Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Framleiðsla er afrakstur aðgerða

eftir Jeanette Winterson 

  Líf fólks snýst um hluti. Efnislegar eigur og yfirráð yfir hlutum öðrum en því sjálfu er mælikvarðinn sem fólk notar á eigið virði. Velgengni fólks í lífinu er metin út frá „framleiðni“ þess eða getu þess til að skapa hluti og safna þeim. Félagskerfið snýst umfram allt um framleiðslu og neyslu efnislegra hluta. Fólk ákveður sjálfu sér líf út frá hlutum. Jafnvel þegar það metur hversu langt það hefur náð, gerir framtíðaráætlanir eða metur félagslega stöðu sína, þá talar það um hluti…eða bara allt annað en um hvernig því líður. Fullyrt er að „tilgangurinn helgi meðalið“ og þannig verða afleiðingar gjörða fólks mikilvægari en lífsleiðin sjálf.

  En framleiðsla er afrakstur athafna. Framleiðslan er það sem eftir stendur þegar rykið sest og púlsinn hægir á sér, við dagslok, þegar kistan er borin til grafar. Fólk er hinsvegar ekki til í rykinu. Fólkið er í núinu, í athöfnunum, í upplifuninni. Á sama hátt og fólk reynir við ódauðleikann með því að flýja inn í heim af tilreiddum líflausum ímyndum, býr það sér til fjarlægð með því að hugsa út frá afleiðingum gjörða sinna frekar en reynslunni. Áhyggjur af því hvort að maður sé í alvöru að njóta sín og hvernig manni líði í augnablikinu flækja málin. Auðveldara er að einbeita sér að útkomunni sem afrakstri lífsins, hún skilst betur og lætur betur að stjórn.

Auðvitað er hver vinnandi einstaklingur vanur að huga frekar að útkomunni en aðferðinni. Tíminn og orkan fer mestmegnis í vinnu sem að öllum líkindum uppfyllir enga af draumum viðkomandi. Hann hlakkar til útborgunardagsins hver mánaðamót  því hann ætlast til þess að upphæðin setji tilgang í tilveruna. Án útborgunarinnar fyndist honum vinnan tímasóun. Lífið væri óbærilegt ef hann horfði ekki á þá útkomu sem réttlætingu starfsins. Hvernig færi ef hann væri stöðugt að hugsa um hvernig sér liði eða hvort þetta væri gaman, potandi vörum í poka? Þar sem upplifunin af daglega lífinu er leiðindi og þreyta verður hann að einbeita sér að næstu helgi, næsta fríi eða tilhugsuninni um hvenær hann kemst næst í búðarráp, til þess eins að fara ekki yfir um. Launaþrællinn yfirfærir þennan hugsunarhátt á aðra þætti lífs síns og metur allt sem hann getur gert út frá því hvort eitthvað sé upp úr því að hafa, rétt eins og hann metur starfið út frá laununum.

  Þannig hefur nútíminn nánast tapað allri merkingu fyrir nútímamanninn. Allt sitt líf er hann að leggja drög að framtíðinni. Hann fer í skóla til að ná ákveðinni gráðu, í stað þess að njóta þess að læra. Hann velur sér starf út frá félagslegu gildi þess, peningum og „öryggi“ frekar en að huga að starfsánægju. Hann sparar til að kaupa stórt og eiga fyrir ferðalagi í fríinu, frekar en að reyna að kaupa sér leið til frelsis frá launaþrældómnum. Þegar nútímamaðurinn upplifir sterka hamingjutilfinningu með annari manneskju reynir hann að frysta þá stund og breyta í viðvarandi ástand (samning) með því að giftast viðkomandi. Trú nútímamannsins skipar honum að láta gott af sér leiða og hið kristna gæðablóð ætlast til að vera vel launað fyrir verk sín en ekki vegna þess hversu ánægjulegt sé að hjálpa öðrum. Hið „aristókratíska tillitsleysi um afleiðingarnar“ eða hæfileikinn til að framkvæma vegna framkvæmdarinnar sjálfrar, sem allar hetjur búa yfir, er nútímamanninum fjarlægt fyrirbæri. Meðaljóninn upplifir öryggi í aukalífeyrissparnaðinum og yfirdráttarheimildinni og dettur aldrei í hug að grípa tækifærið og hefja leitina að raunverulegu frelsi. Of oft lendir fólk í að skipta út nútímanum fyrir framtíðina, eða upplifun fyrir minjagripi. Fólk sankar að sér hlutum, verðlaunagripum, kössum af gömlu dóti og gömlum bréfum eins og hægt sé að safna að sér lífinu, stilla því upp og frysta þar til síðar ...hvenær er það? Lífið er hér og nú, streymir eins og stórfljót og verður ekki stöðvað án þess að töfrar þess leysist upp. Því meiru sem safnað er af lífinu, því minna hefur fólk til að láta sig vaða út í.

  Raunar eru verstu safnararnir róttæklingar og listafólk. Allt of oft miða „byltingarsinnarnir“ hugsanir sínar og athafnir út frá byltingunni „sem koma skal“ í stað þess að einbeita sér að því að bylta nútímanum. Fólk er svo vant því að hugsa í framleiðslugírnum að jafnvel þegar það reynir að breyta lífinu í eitthvað hvetjandi og spennandi, situr það uppi með að miða átök sín við einhvern tímapunkt í framtíðinni. Rétt eins og verkstjóri í verksmiðju hefur það meiri áhyggjur af framleiðninni (hversu margir nýliðar bætist í hópinn og hvernig gangi að afla „málstaðnum“ fylgis) en hvernig þeim sjálfum og fólkinu í kring líður og hvernig það lifir. Listafólk er sérlega slæmt að þessu leyti því  köllun þeirra byggir í sjálfu sér á að skapa eitthvað með raunverulega upplifun sem hráefni. Hvernig listafólk tjáir tilfinningar sínar og reynslu í formum og myndum ber í sér eitthvað af þrá kapítalistans til að ráða yfir öðrum því tjáning tilfinninga og upplifana, jafn einstakar og óáþreifanlegar og þær eru, byggja alltaf á ofureinföldunum. Ekki er nóg fyrir listakonuna að upplifa bara og umvefja lífið eins og það kemur fyrir, heldur étur hún upp líf sitt í nafni framabrautarinnar, skapar framleiðnilínu utan við sjálfa sig og lagar þar að auki gjarnan líf sitt framabrautinni. Enn verra er að mögulega áttar hún sig á því að hún getur ekki lengur notið ásta undir morgunsól uppi á húsþaki án þess að sjá fyrir sér hversu vel þetta mun koma út í nýju bókinni sinni.

  Afraksturinn er svo sannarlega hluti af heilbrigðri og nauðsynlegri starfsemi sálar og líkama og í lífi fólks er listin leið til að setja tilfinningu aftur út í heiminn þegar hjartað er við að springa. Fólk verður hins vegar að setja líf og upplifun í fyrsta sæti. Það verður að koma til móts við heiminn jafn ferskt og saklaust og það var sem börn, án þess að ætla að skipuleggja, skilgreina, ofureinfalda eða éta upp allt sem líf þess byggist á. Ef ekki missir það af öllu því mikilvægasta, öllu sem því finnst fallegast og liggur mest á og leitar í staðinn uppi hluti sem hægt er að pressa saman og sjóða niður. Ímyndunaraflið ætti fyrst og fremst að nýtast til að umbreyta raunveruleika hins daglega lífs en ekki til að skapa táknrænar ímyndir þess.

  Hversu margar spennandi skáldsögur er hægt að skrifa um líf eins og flest fólk lifir í dag? Fólk ætti að gera lífið að list sinni, í stað þess að leitast við að búa til list úr lífi sínu. Fólk ætti að hætta að „vera hluti af sögunni“ (merkileg þessi þráhyggja um að „skilja eitthvað eftir sig“) og taka til við að lifa. Það væri raunveruleg bylting.

 

Til baka í greinar