Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

HUGMYNDAFRÆÐI 

HEFUR ÞÚ HUGMYNDIR EÐA ERU ÞAÐ HUGMYNDIRNAR SEM HAFA ÞIG? 

„Hugmyndafræðingurinn er maður sem fellur í gildru sem hans eigin gáfur leggja fyrir hann: Að hugmynd, þ.e. táknmynd veruleikans í því augnabliki, geti falið í sér hinn algera veruleik.“ 

-Sókrates hrekur túlkanir Plató á hugmyndum hans. 

„Ég er ekki Marxisti“ – Karl „Groucho“ Marx 

„Heimurinn smýgur okkur úr greipum því hann breytist aftur í sjálfan sig.“ – Lewis Carroll 

  Inngangur ritstjóra: Líklega er það besta sem nokkurt okkar hefur skrifað um þetta atriði, bréf sem Nadia sendi til einnar vinkonu sinnar sem svar við grein sem vinkonan hafði skrifað með henni (upprunalegur titill hennar fyrir greinina var „Hin pólitíska barátta er baráttan við hið pólitíska“ sem hún svo breytti í „Gegn yfirborðslegri pólitík.“ Hérna er bréfið, tekið úr einkasafni hennar. Munið, hvaðeina sem þú trúir fangelsar þig. 

Annar júní

Amsterdam (heima hjá Chloe, með Phobe og Heloise) 

Kæra E –  

  Nei, þú hefur alls ekki skilið hvað ég átti við. Þér lá svo á að næla þér í ímynd hins „pólitíska aktívista“ (eða það sem væri ennþá verra, kenningasmið) – hvað svo sem það er – að þú hefur fundið það út að allt þurfi að vera „pólitískt“ – hvað svo sem það er. Því meira sem þú víkkar út merkingu orðs því óskýrari verður hún og um leið gagnslausari. Um leið og allt er orðið pólitískt þýðir „pólitískt“ enn og aftur ekki neitt og við stöndum aftur á byrjunarreit.

  Auðvitað eru til „pólitísk“ sjónarhorn á öll fyrirbæri, þar með talinn eigin dauðleiki. Ég var ekki að afneita því. Það er einmitt það sem ég var að segja: Um leið og þú ferð að líta á sjálfan þig sem „pólitíska“ og ferð að hugsa í skilgreiningum og gagnrýni – eða það sem er enn verra þegar þú ferð að halda þig hafa gagnrýnendastöðu - þá ferðu að nálgast hvað sem er á þeim grunni og reynir að láta hvað sem er passa inn í þína skilgreiningu. „Pólitískt“ breytist í krabbamein sem breiðist hægt út um alla tilveru þína þar til þú getur ekki hugsað um neitt nema útfrá stéttabaráttu eða kynjabaráttu eða einhverju svoleiðis.

  Það er engin skilgreining eða hugmyndafræði (það er það sem þú ert að tala um þegar þú gerir kröfu um að hafa pólitískt líf og pólitíska kenningu) sem rúmar allt það sem lífið er. Hugmyndafræði, rétt eins og ímynd, er eitthvað sem þú verður að kaupa, þ.e. þú verður að gefa hluta af sjálfum þér í staðinn. Sá hluti af sjálfum þér er allrahanda sjónarhorn á heiminn, sérhver dásamlega flókin upplifun og hvert einasta ósmækkanlegt smáatriði sem passar ekki inn í þann ramma sem þú ert svo stolt af að hafa hannað.

  Auðvitað er hægt að horfa á munnmök, sólsetur, ástarljóð og góðan kínverskan mat útfrá pólitískum pælingum eða kannski kynna sér þetta einhvern veginn pólitískt á mun jarðbundnari hátt. En staðreyndin er sú að þegar þú ert á staðnum og ert að upplifa þetta þá er svo margt sem ekki er hægt að taka inn, eða tjá sig um, hvað þá skilgreina. Að lifa og upplifa er einfaldlega of flókið til að nokkurt tungumál nái algerlega utan um það. Eins og fórnarlamb hugmyndafræðinnar (sem ég er að biðja þig að verða ekki), helvítis hálfvitinn hann Plató, fór að efast um veruleika hvers þess sem hann gat ekki táknað með tungumáli (veri það pólitískt eða ekki), vegna þess að hann var búinn að gleyma því að táknin hans eru bara þægilegar alhæfingar til að tákna eitthvað af öllum þeim óteljandi einstöku augnablikum sem alheimurinn er samsettur úr.

  Ég get þegar ímyndað mér viðbrögð þín: Mín gagnrýna afstaða á hið pólitíska er í sjálfu sér pólitískt mat og hluti af minni hugmyndafræði og það er alveg rétt. Ákafi minn þegar ég skrifa þér um þetta núna er tilkominn vegna þess að þetta er atriði sem ég er sjálf að glíma við. Ég finn að ég er að breyta hverju sem er í pólitískt svæði eða afstöðu sem er heltekin af (því sem hugmyndafræði mín kallar) kapítalískri áráttu til að breyta öllum mínum tilfinningum og upplifunum í hluti – þ.e. kenningar sem ég get borið með mér. Ég er farin að láta verðmætamat mitt snúast um þessar kenningar sem ég veifa í kringum mig sem sönnun þess hversu gáfuð og merkileg ég er, alveg eins og smáborgari montar sig af bílnum sínum sem sönnun þess að hann sé einhvers virði. Líf mitt snýst þá ekki lengur um mína raunverulegu upplifun heldur um „baráttuna“ þegar ég ætlaðist til þess að baráttan snerist um að miða líf mitt við eigin upplifanir, en ekki enn eina hliðstæðu þess! Mér þætti gott að geta fullyrt að þetta bréf væri mín endanlega afstaða gegn alltumvefjandi kröfum hins pólitíska …. en það er langt síðan það var hægt, líklega síðast þegar ég var fær um að mynda mér skoðun á einhverju án þess að setja það í pólitískan ramma. Gættu þess hvers þú óskar þér þegar þú segir allt vera pólitískt.

  Ég held að hluti af þessari sjúklegu þörf fyrir flokka allt sé sprottin af borgarlífinu. Hver einasti hlutur sem við rekum augun í er manngerður og hefur sértæka merkingu fyrir fólk þannig að í stað hlutanna sjálfra sérðu hafsjó af táknum allt í kringum þig. Allt var öðruvísi þegar ég var á fjöllum. Á gangi sá ég hvergi skilti sem bönnuðu mér aðgang að einu eða neinu, ég sá blóm og tré, hluti sem eiga sér tilveru umfram merkingu og verðmætamat manna. Þar sem ég stóð undir stjörnubjörtum himni og horfði inn í sjóndeildahringinn, virtist heimurinn svo mikilfenglegur og frumstæður að ég skalf. Engin stjórnmálakenning ristir nógu djúpt til að ná utan um þessar stundir. Ekki að það sé ástæðulaust fyrir okkur að tengja hluti við hugtök, auðvitað er það stundum gagnlegt en það er bara ein leið af mörgum að markmiði sem er miklu mikilvægara.

  Þetta er gott í bili, að lokum er hérna heldur aumleg snörun mín á broti úr kveðjubréfi sem hjákona Maó Tse-Tsung sendi honum skömmu eftir þennan svonefnda uppgang þessarar svonefndu Byltingar Kommúnista: 

„Það er sorglegt hversu fyrirsjáanlegt það er að það eina sem þér dettur í hug til að fagna frelsuninni sem þú upplifir nú laus við gamla kerfið, er að setja upp „frelsunarkerfi,“ alveg eins og það sé eitthvað sem er mögulegt. En það var ekki við öðru að búast frá þeim sem hafa aldrei kynnst öðru en kerfum og uppsetningum þeirra.“  

Með kærri kveðju

þín Nadia 

 

Til baka í greinar