Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

VELFERÐIN OG UMKOMULEYSIÐ

 

Hjúkrunarfræðingur tók á móti rúmlega níræðum manni á bráðamóttöku. Sá gamli var eitthvað slappur og hjúkrunarfræðingurinn bjóst til að taka úr honum blóðprufur þegar hann tók eftir að upphandleggurinn á gamla manninum var skakkur. Hann spyr því; „þú hefur einhverntímann brotið þig hérna?" „Já," svarar sá gamli, „ég brotnaði báðum megin ... ég var þriggja ára þá en það var langt í lækninn svo ég varð bara að harka af mér og þetta látið gróa."

Sami hjúkrunarfræðingur er oft og iðulega, á sömu slysa- og bráðamóttöku, að taka á móti ungu fólki sem kemur með sáralitla skurði og er reiðubúið að bíða upp í tvær klukkustundir til þess að heilbrigðisstarfsmaður geti sett plástur á sárið, eiginlega vitandi að meiðsl þeirra er skeina sem tekur því ekki að sauma. Unga fólkið kemur og meldar sig með  snúinn ökla, síðan þegar það er kallað inn af biðstofu stingur það ekki við, og þegar spurt, er innan við klukkustund síðan það missteig sig en hefur ekki haft hugsun á því að bíða aðeins og sjá til hvort að líkami þess jafni sig af eigin getu.

Það er langur vegur milli þessa unga fólks og gamla mannsins sem aldrei sá lækni sín uppvaxtarár, ekki einusinni þegar hann var brotinn á báðum upphandleggjum sem barn, og auðvitað er ömurlegt til þess að vita að þetta litla barn hafi þurft að líða þetta. Hinir öfgarnir eru umkomuleysi þeirra sem hafa alist upp við velferðarkerfið og vill að einhver í hvítum slopp segi sér að allt sé í lagi, vill að kerfið sjái um sig og segi sér að allt sé í lagi, það hefur aldrei vanist því að sjá um sig sjálft á nokkurn hátt. Svo margir af þessari „ungu kynslóð" hafa alist upp við að vera þjónustaðir. Þau vilja fá heilbrigðisþjónustu við líkama sinn á sama staðli og þau panta pizzu eða pöntuðu yfirdrátt og kreditkort hjá góðærisbönkunum.

Hluti af firringu þeirra er að vera úr tengslum við eigin líkama. Eins og unglingurinn sem kemur með föður sínum á bráðamóttöku vegna yfirliðatilfinningar. Þegar spurðir játa feðgarnir að strákurinn sé búinn að vera með flensuhita í þrjá daga, hafi ekki drukkið vatn á þessum tíma og sé nýstiginn út úr heitri sturtu. Þeir gleðjast þegar sagt frá þeirri einföldu og sjálfsögðu vitneskju að líkami fólks þorni mjög hratt upp við hækkaðan líkamshita og því fylgi svimi, en að hugsa það sjálfir og hvað þá að gera eitthvað í því sjálfir (drekka blávatn), kom aldrei til greina.

Velferðarkerfið er búið að ræna fólk sjálfsagðri þekkingu á viðbrögðum líkama þess við krísum (eða að svo mörg okkar eru reiðubúin að gefa upp alla sjálfsbjargarviðleitni ef kerfið býður upp á það).

Hluti af því sem gerir samfélag að því sem það er, er að við önnumst okkar sjúku og gröfum okkar dauðu. Opinber þjónusta er ekki félagslegur þáttur. Ríkið er utanaðkomandi afl í þeim samskiptum og hegðun sem samfélag skilgreinist útfrá. Hið félagslega líf er aðskilið öðrum þáttum eins og efnahagsmálum og stjórnmálum. Við höfum sérfræðinga í hagfræði og sérfræðinga í stjórnmálum og innan þessara kerfa er valdapýramídi sem fræðingarnir koma sér fyrir, skapa eigið tungumál, verða æðstuprestar sinnar kirkju, tryggja eigin frama og eigin stöðu áður en þeir sinna sinni vinnu. Þannig skapast nokkur samtengd kerfi sem eru afætur á samfélagi skattgreiðenda og neytenda og sem skapar þann veruleik að án þessara kerfa sé samfélagið bjargarlaust.

Einungis ríkið og nokkrir kapítalistar eiga atvinnurekstur og auðlindir og við hin vinnum fyrir þá. Að vera launþegi og neytandi er ekki að taka virkan þátt í rekstri hagkerfis. Að vera nemi og ná prófum út á að hafa tekið inn upplýsingar er ekki það sama og að vera þátttakandi í menntakerfinu. Að drekka kók þegar mann vantar orku er ekki að vera í tengslum við líkama sinn.

Mörg okkar leitast við að lifa meðvituðu lífi en í grunninn er hið daglega líf lýðræðis, hagkerfis ríkis og kapítalisma og kristilegrar heimspeki, skilgreining á firringu.

 

Til baka í greinar