Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

TAKTU ÞÁTT Í BYLTINGUNNI – VERTU ÁSTFANGINN

  Að verða ástfanginn er hið algera og endanlega birtingarform byltingar og andspyrnu gegn þessum leiðinlega, andfélagslega og augljóslega firrta nútíma sem þrengir að mannlífinu. Ástin breytir heiminum. Ástfangið fólk lætur sér ekki leiðast því hjörtu þess eru full af ástríðu. Þau sem áður voru andvaralaus spennast upp og láta þrá sína knýja sig áfram. Heimurinn sem virtist tómur og þreytandi fyllist merkingu og áhættum sem er þess virði að taka. Líf elskhugans er gjöf, ævintýri þar sem allt er lagt undir, hverful fegurð andartaksins greypist í hugann. Maður sem áður var áttavilltur, einangraður og ringlaður veit nákvæmlega hvað hann vill þegar hann verður ástfanginn. Tilveran öðlast skyndilega merkingu. Hún verður dýrmæt, jafnvel dýrðleg og göfug. Brennandi ástríða er móteitur við verstu tilfellum örvæntingar og uppgjafar.

Ástin gerir einstaklingum kleift að tengjast öðrum þannig að það öðlist merkingu – fær þá til að skríða út úr skelinni og taka þá áhættu að vera heiðarlegir og hvatvísir og  kynnast hvor öðrum náið. Þannig gerir ástin fólki kleift að þykja vænt hvoru um annað af einlægni frekar en af skyldurækni kristinna kennisetninga. En á sama tíma kippir ástin elskhuganum út úr rútínu hversdagsleikans og aðskilur hann frá öðrum manneskjum. Ástfanginn einstaklingur dvelur í órafjarlægð frá mannhjörðinni, rétt eins og hann búi í allt öðrum heimi.

Á þennan hátt er ástin niðurrifsafl því hún er ógnun við fastmótað líf nútímafólks. Hrútleiðinlegur vinnudagur og siðareglur umhverfisins hafa enga þýðingu fyrir ástfanginn einstakling því mikilvægari öfl stýra honum en deyfð og virðing fyrir hefðum. Markaðsáætlanir sem miða við áhugaleysi og óöryggi fólks hafa engin áhrif. Ekki frekar en afþreyingin sem sniðin er að óvirkri inntöku úttaugaðs bölsýnisfólks.

Í lífsgæðakapphlaupi nútímans er enginn staður fyrir hinn ástríðufulla og rómantíska elskhuga hvort sem um er að ræða starf hans eða einkalíf. Honum gæti dottið í hug að fara á puttanum til Alaska (eða að sitja í lystigarðinum og horfa á skýin sigla hjá) með ástinni sinni frekar en að læra fyrir stærðfræðipróf eða selja fasteignir. Ef hann ákveður að svo sé, mun hann hafa hugrekki til að láta verða af því frekar en að láta ófullnægðar hvatir kvelja sig. Hann veit að það að stelast inn í kirkjugarð og njóta ásta undir stjörnubjörtum himni á sumarnóttu er eftirminnilegra en sjónvarpsdagskráin. Þannig er ástin ógnun við atvinnumarkaðinn og hið neytendaknúna hagkerfi sem gengur út á að mestmegnis gagnslausar vörur gangi kaupum og sölum.

Á sama hátt er ástin ógnun við þau pólitísku kerfi sem nútímamaðurinn lifir við, því það er erfitt að sannfæra mann um að hann vilji berjast og deyja fyrir hugmyndir annarra um ríki og þjóð, þegar hann hefur eitthvað í sínu eigin lífi til að lifa fyrir. Það gæti mögulega reynst erfitt að sannfæra hann um að borga skattana sína. Ástin er ógn við siðmenninguna því þegar fólk öðlast visku og göfugleika sannrar ástar þá munu hvorki hefðir né venjur virka sem hindrun því þær eru algjörlega óviðkomandi þeim tilfinningum sem stjórna ástföngnu fólki.

  Ástin er jafnvel ógnun við samfélagið sjálft. Smáborgarar forðast og óttast ástríðufulla ást, því hún er ógnun við þann stöðugleika og það yfirskin sem þeir sækjast eftir.  Ástin leyfir engar lygar eða ósannindi, ekki einu sinni kurteislegar hvítar lygar, heldur berar allar tilfinningar og opinberar öll leyndarmál sem tamið fólk þolir ekki. Tilfinningar og kynferðisleg viðbrögð koma í veg fyrir að ástfangið fólk ljúgi, aðstæður eða hugmyndir virka ýmist æsandi eða fráhrindandi á það hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvort sem það er kurteislegt eða ekki og hvort sem það þykir ráðlegt eða ekki. Það er ómögulegt að vera elskhugi og á sama tíma ömurlega ábyrgðarfullur hluti af nútíma samfélagi, því ástin fær fólk til að gera hluti sem hvorki geta talist „ábyrgðarfullir“ né „heiðvirðir.“ Sönn ást þjónar eingöngu einum húsbónda – ástríðunni sem fær hjartað til að slá hraðar og því er hún óábyrg, óhamin og uppreisnargjörn og hún fyrirlítur hugleysi ásamt því að vera hættuleg bæði elskhuganum og þeim sem eru í kringum hann. Ástin hvetur konur og menn bæði til hetjudáða og dáða sem seint teljast til hetjuskapar og einnig til óverjandi hegðunar sem sá sem elskar þarf ekki að verja.

  Elskhuginn talar annað siðferðis- og tilfinningamál en hinn dæmigerði smáborgari.  Meðaljóninn hefur engar ómótstæðilegar brennandi þrár. Það eina sem hann þekkir er, því miður, hin þögla örvænting tilveru sem snýst um að ná þeim markmiðum sem fjölskylda hans, vinnuveitandi, þjóð og siðmenning hefur sett honum án þess að hann geti nokkurn tímann hugleitt hvaða langanir og þarfir hann sjálfur hefur. Hann hefur engan eigin mælikvarða á hvað er rétt eða rangt fyrir sjálfan sig. Þar af leiðandi neyðist hann til að aðhyllast kreddur og kenningar til að leiðbeina sér í lífinu. Á hugmyndafræðamarkaðnum er gríðarlega fjölbreytt úrval siðaboða á boðstólum, en hvaða siðalögmál maðurinn velur skiptir ekki máli svo lengi sem eitthvað verður fyrir valinu. Annars mun hann ekki vita hvað hann á að gera við sjálfan sig og líf sitt. Skelfilega margir menn og konur hafa aldrei gert sér grein fyrir því að þau höfðu möguleikann á að ráða örlögum sínum og ráfa því um þokukennda tilveru, þar sem þau hugsa og hegða sér samkvæmt lögmálum sem þeim voru kennd. Vegna þess að þau hafa ekki lengur nokkra hugmynd um hvað þau eigi að gera. Elskhuginn aftur á móti þarf engar fyrirfram settar reglur til að leiðbeina sér, gagnvart honum er það ástríðan ein sem skilgreinir rétt og rangt því hjartað vísar honum leiðina í gegnum lífið. Þrár hans lita heiminn fagran og gefa honum merkingu og þannig sér hann heiminn. Hann hefur enga þörf fyrir kenningar eða siðalögmál, boðorð eða fyrirmæli því hann veit leiðbeiningalaust hvað hann á að gera.

  Hann er því talsverð ógnun við siðmenntað samfélag. Hvað ef allir ákvæðu sjálfir hvað væri rétt og rangt, án tillits til hefðbundinnar siðfræði? Hvað ef allir væru nógu hugrakkir til að taka afleiðingum þess að gera bara það sem þeim sýndist?  Hvað ef allir óttuðust ástlausa, líflausa einhæfnina meira en að taka áhættu og daga kannski uppi kaldir og svangir einhvertímann í framtíðinni?  Hvað ef allir leggðu til hliðar „ábyrgð“ sína og „heilbrigða skynsemi“ og þyrðu að fylgja sínum villtustu draumum, leggja allt undir og lifa hvern dag sem hann væri hinn síðasti. Hvernig staður væri heimurinn þá? Að sjálfsögðu allt annar en hann er núna. En þau sem fylgja „meginstraumnum“óttast breytingar og þau sem viðhalda óbreyttu ástandi eru einnig fórnarlömb þess sama ástands. 

Þannig að, þrátt fyrir „steríótýpurnar“ í auglýsingunum sem eiga að selja tannkrem og brúðarsvítur, þá þykir sönn ástríðuþrungin ást ekki ráðleg í samfélagi manna. Að láta tilfinningarnar „hlaupa með sig í gönur“ er litið vanþóknunaraugum. Í stað þess að fólk sé hvatt til að finna í sér það hugrekki sem þarf til að fylgja hjarta sínu og taka afleiðingunum, þá er því frekar ráðlagt að taka engar áhættur, heldur „sýna ábyrgð,“ þá er fólk alið upp í því að vera stöðugt á verði svo að hjartað afvegaleiði það ekki. Ástinni sjálfri er stjórnað. Menn mega ekki verða ástfangnir af öðrum mönnum og konur ekki af öðrum konum, né heldur mega einstaklingar af mismunandi uppruna elskast, því þá skerast í leikinn ofstækismenn sem eru sjálfskipaðir framverðir í atlögu vestrænnar menningar á einstaklingana. Menn og konur sem þegar hafa staðfestan löglegan eða trúarlegan samning mega ekki verða ástfangin af neinum öðrum, jafnvel þó ástríðan til makans sé löngu horfin. Ást eins og flestir þekkja hana í dag er vandlega uppáskrifuð og fyrirfram ákveðin serimónía. Hún á sér stað á föstudagskvöldum í kvikmyndahúsum og á dýrum veitingahúsum. Hún er eitthvað sem skemmtanabransinn malar gull á, án þess að trufla launaþrælana í því að mæta tímanlega í vinnuna og sitja við að beina símtölum áfram allan liðlangan daginn.

Þessi stýrða, markaðsvæna „ást“ er ekkert í líkingu við þann brennandi eld sem heltekur hin sanna elskhuga. Boð og bönn, tilætlunarsemi og reglugerðir kæfa sanna ást því ástin er villt blóm sem aldrei nær að dafna séu því sett takmörk, heldur sprettur það eingöngu upp í jarðvegi þar sem síst er búist við því.

  Það verður að berjast gegn þessum menningarlegu höftum sem reyna að kæfa langanir fólks. Það er ástin sem gefur lífinu gildi, það er þráin sem gerir fólki kleift að skilja tilveru sína og finna tilganginn með lífinu. Án hennar er engin leið fyrir fólk að ákvarða hvernig það á að lifa lífinu, nema með því að beygja sig undir eitthvert yfirvald, einhverskonar guð, meistara eða kreddu sem segir því hvað það á að gera og hvernig eigi að gera það án þess að nokkurn tímann veita sér þá ánægju sem eigin ákvarðanir hafa. 

Vertu því ástfangin(n) núna, af mönnum, konum, tónlist, metnaði, sjálfum/sjálfri þér…og lífinu! 

 

Til baka í greinar