Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

A FYRIR ANARKISMA

 

ENGINN ÖÐRUM ÆÐRI 

  Þeim sem fannst gaman í skólanum mun örugglega líða vel á vinnumarkaðnum. Það vald sem víða er sett undir kennara og skólastjóra leggst ekkert af við útskrift, stríðni bekkjarfélaganna ekki heldur. Þetta viðgengst einnig í reynsluheimi hinna fullorðnu, í meira mæli ef eitthvað er. Ef einhverjum fannst þrengt að frelsi sínu áður en hann eða hún fór út á vinnumarkaðinn ætti viðkomandi bara að bíða þangað til kemur að því að dansa eftir pípum framkvæmdastjóra, leigusala, eigenda fyrirtækja, þjónustufulltrúa bankanna, skattstjóra, bæjarfulltrúa, lögfræðinga og lögreglu. Lögsagnarumdæmi ákveðinna aðila sleppir kannski þegar námi lýkur en um leið er viðkomandi kominn undir stjórn annara sem líður enn betur á valdastól.

  Þetta er tilkomið vegna félagslegs fyrirbæris sem kallast valdapýramídar.

  Valdapýramídi er matskerfi þar sem verðleiki fólks mælist í því hversu marga það hefur undir sér og af hversu mikilli skyldurækni það hlýðir yfirboðurum sínum. Fólk beitir þunganum niður fyrir sig í valdastrúktúrnum, allir neyða alla aðra til að sætta sig við kerfið og hlýða því. Fólk þorir ekki að óhlýðnast þeim sem sitja því ofar í valdapýramídanum því þeir geta látið vald allra og alls undir þeim hellast yfir þau óhlýðnu. Það þorir enginn að afsala sér völdum yfir þeim lægra settu því þeir gætu endað ofan við þá í kerfinu. Innan valdapýramídans er fólk svo önnum kafið við að verja sig fyrir hvoru öðru að það hefur aldrei tækifæri til að staldra við og velta fyrir sér hvort að þetta sé virkilega besta leiðin til að skipuleggja samfélag manna. Ef fólk næði að hugsa málið, væri það örugglega sammála um svo sé ekki, því þegar grannt er skoðað vita allir að hamingjan felst í því að hafa stjórn á eigin lífi, ekki annara. Svo lengi sem fólk er að keppast við að stjórna öðrum, kemst það ekki hjá því að vera sjálft undir stjórn.

  Það er þessi valdabarátta sem allt frá barnæsku kennir fólki að sætta sig við yfirvald af öllum toga, burtséð frá því hvort það er hentugt eða ekki. Fólk lærir að bugta sig og beygja fyrir hverjum sem heldur því fram að hann eða hún sé merkilegri en það sjálft. Það er valdapýramídinn sem gerir það að verkum að hommahatur er algengara meðal karlmanna í fátækrahverfum, þeir upphefja sjálfa sig og þykjast vera merkilegri og mikilvægari en einhver annar, sama hver. Það er einnig valdapýramídinn í verki þegar þrjú hundruð þúsund manns taka þátt í aðgerðum innrásarhers í krafti kjörins fulltrúa síns. Samfélaginu tilheyra þrjú hundruð þúsund. Einungis örfáir þeirra vilja lýsa yfir stuðningi við stríð en staða fulltrúans er svo sterk að gagnrýnin er næsta lítil og aðeins er ýjað að því að hann sé ekki lengur raunverulegur fulltrúi alls hópsins, ef hann hefði nokkurn tímann geta kallast það. Það eru viðmið valdapýramídans sem bera ábyrgð á kynþáttahatri, stéttaskiptingu, kynjamisrétti og þúsund öðrum vanköntum á samfélögum manna. Það er valdapýramídinn sem fær ríka og fátæka fólkið til að horfa á hvort annað eins og það sé ekki einu sinni mennskt. Hann stillir vinnuveitanda upp gegn verkamanni, framkvæmdastjóra gegn starfsmanni og kennara gegn nemanda, fólk berst á móti hvoru öðru innan þessa kerfis í stað þess að vinna saman. Þessi aðskilnaður gerir það að verkum að fólk hefur ekki hag af hugmyndum, færni og hæfileikum hvers annars heldur lifir í afbrýði og ótta. Auðvitað eru góð dæmi um samvinnuhæfileika fólks allsstaðar í samfélögum manna en takið eftir að þau eiga sér mörg hver stað þar sem fólk er ekki að vinna fyrir aðra, heldur aðeins að lifa með öðrum. Það er hinsvegar valdapýramídinn sem leyfir yfirmanni að móðga og áreita undirmann, alveg eins og þegar lögreglan sýnir fólki vald sitt. Vald gerir fólk kalt og illgjarnt og kúgun gerir úr því fáfróða heigla og allir sem lifa innan valdapýramída taka þátt á hvoru tveggja. Siðferðileg viðmið innan pýramídans bera ábyrgð á eyðileggingu hins náttúrulega umhverfis og slæmri meðferð á dýrum. Kapítalismi vestursins leiðbeinir mannkyni við að ráðskast með hvaðeina sem það getur komið höndunum yfir, sama hvað það kostar. Það eru líka viðmið valdsins sem senda fólk til að berjast í stríði, fá það til að berjast við að hafa vald yfir hvoru öðru og finna upp kröftugri vopn þar til heiminn stendur á barmi gjöreyðingar.

  En hvað er hægt að gera við valdapýramídann? Er þetta ekki gangur heimsins? Eru kannski aðrar leiðir sem fólk getur byggt samskipti sín á og önnur viðmið sem það getur lifað eftir?

ANARKISMI ENDURSKOÐAÐUR SEM PERSÓNULEG NÁLGUN Á LÍFIР

  Til að byrja með er hægt að hugsa um anarkisma, ekki sem hugmyndir um eitthvað nýtt „heimsskipulag“ eða félagskerfi. Þess í stað er t.d. hægt að líta á hugmyndir anarkista um samfélög byggð á samvinnu og skipulag án yfirvalds, sem aðferð til að nálgast réttlátara samfélag. Það má horfa til íslandssögunnar, þingeysku bændanna sem fyrir hundrað árum lásu bækur nokkurra fyrstu hugmyndafræðinga alþjóðlegu anarkistahreyfingarinnar og stofnuðu upp úr því samvinnufélög um að bæta sinn hag. Þeir unnu saman að uppbyggingu sinna samfélaga og skipulögðu verslun, vélakaup og vörudreifingu. Þeir kölluðu sig ekki anarkista en skipulögðu sig anarkískt þegar þeir hófu starfsemi sína, hvað svo sem varð úr þessari hreyfingu seinna meir þegar milliliðirnir urðu of margir.

  Það voru ekki uppi neinar kenningar um anarkisma á íslandi á níundu, tíundu og elleftu öld. Samt var ekkert ríki og engin lögregla heldur goðar sem voru fulltrúar síns héraðs einungis svo lengi sem þeir unnu sér inn virðingu síns fólks. Umræður á þingi voru form af upplýstu samþykki. Þetta var skipulagt stjórnleysi sem virkaði þangað til einn komst upp með að ná meiri völdum en aðrir. Það þýðir ekki að á Íslandi til forna hafi verið fyrirmyndarsamfélag en stjórnskipan var háðari vilja samfélagsins en lýðræði dagsins í dag.

  Það þarf heldur enginn að kalla sig anarkista eða vera víðlesinn um anarkistakenningar til að geta starfað útfrá og miðlað hugmyndum um samvinnu frekar en samkeppni sem mikilvægan þátt í þróun mannlífsins.  

Hafi maður alist upp í heimi sem er stýrt út í ystu æsar er ómögulegt að ímynda sér hvernig lifað væri án nokkurs yfirvalds, lagabálka og ríkisstjórna. Það er því engin furða að hugmyndir um skipulag án yfirvalds (þ.e. anarkískt) séu ekki teknar alvarlega sem víðtækt félagslegt skipulag eða stjórnmálakerfi. Enginn veit hvernig samfélag án yfirstjórnar myndi vera eða hvernig á að nálgast það, ekki einusinni anarkistarnir sjálfir (en fyrir þau sem langar þá má glugga í ýmsar bækur um samfélög án yfirstjórnar frá sjónarhorni bæði mannfræðinnar og vísindaskáldsagna). 

Í stað þess að velta fyrir sér útópíusýnum má byrja á að hugsa um anarkisma sem einstaklingbundna áttun á sjálfinu og öðru fólki. Þannig er hægt að taka stjórnleysishugsunina sem persónulega nálgun á lífið. Það er ekki jafn erfitt að setja sig í þau spor. Þegar anarkisminn er tekinn upp á þennan máta verður hann ákvörðun um að hugsa fyrir sjálfan sig í stað þess að fylgja í blindni. Hann verður afneitun á stjórnunarpýramídum og afsvar við rétti nokkurrar þjóðar, lagasetningar eða nokkurs annars afls til að setja sig ofar persónulegri stjórnun einstaklinganna. Hann verður eðlislægt vantraust á þeim sem telja sig halda einhverri stöðu sem geri þá æðri öðrum í umhverfi sínu og um leið meðvituð ákvörðun um að setja sjálfan sig ekki í þá stöðu gagnvart öðru fólki. Mest af öllu verður anarkisminn afneitun á því að setja eigin ábyrgð í annara hendur. Hann verður áhersla á að fólk sé ekki bara fært um að velja eigin örlög heldur einnig krafa um að það láti verða af því.

  Samkvæmt þessari skilgreiningu eru til miklu fleiri anarkistar en almennt var talið, þó að fæstir þeirra myndu titla sig þannig. Þegar fólk hugsar málið þá vilja allir halda í rétt sinn til að lifa lífi sínu og hugsa og hegða sér eins og þeim finnst vera rétt. Flest fólk treystir sér til að ráða ráðum sínum frekar en að það treysti einhverri yfirvaldsmynd til að stjórnast með sig og sína. Allir verða jafn argir andspænis ópersónulegri valdníðslu kerfisbákns og enginn vill verða uppá náð og miskunn valdastofnunar kominn - hvorki ríkisstjórnar, skrifræðisbákns, fyrirtækis né lögregluembættis. Enginn vill láta þessi öfl ráðskast með líf sitt. Almennt gerir fólk það sem það langar til að gera og það sem því finnst vera rétt þegar það kemst upp með það. Í sínu daglega lífi er fólk almennt anarkistar. Hvenær sem fólk tekur ábyrgð á sjálfu sér og tengslum sínum við umhverfi sitt, í stað þess að lúta einhverju hærra settu, er það að virkja anarkismann. Því fleiri sem hugsa eins og anarkistar því betra getur samfélagið orðið. Þannig verður byltingarhugtakið að þróun en ekki neinu tímabundnu átaki.

  En hversvegna er fólk alltaf að sætta sig við stjórnun annara og skapa jafnvel stofnanir sem ráðskast með manneskjur ef það er allt anarkistar í eðli sínu? Ætti það ekki frekar að finna leiðir til að lifa með öðrum í samráði við þá sem það lifir í félagi við í stað þess að vera háð ytri reglugerð? Það kerfi sem hver og einn sættir sig við er það kerfi sem allir verða að lifa við. Ef einstaklingurinn vill sitt frelsi, hefur hann ekki efni á að láta sér á sama standa hvort að þau sem lifa í kringum hann krefjast þess að ráða lífi sínu eða ekki. 

ÞARF FÓLK VIRKILEGA Á LEIÐTOGUM AÐ HALDA TIL AÐ STÝRA SÉR OG STJÓRNA? 

Í þúsundir ára hefur almenningi í hinum vestræna heimi verið sagt að miðstýrt ríkisvald og pýramídalagað stjórnkerfi sé það sem vera skuli og forsendurnar fyrir því gefur það sér sjálft. Því hefur verið kennt að án lögreglu myndu allir drepa hvern annan, að ekkert kæmist í verk án verkstjóra og yfirmanna og að án ríkisstjórnar myndi sjálf siðmenningin hrynja til grunna.

  Auðvitað er litlu afkastað þegar verkstjórinn lítur undan og auðvitað skapast ringulreið þegar ríkisstjórnir falla og stundum á ofbeldi sér stað vegna þess að lögreglan er fjarri. En það er vegna þess að hlýðni er lærð hegðun samtímans. Þetta þýðir engan veginn að ekki sé hægt að skipuleggja samfélagið á annan hátt.

Það er einfaldlega þannig að verkafólk skilar minna af sér þegar yfirmaður þess skreppur frá vegna þess að það er vant því að vera haldið að verki og vegna þess að það hefur andstyggð á því að vera rekið áfram af verkstjórum. Fólk væri virkara ef það ynni saman að sameiginlegum markmiðum í stað þess að vera borgað fyrir að taka við skipunum og vinna að verkefnum sem það hefur ekki áhuga á og ekkert um að segja. Samfélag manna gengur upp almennt þar sem fólk vinnur saman, virðir hvort annað og lætur hvort annað í friði í nær öllum tilvikum í daglega lífinu (sama hvað fjölmiðlar hamra á glæpum og mannhatri – góðar fréttir þykja engar fréttir þar á bæ). Það er ekki þar með sagt að nútímafólk sé reiðubúið til að taka þátt í framtakssamri skipulagningu eða sé fært um það. En framtaksleysi fólks er í þessu tilfelli áunnin frekar en eðlislæg. Rannsóknir stjórnunarfræða sýna að því meiri ábyrgð sem fólk fær í vinnunni, þeim mun meiri verður framtakssemi þess og hvatning til að ná árangri í starfi.

  En er lögreglan nauðsynleg til að halda friðinn? Hér verður ekki farið út í hvernig hlutverk „þjóna laga og reglna“ getur dregið fram það versta í manneskjunni eða hvernig ofbeldi lögreglunnar hvetur ekki til friðar. Hinsvegar er rétt að horfa í hvaða áhrif það hefur á almenning að búa við verndun lögreglunnar.

  Ríkið hefur verið skilgreint sem stofnun sem hefur einkarétt á beitingu valds á ákveðnu svæði. Í grunninn stendur það saman af lögregluembættinu ásamt löggjafarvaldi og fangelsisyfirvöldum. Ef þessara þátta nyti ekki við væri öðrum stofnunum ríkisins ekki stætt á að leggja neinar kröfur á einstaklinga. Um leið og lögreglan er ekki lengur bein útfærsla á óskum þess samfélags sem henni er ætlað að þjóna verður hún kúgunarafl gagnvart fólkinu sem samfélagið stendur saman af, og alltaf þegar lögregluembætti er komið á laggirnar aðskilur það sig fljótt frá samfélaginu, það verður utanaðkomandi yfirvald. Ofbeldishugtakið miðast ekki einungis við líkamleg meiðsl, þau mannlegu samskipti sem komið er á með valdi, eins og þau sem fara fram milli lögreglu og borgara eru ofbeldi. Þegar komið er fram við fólk á ruddalegan hátt lærir það að svara á sama máta. Þessvegna er vel mögulegt að lögreglan auki á spennu og ofbeldi frekar en hitt þar sem hún er fyrst og fremst einkennisklæddir útsendarar ríkisvaldsins. 

EN HVAÐ MEÐ RÍKISSTJÓRNINA? ÁN HENNAR MYNDI SAMFÉLAGIÐ HRYNJA TIL GRUNNA OG ÞAR MEÐ LÍF MANNA!? 

Að sjálfsögðu yrðu hlutirnir án yfirstjórnar nokkuð mikið öðruvísi en þeir eru núna, en er það svo slæmt? Er vort nútímasamfélag virkilega það besta af öllum mögulegum? Er það þess virði að gefa ráðamönnum og ráðherrum svona mikið vald yfir lífi og tilveru fólks almennt, bara vegna þess að þau sem eru lægst í valdapýramídanum þora ekki að prófa neitt frábrugðið?

  Það er ekki hægt að halda því fram að þörf sé á ríkisstjórninni til að koma í veg fyrir stórfelldar blóðsúthellingar því það eru ríkisstjórnir sem hafa haldið úti verstu slátrunum allra tíma í styrjöldum og helförum og skipulögðum útrýmingu heilla þjóðflokka og menningarhópa. Það má líka vel vera að margir láti lífið í þeirri ringulreið og innri deilum sem koma upp þegar ríkisstjórnir falla. En sú barátta er alltaf milli annara valdagráðugra hópa, annara tilvonandi einræðisherra og ráðherra sem vilja verða ný ríkisstjórn. Fólk almennt hefur ekki áhuga að vera kóngar, vandamálið þar hinsvegar er fylgispekt við aðra sem setja sig í hásæti. Valdabarátta er alltaf tilkomin vegna þess að það að fylgja leiðtoga er lærð hegðun en sem hægt er að venja sig af.

  Ef almenningur myndi afneita yfirstjórnun algjörlega og neita að þjóna nokkrum æðri sjálfum sér þá myndu ekki neinar stórfelldar styrjaldir eða helfarir eiga sér stað. Það myndi vera ábyrgð sem hver og einn yrði að standa jafnt undir. Í samvinnu við aðra gæti fólk neitað að viðurkenna að nokkurt yfirvald sé þess virði að þjóna því og neitað að sverja nokkrum hollustueið nema sjálfu sér og þeim manneskjum sem lifað er í samfélagi við. Ef allir myndu gera það myndi heimurinn aldrei upplifa aðra heimsstyrjöld.

  Jafnvel þó að heimur án valdapýramída sé mögulegur ætti fólk ekki að miða líf sitt við þann tímapunkt í framtíðinni. Það ætti frekar að horfa á sjálft sig sem hluta af heiminum og átta sig á um leið og maður breytist sjálfur breytist heimur framtíðarinnar. Fólk ætti að skoða ferli undirgefni og stjórnunar í sínu eigin lífi og gera það sem það getur til að losna undan fargi þeirra. Fólk ætti að gera hina anarkísku hugsjón; enginn neinum æðri, enginn neinum óæðri, virka í lífi sínu á allan mögulegan máta.  
 

Þegar Lísa var í Undralandi, lenti hún upp á kant við drottninguna sem þegar í stað öskraði að höfuðið skyldi höggvið af Lísu. Lísa varð dauðhrædd við alla hersinguna og var við það að örvænta þegar hún áttaði sig: Konungsfjölskyldan og öll þeirra hersing voru bara spil. Hvað var að óttast af hendi spila? Um leið og hún áttaði sig á þessu hrundi vald drottningarinnar. Lísa hafði gefið spilunum vald af því að hún gerði ráð fyrir valdi þeirra.

  Það er engin manneskja á nokkurn hátt merkilegri en þú sem lest þetta. Allt það fólk sem er titlað sem forsetar og ráðherrar eða hefur stöður sem forstjórar og poppstjörnur er bara fólk eins og þú. Vald þeirra ræðst af valdapýramídanum og um leið og honum er varpað á ruslahauga sögunnar er það valdalaust og getur ekki þóst vera merkilegra en þú. Vald þeirra er ekkert um leið og þú ákveður það.   
 

Til baka í greinar