Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

D fyrir Dauðann

AÐ BREIÐA YFIR DAUÐANN

 

  Þar sem einstaklingurinn veit ekki hvenær hann deyr, fer hann að líta á lífið sem eilíft. En allt undir sólinni er mörkum háð og er reyndar frekar fágætt. Hversu oft mun hann ná að rifja upp eitt ákveðið síðdegi bernsku sinnar, eitt síðdegi sem er svo rótgróinn hluti af tilveru hans að hann getur ekki ímyndað sér líf sitt án þess? Það mun koma upp í hugann kannski fjórum til fimm sinnum í viðbót, ekki oftar. Hversu oft mun hann ná að fylgjast með fullu tungli? Kannski tuttugu sinnum, en samt virðist það svo endalaust. 

-Óþekktur höfundur 

  Hér er æfing sem má gera heima. Fyrir æfinguna þarf stoppúr eða annað tímamælitæki sem mælir í sekúndum. Áður en hafist er handa er rétt að koma sér fyrir í þægilegum stól og losa um klæði ef þau herða að.

  Fylgstu með sekúnduvísinum um leið og hann færist yfir klukkuskífuna. Ímyndaðu þér að dauðastund þín sé ákveðin, áratugi inn í framtíðinni eða nokkur ár eða mánuði, hver veit? Fylgstu með vísinum telja eina mínútu í lífi þínu. Ímyndaðu þér nú klukkuna telja niður mínútur lífs þíns þartil kemur að dauðastundinni. Gerðu þessa æfingu með ímyndaða dauðastund fyrst eftir nokkra áratugi, endurtaktu hana síðan með dauðastundina setta eftir ár. Gerðu þetta einusinni enn með dauðastundina ákveðna í næsta mánuði. Í næstu viku eða jafnvel í kvöld. Þegar upp er staðið veit maður aldrei.

  Fylgstu nú með klukkuvísunum. Hvað varstu að gera á sama tíma fyrir sólarhring? Fyrir tveimur sólarhringum eða fyrir mánuði? Hvað verður þú að gera á þessari stundu eftir viku? Ímyndaðu þér að þú munir deyja eftir mánuð. Væri það reyndin, hvað værir þú þá að gera núna? Endurtaktu þetta skref en ímyndaðu þér andlátið bera að eftir ár. Breytir það miklu varðandi hvað þú myndir gera í dag og á morgun ef þú vissir dánardag þinn?

  Berðu síðasta sólarhring saman við hvað þú hefðir viljað gera ef þú myndir yfirgefa þennan heim eftir mánuð eða ár. Berðu síðasta mánuð, síðasta ár og síðasta áratug saman við hvað þú hefðir valið að gera ef þú ættir bara þrjátíu daga eða tólf mánuði ólifaða. Hversu mikið öðruvísi hefði líf þitt verið hefðir þú vitað hvenær þú myndir deyja? Værir þú reiðubúinn til að deyja eftir mánuð eða eftir ár, hafandi lifað eins og þú hefur gert?

  Mestar líkur eru á því að þau sem þetta lesa muni lifa í mörg ár í viðbót. En samt, horfðu á klukkuvísinn og fylgstu með honum færast yfir mínúturnar, telja niður mínúturnar sem þú átt eftir um leið og þær líða. Ert þú að lifa eins þú vilt lifa? Ert þú að lifa þannig að þú gætir hvenær sem er litið ánægður tilbaka ef þú kæmist skyndilega að því að því færi að ljúka? Er líf þitt þannig að þú gætir óskað öðrum að lifa því, er hver mínúta spennandi og fullnægjandi? Sé svarið neikvætt hvað getur þú þá gert við þann tíma sem þú átt eftir, lítinn eða ekki, til að gera líf þitt líkara því sem þú hefðir viljað lifa? Hver og einn hefur aðeins takmarkaðan tíma í þessum heimi, allir ættu að nota hann með þetta í huga.

  Þegar þú lítur yfir líf þitt og sérð að þú hefur lifað í mörg ár án þess að leiða hugann að eigin dauðleika, þá skaltu vita að það ekki óvenjulegt því félagslegt og menningarlegt umhverfi nútímamannsins hvetur ekki til vangavelta um þau mörk sem náttúran setur tilveru fólks. Öldrun og dauða er afneitað og það falið rétt eins og skömm sé að því. Lasburða meðlimir samfélaga eru faldir inni á hjúkrunarheimilum. Auglýsingaspjöld, myndir í tímaritum og sjónvarpsauglýsingar sem glenna sig framan í fólk alla daga, sýna nær einungis myndar af hraustum mönnum og konum í blóma lífsins. Kirkjugarðar, sem áður voru minningarreitir um hin látnu og var ætlað að eigna þeim stað í huga fólks, eru nú staðir sem flest fólk forðast. Fólk lítur sjúkrahús og heilbrigðsstarfsfólk hornauga því þar er það minnt á eigin dauðleika. Dauðinn er niðurlægjandi og dónalegur, hann hefur slæmt orð á sér í hinum önnum kafna heimi viðskipta og heimsmeta í neysluhyggju. Fitness tímaritin segja ekkert um hvernig hann kemur gildismati okkar við.

  Það er nefnilega þannig að ef fólk fer virkilega að velta fyrir sér tímanum sem það hefur eftir til að lifa verður starfsframi og sjónvarpssápur minna merkileg fyrirbæri en þau voru áður. Menningarleg þöggun dauðleikans leyfir fólki að gleyma hversu þungt einstök augnablik tilverunnar vega og hvernig þau setja saman lífið. Fólk sóar óteljandi  klukkustundum í að glápa á sjónvarp og hanga á netinu, tíma sem hefði verið hægt að verja í gönguferð með ástvini, við að elda góðan mat handa vinahóp eða börnunum, skrifa skáldsögu eða ferðast á puttanum yfir Evrópu. Það er ekki auðvelt að horfast í augu við raunveruleika dauðastundar sinnar í framtíðinni, en það er betra að átta sig á þessu núna frekar en að sjá eftir að hafa ekki gert það, þegar það er of seint.

Afneitun fólks á dauðanum hefur dýpri merkingu en að þau séu bara varnarviðbrögð vegna dauðaótta. Afneitun er einkenni barningsins við að snúa sig úr tengslum við hringrásir náttúrunnar og koma á náttúrulausri viðveru í heiminum. Dauðleiki manna afsannar að menn hafi stjórn á öllu, þessvegna er fólk fljótt til að loka á fyrirbæri sem ekki er hægt að losa sig alveg við. Rannsóknaraðilar í læknavísindum leggja hart að sér til að sigrast á náttúrufyrirbærum. Eru þær framfarir allar eftirsóknarverðar?

  Allt frá dögun vestrænnar menningar hafa konur og menn hungrað eftir yfirráðum yfir heiminum og hvoru öðru en auk þess árstíðunum og sjálfum tímanum. Hér er átt við hinn eilífa mikilfengleik guða og keisaradæma og af sömu hvötum eru borgir manna settar upp eins og þeim sé ætlað að standa af sér eilífðina. Minnismerkjum og skýjakljúfum er ætlað að bera vitni um sigur manna yfir tímanum. Hver kynslóð telur sinn líftíma þann mikilvægasta í veraldarsögunni. Sá sigur fæst einungis gegn ákveðnu verði: Þegar ekkert deyr skapast heldur ekkert nýtt. Veröld gerð af mannahöndum eingöngu verður staðlað fyrirbæri sem kemur engum á óvart lengur. Menn skyldu fara varlega í að upplifa sína stóru drauma með því að skapa þannig helheim, frosinn heim þar sem enginn þarf að óttast dauðann lengur, því þar eru allir að eilífu til og enginn lifir eitt einasta andartak. 
 

Lifandi í landi hinna dauðu. Þau éta með fölskum tönnum. Byggingar þeirra hafa falska framhlið, útvarp þeirra og sjónvarp senda út flatar bylgjur. Þau drepa tímann við að horfa á falskar ímyndir. Auglýsingar ljúga og atvinnu„tækifærin“ sem þeim bjóðast eru byggð á misnotkun, leiðindum og niðurdrepandi hlýðni. Réttlæta marklaus markmið meðulin? Þau búa í dauðum borgum og hreyfa sig afkáralega, leið þeirra liggur hvergi og ekkert þar sem þau troða dag eftir dag þessa sömu götu. Jafnvel andrúmsloftinu er stjórnað. Þau biðja þig að gefa líf þitt fyrir ríkin sín, fyrir trúarbrögð sín, fyrir hagkerfin sín og færð þú eitthvað í staðinn? Kerfið þeirra er skipulagt af gervigreind og gefur aðeins af sér sýndarveruleika. Menning þeirra mun negla þig niður og sjá þér fyrir leiðindum fram í rauðan dauðann. Lífstíll þeirra líflaus, tilvera þeirra klemma sem gefur ekkert eftir. Allt við þau er dautt og falskt.  

Baráttan snýst um lífið, raunverulegt líf 
 

 

Til baka í greinar