Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

F fyrir Frelsi

FRELSI

Ég fór að hjóla í gær

í fyrsta skipti í marga mánuði

Reiðhjólið bar mig yfir hverja hindrun

á vegi okkar

Við brunuðum saman yfir hóla

og fyrir horn

eftir þröngum götum og

yfir steinlögð torg

Ég fann fyrir vindinum

og var meira fugl en maður

eins og einnig ég gæti flogið

ég var þyngdarlaus og fullur af krafti

Ég var skyndilega opinn

gagnvart heiminum

turnunum og smágötunum

samt var ég meira ég sjálfur

en ég hef verið í langan tíma

rétt eins og ég hefði ferðast yfir

eyðimörk

Ástin mín, mér finnst ég vera sterkur

og það kemur ekki einungis til af reiðhjólinu

Mér líður stundum eins og

ég sé að gera rétt 

 

 

 

 

 

FRELSI ER TILFINNING

VIÐ HÖFUM EINUNGIS „VAL“ 

  Það er næstum því fáránlegt að hugsa til þess hversu margt fólk hefur barist og dáið fyrir þá frelsismynd sem kennd er við lýðræði: Einstaklingur stendur í kjörklefa og hakar í reit. Raunverulegt frelsi, eins og það sem andspyrnufólk er að berjast fyrir, er annað og meira. Til að byrja með þýðir það að skapa möguleikana sem valið er á milli.  

EKKERT ER SATT, ALLT ER LEYFILEGT 

  Sumarið 1999 lét andspyrnukonan Tristran einn elskhuga sinn mana sig inn á dýran ítalskan veitingastað. Hún hafði þá einungis étið upp úr ruslatunnum allt árið vegna eiðs síns um að taka ekki þátt í hagkerfi heimskapítalismans eða styðja við það á nokkurn hátt. Hún hafði nærri því soltið í hel á undanförnum mánuðum. Þar sem hún bjó í borg þar sem matur laðaði hana til sín úr hverjum verslunarglugga hafði hún haldið eið sinn einungis með því að minna sig stöðugt á að öll eftirgjöf væri uppgjöf fyrir kerfi sem sveltir milljónir annara.

  Þegar hún braut sitt eigið bann brá henni svakalega því hún var óviðbúin þeirri yfirþyrmandi frelsistilfinningu sem leiddi um hana þegar hún hóf gaffalinn á loft. Það var rétt eins og að heimurinn ætti að farast en gerði það ekki. Þ.e. heimurinn fórst og nýr byrjaði, alveg hljóðlaust, alveg óþolandi nákvæmlega eins og sá gamli, en nú sat hún í húsi svarinna óvina sinna og borðaði dýran mat eins og ekkert væri.

  Skelfilegir möguleikar þessa heims birtust henni, rétt eins og þegar hún var unglingur, sú staðreynd að allt gat gerst - hún gat gert hvað sem var, höggvið mann og annan, stokkið af byggingum, neitað allri sjálfsstjórn – og með sorg í hjarta áttaði hún sig á því að sál hennar fagnaði með henni, óháð því að samviska hennar var ekki sátt. Hún stökk úr sæti sínu og út af staðnum, mældi göturnar tímunum saman í villtri örvæntingu yfir þeirri sundrung sem hún fann innra með sér. Klukkan nákvæmlega tvær mínútur eftir miðnætti fékk hún hugljómun og rauk heim til að skrifa þessa punkta hjá sér: 

Frelsi er aðeins að finna í því að gera, í sjálfssköpun og þegar látið er reyna á gamla slagorðið „ekkert er satt, allt er leyfilegt.“ Til dæmis upplifir byltingarfólk frelsi með því að umbreyta samfélaginu algerlega og endurskapa sjálft sig um leið, að fjarlægja kúgandi öfl nægir ekki eitt og sér. Til að upplifa þetta verður maður að vera fær um að gera hvað sem er hvenær sem er – rifjum upp söguna af Akkilles og skjaldbökunni: 

Skjaldbakan spyr Akkilles: „Akkilles, ertu frjáls?“ og Akkilles svarar: „Auðvitað er ég frjáls, ég er Akkilles, guð meðal frjálsra manna, ég get gert hvað sem ég vil.“

„Þannig að,“ spyr skjaldbakan, „gætir þú drepið mig?“

„Það væri auðvelt, ég er Akkilles, hinn ósæranlegi, hetja grískra goðsagna og þú ert bara….skjaldbaka.“

„Dreptu mig þá,“ segir skjaldbakan, ósköp blátt áfram.

„En þú ert vinur minn og félagi! Ég gæti aldrei drepið þig“ mótmælti Akkilles.

„Einmitt,“ hvíslaði skjaldbakan og Akkilles yppti öxlum. 

Boðskapur þessarar sögu er, að þegar búið er að gefa öllum aðstæðum merkingu fyrirfram verður frelsið afstætt, því allir möguleikar eru fyrirfram ákveðnir.

Frelsið finnst aðeins í nýjum rýmum, í spánýjum augnablikum þar sem grunnþættirnir eru ferskir og maður verður að endurskapa sjálfan sig frá grunni.  

Andspyrnufólk (og hver annar sem er annt um frelsi sitt) verður að halda sér í æfingu, vera stöðugt að ganga fram af gömlum hugmyndum sínum um heiminn, brjóta eigin reglur og vera stöðugt að eyðileggja sjálfið og byggja það upp á nýtt. Frelsi er að losna frá eigin skilgreiningu á sjálfinu og hverju sem því tilheyrir. Útfrá þeim punkti er hægt að fara að velta fyrir sér frelsi annara. 

 

Til baka í greinar