Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Viljinn til að aðlaga sig kerfi er vilji til að aðlaga sig lygi – Jean Genet

HRÆSNI GETUR VERIÐ EINLÆGASTA FORM TJÁNINGAR

 

  Baráttufólk gegn andleysi nútímans getur ekki annað en verið að einhverju leyti hræsnarar. Fyrirferð ráðandi stjórnmálakerfa og efnahags gerir það að verkum að það er nokkurn veginn ómögulegt að forðast að tengjast þeim á einhvern hátt. Sama hvað manni finnst um þá atvinnumöguleika sem bjóðast eða hagkerfið í heild sinni, þá hefur maður nærri enga möguleika aðra en að taka starfi vilji maður ekki svelta eða deyja úr sjúkdómum sem hægt væri að lækna. Þó maður sé þægilega laus við efnishyggju er ekki annað hægt en að kaupa það sem maður þarfnast og kaupa eða leigja húsnæði (svo fremi að maður vilji ekki lifa á skjön við lög og rétt) því það er hvergi til land sem enginn hefur gert tilkall til og nær hvergi að finna mat og annan varning sem ekki er „eign“ einhvers. Langi einhvern til að dreifa bókum sem gagnrýna hið kapítalíska kerfi framleiðni og neyslu, þá getur hann ekki framleitt þær eða dreift nema með því að borga fyrir framleiðsluna og síðan selja þær neytendum, eða a.m.k. kaupa auglýsingar (sem hvetja fólk til að auka neyslu sína) til að fjármagna framleiðsluna. Sá sem ekki vill leggja fé til hroðalegrar meðferðar og drápa sláturdýra í nafni kapítalismans, getur hætt að borða kjöt og mjólkurvörur og hætt að ganga í leðri og loðfeldum en það eru ennþá dýraafurðir í filmunni sem fer í myndavélina og bíómyndunum sem horft er á og í óteljandi öðrum hlutum sem mörgum væri erfitt að vera án í nútímasamfélagi. Þar að auki er  næsta víst að grænmetissalinn tengist mjólkur- og kjötbransanum þannig að aurinn endar á sama stað. Grænmetið gæti allt eins hafa verið tekið upp og þvegið af farandverkamönnum eða öðru réttindalitlu verkafólki. Fyrir meðalmanninn, sem er alls ekki reiðubúinn til að umturna lífi sínu og útskúfast, er það fjarstæðukenndur draumur að ætla sér að lifa utan við þessa martröð.

Jafnvel þó að fólk hafni algerlega öllum þessum stofnunum, slíti öll tengsl við þær og komist af bara með þjófnaði og lögbrotum þá er það samt að taka sér hlutverk í þessu óbreytanlega ástandi. „Kerfið“ er yfirgripsmikil, samhangandi heild og allt sem er innan þess tilheyrir því, jafnvel utangarðsfólkið sem flýr það og andspyrnufólkið sem beitir sér alla ævi í baráttunni gegn því. Að berjast gegn því er alltaf að berjast við það innanfrá, því það skapar og mótar fólk, jafnvel þegar það beinir því gegn sjálfu sér. Það er veruleikafirring að halda því fram að maður sé laus við „Kerfið“, þó ekki væri nema smástund, á meðan tilvera manns fer fram í heimi sem er nær einungis samsettur af manngerðum fyrirbærum (hvort sem er líkamlegum, félagslegum eða heimspekilegum).

  Gildi vestræns samtíma eru svo rótgróin í hugsun fólks að það er næsta ómögulegt að forðast áhrif þeirra. Þau viðhorf sem andspyrnumaðurinn berst gegn eru jafnframt hluti af persónuleika hans. Þegar maður lærir alla ævi að verðleggja eigin ævi og mæla hana í vinnustundum, finnst manni það sjálfsagt að öll verk feli í sér einhver verðlaun svo þau séu þess virði að inna þau af hendi. Sama á við þar sem maður hefur alist upp við goggunarröðun og ætla sér síðan að umgangast allt fólk sem jafninga - hvað þá að sofa hjá öðrum án þess að verða vís af kynrembu. Það þýðir hinsvegar ekki að andstaða sé til einskis. Andstaðan er þeim mun mikilvægari þegar val fólks er svo takmarkað að ekki er hægt að bregðast við án þess að apa eftir þeim aðstæðum sem barist er gegn. Þetta gefur okkur að „sakleysið“ er tilbúningur. Í hugmyndafræði hefðbundinnar kristni er þess krafist  að manneskjur haldi sakleysi sínu og forðist „syndina.“ Það er þó erfitt fyrir kristið fólk að standa undir hugmyndinni um „syndlaust“ líf, svo að þau lifa með sektarkennd, finnst þau vera misheppnuð og örvænta þegar það rennur upp fyrir þeim að það er ómögulegt að vera „saklaus“ og varðveita „hreinleika“ sinn. Þetta má heimfæra upp á andspyrnufólk sem finnst það ekki geta tekið á málum án þess að nota þær vélar sem þau standa gegn. Kristin kenning hefur, með því að fordæma „syndina“, gert freistinguna sterkari fyrir trúað fólk, því þó að hugurinn kunni að gera það þá viðurkennir hjarta mannsins ekkert yfirvald og mun alltaf leita þess sem er bannað.

  Andspyrnufólk má ekki gera sömu mistök og kristnir. Sú krafa að róttæklingar séu aldrei hræsnarar og standi ætíð utan við kerfið hefur sömu áhrif og kristna krafan um að fólk lifi án syndar. Fólk sem æskir breytinga en verður seint og illa ágengt, fer að örvænta og heillast af hræsninni. Í stað þess að horfa á þetta sem uppgjöf og láta óttann við sektarkennd og hræsni lama sig, ættu róttæklingar að viðurkenna hræsnina og fagna henni, þannig efla þau sitt eigið persónulega frelsi. Afneitun hræsninnar er afneitun á því hversu margslungin mannssálin er. Það er ekkert einfalt við hjarta mannsins. Fjölbreytileiki langana þess togar úr ýmsum áttum. Að ætlast til þess að hluti þeirra sé sniðgenginn er að ætlast til þess að manneskjan lifi ófullnægð. Þetta er dæmigert fyrir þá hundfylgni við allrahanda hugmyndafræði sem hrjáð hefur mannkyn í aldir.

  Mögulega getur sjálfið einungis tjáð sig í hræsni. Auðvitað þarf einstaklingur að móta með sér almennar leiðir utan um þær ákvarðanir sem hann ætlar að taka en það að víkja stundum frá þeim kemur í veg fyrir stöðnun og gefur færi á að endurmeta leiðirnar sem hann eða hún valdi sér. Sá eða sú sem óttast ekki að vera hræsnari af og til, er í minni hættu á að selja sál sína einhvern daginn. Hafi maður bragðað á „forboðnu ávöxtunum“ verður maður ónæmur fyrir því að skammast sín eins og þeir gera sem rembast við að viðhalda fullkomnu „sakleysi.“

  Fólk ætti því að vera stolt af sjálfu sér eins og það er og ekki reyna að láta breyskleika sálarinnar mæta kröfum sem ekki er hægt að uppfylla. Fólk á að dirfast að hafna þeirri hugmynd að fylgispekt við ákveðna kenningu sé forsenda þess að skapa sér betra líf. Það á að leyfa sér að vera ekki saklaust, vera ekki hjartahreint og hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Það ætti að lýsa því yfir með stolti að það sé hræsnarar og láta ekkert stöðva sig við að taka líf sitt undir eigin stjórn, ekki einusinni hræsnina. Núna, þegar ómögulegt er að forðast það að vera hluti af kerfinu sem barist er gegn, er það einungis blygðunarlaus hræsni sem rífur niður innviði þess. Ekkert annað segir sannleikann um hjarta mannsins og getur sýnt fram á hversu erfitt er að lifa því lífi nútímamannsins sem stendur okkur til boða. Þetta eitt er góð ástæða til að berjast. 

Textinn er eftir Jane E. Humble. Tileinkað hverjum þeim róttæklingi sem kann því vel að ganga í leðri, keyra um á mótorhjólum og láta kalla sig „druslu“ og „hóru“ meðan notið er ásta. 

Til baka í greinar