem hægt er að byrja á. Þangað til munið að eyðileggingarhvötin er skapandi … góða skemmtun. 
 
 
 
 
 

 

 

 

 

GÖNGUM LENGRA! 

                              I.       Eðlilegt?

 

  Þegar mannkynssagan er skoðuð má m.a. sjá að mannlífið fer fram við allt aðrar aðstæður og í allt öðrum ferlum nú en fyrir tvö hundruð árum. Því er ómögulegt að fullyrða að einhver ákveðinn lífsstíll sé „venjulegur“ í þeim skilningi að hann hafi þróast í margar kynslóðir. Lífsstíll ungs fólks á vesturlöndum nútímans er á engan hátt líkur því sem fyrirrennarar þeirra voru búnar undir gegnum náttúruval og þróun í rás tímans.

Margir samræma líf sitt ákveðnum stöðlum og líta útfrá því á sig sjálf sem „venjuleg.“ Það er ákveðin hughreysting í því, fyrir einstakling, að vera innan um aðra sem hegða sér eins og láta skikka sig til að fylgja sömu rútínum og mynstrum, því það ýtir undir þá tilfinningu að vera á réttri leið. Ef maður er að taka svipaðar ákvarðanir og miða líf sitt við sömu viðmið og einhver ákveðinn fjöldi fólks þá líður manni frekar eins og þessar ákvarðanir og þessi viðmið hljóti að vera þau réttu.

En sú staðreynd að fullt af fólki lifir og hegðar sér á ákveðinn máta gerir það á engan hátt líklegra að sá lífsstíll færi þeim mesta hamingju. Þar að auki er lífsstíll „almennings“ (ef þessháttar fyrirbæri er yfirhöfuð til) í Evrópu og Ameríku, ekki tilkominn útfrá meðvituðu vali, heldur er um að kenna tæknilegu og menningarlegu umróti. Um leið og fólkið sem á heima í Evrópu, Bandaríkjunum og öllum heiminum áttar sig á því að það er ekkert endilega „venjulegt“ við líf þeirra, geta þau spurt sig mikilvægustu spurningar aldarinnar:  

„Eru til aðrar leiðir til að hugsa, lifa og hegða sér sem gætu verið meira spennandi og fullnægjandi en hvernig við hugsum, lifum og hegðum okkur í dag?“ 

II. Umbreyting. 

  Hafi sú þekking sem safnast hefur í vestrænni menningu uppá eitthvað sérstakt að bjóða, þá er það áttun á því hversu mikla möguleika mannlífið býður uppá. Þó að sagnfræðingar, félagsfræðingar og mannfræðingar hafi látið ýmsa vitleysu út úr sér þá geta þeir þó sýnt fram á hversu mismunandi hugmyndir manneskjur hafa um sig sjálf og hvernig þær hafa lifað í óteljandi ólíkum samfélögum, með ólíkum siðaboðum, ólíkum tengslum sín á milli og við heiminn. Það þarf ekki annað en lítið ferðalag til að sjá þetta svo fremi að Coca-Cola hafi ekki verið komið á staðinn löngu á undan.

  Þessvegna er ekki annað hægt en að hrista hausinn þegar einhver bendir á „eðli mannsins“ til að afsaka hvernig hann eða hún gefst upp fyrir því sem kallað hefur verið forlög. Manneskjur og ígulker deila forfeðrum þannig séð og fyrst að það eru umhverfisaðstæður sem gerðu þessi fjarskyldu frændsystkin svona gífurlega ólík, hversu mikið er þá mögulegt með því að breyta sjálfum sér og samskiptum sínum við umheiminn lítið eitt? Ef eitthvað vantar í tilveruna (eins og flestir munu viðurkenna) og fólk lifir við sorg og tómleika þó það hafi víða leitað að hamingjunni, þá liggur fyrir að einhverju þarf að breyta. Samkvæmt gömlu orðtaki verður maður „fyrst að breyta sjálfum sér vilji maður breyta heiminum“ en það er aðeins hálfur sannleikurinn.

  Mannkyn hefur uppgötvað að umhverfinu er hægt að umbreyta algerlega og hefur lagt sig eftir því af hörku. Sá staður sem lesandinn er á núna var allt öðruvísi fyrir hundrað árum, hvað þá fyrir tvö þúsund árum og þessar breytingar eru allar af mannavöldum. Maðurinn hefur algerlega umbreytt heiminum á nokkrum síðustu árhundruðum og um leið breytt lífi hverrar einustu plöntu- og dýrategundar, sérstaklega sinnar eigin. Það sem vantar er að lagt sé í þessar breytingar (eða ekki) vegna að fólk þarfnist þeirra eða langi í þær, því þær eru í mörgum tilfellum tilkomnar vegna trúar á eitthvað allt annað en lífsgæði.

  Um leið og kominn er skilningur á þetta viðhorf geta bæði einstaklingar og samfélög þeirra skapað sér ný forlög. Í stað þess að vera leiksoppar afla sem virðast utan seilingar manna er hægt að læra af því að kynnast sjálfum sér um leið og breytt er um umhverfi. Þannig verður lífið að ferð sem leiðir fólk út úr heiminum eins og það þekkir hann og útfyrir þá sjóndeildarhringa sem tilheyra hversdagsleikanum. „Venjulegt“ fólk breytist í mestu listamenn allra tíma þegar það leggur í að skapa og endurskapa sig sjálft og að verða það sjálft.

  Til að nálgast þann stað í tilverunni verður fólk að læra að lifa saman og vinna saman, þannig sér fólk hvað tengir það saman og það lærir að lifa útfrá því. Sé það ekki mögulegt getur enginn upplifað þá endalausu möguleika sem heimurinn býr yfir, því heimurinn er samsettur úr öllum sem lifa og allir lifa í honum um leið og hann skapar alla menn.

  Annað sem vantar er að fólk þekki eigin langanir. Hvað mannskepnan þráir er erfitt að festa hönd á. Ef ætlunin er að skapa sér forlög með því að elta uppi langanir sínar og umbreyta þeim, verður fyrst að uppgötva þær og finna leiðir til að láta þær í ljósi. Til þess verður reynsluheimurinn aldrei of stór eða ævintýramennskan nógu mikil. Það þýðir að þau sem reisa þennan nýja heim verða að vera bæði gjafmildari og gráðugri en þau sem á undan komu, gjafmildari gagnvart hvort öðru og gráðugri gagnvart lífinu. 

III. Útópía 

  Spurningin sem brennur þegar á vörum lesandans er hvort að þetta séu nú ekki draumórar?

Jú, auðvitað. Það er einmitt það sem allir óttast hvað mest -  að allir draumar fólks, allar þær brjáluðu hugmyndir sem fólk fær og allar þessar óframkvæmanlegu rómantísku draumsýnir sem fólk gengur með, geti orðið að veruleika og að heimurinn geti uppfyllt óskir allra. Fólk eyðir lífinu við að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útiloka þann möguleika. Það hamrar á eigin óöryggi, gengur fyrirfram frá eigin framtaki, gerir lítið úr ást sinni og gefur sjálft sig upp á bátinn meira að segja áður en umheimurinn fær tækifæri til þess….því ekkert vegur þyngra á herðum nokkurs manns en sá möguleiki að það sem hann þráir sé mögulegt. Sé þetta satt þá eru til hlutir í þessu lífi sem eru þess virði að berjast fyrir. Það er ekkert sárara en að tapa þegar til svo mikils er að vinna svo að fólk gerir hvað það getur til að forðast að reyna.

  Sé nokkur minnsti möguleiki á að það sem hjartað þráir geti orðið að veruleika, þá er auðvitað ekkert vit í öðru en að skella sér í baráttuna af öllu afli og taka sénsinn á að tapa. Örvænting og tómhyggja virðast samt öruggari kostir og fólk sýnir heiminum vonleysi sitt sem afsökun fyrir að hafa ekki einusinni reynt. Fólk stendur því í stað, jafn öruggt og lík í kistu…en samt er þessi skelfilegi möguleiki til staðar.

  Þessi heimur mun aldrei aðlagast þörfum fólks fullkomlega, fólk mun alltaf deyja of ungt, fullkomin ástarsambönd munu áfram fara í klessu, ævintýri munu enda með ósköpum og fallegar minningar glatast. En það er samt sárast hvernig flúið er frá þessum óhjákvæmilega sannleik inn í faðm miklu hræðilegri hluta.vera að það sé satt að einstaklingar dæmist til einsemdar í heimi sem finnst fólk ekki koma honum við, en það þarf samt ekki að vera nein óbreytanleg staðreynd að á meðan sumt fólk sveltur eru aðrir að fleygja mat. Það þarf ekki að vera neinn sannleikur í því að menn og konur eyði lífi sínu í vinnu við að sinna innantómri græðgi örfárra ríkra manna, bara til að lifa af. Það þarf ekki að vera þannig að fólk þori aldrei að segja hvort öðru hvað það langar að gera, að deila með öðrum í einlægni og nota hæfileika sína og tækifæri til að gera lífið bærilegra og fallegra. Þetta er harmleikur sem þarf ekki að eiga sér stað, heimskulegur, aumkunarverður og tilgangslaus. Það er ekki einusinni hægt að kalla það draumóra að vilja binda enda á svona skrípaleiki.

  Ef fólk gæti fengið sig til að trúa því að það sé ósigrandi og geti gert hvað sem það vill, þá verður mun færra óframkvæmanlegt. Það þarf ekki að trúa á hið ómögulega. Það þarf að hafa hugrekki til að horfast í augu við þann skelfilega möguleika að líf fólks verði virkilega í þeirra eigin höndum og að hegða sér í samræmi við það. Fólk á ekki að sætta sig við það eymdarástand sem forlögin og „mannseðlið“ hafa þröngvað upp á það, heldur spyrna á móti og hrista það af sér. Það er ekkert hrikalegra og ekkert fáránlegra en að lifa langa ævi innan seilingar frá himnaríki án þess að teygja sig nokkurn tímann eftir því. 

Til baka í greinar